Gómsætt rjómapasta

Pasta er líklega eitthvað sem öllum þykir gott. Uppáhalds pastaréttirnir mínir eru lasagna, kalt pastasalat, pasta með grænu pestó og að sjálfsögðu rjómapasta. Síðan ég var barn hef ég haldið uppá pasta í rjómasósu og þá sérstaklega það sem mamma var vön að gera fyrir mig. Þegar ég gerðist vegan útbjó ég mína eigin uppskrift af rjómapasta sem minnti á það sem ég var vön að borða. 

Það eru til nokkrar tegundir af vegan matreiðslurjóma. Persónulega finnst mér sojarjóminn frá Naturli bestur, hann fæst í Nettó. Ég hef gert pastað með kókosrjóma og mér finnst það einnig mjög gott. Ég á enn eftir að prufa möndlurjóma en hrísrjóminn finnst mér sístur, aðallega vegna þess hversu sætur hann er. 
Galdra-hráefnið er svo næringarger sem gerir ótrúlega mikið fyrir sósuna. Næringarger er óvirkt ger sem er stútfullt af vítamínum, þar á meðal b12. Næringarger er eitt af mínum uppáahalds hráefnum. Það gefur svolítið ostalegt bragð svo það er oft notað í stað osts í allskonar uppskriftir. Ég strái næringargeri nánast út á allt og mæli með því að fólk kaupi sér dollu. Ég mæli með gerinu frá Engevita sem fæst meðal annars í Bónus og Hagkaup.

Neikvæða hliðin á svona gómsætum rjómapastaréttum er sú að þeir geta verið þungir í magann. Ég man að mér leið stundum eins og ég væri með stein í maganum þegar ég hafði borðað mig sadda af svona pasta. Mér finnst vegan rjómapasta samt fara mun betur í magann. Jurtarjóminn er einhvernveginn léttari en hinn. Um nokkurt skeið hef ég líka borðað eins lítið af glúteini og ég mögulega get og ég verð að segja að glúteinlaust pasta fer miklu betur í mig. Það er til fullt af góðu glúteinlausu pasta hvort sem það er úr baunum, kínóa eða maís. Það sem ég notaði í þetta sinn er úr maís og það er ómögulegt að finna bragðmun á því og hveitipasta.

Hráefni

1/2 askja sveppir
1/2 rauð paprika
1/2 haus brokkólí 
1/2 grænmetisteningur
1-2 fernur jurta-matreiðslurjómi (mæli með Oatly sem fæst í krónunni)
1/2 tsk hvítlauksduft
1/2 tsk paprikuduft
Örlítið af olíu til steikingar
200 g pasta
3 msk næringarger
salt og pipar eftir smekk


Aðferð:

1. Steikið grænmetið á pönnunni uppúr örlítilli olíu

2. Sjóðið pasta í potti á meðan grænmetið steikist á pönnunni

3. Hellið rjómanum út á pönnuna þegar grænmetið er vel steikt. Bætið grænmetiskrafti, næringargeri og kryddum út á og látið malla í nokkrar mínútur á lágum hita. 

4. Hellið pastanu út á pönnuna þegar það er soðið í gegn. Bætið næringargeri, salti og pipar við ef ykkur finnst vanta. Ég á það til að bæta næringargeri útá því ég fæ einfaldlega ekki nóg af því!

Þegar ég er í stuði útbý ég hvítlauksbrauð og ber fram með pastanu en yfirleitt borða ég það bara eitt og sér. Ég vona að þið njótið vel.

Helga María

 


 

 

Svartbauna-brownies með kókosrjóma

Það er ótrúlega skemmtilegt að uppgötva nýja hluti í matargerð. Ég hef oft talað um það hversu mikið matarvenjurnar mínar breyttust til hins betra þegar ég gerðist vegan. Ég hef líka sagt frá því hvernig eldamennskan mín varð mun fjölbreyttari og meira spennandi en nokkurn tímann áður. Fyrir nokkrum mánuðum bakaði ég í fyrsta sinn svartbauna-brownies. Ég viðurkenni að mér fannst tilhugsunin ekkert svakalega spennandi. En ég er alltaf til í að prófa eitthvað nýtt svo ég ákvað að láta reyna á þetta. Útkoman kom mér heldur betur skemmtilega á óvart! Kökurnar voru æðislegar á bragðið!  Þvert á það sem ég bjóst við finnur maður ekkert bragð af baunum í kökunum svo hafið engar áhyggur af því. 

Uppskriftin sem ég prófaði fyrst var af bloggsíðunni Minimalist baker. Hún smakkaðist mjög vel en ég fann á mér að ég gæti búið til mína eigin uppskrift og gert kökurnar enn betri. Nú hefur mér tekist það og ég er mjög ánægð með útkomuna. Kökurnar eru gómsætar, flöffí og mun hollari en margar aðrar kökur. Ég þeytti kókosrjóma með og ég mæli með því að bera hann fram með kökunum því rjóminn gefur þeim þetta litla extra. Ég get líka ímyndað mér að vegan vanillu-ís passi vel með.

Mér finnst glúteinlausar kökuuppskriftir oft innihalda of mikið af (oft rándýrum) hráefnum. Gjarnan innihalda þær margar tegundir af glúteinlausu hveiti og getur það tekið mikinn tíma að útbúa þær. Þar sem ég er öll fyrir einfaldleikann nenni ég svoleiðis stússi ekki alltaf. Jú, það kemur fyrir að maður er í stuði til að gefa sér tíma í hlutina en mér líður yfirleitt best þegar mér tekst að útbúa auðveldar uppskriftir sem eru á sama tíma bæði fljótlegar og virkilega bragðgóðar. Þessi uppskrift er ein af þeim. 

IMG_5442-4.jpg

Eins og þið sjáið sparaði ég ekki súkkulaðið. Ég setti helminginn inn í deigið og hinum helmingnum stráði ég yfir kökurnar áður en þær fóru í ofninn. Það er ekki bara ótrúlega bragðgott heldur gerir það kökurnar líka virkilega fallegar. Mér finnst mun skemmtilegra að borða góðan mat þegar hann er fallegur. 

Svartbauna brownies

1 1/2 bolli soðnar svartar baunir. Ég keypti lífrænar baunir í fernu, helti þeim í sigti og skolaði vel undir köldu vatni áður en ég maukaði þær
1/2 bolli glúteinlaust haframjöl. (Ef þið þolið glútein virkar venjulegt haframjöl að sjálfsögðu líka)
1/2 bolli hrísgrjónahveiti
1 tsk matarsódi
1/4 tsk salt
1/2 bolli kakóduft
4 msk olía. Ég mæli mest með bráðinni kókosolíu eða sólblómaolíu
1 tsk eplaedik
1/2 bolli vatn
1/2 bolli agave- eða hlynsíróp
1 bolli brytjað suðusúkkulaði

Það er auðveldast að nota matvinnsluvél eða góðan blandara til að gera deigið en það er ekki nauðsynlegt. Ég notaði töfrasprota í þetta sinn og það virkaði mjög vel. Eina sem þarf að passa er að mauka allar baunirnar vel því maður vill helst ekki bíta í heila baun. 

1. Byrjið á því að hita ofninn á 175°c með blæstri.  

2. Hellið haframjölinu í skál og malið það niður með töfrasprotanum þar til áferðin verður svipuð hveiti. Leggið það svo til hliðar.

3. Sigtið baunirnar og skolið vel með köldu vatni. Hellið þeim í stóra skál, maukið þær vel og passið að engin baun sé heil. 

4. Hellið vatni, sírópi, eplaediki og olíu saman við og maukið vel saman.

5. Bætið haframjölinu, hrísgrjónahveitinu, kakóinu, saltinu og matarsódanum saman við og maukið þar til engir kekkir eru. 

6. Hellið helmingnum af súkkulaðinu útí og blandið saman við deigið með sleif.

7. Pennslið muffins ofnskúffuform með olíu. Formið sem ég nota gerir 12 kökur og deigið passar nákvæmlega í það.

8. Stráið hinum helmingnum af súkkulaðinu yfir kökunar. Það er hægt að leika sér aðeins þarna og setja á kökurnar hnetur, þurrkaða ávexti, kókosmjöl eða bara það sem manni dettur í hug. 

9. Bakið kökurnar í 20-30 mínútur. Það er stundum mismunandi eftir ofnum hversu langan tíma tekur að baka kökurnar en mínar tóku sirka 26 mínútur. Leyfið kökunum að kólna í 10 mínútur áður en þið takið þær úr muffins forminu. 

Þeyttur kókosrjómi

1 dós kókosmjólk. (Passið ykkur að kaupa ekki létta kókosmjólk. Hún þarf helst að vera yfir 70% ef maður ætlar að þeyta hana.)
1 msk agave- eða hlynsíróp
1/2 tsk vanilludropar (má sleppa)

1. Kælið kókosmjólkina í dósinni. Ég reyni að setja hana í ísskápinn nóttina áður en ég ætla að þeyta hana, en að sjálfsögðu er það ekki alltaf hægt og þá hef ég skellt henni í ísskápinn í 1-2 klst eða í frystinn í hálftíma.

2. Takið kókosmjólkina úr kælinum.  Við kælingu skilur mjólkin sig og vatnið verður yfirleitt eftir í botninum. Við viljum bara nota þykka partinn af kókosmjólkinni þegar við þeytum hana svo passið ykkur að skilja vatnið eftir. 

3. Þeytið kókosmjólkina með rafmagnsþeytara ásamt sírópinu og vanilludropunum. Ef þið hafið tök á því að kæla rjómann örlítið er mjög gott að setja hann í kæli í sirka hálftíma eftir þeytingu, hann þykknar enn meira við það. 

Ég vona að ykkur líki uppskriftin og ekki hika við að hafa samband ef þið hafið einhverjar spurningar

Helga María

 

 

Pulled Oumph! borgari með jalapeno mæjó og gómsæt ídýfa

Ég held að flestum Íslendingum líði þessa dagana eins og þeir gangi um í draumi. Karlalandsliðið okkar í fótbolta spilar í átta liða úrslitum á Evrópumeistaramótinu á morgun. Þetta lið er eitt af átta bestu fótboltaliðum evrópu. Og ekki gengur kvennaliðinu verr, efstar í undankeppni evrópumótsins sem fer fram á næsta ári, búnar að skora tæp 30 mörk og fá engin á sig. Ég er allavega í sjokki og ekkert smá stolt af þessu fólki og því að litla landið okkar skari fram úr á svo mörgum sviðum. Líkt og flestir Íslendingar ætla ég að horfa á leikinn á sunnudaginn, en leikurinn er sýndur klukkan 19:00, einmitt á kvöldmatartíma. Því er eiginlega nauðsynlegt að hafa eitthvað gott að borða á meðan. Það verður þó að vera eitthvað auðvelt þar sem spennan og stressið sem við munum finna fyrir á sunnudaginn mun örugglega hindra flókna eldamennsku. Ég ákvað því að á sunnudaginn þyrfti ég að hafa eitthvað rosalega gott en einnig rosalega auðvelt í matinn.

Þegar ég var í Svíþjóð hjá Helgu í maí fórum við á skyndibitastaðinn Max, en hann er nýlega farin að bjóða upp á vegan borgara. Þetta er þó ekki hinn hefðbundni grænmetisborgari en uppistaðan í honum var Pulled Oumph. Mér datt því í hug að reyna að endurgera þennan borgara þar sem ekki er erfitt að nálgast Pulled Oumph þessa dagana á Íslandi. Það gekk líka svona ljómandi vel og útkoman varð æðisleg máltíð sem tók örskamman tíma að útbúa. Ég ætla að deila með ykkur uppskriftinni af borgaranum svo þið getið notið hans yfir leiknum á morgun líkt og ég mun gera.

Pulled Oumph borgari (ein uppskrift verður að tveimur borgurum)

1 poki Pulled Oumph
2 hamborgarabrauð (athugið að brauðin sem þið kaupið séuð vegan, en brauðin frá Myllu eru það til dæmis)
Það grænmeti sem hugurinn girnist, en ég notaði kál, gúrku og tómata.
Jalapeno mæjónes

Borgarinn er mjög auðveldur í eldamennsku en það eina sem þarf að gera er að steikja Oumphið þar til það er tilbúið og setja á hamborgarabrauð ásamt sósunni og grænmetinu. Ég bar borgarann fram með kartöflubátum og vegan hrásalati. En uppskriftin af hrásaltinu má finna HÉR. Fyrir þá sem ekki vita hvað Oumph er, þá er það soja kjöt sem líkist kjúklingi mjög mikið. Pulled Oumph er í bbq sósu og því þarf ekki einu sinni að krydda það og því mjög auðvelt að gera góða máltíð úr því. Hægt er að fá Oumph í nánast öllum Krónu búðum á landinu.

Jalapeno mæjónes

1 dl vegan mæjónes
3 skífur niðursoðið jalapeno mjög smátt skorið
nokkrir dropar af sítrónusafa
salt og pipar

Hrærið öllu saman í skál. Hægt er að fá vegan mæjónes t.d. í Hagkaup frá Just Mayo en mér finnst lang best að gera bara heimatilbúið mæjónes en það er mjög auðvelt. Uppskrif af mæjó er að finna HÉR


Ég ætla einnig að deila með ykkur uppáhalds sjónvarpsmönnsinu mínu. Þessa ídýfu kenndi mamma vinkonun minnar okkur að gera þegar við vorum litlar en mér fannst þessi uppskrift hljóma svo illa að ég var staðráðin í að mér myndi sko ekki finnast þetta gott. Ástæðan var örugglega sú að ídýfan samanstendur af sósu með fullt af grænmeti ofan á. Mér fannst alveg furðulegt að maður myndi setja grænmeti á eitthvað sem ætti að vera borðað yfir sjónvarpinu á föstudagskvöldi. Ég hefði þó ekki getað haft meira rangt fyrir mér þar sem þessi ídýfa er það besta sem ég veit og heldur betur tilvalinn með leiknum á sunnudaginn. Einnig er hún alls ekkert óholl og þarf maður því ekki að sitja með samviskubit eftir að maður gæðir sér á henni.

Ídýfa Önnu í Túni (ein uppskrift verður að ágætisstærð af ídýfu sem gott er að deila með vinum og fjölskyldu)

1 dós vegan rjómaostur (tofutti rjómaosturinn er mjög góður en hann fæst í Hagkaup)
1 dós (sirka 300 gr) salsa sósa
Það grænmeti sem hugurinn girnist, t.d. kál, gúrka, tómatar og paprika, en það er það sem ég notaði

Hrærið rjómaostinn ötlitla stund með handþeytara. Hrærið salsasósunni út í og setjið blönduna í það ílát sem þið hyggist bera ídýfuna fram í. Gott er að nota einhversskona eldfast mót eða bakka en blandan á að vera sirka einn cm þykk í botninum. Skerir grænmetið mjög smátt og stráið yfir. Berið ídýfuna fram kalda með tortilla snakki eða svörtu doritos, en það er vegan. Ef tíminn fyrir leikinn er naumur er gott að gera ídýfuna fyrr um daginn en þá er sniðugt að skera vatnsmesta partin úr gúrkunni (miðjuna) og sleppa tómötunum svo ídýfan verði ekki vatnskennd.

 

Ég hvet alla til að prófa þessar uppskriftir og hafa með leiknum á morgun, en ef þið gerið það má alltaf pósta á instagram og merkja #veganistur eða senda okkur myndir á snapchat, en við elskum að fá myndir frá ykkur.

 

 Júlía Sif