Svartbauna brownies
1 1/2 bolli soðnar svartar baunir. Ég keypti lífrænar baunir í fernu, helti þeim í sigti og skolaði vel undir köldu vatni áður en ég maukaði þær
1/2 bolli glúteinlaust haframjöl. (Ef þið þolið glútein virkar venjulegt haframjöl að sjálfsögðu líka)
1/2 bolli hrísgrjónahveiti
1 tsk matarsódi
1/4 tsk salt
1/2 bolli kakóduft
4 msk olía. Ég mæli mest með bráðinni kókosolíu eða sólblómaolíu
1 tsk eplaedik
1/2 bolli vatn
1/2 bolli agave- eða hlynsíróp
1 bolli brytjað suðusúkkulaði
Það er auðveldast að nota matvinnsluvél eða góðan blandara til að gera deigið en það er ekki nauðsynlegt. Ég notaði töfrasprota í þetta sinn og það virkaði mjög vel. Eina sem þarf að passa er að mauka allar baunirnar vel því maður vill helst ekki bíta í heila baun.
1. Byrjið á því að hita ofninn á 175°c með blæstri.
2. Hellið haframjölinu í skál og malið það niður með töfrasprotanum þar til áferðin verður svipuð hveiti. Leggið það svo til hliðar.
3. Sigtið baunirnar og skolið vel með köldu vatni. Hellið þeim í stóra skál, maukið þær vel og passið að engin baun sé heil.
4. Hellið vatni, sírópi, eplaediki og olíu saman við og maukið vel saman.
5. Bætið haframjölinu, hrísgrjónahveitinu, kakóinu, saltinu og matarsódanum saman við og maukið þar til engir kekkir eru.
6. Hellið helmingnum af súkkulaðinu útí og blandið saman við deigið með sleif.
7. Pennslið muffins ofnskúffuform með olíu. Formið sem ég nota gerir 12 kökur og deigið passar nákvæmlega í það.
8. Stráið hinum helmingnum af súkkulaðinu yfir kökunar. Það er hægt að leika sér aðeins þarna og setja á kökurnar hnetur, þurrkaða ávexti, kókosmjöl eða bara það sem manni dettur í hug.
9. Bakið kökurnar í 20-30 mínútur. Það er stundum mismunandi eftir ofnum hversu langan tíma tekur að baka kökurnar en mínar tóku sirka 26 mínútur. Leyfið kökunum að kólna í 10 mínútur áður en þið takið þær úr muffins forminu.
Þeyttur kókosrjómi
1 dós kókosmjólk. (Passið ykkur að kaupa ekki létta kókosmjólk. Hún þarf helst að vera yfir 70% ef maður ætlar að þeyta hana.)
1 msk agave- eða hlynsíróp
1/2 tsk vanilludropar (má sleppa)
1. Kælið kókosmjólkina í dósinni. Ég reyni að setja hana í ísskápinn nóttina áður en ég ætla að þeyta hana, en að sjálfsögðu er það ekki alltaf hægt og þá hef ég skellt henni í ísskápinn í 1-2 klst eða í frystinn í hálftíma.
2. Takið kókosmjólkina úr kælinum. Við kælingu skilur mjólkin sig og vatnið verður yfirleitt eftir í botninum. Við viljum bara nota þykka partinn af kókosmjólkinni þegar við þeytum hana svo passið ykkur að skilja vatnið eftir.
3. Þeytið kókosmjólkina með rafmagnsþeytara ásamt sírópinu og vanilludropunum. Ef þið hafið tök á því að kæla rjómann örlítið er mjög gott að setja hann í kæli í sirka hálftíma eftir þeytingu, hann þykknar enn meira við það.
Ég vona að ykkur líki uppskriftin og ekki hika við að hafa samband ef þið hafið einhverjar spurningar
Helga María