Svartbauna- og sætkartöflu enchilada.

Ég elska að elda og borða mexíkóska rétti og hef því þess háttar mat á boðstólnum nánast í hverri viku. Enchilada er mexíkóskur réttur sem er ekki svo þekktur meðal Íslendinga en þegar ég var að ferðast fyrr á árinun smakkaði ég hann í alls konar útgáfum, auðvitað alltaf vegan samt. Ég hafði aldrei eldað enchiladas áður, og aðeins heyrt lítið um réttinn. Ég ákvað því þegar ég kom heim að ég yrði að prufa að elda svoleiðis og fór að lesa og skoða meira um þennan tiltekna rétt. Ég ákvað að ég vildi hafa sætkartöflu og svartbaunafyllingu, bæði af því að það á ég oftast til heima og það eru alls ekki svo dýr hráefni. Ég las mikið á netinu að það væri hægt að kaupa enchilada sósur út í búð. Það hef ég þó aldrei séð hérna á Íslandi og ákvað því að búa hana bara til frá grunni, sem kom í ljós að var ROSALEGA lítið mál. Þessu réttur er ekki bara einfaldur heldur hefur hann slegið í gegn hjá öllum sem hafa smakkað hann hjá mér í sumar.

Hráefni:

  • 1 sæt kartafla

  • 2 dósir svartar baunir

  • 1 laukur

  • 1 paprika

  • 3 hvítlauksgeirar

  • 2 msk saxaður ferskur kóríander

  • 2 tsk broddcúmen

  • 2 tsk malaður kóríander

  • 1 tsk chilliduft

  • salt og pipar eftir smekk

  • 1/2 dós niðuroðnir tómatar

  • Helmingur af enchilada sósunni

  • 8 maís tortillur

Aðferð:

  1. Skerið sætu kartöfluna í litla bita. Setjið kartöflubitana með vatni svo það fljóti yfir í pönnu og látið malla á meðan þið saxið niður papriku, lauk, hvítlauk og kóríander.

  2. Þegar kartöflurnar hafa fegnið að sjóða í 15 mínútur hellið þeim í sigti og látið vatnið renna vel af.

  3. Steikið á pönnunni upp úr örlitlu vatni, lauk, hvítlauk og papríku. Þegar grænmetið hefur fengið að mýkjast aðeins bætiði við sætu kartöflunum og svörtu baununum ásamt niðursöðnum tómötum og kryddinu. Látið malla í 10 mínútur áður en þið setjið enchilada sósuna saman við.

  4. Setjið fyllingu í miðja maíspönnukökuna, rúllið upp og komið fyrir í heldföstu móti. Endurtakið þetta með allar 8 pönnukökurnar. Smyrjið enchilada sósunni yfir og stráið yfir vegan osti ef hans er óskað. Bakið í 190°C heitum ofni í u.þ.b. 20 mínútur.

 

Vegan Enchilada sósa:

  • 3 msk olía

  • 2 msk hveiti

  • 5 msk tómatpúrra

  • 2 msk chilliduft

  • 1 tsk broddcúmen

  • 1 tsk laukduft

  • 1 tsk hvítlauksduft

  • 1 msk grænmetiskraftur

  • 3 1/2 dl vatn

Aðferð:

  1. Hrærið saman í litlum potti á miðlungshita olíu og hveiti.

  2. Bætið tómatpúrru ásamt kryddi útí og blandið vel

  3. Bætið að lokum hálfum desilíter af vatni út í, í einu, þar til öllu vatninu hefur verið hrært saman við. Sósan þarf ekkert að sjóða, aðeins að hitna vel.

Réttinn má bera fram með því sem hugurinn girnist en ég ber hann fram með guacamole, maís, fersku salati og salsasósu.

Einfaldur og góður grjónagrautur

Ég hef verið vegan í 5 ár og fæ reglulega spurningar frá fólki varðandi allskonar sem tengist lífsstílnum. Eitt af því sem fólk virðist hafa miklar áhyggjur af þegar það gerist vegan, er að það verði að kveðja grjónagrautinn. Ég held ég hafi verið spurð oftar að því hvaða jurtamjólk sé best til að gera grjónagraut heldur en hvað best sé að nota í stað osts. 

Mér hefur alltaf þótt grjónagrautur góður. Sem barn borðaði ég hann alltaf með rúsínum og kanilsykri. Ég áttaði mig svo á því seinna meir hversu mikið hægt er að leika sér með grautinn. Hann er góður með
eplum og kanil
hlynsírópi
bláberjum og möndlum
sultu
karamellusósu...

..Listinn er endalaus.

Í kvöld bar ég grautinn annarsvegar fram með kanilsykri og hinsvegar með hindberjasultu sem ég hitaði örlítið í potti. Bæði þykir mér alveg virkilega gott!

Hráefni:

  • 3 dl grautar hrísgrjón

  • 3 og 1/2 dl vatn 

  • 1 líter jurtamjólk. Ég mæli mest með því að nota sæta soyamjólk, Provamel og Alpro eru æðislegar. 
    Annars er mjög gott að nota haframjólk, kókosmjólk eða möndlumjólk.
    Mér finnst hrísmjólk virka síst. Hún er æðisleg útá grautinn en hún er svo þunn að mér finnst hún ekki alveg passa í grautargerðina. 

  • 1 og 1/2 tsk salt

  • 1/4 tsk vanilludropar

Aðferð:

  1. Setjið grjónin í pott ásamt vatninu og sjóðið þar til allt vatnið er horfið (sirka 10-15 mín). Hrærið reglulega á meðan

  2. Hellið mjólkinni, saltinu og vanilludropunum útí og látið malla í sirka 25-35 mínútur og hrærið mjög reglulega, grauturinn getur nefnilega auðveldlega brunnið við í botninum

  3. Berið fram með því sem ykkur langar. Í kvöld setti ég örlítið af sultu í lítinn pott og hitaði í smá stund. Sultunni helti ég svo yfir grautinn og það var æðislega gott

 

Njótið :)

Helga María

Kryddbrauð

Suma daga langar mig að baka eitthvað gott en er samt varla í stuði til þess. Svoleiðis daga er ég vön að skella í uppáhalds súkkulaðikökuna mína því hún er svo hlægilega einföld. Það kemur samt fyrir að mann langar í eitthvað annað en súkkulaðiköku og í dag var svoleiðis dagur. Mig hefur lengi langað að prufa að baka kryddbrauð svo ég lét loksins vaða. Útkoman varð æðisleg og ég trúi því ekki að ég hafi ekki gert þetta áður.

Ég reyni að forðast það að borða glútein svo ég notaðist við glúteinlaust hveiti. Ég hef verið að prufa mig áfram með glúteinlausan bakstur og ég verð að segja að það hefur komið mér skemmtilega á óvart. Kryddbrauðið kom úr ofninum mjúkt og undursamlega gott á bragðið.  Ég hef aðallega verið að nota hveitiblöndu frá Toro hérna erlendis en á Íslandi fæst meðal annars glúteinlaust hveiti frá Doves farm sem hefur vakið mikla lukku. 

Þessi uppskrift er virkilega einföld og er tilvalin til þess að leyfa krökkum að spreyta sig í bakstrinum.
Það tekur enga stund að útbúa deigið og einu áhöldin sem þarf eru:
stór skál
desilítramál
teskeið
sleif
brauðform

Kryddbrauðið er ekki einungis gott á bragðið heldur fyllist húsið af unaðslegum ilmi. Mér finnst það best volgt með vegan smjöri. Þetta verður klárlega bakað aftur á næstunni. 

Ég vil taka það fram að þó ég notist við glúteinlaust hveiti og haframjöl er ekkert mál að skipta því út fyrir venjulegt hveiti og haframjöl. 

Hráefni:

  • 3,5 dl glúteinlaust hveiti. Hveitið frá Doves farm fæst í Nettó og er mjög vinsælt. Ef þið eruð að nota venjulegt hveiti ætti að vera nóg að nota 3 dl

  • 3 dl glúteinlaust haframjöl. Ég mæli með haframjölinu frá Semper

  • 4 tsk kakó

  • 1 tsk engifer (krydd, ekki ferskt)

  • 1 tsk negull

  • 2 tsk matarsódi

  • 2 og 1/2 dl púðursykur

  • 3 dl jurtamjólk að eigin vali

  1. Hitið ofninn í 200°c 

  2. Blandið öllu saman í stóra skál

  3. Smyrjið brauðform með vegan smjöri eða penslið með olíu

  4. Hellið deiginu ofan í og bakið í 40-50 mínútur. 

  5. Leyfið brauðinu að kólna í nokkrar mínútur áður en þið fjarlægið það úr forminu. 

Ég vona að þið njótið
Helga María