BBQ samloka með grilluðu tófú og hrásalati

Sumarið er yndislegur tími. Ég hef alltaf haldið mikið upp á grillmat og fyrst þegar ég hætti að borða kjöt hélt ég að nú væri minn grilltími liðinn. Ég var því himilifandi að uppgvöta hversu frábærir möguleikar eru af grilluðum mat fyrir grænkera. Mér finnst æðislegt að grilla grænmetisspjót, vegan pylsur og borgara, kartöflur, portobello sveppi, maísstöngla, soyakjötið frá Oumph! og seitan steikur. Nýlega hef ég þó fengið algjört æði fyrir því að grilla tófú. Það er gjörsamlega æðislegt og hentar vel bæði með vegan rjómasósu og meðlæti, með kaldri jógúrtssósu eða í hamborgara og samlokur. 

Til þess að njóta þess að borða tófú þarf aðeins að læra inn á það. Ég man alveg þegar ég smakkaði það fyrst hvað mér þótti það bragðlaust og óspennandi. Ég þurfti þó ekki annað en að lesa mér aðeins til og fljótlega sá ég að með einföldum leiðum er hægt að gera tófú alveg ótrúlega gott. Ég prófaði mig áfram og fann aðferð sem mér fannst best. Það var ekki fyrr en fyrir nokkrum vikum sem ég prófaði að grilla tófú og vá, útkoman er gjörsamlega æðisleg. Í þetta sinn ætla ég að deila með ykkur uppskrift af æðislegri BBQ tófú samloku með vegan hrásalati.

Grillað tófú

  • 1 tófústykki

  • 1 bolli tamari- eða soyasósa

  • 1/2 tsk agave síróp

  • 1 msk sriracha sósa

  • 1 tsk hvítlauksduft

Aðferð

  1. Skerið tófúið niður í 1-2 cm þykkar sneiðar. 

  2. Pressið tófúsneiðarnar í að minnsta kosti klukkustund. Mér finnst gott að pressa það í sirka þrjár klukkustundir. 

  3. Blandið saman tamarísósu, sírópi, sriracha sósú og hvítlauksdufti. 

  4. Marinerið tófúið í að minnsta kosti klukkustund. Því lengur, því betra. Ég reyni að byrja tímanlega svo ég nái að hafa tófúið í marineringunni í nokkrar klukkustundir. Mér finnst líka gott að undirbúa mig kvöldið áður og leyfa því að liggja í henni yfir nótt. Mér finnst mjög gott að leggja tófúið í maríneringu í renndum plastpoka, þeir fást meðal annars í Ikea. Ef þið eigið ekki svoleiðis er fínt að nota bara box. 

  5. Smyrjið tófúið með smá olíu og leggið á grillið. Ég leyfi því að grillast frekar vel á báðum hliðum. Ef þið eigið ekki grill eða eruð ekki í stuði til að grilla hef ég líka eldað tófúsneiðarnar í ofni og á pönnu og bæði er svakalega gott. 

Vegan hrásalat

  • 1 dl vegan mæjónes

  • 1/4 hvítkálshaus

  • 2-3 gulrætur, fer alfarið eftir stærð. Þegar magnið af gulrótum er orðið svipað og af hvítkálinu passar það fínt.

  • 1/4 agave síróp

  • salt eftir smekk

  1. Byrjið á því að útbúa mæjó. Ef þið eruð í engu stuði fyrir svoleiðis fæst vegan mæjónes frá merkinu "Just mayo" í Hagkaup. Hinsvegar lofa ég því að það er algjörlega þess virði að vippa þessu upp heima hjá sér. Uppáhalds uppskriftin mín inniheldur:

  • 1 bolla ósæta sojamjólk - helst við stofuhita. Sojamjólkin frá Provamel í rauðu fernunni þykir mér frábær í þetta. 

  • 2 tsk eplaedik

  • Olíu eftir þörfum

  • 1/4 tsk dijon sinnep

  • salt og pipar eftir smekk

    Blandið saman sojamjólk og eplaediki vel með töfrasprota (blandar og rafmagnsþeytari virkar líka). Hellið olíu útí í mjórri bunu og leyfið sprotanum að vinna á meðan. Hellið olíunni út í þar til blandan er orðin þykk eins og mæjónes. blandið svo sinnepinu og saltinu út í. Ég tek það fram að þessi uppskrift gerir svolítið stórt magn af mæjónesi svo að það fer líklega ekki allt í hrásalatið. Hægt er að geyma það í boxi/krukku inni í ísskáp í viku.

2. Skerið niður hvítkálið og gulræturnar mjööög þunnt. Ef þið eigið mandólín eða julienne skera er frábært að nota svoleiðis. 

3. Setið grænmetið í skál og blandið mæjónesi útí þar til ykkur finnst nóg komið. Smakkið til og bætið salti og pipar út í eftir þörfum.

Samloka með grilluðu tófú og hrásalati

  • 2 ristaðar brauðsneiðar

  • 2 grillaðar tófúsneiðar

  • Grænmeti að vild. Ég notaði kálblað, tómatsneiðar og rauðlauk

  • BBQ sósa

  • Hrásalat

  1. Ristið tvær brauðsneiðar og smyrjið aðra þeirra vel með BBQ sósu

  2. Raðið á brauðsneiðina því grænmeti sem þið viljið

  3. Leggið tófúsneiðarnar ofan á

  4. Bætið ofan á eins miklu hrásalati og ykkur lystir

  5. Lokið samlokunni og njótið.

Það er rosalega mismunandi hvaða meðlæti ég útbý en að þessu sinni bakaði ég kartöflur og sætar kartöflur í ofninum og raðaði sveppum og rauðlauk á grillspjót, smurði með BBQ sósu og grillaði í sirka 20 mínútur. Þessi djúsí samloka er æðisleg og ég er viss um að þið verðið ekki fyrir vonbrigðum.

Helga María