Ferðaráð-Ástralía
/Ég fór í heimsreisu snemma á árinu og ferðaðist í þrjár vikur um austurströnd Ástralíu í litlum húsbíl með kærastanum mínum. Við keyrðum strandlengjuna frá Cairns til Sydney, en þegar ferðast er með takmarkaðan pening í Ástralíu er húsbílaleiga hin fullkomna leið. Þó svo að það hafi kostað frekað mikið að leigja þennan litla húsbíl sem var kannski ekki mesti lúxusbíll í heimi, spöruðum við mikinn pening á honum. Við leigðum bíl í gegnum fyrirtækið Spaceships en eftir mikla leit fundum við út að það var ódýrasta og hentugasta fyrirtækið fyrir okkur.
Bíllinn var mjög notalegur og kom með öllu sem við þurftum, rúmi, gashellum, kæliboxi og öllum helstu nauðsynjum. Það að búa í húsbíl í 3 vikur var einn besti ferðamáti sem ég hef upplifað. Þvílíkt frelsi sem fylgdi þessu, þó svo að maður gæti örugglega ekki gert þetta með hverjum sem er. Að vera ofan í hvort öðru, bókstaflega, allan sólahringin getur verið krefjandi og því þarf að vanda valið á ferðafélaganum en ég var þó svo heppinn að vera í minni ferð með kærastanum mínum. Á þessum ferðamáta spöruðum við mjög mikinn pening en það var þó aðalega á tvo vegu.
Annars vegar var það á gistingu. Við gistum í bílnum í 19 nætur en borguðum einungis gistingu fyrir þrjár þeirra. Í Ástralíu er mikið af tjaldsvæðum og bílastæðum sem hægt er að gista í frítt. Maður verður þó að passa sig að það megi gista á stöðunum því annars getur maður fengið himinháar sektir. Það er þó ekki erfitt að vera viss um að það sé í lagi á gista á stöðum með Ástralska appinu WikiCamps. Við notuðum þetta app rosalega mikið til að finna gistingar, flotta staði og margt fleira. Þær nætur sem við borguðum fyrir gistingu, gistum við fyrir utan hostel en mörg hostel í ástralíu eru með stór bílastæði þar sem þau bjóða uppá að leggja bílunum og gista í þeim gegn vægu gjaldi, á móti því himinháa sem svokallaðir húsbílagarðar taka fyrir stæði.
Hins vegar spöruðum við mjög á mat en við elduðum nánast alltaf sjálf í húsbílnum. Matur í Ástralíu er frekar dýr en maður sparar mikið á því að fara í stórar matvörubúðir og kaupa mat sem maður svo eldar sjálfur í húsbílnum. Þetta gerðum við alltaf og þó svo að maturinn hafi ekki alltaf verið sá merkilegasti var það vel þess virði miðað við peningin sem við spöruðum. Þetta hentaði mér einnig mjög vel sem VEGAN. Með því að gera þetta gat ég alltaf eldað það sem ég vildi og þurfti ekki að hafa áhyggjur af því að veitingastaðir væri með VEGAN rétti. Í áströlskum matarbúðum er nefnilega mjög gott úrval af vegan mat, þó svo að það hafi ekki verið jafn gott og ég bjóst við er hægt að fá allt það helsta í flestum búðum. Uppáhalds vörurnar mínar voru:
- Vegie delights vörurnar frá sanitarium.- Vörur frá merkinu Vegie delights finnast í öllum helstu búðum landsins en við versluðum lang mest í Coles. Það þarf þó að passa sig þegar þessar vörur eru keyptar því ekki allar þeirra er vegan. Áleggin hennta öll einungis grænmetisætum, en pulsurnar, hakkið og hamborgararnir eru vegan. Þessar vörur eru vel merktar svo það er mjög auðvelt að finna út hverjar eru vegan og hverjar ekki. Við keyptum pylsurnar tvisvar en þær voru mjög góðar í brauði með tilheyrandi sósum. Hakkið notuðum við hins vegar mikið, það var mjög gott sem „hakk“ og spagetti eða í vefjur með salsasósu og grænmeti.
- Hummus-. Ástralir eru greinilega miklir hummus-menn en í öllum búðum má finna margar tegundir af hummus. Þetta gerði mig mjög glaða þar sem ég elska hummus og voru millimálin okkar í bílnum oftar en ekki hummus og brauð eða gulrætur.
- Haframjöl- var einn af bestu vinum okkar þarna úti. Kílóa poki af haframjöli kosti rúmar 100 íslenskar krónur en úr honum fengum við hafragraut í morgunmat í tvær vikur. Það var ekki bara ódýr morgunmatur heldur einnig mjög nærandi og góður.
- Ferskir ávextir-. Við komumst að því snemma á ferðalaginu okkar að ávextir á Íslandi eru EKKERT miðað við á þessum slóðum. Ávaxta og grænmetismarkaði er að finna út um allt í sveitum Ástralíu. Ferskar melónur, ananas og ástaraldin beint frá býli var eitt það besta sem ég hef á ævinni smakkað. Við versluðum mikið við svona markaði og borðuðum á ferðum okkar í bílnum.
- SoGood frá merkinu sanitarium. Frá sama fyrirtæki og gerir Vegie delights er hægt að fá vegan ís sem eru æðislegir. Það eru þó bara tvær tegundir, chocolate Almond sem er gerður úr möndlumjólk og Coconut vanilla sem er úr kókosmjólk. Mér fannst báðir mjög góðir, en vanilluísinn þó aðeins betri.
Þó svo að við höfum oftast eldað í bílnum fórum við auðvitað nokkrum sinnum út að borða. Það er alls ekki erfitt að komast yfir vegan rétti í ástralíu en ég vildi að ég hefði haft meiri tíma til að prufa alla spennandi veitingastaðina sem í boði eru. Þar sem við vorum að ferðast frekar ódýrt eru þetta þó ekki fínir veitingastaðir en þó gott að hafa þá á bakvið eyrað þegar ferðast er um landið.
- Hungry jacks- Hamborgarastaður í anda Burger King en þeir selja grænmetiborgara sem er auðvelt að gera vegan með því að biðja þá að sleppa majónesinu og ostinum. Þessi borgari er ágætur á bragðið en staðinn má finna alls staðar um landið og henntar því vel þegar maður lendir í vanda.
- Dominos- Ólíkt dominos á Íslandi eru allir botnarnir í Ástralíu og Nýja-Sjálandi vegan. Það er því auðvelt að kaupa sér pítsu með alls konar áleggi en auðvitað þarf að muna að biðja um engan ost. Pönnupizza með lauk, sveppum og spínati var í uppáhaldi hjá mér.
- Falafel- Út um allt landið er að finna Kebab staði sem selja falafel í vefjum. Ég hef aldrei lent í því að falafel bollur séu ekki vegan og því er það mjög góður kostur. Í falafel vefjurnar fær maður að velja sér grænmeti og sósur, en á flest öllum stöðunum er hægt að fá hummus
- Funky pies- Bökur „pies“ eru mjög vinsæll matur í ástralíu og því urðum við auðvitað að smakka svoleiðis. Við fundum mjög góðan vegan bökustað í Sydney nálægt Bondi Beach. Staðurinn heitir Funcky pies en allar bökurnar þeirra eru vegan.