Vegan mac & cheese
/Mac and cheese er réttur sem fæstir íslendingar alast upp við að borða. Við eigum ekki einu sinni til íslenskt nafn yfir réttinn. Makkarónur með osti gæti gengið en það hljómar ekkert svakalega spennandi. Við systur höfum ekki oft smakkað mac and cheese og Í þau fáu skipti höfum við ekki skilið hæpið. Ekki fyrr en við smökkuðum vegan útgáfu þar sem ostasósan var búin til úr graskeri og kasjúhnetum. Eins og það hljómar nú furðulega smakkast það virkilega vel. Við vissum strax að við yrðum að búa til uppskrift innblásna af þeirri hugmynd.
Rétturinn gæti ekki verið einfaldari, nema kannski ef sósan væri úr dufti og kæmi úr pakka, en þó munar ekki miklu. Þessi pínulitla auka-fyrirhöfn er algörlega þess virði því þetta er bæði virkilega bragðgott og svo er sósan næringarrík og inniheldur einungis holl og góð hráefni.
Mac and cheese er vanalega ekkert svakalega hollur réttur en í þessu tilfelli er hann það. Margir þola illa hvítt hveiti en það er hægt að nota hvaða pasta sem er með þessari sósu. Fyrir ykkur sem borðið ekki glútein er að sjálfsögðu ekkert mál að nota glúteinlaust pasta, við höfum margoft notað svoleiðis og það er nákvæmlega enginn munur á bragðinu.
Hráefni
450g butternut grasker
350g pasta
150g kasjúhnetur
1/2 laukur - við notuðum lítinn lauk. Ef ykkar er í stærri kanntinum mælum við með að nota 1/4
1/4 haus brokkólí
1 tsk gróft sinnep
3 msk næringarger
1 dl jurtamjólk að eigin vali - við notuðum haframjólk frá Oatly
2 tsk pasta rossa krydd frá Santa maria (eða annað sambærilegt krydd)
1 tsk hvítlauksduft
1 msk sítrónusafi
salt og pipar eftir smekk
Aðferð
Leggið kasjúhneturnar í bleyti í að minnsta kosti klukkustund. Það er mjög fínt að setja þær í bleyti kvöldið áður og leyfa þeim að liggja yfir nótt svo þær séu orðnar vel mjúkar. Þetta fer allt eftir blandaranum sem þið eigið. Því betri sem hann er, því styttra þurfa þær að liggja í bleyti.
Skerið graskerið niður í teninga og gufusjóðið í 15-20 mínútur
Mýkið laukinn á pönnu
Sjóðið pasta eftir leiðbeiningum á pakkanum
Steikið brokkólí á pönnu í nokkrar mínútur
Setjið öll hráefnin fyrir utan pastað og brokkólíið í blandara og blandið vel.
Setjið pastað í stóra skál ásamt brokkólíinu, hellið sósunni útí og hrærið saman.
Okkur þykir gott að bera þetta fram með ristuðu brauði
Vonum að þið njótið!
Veganistur