10 skemmtilegir hlutir að gera sem kosta lítinn sem engan pening
/Hugmyndina af þessari færslu fékk ég um daginn þegar ég var að reyna að lista niður hugmyndir af skemmtilegum hlutum fyrir okkur Sigga að gera sem ekki kosta mikinn pening. Það er magnað hvað ég gleymi því fljótt að það er hægt að fara út úr húsi og gera sér glaðan dag án þess að eyða fullt af pening. Ég ákvað að skrifa niður 10 hluti sem hægt er að gera með vinum sínum, maka, fjölskyldu eða bara með sjálfum sér.
1. Njóta í fallegri náttúru
Það er svo æðislegt að útbúa kaffi í brúsa og samlokur og fá sér göngutúr um einhvern fallegan stað eins og Elliðarárdal eða Heiðmörk. Það þarf oft að keyra svolítinn spöl til að komast á svona staði og ef nokkrir fara saman er ekkert mál að deila bensínkostnaði, og þá er það alls ekki dýrt. Eftir að ég flutti til Norður Svíþjóðar hef ég komist að því að það er aldrei of kalt fyrir “lautarferð.” Hérna grillar fólk í snjónum. Á sumrin er svo endalaust af möguleikum á skemmtilegum gönguferðum, bíltúrum út í sveit og fjallgöngum, jafnvel þó það þurfi oft að klæða sig vel. Eins er ótrúlega gaman, ef maður hefur góðan tíma, að keyra kannski klukkutíma út úr borginni og heimsækja litla bæi eins og Eyrarbakka og skoða fallegu gömlu húsin og taka skemmtilegar myndir.
2. Spila spil
Eitt af því sem ég geri sjaldan og vildi að ég gerði oftar er að taka spilastokk eða önnur skemmtileg spil með á kaffihús og spila. Það er undantekningalaust ótrúlega gaman og gerir kaffihúsadeitin enn meira spennandi. Við mæðgurnar áttum til dæmis ótrúlega kósý kvöld á bar í Edinborg um daginn, þar sem við spiluðum saman Olsen olsen upp og niður. Á mörgum kaffihúsum fæst uppáhelt kaffi fyrir innan við 500 kr þar sem boðið er upp á fría áfyllingu. Það getur verið virkilega gaman að setjast með vinum og spila. Eins er líka bara geggjað að halda spilakvöld heima. Ein skemmtilegustu kvöld sem ég hef átt með vinum eru spilakvöld, og það er oft hægt að fá lánuð ný og spennandi spil ef maður vill aðeins breyta til.
3. Halda Pálínuboð eða elda saman
Við vinir mínir höfum stundum haldið “matarboð” þar sem allir í hópnum taka með sér eitthvað sem til er í ísskápnum og elda úr því eitthvað gott. Þetta er mjög ódýrt og yfirleitt miklu skemmtilegra en þessi hefðbundnu matarboð þar sem einhver eldar og býður svo öllum hinum í mat, auk þess sem þetta er oft mun meira kósý. Við útbjuggum t.d ótrúlega góða vegan borgara um daginn þar sem einn tók með sér kartöflur og sætar sem við bökuðum í ofninum, ein átti allt sem þurfti í sjálfan borgarann og önnur átti borgarabrauð í frystinum. Ég átti allt í heimagerða hamborgarasósu og eitthvað grænmeti. Það var eitthvað svo heimilislegt að elda og borða öll saman og það urðu til virkilega skemmtilegar samræður á meðan.
4. Stofna leshóp
Ég er nýbyrjuð í leshóp sem mun hittast einu sinni í mánuði. Þetta er eitthvað sem mig hefur alltaf langað að gera og er rosalega spennt fyrir þessu. Það er ekkert mál að redda sér bókum annað hvort á bókasafninu eða fá að láni svo það er engin þörf á því að kaupa allar bækurnar glænýjar. Leshópurinn mun hittast í fyrsta skipti núna á sunnudaginn og ég hlakka mikið til. Mér finnst svo gaman að lesa en gef mér svo sjaldan tíma í það þessa dagana. Því finnst mér frábært að hafa eitthvað svona sem hvetur mig til þess. Stelpurnar í leshópnum eru líka frábærar og það verður svo gaman að kynnast þeim enn betur. Við munum mest lesa á sænsku og það verður frábær leið til að ná enn betri tökum á tungumálinu.
5. Finna ókeypis tónleika eða aðra viðburði og fara á
Það eru oft allskonar skemmtilegir ókeypis viðburðir í Norræna húsinu og eins er Listaháskólinn oft með mjög áhugaverða og skemmtilega viðburði sem eru ókeypis. Ég fór mikið á ljóðakvöld þegar ég bjó heima og reyndi að fylgjast með því þegar höfundar voru að lesa upp verkin sín. Það er oft hægt að finna margt skemmtilegt með því að skoða viðburðina sem koma upp á Facebook. Það er t.d. frábær leið til að kynnast böndum sem maður hefur aldrei hlustað á. Nokkrar af mínum uppáhalds íslensku hljómsveitum og tónlistarmönnum hef ég fundið alveg óvart með því að mæta á tónleika hjá þeim án þess að vita við hverju var að búast.
6. Búa til heimagert barsvar (pub quiz)
Þetta er eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert með vinum mínum. Þar sem ég er í tónlistarháskóla er tónlist oftar en ekki þema keppninnar, en það er að sjálfsögðu hægt að útbúa hvernig quiz sem er. Ef keppnin á að snúast um tónlist geta til dæmis tveir úr vinahópnum útbúið lagalista á Spotify og samið spurningar. Síðan er hægt að skipta hópnum í tvö eða fleiri lið. Ef fólk vill drekka áfengi er tilvalið að kaupa ódýra bjóra í ríkinu eða jafnvel hreinsa til úr skápunum og búa til góða kokteila. Það eiga oft margir flösku af sterku áfengi sem aldrei er tilefni til að opna og því snilld að nýta það í að útbúa skemmtilega kokteila með vinunum.
7. Fara á bókasafnið
Mörgum finnst þetta kannski óspennandi hlutur að gera, en ég mæli samt með að prufa. Það er ótrúlega kósý að taka með te eða kaffi í brúsa og annað hvort læra, vinna í tölvunni eða blaða í skemmtilegum bókum. Það gerir oft gríðarlega mikið fyrir mig að komast út úr húsi og breyta til þegar ég er að vinna eða læra heima. Þrátt fyrir að maður ætli að sitja og skrifa og drekka kaffi, sem vissulega er hægt að gera bara við eldhúsborðið, þá fæ ég að minnsta kosti oft á tilfinninguna að ég einbeiti mér betur að því sem ég er að gera og komi meiru í verk þegar ég klæði mig og rölti á bókasafnið. Ég tek oft með mér smá nesti og tek pásur inn á milli þar sem ég skoða skemmtilegar bækur.
8. Halda bíómaraþon með skemmtilegu þema
Þetta er mjög gaman að gera annað hvort tvö eða fleiri. Við Siggi höfum stundum haft bíómaraþon á grámyglulegum sunnudögum, en við höfum meðal annars haft “ljótumynda þema” þar sem við horfðum á myndir sem þekktar eru fyrir að vera einstaklega lélegar. Eins höfum við líka haft Steve Martin þema, sem var mjög áhugavert. Það er hægt að útbúa ótrúlega kósý bíókvöld, kveikja á kertum og finna til púða og teppi, leggja í púkk fyrir kartöfluflögum og gosi, eða poppa í potti og njóta í botn.
9. Heimsækja ættingja sem þú hittir sjaldar en þú vildir
Það kostar ekkert að heimsækja ömmu, blaða í gömul myndaalbúm og drekka kaffi. Oftar en ekki gefur það manni ótrúlega mikið að eiga góðar samræður og styrkja tengslin við fólkið í lífinu sínu. Amma okkar Júlíu er mikill gestgjafi og vill alltaf bjóða gestum uppá eitthvað gott. Henni hefur hinsvegar þótt mjög erfitt að vita hvað hægt er að bjóða okkur systrum eftir að við urðum vegan svo við höfum stundum útbúið eitthvað sjálfar og tekið með. Ég hef þó gert miklu minna af því en ég vildi. Júlía hefur nokkrum sinnum bakað súkkulaðikökuna okkar og ég hef útbúið aspas rúllubrauðið okkar og ömmu þótti bæði auðvitað svakalega gott.
10. Syngja í kór
Okei, þetta er kannski ekki fyrir alla en það eru til ótrúlega margir mismunandi kórar sem henta mismunandi fólki. Það þarf alls ekki að fara í inntökupróf í alla kóra. Það syngja ekki allir kórar klassíska tónlist, oft er sungin popp tónlist eða dægurtónlist. Kórar æfa flestir einu sinni í viku og á kóræfingum kynnist maður frábæru fólki og skemmtilegri tónlist. Stundum er ársgjald fyrir meðlimi, en það er aldrei hátt.
Takk fyrir að lesa. Mér þætti svo ótrúlega gaman að heyra ykkar hugmyndir að hlutum sem kosta lítinn sem engan pening
-Veganstur <3