Vegan jólastjarna með appelsínusúkkulað
/Í dag ætlum við að deila með ykkur uppskrift af fallegri vegan jólastjörnu. Deigið er hefðbundið kanilsnúðadeig en fyllingin er hátíðleg og góð appelsínusúkkulaðifylling. Þessi jólastjarna er skemmtileg tilbreyting frá kanilsnúðum og slær heldur betur í gegn í aðventukaffinu eða jólaboðinu.
Við erum gríðarlega spenntar fyrir jólunum og þessi fallega stjarna kom okkur svo sannarlega í jólaskap. Það er erfitt að útskýra með orðum hvernig stjarnan er gerð án þess að láta það hljóma meira flókið en það í raun er. Þess vegna mælum við með því að horfa á nýjasta reelið okkar á Instagram en þar sýnum við hvernig hún er búin til.
Stjörnuna er auðvitað hægt að gera með hvaða fyllingu sem er, en við mælum mikið með appelsínusúkkulaði. Það er virkilega hátíðlegt og gott!
Hráefni:
5 dl plöntumjólk
100 gr smjörlíki
1 pakki þurrger
1 1/2 dl sykur
1 tsk kardimommudropar
10-12 dl hveiti
Aðferð:
Bræðið smjörlíki í potti við lágan hita og bætið mjólkinni út í þegar það er alveg bráðnað. Hellið mjólkurblöndunni í skál og leyfið henni að kólna ef hún er of heit en hún á að vera sirka við líkamshita (37°C). Okkur finnst best að nota fingurinn til að mæla hitan en þegar við finnum ekki fyrir hitabreytingu er hitastigið rétt.
Straið þurrgeri yfir mjólkina og einni teskeið af sykri og leyfið þessu að standa í 10 mínútur.
Bætið restinni af hráefnunum út í og hnoðið saman. Hnoðið deigið í dágóða stund annað hvort í höndunum eða í hrærivél. Deigið á að vera frekar blautt en samt auðvelt að meðhöndla með höndunum án þess að það klessist.
Leyfið deiginu að hefast í skál með hreinu viskustykki yfir í allavega klukkustund áður en það er flatt út.
Skiptið deiginu í fjórar jafn stórar kúlur.
Fletjið hverja kúlu út í hring sem er aðeins stærri í stór matardiskur. Notið matardisk til að skera út fullkomin hring úr hverjum bita af deigi.
Skiptið fyllingunna í þrjár jafnstóra hluta. Byrjið á því að smyrja einum hluta af fyllingu á einn deighring og strá söxuðu appelsínusúkkulaði yfir, setjið síðan annan deighring ofan á, smyrjið fyllingu þar yfir og stráið appelsínusúkkulaði yfir, setjið síðan þriðja deighringinn yfir og smyrjið síðasta hlutanum af fyllingu yfir ásamt söxuðu appelsínusúkkulaði áður en þið setjið síðasta hringin af deigi efst.
Setjið glas eða hringlótt piparkökuform í mitt deigið og skerið deigið í 16 bita út frá hringnum í miðjunni. Það er best að gera með því að skera fyrst í miðjunni í 4 áttir frá miðju. Skera síðan hvern part í helming og síðan aftur í helming.
Takið í tvo hluta í einu og snúið þeim í tvo hringi frá hvorum öðrum og festin endana síðan vel saman.
Bakið við 180°C í 35 til 40 mínútur eða þar til stjarnan er fallega gyllt að ofan.
Blandið saman 1 dl af vatni og 1 dl af sykri í skál og hrærið þar til sykurinn er uppleystur.
Takið stjörnuna út og penslið með sykurblöndunni um leið. Leyfið henni síðan að kólna aðeins áður en hún er borin fram.
Appelsínusúkkulaðifylling
150 gr smjörlíki eða vegan smjör
1 dl púðursykur
1 msk flórsykur
2 msk kakó
Appelsínubörkur af einni appelsínu
Appelsínusafi úr hálfri appelsínu
2 plötur niðursaxað appelsínusúkkulaði frá HAPPI
Aðferð:
Blandið öllu nema appelsínusúkkulaðinu saman í skál.
Saxið appelsínusúkkulaðið niður og setjið í aðra skál.
Takk fyrir að lesa og njótið!
-Veganistur