Vegan ostakökueftirréttur með mangó og ástaraldin
/Vegan ostakökueftiréttur með mangó- och ástaraldin. Einfaldur, bragðgóður og skemmtilegur eftirréttur að bjóða uppá í matarboði eða við önnur tilefni. Ég ber hann fram í fallegum glösum sem gerir það að bæði er auðvelt að útbúa hann og þægilegt að borða.
Uppskrift dagsins er í samstarfi við St. Dalfour á Íslandi og ég notaði gómsæta mangó- og ástaraldinmarmelaðið þeirra í eftirréttinn. Marmelaðið er ótrúlega gott og gaf ferskleikann sem passaði fullkomlega með ostakökunni sem annars er mjög sæt. Við elskum sulturnar frá St. Dalfour. Hágæða vörur með skemmtilegum bragðtegundum sem bjóða uppá skemmtilega möguleika.
Botninn er úr digestive kexi og hann gefur eftirréttinum seltu svo saman myndar hvert lag æðislegan “balans”. Eftirréttinn er hægt að setja í glös eða litlar skálar og kæla en það er líka hægt að setja hann í form og frysta og gera þá sem frysta ostaköku. Við erum nú þegar með nokkrar uppskriftir af slíkum kökum.
Til að hafa þetta sem einfaldast og þægilegast ákvað ég að gera svona kældan eftirrétt. Eitthvað sem hægt er að gera með stuttum fyrirvara og sem þægilegt er að bera fram.
Þessi eftirréttur er virkilega braðgóður. Þetta er líka tilvalin uppskrift að senda á fjölskyldu og vini sem halda að það sé erfitt að gera vegan eftirrétti. Þetta gæti ekki verið einfaldara!
Sjáiði bara hversu fallegur hann er. Við borðum jú fyrst með augunum er það ekki?! :D
Vegan ostakökueftirréttur með mangó- og ástaraldinmarmelaði (3-4 skammtar)
Hráefni:
200 gr. Digestive kex
100 gr. smjörlíki
1.5 dl vegan vanillusósa
1.5 dl vegan þeytirjómi
150-250 gr vegan rjómaostur (sumir eru 150 og aðrir 250 og það virkar að nota einn bara)
2 msk vanillusykur
1 dl sykur
1 krukka mangó og ástaraldinmarmelaði frá St. Dalfour
Aðferð:
Bræðið smjörlíkið.
Myljið kexið í matvinnsluvél og blandið smjörlíkinu út í. Leggið til hliðar.
Þeytið rjómann og vanillusósuna saman og leggið til hliðar.
Þeytið í annarri skál rjómaostinn, sykurinn og vanillusykurinn.
Blandið rjómaostablöndunni varlega saman við þeytta rjómann.
Setjið mulið kex í glas, litlar glerkrukkur eða skálar og pressið niður svo það verði svolítið þétt.
Bætið ostakökufyllingu yfir svo hun fylli næstum glasið
Setjið í kæli í a.m.k 2 tíma eða í frysti i 1 tíma
Takið út og toppið með marmelaðinu og berið fram.
Takk fyrir að lesa og vona að ykkur líki uppskriftin
-Helga María
-Þessi uppskrift er í samstarfi við St. Dalfour á Íslandi-