Vegan steikarsamloka með grilluðu tófú, hrásalati og bjórsteiktum lauk

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að hinni fullkomnu vegan steikarsamloku með grilluðu tófú, piparmajó, hrásalati og bjórsteiktum lauk. Samlokan er tilvalin að gera fyrir sumargrillveisluna eða taka með sér í lautarferð. Þetta er samloka sem allir elska, hvort sem viðkomandi er vegan eða ekki. Ég mæli með því að bera hana fram með góðum frönskum og þessa dagana er ég með æði fyrir vöfflufrönskum.

Uppskrift dagsins er í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefnin í hana þar. Í Krónunni er mikið úrval af vegan mat og hægt að fá allt sem þarf fyrir vegan grillveisluna þar, hvort sem það er fyrir forrétt, aðalrétt, meðlæti eða eftirrétt.

Grillaða tófúið er aðalpersónan í þessari uppskrift. Það er einstaklega gott og hægt að bera fram með nánast hverju sem er. Ef ég er ekki í stuði til að gera samloku finnst mér gott að borða það með grilluðum kartöflum, hrásalati, góðri sósu og salati. Leyndarmálið er að leyfa tófúinu að marínerast í allavega klukkutíma. Ég reyni að pressa það í viskastykki í sirka klukkutíma og hafa það svo í maríneringunni í 3-4 tíma svo það dragi í sig sem mest bragð.

Þetta hljómar kannski tímafrekt en í raun krefst þetta ekki mikillar fyrirhafnar. það tekur enga stund að hræra saman maríneringunni en það er tíminn á milli sem er lengri. Og trúið mér, það er þess virði að gera þetta tímanlega því tófúið verður svo ótrúlega gott.

Á samlokunni er:

Grillað tófú
piparmajó
hrásalat
klettasalat
tómatur
bjórsteiktur laukur.

Þetta er guðdómlega gott og djúsí. Ekta steikarsamloka sem sannar fyrir öllum að vegan grillmatur sé alls ekki síðri öðrum grillmat. Viljiði uppskriftir af góðu grillmeðlæti? Þá mæli ég með þessari færslu sem er stútfull af góðum hugmyndum.

Takk fyrir að lesa og vonandi smakkast vel!

-Helga María

Vegan steikarsamloka með grilluðu tófú

Vegan steikarsamloka með grilluðu tófú
Fyrir: 3-4
Höfundur: Helga María

Hráefni:

Grillað tófú
  • 1 stk tófú, ca 400-500 gr. (passið að kaupa ekki silken tófú vegna þess að það virkar alls ekki fyrir svona uppskrift)
  • 2 dl sojasósa
  • 3 hvítlauksgeirar
  • 2 msk ólífuolía
  • 1 msk hlynsíróp
  • Safi úr 1/2 sítrónu
  • 1 tsk timían
  • Smá chiliflögur (má sleppa)
  • Brauð fyrir samlokurnar
Köld piparsósa:
  • 1 dl oatly sýrður rjómi eða hreint sykurlaust vegan jógúrt
  • 1 dl vegan Krónu majónes
  • 2 tsk grófmalaður svartur pipar
  • 1/2 tsk laukduft
  • 1/2 tsk salt
Hrásalat
  • 300 gr rifið hvítkál
  • 200 gr rifnar gulrætur
  • 1 lítill rauðlaukur
  • 1 dl vegan krónumajónes
  • 1 dl oatly sýrður rjómi
  • 1 tsk dijonsinnep
  • 1 tsk eplaedik
  • 1/2 tsk salt
  • Svartur pipar eftir smekk
Bjórsteiktur laukur
  • 3 stórir laukar
  • Olía að steikja upp úr
  • 2 msk sykur
  • 2 msk soyasósa
  • salt og pipar
  • 1/2 dl bjór (ég mæli með peroni libero áfengislausa bjórnum sem er til í Krónunni)

Aðferð:

Grillað tófú:
  1. Takið tófúið úr umbúðunum og kreistið létt svo þið fáið út aðeins af vökvanum. Vefjið tófústykkinu inn í eldhúspappír eða viskastykki og leggið eitthvað þungt yfir, t.d. stóra bók eða pönnu. Leyfið að standa í sirka klukkutíma.
  2. Hrærið saman maríneringunni og hellið í box eða stóra skál. Skerið tófúið í 4 sneiðar og leggið í maríneringuna og leyfið að marínerast í minnst klukkustund. Ég reyni að leyfa því að sitja í maríneringunni í 3-4 tíma svo tófúið dragi í sig sem mest bragð.
  3. Græjið restina af hráefnunum á meðan þið bíðið svo að ekki þurfi að gera meira þegar kemur að því að grilla tófúið.
Köld piparsósa
  1. Hrærið öllu saman í skál.
Hrásalat:
  1. Rífið hvítkálið með ostaskerara.
  2. Rífið gulræturnar.
  3. Skerið laukinn í þunna strimla.
  4. Setjið í skál og hrærið restinni af hráefnunum saman við.
Bjórsteiktur laukur
  1. Skerið laukana í frekar þunnar sneiðar.
  2. steikið laukinn upp úr smá olíu þar til hann fer að brúnast vel.
  3. Bætið salt og pipar, sykri og soyasósu og steikið í nokkrar mínútur í viðbót.
  4. Bætið bjórnum útí og steikið í góðar 5 til 10 mínútur.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

-Færslan er unnin í samstarfi við Krónunna-