Dásamleg vegan aspasstykki
/-Samstarf-
Í dag deilum við með ykkur uppskrift af vegan aspasstykki með sveppum og osti. Mín nýja uppháldsútgáfa af klassíska heita brauðréttinum. Stökkt og gott baguette brauð fyllt með gómsætri aspasfyllingu. Betra gerist það ekki!
Að mínu mati er heitur brauðréttur alveg jafn mikilvægur á veisluborðið og kökur og tertur. Ég man að ég var eiginlega mest spennt fyrir aspasbrauðréttunum af öllum kræsingunum sem voru í boði í fjölskylduboðunum þegar ég var yngri. Yfirleitt var brauðrétturinn gerður í eldföstu móti eða í rúllubrauði. Í dag ætlum við að gera hann aðeins öðruvísi.
Uppskrift dagsins er í samstarfi við Hagkaup og þar fáiði allt sem þarf í brauðréttinn. Úrvalið af vegan mat í Hagkaup er einstaklega gott og þar er hægt að fá allt sem þarf í góða veislu eða önnur hátíðarhöld. Við erum virkilega stoltar að fá að vinna með þeim.
Aspasstykki smakkaði ég fyrst þegar ég vann í Bakarameistaranum yfir jólafríið mitt þegar ég var unglingur. Ég hef ekki smakkað svoleiðis síðan en hef séð síðustu ár að það hefur verið vinsælt að útbúa heitan brauðrétt í baguettebrauði. Í fyrra útbjó Júlía ótrúlega girnilegan heitan brauðrétt með vegan beikoni og ostum og birti hérna á blogginu. Ég ákvað því núna að prófa að gera útgáfu af aspasstykki og ég varð virkilega ánægð með útkomuna.
þegar ég sit og skrifa þetta er föstudagurinn langi og því tilvalið að útbúa brauðréttinn fyrir sína nánustu um páskana til að fá smá pásu frá súkkulaðinu. Hér á blogginu finnurðu ótal uppskriftir sem eru fullkomnar fyrir páskahátíðina. Hér koma nokkrar:
Vegan terta með jarðarberjarjóma
Fyllingin passar í tvö löng baguette, það má líka skera niður brauð, setja í eldfast mót og blanda fyllingunni við og setja rifinn ost eins og í meira hefðbundnum brauðrétti. Ég mæli samt mikið með því að prófa að gera svona aspasstykki.
Vegan aspasstykki
Vegan aspasstykki með sveppum og osti. Mín nýja uppháldsútgráfa af klassíska heita brauðréttinum sem við þekkjum öll. Stökkt og gott baguette brauð fyllt með gómsætri aspasfyllingu.
Hráefni:
- 2 baguettebrauð
- 25 gr vegan smjör
- 150 gr sveppir
- 1 dós vegan rjómaostur (Ég notaði Oatly påmackan)
- 1 dl vegan matreiðslurjómi (Notaði Oatly iMat)
- 1 dós niðursoðinn aspas (2-3 msk af vökvanum notaður líka)
- 1 tsk eplaedik (má sleppa, en mæli með að hafa)
- 1 sveppateningur
- 1 Violife epic mature cheddarostur eða annar vegan ostur
- Salt og pipar eftir smekk
- Paprikukrydd og þurrkuð steinselja að toppa brauðið með (má sleppa)
Aðferð:
- Hitið ofninn í 200°c undir og yfir hita.
- Skerið sveppina smátt og steikið á pönnu upp úr vegan smjöri.
- Bætið rjómaosti, rjóma, eplaediki og aspasvökva út í og hrærið.
- Myljið sveppatening út í og hrærið og leyfið fyllingunni að byrja að bubbla. Saltið og piprið eftir smekk.
- Skerið aspasinn niður og bætið út í. Rífið ostinn og setjið helminginn af honum í fyllinguna. Hrærið þar til osturinn hefur bráðnað í fyllingunni.
- Skerið toppinn af baguettebrauðunum og deilið fyllingunni í þau. Toppið með restinni af ostuinum, smá grófu salti, paprikukryddi og þurrkaðri steinselju. Það má sleppa kryddunum, mér fannst þau passa vel við.
- Hitið brauðið í 15-20 mínútur eða þar til osturinn hefur bráðnað og brauðið tekið á sig smá lit.
Takk fyrir að lesa og ég vona að þér líki vel
-Helga María
-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Hagkaup-