Vegan smash borgarar!
/Í dag deilum við með ykkur uppskrift að djúsí vegan smash borgurum með piparmæjónesi, laukhringjum og vegan beikoni sem steikt er uppúr sírópi. Fullkomnir borgarar að gera um helgina og bera fram með stökkum frönskum. og ísköldum drykk að eigin vali.
Uppskriftin er gerð í samstarfi við Oumph á Íslandi. Við höfum verið gríðarlega spenntar fyrir því að smakka nýju smash borgarana frá þeim og þeir ollu svo sannarlega ekki vonbrigðum. Við systur elskum svo sannarlega vörurnar frá Oumph og erum mjög spenntar fyrir því að fá þann heiður að vinna með þeim. Ofan á borgarann setti ég svo steikta smokey bites frá þeim sem ég steikti upp úr olíu og sírópi. Það kom virkilega vel út.
Ég vildi gera tvöfalda borgara svo ég setti vegan ost á tvo þeirra. Ég kryddaði þá einungis með salti og pipar í þetta skipti. Þetta voru virkilega með þeim betri vegan borgurum sem ég hef smakkað. Svo djúsí!!
Ég elska að setja laukhringi á borgara. Ég vissi að ég vildi hafa sykrað vegan beikon og piparmajónes og mér datt í hug að laukhringir myndu passa vel með. Það var algjörlega raunin og þeir pössuðu fullkomlega með. Auk þess setti ég kál, tómata og rauðlauk. Eins og ég skrifaði hér að ofan gerði ég tvöfalda borgara. Ég viðurkenni að það var mest gert fyrir myndatökuna, mér hefði alveg þótt nóg að hafa þá einfalda.
Takk innilega fyrir að lesa og ég vona að ykkur líki uppskriftin vel! <3
-Helga María
Vegan smash borgarar
djúsí vegan smash borgarar með piparmæjónesi, laukhringjum og vegan beikoni sem steikt er uppúr sírópi. Fullkomnir borgarar að gera um helgina og bera fram með stökkum frönskum. og ísköldum drykk að eigin vali.
Hráefni:
- 4 stk smash borgarar frá Oumph
- Olía að steikja upp úr
- Salt og pipar eða annað krydd að eigin vali
- vegan ostur
- Hamborgarabrauð
- Kál, tómatar og rauðlaukur
- Laukhringir (passa að þeir séu vegan)
- Smokey bites frá Oumph
- 1 tsk síróp
- Smá salt
- Piparmajónes (uppskrift hér að neðan)
- Franskar
Piparmajónes
- 1 dós majónes (250gr)
- 1/2 dl vegan sýrður rjómi
- 1 msk malaður pipar
- 1/2 tsk sinnep
- 1 tsk laukduft
- 1 msk sítrónusafi
- 1/2 tsk salt
Aðferð:
- Hitið ofninn og bakið franskar og laukhringi eftir leiðbeiningum á pökkunum.
- Hitið olíu á pönnu og steikið vegan beikonið í nokkrar minútur. Bætið salti og sírópi út á og steikið þar til það verður svolítið stökkt. Smakkið til og bætið við sírópi ef ykkur finnst þörf á.
- Steikið borgarana á pönnu upp úr olíu og saltið og piprið. Snúið borgurum og setjið ostasneið á, nokkra vatnsdropa og lok yfir svo osturinn svitni og bráðni betur.
- Hitið brauðið í ofninum í nokkrar mínútur.
- Skerið niður grænmeti og setjið borgarana saman.
Piparmajónes
- Hrærið öllum hráefnum saman í skál og smakkið til.
-Þessi uppskrift er unnin í samstarfi við Oumph á Íslandi-