Ég ætla að breyta lífi mínu - 2. kafli
/Síðasta vika hefur verið áhugaverð. Mér hefur að mörgu leyti liðið eins og ég sé að fá tækifæri til að byrja upp á nýtt. Tækifæri til að sleppa frá mér öllum þeim hugmyndum og skoðunum um það hver ég er og hvað ég get og get ekki. Það er nefnilega magnað að stoppa um stund og átta sig á því að hausinn á manni setur manni gríðarlega mikil takmörk. Við göngum í gegnum lífið með rödd í höfðinu sem stoppar ekki. Hún gefur okkur endalaust af óumbeðnum ráðum og tjáir okkur skoðanir sínar á öllum sköpuðum hlutum. Ef röddin í höfðinu á okkur væri önnur manneskja værum við löngu búin að segja henni að hypja sig. Hver vill umgangast einhvern allar stundir sem talar við okkur á sama hátt og röddin í höfðinu á það til að gera? Við getum ekki þaggað niður í röddinni og þess vegna er svo mikilvægt að gera hana að okkar besta vini. Svo það sé á hreinu, þá er ég að tala um hugsanir okkar. Við hugsum allan liðlangan daginn og oft um eitthvað sem skiptir voðalega litlu máli eða jafnvel lætur okkur líða virkilega illa. Oft er líka erfitt að greina á milli staðreynda og svo okkar upplifunum á hlutunum, sem eru þegar allt kemur til alls, bara okkar upplifun.
Síðan ég birti síðustu færslu hef ég upplifað margar og miklar tilfinningar, þó eiginlega bara jákvæðar. Ég viðurkenni að ég var svolítið hrædd um að ekkert myndi breytast hjá mér og þessi árs skuldbinding mín myndi verða að engu. Í dag er ég síður en svo hrædd um það og ég get sagt að ég hafi ekki upplifað jafn góða viku í langan tíma. Mér líður á margan hátt eins og ég sé önnur manneskja. Ekki vegna þess að ég er skyndilega allt öðruvísi en ég var áður heldur vegna þess að með því að taka ákvörðun um að breyta lífi mínu, og segja frá því á blogginu og á snappinu okkar, líður mér eins og ég hafi klifið vegg sem ég taldi mig ekki komast yfir. Eins fékk ég fjöldann allan af skilaboðum frá fólki sem annaðhvort vildi sýna mér stuðning eða jafnvel taka þátt í þessu átaki með mér og ég get ekki lýst því hvað mér þykir vænt um það.
Í síðustu viku
- Vaknaði ég fyrir klukkan 9 á hverjum degi
- Klæddi ég mig í föt á hverjum degi og kósýgallinn hefur fengið smá hvíld
- Átti ég yndislegt símtal við Katrínu litlu systur mína.
- Átti ég yndislegt símtal við ömmu mína
- Prufaði ég mig áfram með kökuuppskrift sem kemur á bloggið á næstu dögum
- Mætti ég á kóræfingu og æfði mig vel fyrir hana
- Fór ég á kaffihús, las ljóð, drakk gott kaffi og spjallaði við Sigga
- Fór ég í spennandi atvinnuviðtal varðandi sumarvinnu
- Gekk ég frá eftir mig jafn óðum og leið ég kjölfarið mun betur í umhverfinu mínu
- Minnti mig á það daglega að ég ber ábyrgð á lífinu mínu og þó ég hafi ekki fullkomna stjórn á því sem kemur fyrir mig, hef ég stjórn á því hvernig ég bregst við því.
- Þvoði ég á mér andlitið á hverju kvöldi fyrir svefninn
- Hlustaði ég mikið á tónlist og uppgvötaði frábæra nýja hljómsveit
- Borðaði ég næringarríkan mat og keypti engar óþarfa umbúðir
- Datt ég tvisvar í hálkunni og langaði ekki að hverfa inn í sjálfa mig!!
Það sem mér tókst ekki nógu vel í síðustu viku en ætla að gera betur þessa viku:
- Ég gaf mér ekki tíma á kvöldin þar sem ég lagði frá mér símann. Ég er að reyna að vera meira meðvituð um símanotkunina og það er virkilega áhugavert hvað ég á það til að teygja mig í símann þegar mér leiðist
- Ég borðaði enga máltíð án þess að hafa afþreyingu. Ég hef áttað mig á því að ég er alltaf með Snapchat, Instagram, Youtube myndbönd, hlaðvörp eða hljóðbækur í gangi á meðan ég borða og mig langar að breyta því
- Ég póstaði ekki Instagram myndum jafn oft og ég ætlaði mér
- Ég gerði ekki uppskriftarfærslu
- Ég hreyfði mig ekkert að viti, en það er þó vegna þess að ég er að jafna mig eftir snúinn ökkla og tók ákvörðun um að taka því rólega síðustu vikuna. Ég fór samt eitthvað út úr húsi alla dagana og er ánægð með það.
Þessa vikuna ætla ég að:
- Halda áfram þeim daglegu venjum sem ég hef náð að tileinka mér síðustu vikuna
- Halda áfram með lagið sem ég hef verið að búa til síðustu daga
- Skrifa meira
- Lesa fleiri ljóð
- Gera tvær uppskriftafærslur sem ég er búin að undirbúa
- Hitta vini okkar Sigga um helgina
- Undirbúa samstarfið sem við Júlía erum að fara í
- Hreyfa mig daglega, hvort sem það er að fara í ræktina, göngutúr eða gera æfingar hérna heima
- Fara á allavega eitt kaffihúsadeit með sjálfri mér
- Halda áfram að þykja svona vænt um sjálfa mig
- MUNA að það er eðlilegt að ekki séu allir dagar fullkomnir. Ég er ekki að reyna að vera fullkomin eða glöð alla daga, það eru óraunhæfar kröfur sem gagnast engum
- Færa lögheimilið mitt!! Kommon Helga, þú hefur haft endalausan tíma til að gera þetta
Ég hlakka til að heyra í ykkur að viku liðinni!
Helga María