Vegan réttir í áramótaveisluna
/Í dag deilum við með ykkur uppskrift að vegan partýréttum fyrir áramótaveisluna. Við vitum öll að gamlárskvöld einkennist að miklu leyti af mat og drykk. Við grænkerarnir erum að sjálfsögðu engin undantekning þar. Við systur höfum því sett saman gómsætan partýmat sem mun stela senunni í áramótapartýinu og sanna fyrir ÖLLUM að vegan partý eru bestu partýin! Færsla dagsins er í samstarfi við Krónuna og allt sem þarf í þessa dásamlegu áramótaveislu fáiði þar.
Það fyrsta sem við bjóðum uppá er krydduð ostakúla sem er fullkomin með góðu kexi. Ostakúlan er innblásin frá mexíkóosti og er svolítið spæsí en samt alls ekki of. Hún var ekki lengi að hverfa ofan í okkur eftir að við kláruðum að taka myndir af henni.
Það er alltaf jafn gaman að bjóða fólki uppá ostakúlur því það er skemmtilega öðruvísi og alveg svakalega bragðgott. Það er líka svo gaman að prófa sig áfram með mismunandi brögð og samsetningar.
Utan um kúluna gerðum við kasjúhnetukryddblöndu og hún setti punktinn yfir i-ið að okkar mati. Ekkert smá góð!
Mexíkó ostakúla
1 askja (250 gr) hreinn Sheese rjómaostur eða annar góður vegan rjómaostur
2 msk vegan smjör
2 msk vegan majónes
1 Chilli og hvítlauksostur úr ostabakkanum frá Violife
1/2 epic mature úr ostabakkanum frá violife
1 dl niðursaxaður vorlaukur
1 tsk hvítlauksduft
1 tsk paprikuduft
2-3 tsk hot sauce eða tabasco sósa
1 tsk sojasósa
Mexíkó kryddblanda utan um ostinn:
3-4 msk mexíkaninn krydd frá Kryddhúsinu
1 tsk chilli og lime krydd frá Bowl&Basket
Heimagerður kasjúhnetuparmesan
1 dl kasjúhnetur
2 msk næringarger
1 tsk laukduft
1 tsk hvítlauksduft
1 tsk salt
Aðferð:
Byrjið á því að hræra saman rjómaostinn, smjörið og mæjónesið.
Saxið niður vorlaukinn.
Bætið restinni af hráefnunum ofan í skálina og blandið vel saman með sleif.
Skiptið ostinum í tvennt og útbúið tvær kúlur sem þið vefjið inn í plastfilmu (sjá mynd að ofan).
Setjið ostinn í ísskáp í minnst tvo tíma svo hann harðni svolítið og auðveldara sé að velta honum uppúr möndlunum. Ef þið ætlið að bjóða uppá ostinn í partýi eða sem forrétt mæli ég með því að gera hann snemma sama dags eða jafnvel kvöldið áður. Hann er nefnilega betri ef hann fær aðeins að standa í ísskápnum.
Takið hann út þegar þið ætlið að bera hann fram og veltið uppúr kryddblöndunni.
Aðferð fyrir kryddblöndu:
Setjið hráefni fyrir heimagerða kasjúhnetuostinn í blandari eða matvinnsluvél og vinnið í nokkrar sekúndur þar til það verður að mjög grófu “mjöli”.
Blandið saman við restina af kryddunum.
Dreifið á disk og veltið ostinum upp úr.
Næst á boðstólnum er önnur gómsæt ostakúla sem er aðeins meira í þessum hefðbundna hátíðlega búning, mjög jólaleg og góð. Hún inniheldur meðal annars timían og þurrkuð trönuber og utan um kúluna eru saxaðar pekanhnetur. Virkilega gómsætt og eins og hin kúlan er hún fullkomin með góðu kexi. Pssst.. Við erum með fleiri færslur á blogginu með dásamlegum partýréttum ef þið viljið kíkja!
Ostakúla með trönuberjum, timían og pekanhnetum:
1 askja (250 gr) hreinn Sheese rjómaostur eða annar góður vegan rjómaostur
2 msk vegan smjör
2 msk vegan majónes
1 smoked mature úr hátíðarostabakkanum frá Violife
1/2 epic mature úr hátíðarostabakkanum frá Violife
1 dl niðursaxaður vorlaukur
1/2 dl niðursöxuð þurrkuð trönuber
1 tsk hvítlauksduft
1 tsk timían
1 tsk sojasósa
Utan um ostinn :
Pekanhnetur
Aðferð:
Byrjið á því að hræra saman rjómaostinn, smjörið og mæjónesið.
Saxið niður vorlaukinn og trönuberin.
Bætið restinni af hráefnunum ofan í skálina og blandið vel saman með sleif.
Skiptið ostinum í tvennt og útbúið tvær kúlur sem þið vefjið inn í plastfilmu (sjá mynd að ofan).
Setjið ostinn í ísskáp í minnst tvo tíma svo hann harðni svolítið og auðveldara sé að velta honum uppúr möndlunum. Ef þið ætlið að bjóða uppá ostinn í partýi eða sem forrétt mæli ég með því að gera hann snemma sama dags eða jafnvel kvöldið áður. Hann er nefnilega betri ef hann fær aðeins að standa í ísskápnum.
Takið hann út þegar þið ætlið að bera hann fram og veltið uppúr pekanhnetunum.
Saxið niður pekan hnetur og dreifið á stóran disk. Veltið ostinum upp úr þeim.
Snakk og ídýfa er að okkar mati möst í gott partý. Við útbjuggum því einfalda og gómsæta ídýfu sem er innblásin af Holiday ídýfuduftinu frá Maarud sem fæst því miður ekki á Íslandi en er virkilega gott. Ídýfan kom ekkert smá vel út og tók snakkið á næsta level!
Gómsæt vegan ídýfa
4 dl vegan sýrður rjómi
3 msk vegan mæjónes
1,5 tsk laukduft
1,5 tsk hvítlauksduft
1/2 tsk túrmerík
1 tsk paprikuduft
1/2 tsk þurrkað dill
1/2 tsk þurrkuð steinselja
1 tsk sítrónusafi
1/2-1 tsk hlynsíróp
1 tsk tabasco sósa
Salt og pipar eftir smekk. Ég notaði 1 tsk salt og smá pipar
Aðferð:
Blandið öllu saman í skál og leyfið að standa í ísskáp í sirka klukkustund til að leyfa brögðunum að blandast vel saman.
Nammi er svo sannarlega mikilvægt líka í góðum gleðskap og við ákváðum að búa til skemmtilegt súkkulaðibark með allskyns sælgæti í. Ef þið hafið ekki prófað súkkulaði með saltstöngum mælum við með því að gera það ASAP! Svo gott!!
Súkkulaði bark með nammi:
Saltkringlur
Fazer marianne brjóstsykur
Tutti Frutti nammi frá Fazer
2 plötur reint hafrasúkkulaði frá HAPPI
Aðferð:
Byrjið á því að bræða súkkulaðið yfir vatnsbaði eða í örbylgju. Passið að hræra í því á 20-30 sekúndna fresti ef það er gert í örbylgjunni
Saxið niður það nammið í mjög grófa bita og bætið út í súkkulaðið.
Hellið á bökunarpappír, dreifið vel úr og leyfið því að harðna í kæli í allavega eina klukkustund.
Brjótið eða skerið niður í bita og berið fram.
Auk þessarra rétta eru á plattanum:
Ólífur
Vínber
Ostarnir úr Holiday bakkanum frá Violife
Vegan chorizo frá Veggyness
Brauðstangir
Snakk
Baguettebrauð
Hrökkbrauð
Sulta
Jarðarber húðuð í hvítt súkkulaði og haframjólkusúkkulaði frá Happi
Pestó
Möndlur
Saltkringlur dýfðar í bráðið súkkulaði
Takk fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur vel!
-Veganistur
-Þessi færsla er í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefni í uppskriftirnar þar-