Gómsætur heitur brauðréttur

IMG_9975-2.jpg

Ein af okkar fyrstu uppskriftum hérna á blogginu er af heitu rúllubrauði með aspas og sveppum. Uppskriftin hefur verið ein af þeim vinsælustu á blogginu síðan. Við höfum fengið ótal margar skemmtilegar myndir af því þegar fólk útbýr brauðið við ýmis hátíðleg tilefni og það virðist slá í gegn í hvert skipti. Við höfum þó fengið margar spurningar um það hvernig hægt sé að breyta réttinum úr rúllubrauði yfir í hefðbundinn aspasbrauðrétt í eldföstu móti. Eftir að hafa í þónokkurn tíma svarað öllum persónulega þegar ég er spurð, ákvað ég að búa til nýja uppskrift svo fólk geti bæði notast við uppskriftina af rúllubrauðinu og uppskrift af réttinum í eldföstu móti. 

IMG_9894-2.jpg

Ég ákvað að nota reykta og saltaða Oumph!-ið, og vá! Það passaði fullkomlega í réttinn. Ef þið eruð ókunnug Oumph!-inu mæli ég með því að þið lesið þessa grein. Ég nota Oumph! mikið í allskonar rétti og þið finnið ýmsar uppskriftir hérna á blogginu þar sem það er notað, við erum miklir aðdáendur. 

Í réttinn nota ég heimagert vegan mæjónes. Það er vissulega hægt að kaupa tilbúið vegan mæjónes úti í búð en þegar maður hefur prófað að búa til sitt eigið er eiginlega ekki aftur snúið. Það tekur innan við 5 mínútur, er virkilega ódýrt og stenst algjörlega allan samanburð. Síðan ég lærði að gera mæjónes sjálf hefur það reynst mér mun auðveldara að gera allskonar sósur sem ég var vön að elska áður en ég gerðist vegan, eins og pítusósu, kokteilsósu, hamborgarasósu og sæta sinnepssósu. Í mæjóið þarf einungis 5 hráefni og er uppskriftin af því hér að neðan. 

Í réttinum er einnig heimagerð sveppasósa sem er algört lykilatriði. Þegar ég var yngri var mamma vön að gera brauðrétt þar sem hún notaði sveppasúpu í dós frá Campbell og ég vildi búa til svipaðan "fíling." Heimagerða sósan er miklu betri að mínu mati og gefur réttinum svo ótrúlega gott bragð. 

Webp.net-gifmaker (5).gif

Þó það sé bæði heimagert mæjónes og heimagerð sveppasósa í réttinum, tekur enga stund að búa hann til. Ég get líka lofað ykkur því að þetta er allt þessi virði þegar hann er tilbúinn. Mér þætti virkilega gaman að heyra hvort ykkur líkar og ég skora á ykkur til að búa hann til fyrir næstu veislu og segja engum að hann sé vegan fyrr en eftir á. Mér finnst mjög hæpið að fólki myndi detta það í hug!

IMG_9928.jpg

Vegan mæjónes:

  • 1 bolli ósæt sojamjólk (helst við stofuhita.) Ég nota þessa í rauðu fernunni frá Alpro, en svo er einnig til mjög góð frá Provamel, einnig í rauðri fernu

  • 2 tsk eplaedik

  • Bragðlaus olía eftir þörf. Ég nota sólblómaolíu eða rapsolíu

  • 1 tsk gróft sinnep

  • 1/2 tsk salt

  1. Hellið sojamjólkinni í blandara eða matvinnsluvél ásamt eplaedikinu og hrærið á miklum hraða í nokkrar sekúndur

  2. Hellið mjórri bunu af olíu ofan í á meðan blandarinn vinnur. Ég hefði átt að mæla fyrir ykkur hvað ég notaði mikla olíu, en ég gleymdi því. Ég nefnilega helli henni beint úr flöskunni í mjórri bunu þar til mæjónesið er orðið eins þykkt og ég vil hafa það. Það er mikilvægt að hella henni hægt svo þetta tekur alveg mínútu.

  3. Þegar mæjóið er orðið þykkt bæti ég sinnepinu og saltinu útí og hræri í nokkrar sekúndur í viðbót.

Sveppasósa:

  • 1 askja sveppir (250g)

  • Olía til steikingar

  • 1 peli Oatly matreiðslurjómi

  • 1 sveppateningur frá Knorr

  • 1/2 tsk dökk sojasósa (Má sleppa - hún gefur sósunni mjög gott bragð en er alls ekki nauðsynleg. Ég nota hana bara þegar ég á hana til en myndi ekki kaupa hana sérstaklega fyrir sósuna)

  • Vatn og hveiti til að þykkja. (Ég mæli það aldrei neitt sérstaklega heldur hristi ég bara saman smávegis af hveiti og smá vatni, það þarf alls ekki mikið)

  1. Skerið sveppina niður eftir smekk (fyrir þennan rétt finnst mér gott að skera þá mjög smátt) og setjið í pott. Ekki láta ykkur bregða þó potturinn sé nánast fullur af sveppum, þeir rýrna mikið við eldun.

  2. Steikið þá uppúr smá olíu í pottinum. Ef mér finnst sveppirnir byrja að festast við botninn finnst mér best að bæta örlitlu vatni saman við og endurtek það ef mér finnst þurfa. Við það myndast líka smá sveppasoð sem mér finnst gefa sósunni gott bragð.

  3. Bætið sveppakraftinum út í pottinn þegar sveppirnir eru orðnir mjúkir og hafa rýrnað svolítið, og látið hann leysast upp í soðinu sem hefur myndast í pottinum.

  4. Hellið rjómanum út í og leyfið suðunni að koma upp

  5. Hristið saman svolítið af hveiti og vatni og hellið út í pottinn í mjórri bunu og meðan þið hrærið hratt í sósunni. Mér þykir best að hafa sósuna mjög þykka (mun þykkari en ef ég væri að bera hana fram með mat. Að öðru leyti væri þessi sósa fullkomin sem meðlæti með ýmsum mat)

  6. Bætið sojasósunni út í ásamt salti og pipar og smakkið. Sósan má vera svolítið bragðsterk.

Aspas brauðréttur:

  • 1/2 poki Salty & Smoky Oumph!

  • 1 dós aspas ásamt safanum (Ég var með aspas í krukku sem var 330g með vatninu og 185g þegar einungis aspasinn er veginn)

  • 2 dl vegan mæjónes + meira til að smyrja ofan á réttinn áður en hann fer í ofninn

  • Sveppasósan hér að ofan

  • Sirka 12 sneiðar af hvítu samlokubrauði. Ég fyllti svona 2/3 af eldfasta mótinu af brauði

  • Paprikuduft (eða annað krydd eftir smekk. Mamma notaði oft sítrónupipar ofan á svona brauðrétt en mér finnst paprikuduft og örlítið af grófu salti best. Ég hef líka notað Chilli explosion kryddið frá Santa Maria og það var virkilega gott)

  1. Hitið ofninn á 200°c

  2. Gerið mæjóið og sveppasósuna og leggið til hliðar

  3. Skerið Oumph!-ið niður í smáa bita og steikið í nokkrar mínútur á pönnu

  4. Bætið mæjónesinu, sósunni, aspasnum og safanum frá aspasnum á pönnuna og hrærið vel saman

  5. Skerið skorpuna af brauðinu og skerið sneiðarnar í teninga og setjið í eldfast mót. Það er alveg hægt að setja sneiðarnar heilar í formið en mér þykir betra að skera þær niður í sirka 6 teninga.

  6. Hellið fyllingunni ofan í formið og jafnið hana út svo hún nái yfir allt formið.

  7. Smyrjið mæjónesi yfir blönduna og kryddið með paprikudufti og gófu salti, eða bara því kryddi sem ykkur þykir best.

  8. Bakið réttinn þar till yfirborðið er orðið gyllt, eða í kringum 20 mínútur.

Afmælis brunch + tvær uppskriftir

Ég átti 21. árs afmæli í vikunni og ákvað að bjóða vinum mínum í smá brunch um helgina. Ég var búin að ákveða fyrir löngu að halda upp á afmælið mitt þar sem ég hef ekki gert það í mörg ár. Ég ætlaði að halda partý og bjóða öllum og hafa rosa gaman en þar sem ég er alls ekki djamm manneskja hætti ég fljótt við það þegar ég fór að hugsa þetta betur. Ég alveg elska að elda eins og þið vitið líklegast öll en það sem mér finnst eiginlega ennþá skemmtilegra er að leyfið öðrum að njóta með mér. Ég ákvað því að bjóða þeim í brunch þar sem að það er svo rosalega vinsælt hjá öllum núna.

Mér fannst tilvalið að gera smá bloggfærslu úr þessu til þess að sýna ykkur að það er ekkert mál að gera risastóran og góðan brunch með alls konar góðgæti þó maður sé vegan. Engin af vinum mínum sem komu er vegan en auðvitað var allt sem var í boði vegan og þeim fannst þetta ótrúlega gott og söknuðu einskis. Það þarf því engin að vera hræddur við að bjóða bara uppá vegan bakkelsi í boðum þar sem að lang flestir eru ekki einu sinni að fara að átta sig á því! Ég ætla því að deila með ykkur því sem ég bauð upp á ásamt tveimur uppskriftum.

 

Matseðilinn í afmælis brunchinum var eftirfarandi:

Amerískar pönnukökur m/bönunum, jarðaberjum og sírópi
Heimabakað brauð
Fræbrauð
Hummus & Pestó
Kasjú ostakaka
Bakaðar baunir
Pinto-villisveppapylsur
Gulrótarmuffis
Súkkulaðimuffins
Vatsmelónur & appelsínur

Epla og engifer safi
Appelsínusafi
Súkkulaði haframjólk

Hér fyrir neðan ætla ég að deila með ykkur uppskriftunum af pinto-villisveppapylsum og mjög einföldu heimabökuðu brauði.

Ernubrauð

Erna er í tengdafjölskyldunni minni en hún á heiðurinn af þessu brauði. Þetta brauð er svo ótrúlega einfalt og gott að það er bakaðr fyrir hverja einustu veislu í jfölskyldunni. Það er hægt að leika sér með það eins og hugurinn girnist en ég set oft ólífur og sólþurrkaðar tómata í það eða hvítlauk. Hérna kemur uppskrift af hinu hefðbundna brauði en hægt er að bæta við eftir eigin höfði.

Hráefni:

  • 1/2 lítri volgt vatn

  • 3 tsk þurrger

  • 1 msk salt

  • 600 gr hveiti

  • olía og gróft salt til að smyrja

Aðferð:

  1. Setjið volgt vatn í skál og dreyfið þurrgerinu yfir. Leyfið þessu að standa í 5 mínútur áður en haldið er lengra.

  2. Bætið hveitinu og saltinu útí. (Ef setja á eitthvað fleira í brauðið er best að bæta því útí á þessu stigi, áður en deigið er hrært saman.)

  3. Hrærið deigið með sleif þar til hveitið er alveg blandað, sem sagt ekkert þurrt hveiti eftir. Setjið plastfilmu eða poka yfir skálina og leyfið henni að standa í ísskáp í 8 klukkustundir eða yfir nótt.

  4. Hellið deiginu beint á plötu, smyrjið með olíu og dreyfið vel af salti yfir. Bakið við 200°C í 50 mínútur eða þar til brauðið er gullið að ofan.

Pinto-villisveppapylsur

Ég ákvað þrátt fyrir að mikið sé af vegan pylsum á markaðnum í dag, að gera mínar eigin. Þær komu ótrúlega vel út en þessa uppskrift má einnig nota í buff eða sem grænmetiskæfu ofan á brauð og kex. Það er hægt að gera stóra uppskrift og frysta pylsurnar eða buffin en mér finnst það ótrúlega þægilegt t.d. til þess að grípa með mér í nesti þegar ekki hefur gefist mikill tími í að útbúa eitthvað annað.

Hráefni:

  • 2 dósir pintobaunir (480 gr eftir að vatnið er tekið frá)

  • 2 msk olía 

  • 1 bolli frosnir villisveppir (mælt áður en þeir eru steiktir)

  • 1/2 meðalstór laukur

  • 2 hvítlauksrif

  • 3 sólþurrkaðir tómatar

  • 1 msk franskar jurtir (herbs de provence krydd)

  • 1 msk grænmetiskraftur

  • salt og pipar eftir smekk

  • 2 dl hveitiglútein eða malað haframjöl (því er sleppt ef gera á grænmetiskæfu)

Aðferð:

  1. Steikið laukinn, sveppina og hvítlaukinn upp úr olíunni í góðan tíma.

  2. Setjið allt nema hveitiglúteinið eða haframjölið í blandara eða matvinnsluvél og vinnið saman þar til vel blandað. 

  3. Hrærið hveitiglúteininu eða haframjölinu út í með sleif.

  4. Mótið pylsur, bollur eða buff og bakið við 180°C í 20-25 mínútur. 

Takk fyrir mig
-Júlía Sif