Vegan í Barcelona
/Í júní fórum við Ívar í vikuferð til Barcelona. Þar nutum við þess að liggja í sólbaði, skoða fallegu borgina og borða góðan mat. Ég hafði heyrt að úrvalið af vegan mat væri frábært í Barcelona svo ég hafði litlar áhyggjur af því að erfitt yrði að finna góða veitingastaði. Ég vildi þó vera vel undirbúin svo ég fann nokkra spennandi staði á netinu sem fengu góða umsögn. Við urðum að sjálfsögðu ekki fyrir vonbrigðum með matinn í Barcelona, en þar sem úrvalið af vegan valkostum er gríðarlegt komumst við ekki í að prufa meira en brotabrot. Ég ákvað að útbúa lista af þeim stöðum sem stóðu uppúr hjá okkur.
Við gistum ekki á hóteli og því var enginn morgunmatur innifalinn í ferðinni. Við vorum þó heppin að búa í rúmgóðri íbúð með fínu eldhúsi svo við gátum útbúið okkur mat sjálf. Við nenntum samt ekki að eyða miklum tíma í matargerð í fríinu og borðuðum því helst ávexti á morgnanna. Það hentaði okkur vel því ávextir eru svo safaríkir og frískandi þegar heitt er í veðri.
La Trocadero
Fyrsti staðurinn sem mig langar að mæla með er La Trocadero, nýr hamborgarastaður rétt hjá Sagrada Familia kirkjunni. Ég myndi segja að La Trocadero hafi verið okkar uppáhalds veitingastaður í ferðinni. Hann er 100% vegan og býður upp á alls konar hamborgara, pylsu og nachos. Við fengum okkur bæði "beikon" borgara og franskar með hvítlauks majónesi. Maturinn var æðislega góður og alls ekki dýr, en hamborgara máltíð kostaði í kringum 9 evrur. Staðurinn er ótrúlega flottur og stór sem er mikill plús þar sem margir veitingastaðir sem við prófuðum voru mjög litlir með fáum sætum.
Väcka
Næsti staður sem ég vil mæla með er lítill veitingastaður sem ég fann á netinu og var mjög spennt fyrir. Staðurinn heitir Väcka og er virkilega flottur og krúttlegur. Hann er 100% vegan en þar er boðið upp á mikið af glútenlausum og hollum mat. Það er ekkert sérstakt þema heldur er boðið upp á alls konar rétti, t.d. acai skálar, glútenlausar vöfflur, beyglur, hamborgara og fleira. Uppáhalds réttirnir okkar voru vöfflurnar og banana ísinn.
Veggie Garden
Veggie Garden var mjög ódýr og góður en við fórum þangað tvisvar þar sem hann var rétt hjá íbúðinni okkar. Staðurinn býður upp á alls konar, allt frá indversku thali til ítalskra hálfmána. Það er alltaf hægt að fá þriggja rétta máltíð sem maður setur saman sjálfur fyrir 8,50 evrur, sem er æðislegt verð. Drykkirnir eru einnig mjög ódýrir og góðir. Uppáhalds réttirnir okkar voru tófú núðlurnar, thali og guacamole sem var borið fram með indversku snakki.
Cat Bar
Cat Bar er lítill kósý bar í miðbæ Barcelona þar sem boðið er upp á fjöldan allan af alls konar bjórum og borgurum. Staðurinn er í ódýrari kantinum og 100% vegan. Mjög kósý stemming og töff staður og borgararnir voru einnig ótrúlega góðir. Staðsetningin er einnig mjög góð en ef þú ert í Barcelona áttu alveg pottþétt eftir að vera í nágrenni við hann oftar en einu sinni.
Eins og ég skrifa hér fyrir ofan gátum við auðvitað ekki smakkað allt og er þetta því bara brot af þeim góða vegan mat sem leynist í borginni. Það voru þó nokkrir staðir sem við fórum á þar sem ég náði ekki mynd en ég ætla að setja smá lista hérna yfir þá staði.
La gelateria del barri - Besti vegan ísinn sem við smökkuðum en hann er í dýrari kanntinum.
Wok to Walk - Ótrúlega þægilegur núðlustaður sem er t.d. staðsettur á römblunni. Maður velur sjálfur núðlur, tofu, grænmeti og sósu og það er svo steikt í wok pönnu. Virkilega gott.
Falafel - Þó svo að ég hafi verið búin að finna fullt af vegan stöðum og merkja í kortinu í símanum mínum vorum við stundum einhversstaðar þar sem ekkert af þeim bar nálægt. Þá gátum við oftast reddað okkur með því að fá okkur falafel vefjur en það er miðausturlenskir staðir út um alla borg sem mjög gott falafel og hummus.
-Júlía Sif