Vegan rjómabollur að sænskum sið (semlur)
/Bolludagur Svía (fettisdagen) er næsta þriðjudag, daginn eftir að hann er haldinn hátíðlegur á Íslandi, en sænska rjómabollan kallast semla. Á Íslandi fást bollurnar bara á bolludaginn og kannski einhverjir afgangar næstu daga eftir, en hérna í Svíþjóð byrja kaffihús og bakarí að selja semlur um miðjan janúar. Svíar eru sjúkir í bollurnar og borða þær mikið alveg frá því þær byrja að seljast og fram að bolludeginum.
Mér finnst sænsku bollurnar æðislegar. Deigið er eins og af gerbollunum sem við þekkjum, en þau setja mulda kardimommu út í bolludeigið sem mér finnst alveg svakalega gott. Á Íslandi erum við vön að borða bollurnar okkar með sultu, rjóma og glassúr, en Svíarnir borða sínar fylltar með möndlumassa og rjóma og strá flórsykri yfir. Ég man að mér fannst þessar sænsku bollur ekkert hljóma svakalega spennandi fyrst, en þær eru alveg gríðarlega góðar, ekkert síðri en þær sem við borðum heima.
Möndlumassa kaupir maður tilbúinn úti í búð hérna í Svíþjóð, en þar sem hann fæst ekki tilbúinn á Íslandi ákvað ég að búa til ótrúlega góðan og einfaldan möndlumassa sjálf. Þeir sem ekki eiga matvinnsluvél eða góðan blandara geta líka rifið niður 400g af marsípani og blandað saman við 1 dl af jurtamjólk. Möndlumassi og marsípan er þó ekki alveg sami hluturinn, en marsípan inniheldur minna af möndlum og meiri af sykri. Ég er þó viss um að marsípan væri mjög gott í svona fyllingu.
Ég notaði rjómann frá Alpro á bollurnar. Mér finnst hann rosalega góður, en hann verður ekki alveg jafn stífur og hefðbundinn rjómi. Ég er búin að lesa mikið um að fólk setji stundum pínulítið af lyftidufti út í hann þegar það þeytir og að það hjálpi honum að stífna, og ég var að spá í að prufa það í dag, en átti svo ekki til lyftiduft svo það verður að fá að bíða. Ef þið ákveðið að prufa væri ég mikið til í að heyra hvort það breytir einhverju.
Uppskriftin af bollunum er ekkert smá einföld. Það er auðvitað hægt að sleppa kardimommunni ef þið viljið gera bollurnar eins og íslenskar rjómabollur, en ég mæli samt svo mikið með að prufa þessar sænsku. Eins og ég segi er uppskriftin ótrúlega einföld og það er ekkert mál að skella bara í tvö deig og gera bæði íslenskar og sænskar. Halló, bolludagurinn er einu sinni á ári, live a little!
Þegar ég var búin að baka bollurnar og mynda þær hljóp ég yfir til vinar míns sem er líka vegan. Þar sem kaffihúsin í Piteå bjóða ekki upp á vegan semlor þá datt mér í hug að hann yrði spenntur að fá tvær heimabakaðar. Ég viðurkenni að ég var mjög stressuð um að honum þætti þær ekkert spes og að ég þyrfti meiri æfingu til að geta gert góðar semlor sem stæðust væntingar svíana sem hafa borðað bollurnar alla ævi. Hann át þær báðar upp til agna og sagðist ekki hafa fengið svona góðar semlor í mörg ár og gaf þeim A+. Ég varð ekkert smá ánægð með þá einkunn.
Ef þið gerið bollurnar okkar, værum við ekkert smá ánægðar ef þið sendið okkur myndir. Bolludagurinn hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér, ekki síst vegna þess að daginn eftir er sprengidagurinn, sem er bókstaflega uppáhalds dagurinn minn. Ég geri mér fulla grein fyrir því hvað það hljómar skringilega, komandi frá vegan manneskju, en mér finnst sprengidagssúpan alveg jafn góð vegan. Við erum með æðislega góða uppskrift af saltOumph! og baunum sem ég er ekkert smá spennt að elda næsta þriðjudag.
Sænskar semlur
2 dl plöntumjólk (ég notaði haframjólk)
50 gr smjörlíki
2 tsk þurrger + 1 tsk sykur
örlítið salt
1/2 tsk vanilludropar
1 tsk mulin kardimomma
50 gr sykur
250 gr hveiti
Smá jurtamjólk til að pensla með
Aðferð:
Hitið mjólk og smjörlíki saman í potti þar til smjörlíkið hefur bráðnað og hrærið í á meðan. Hellið blöndunni svo í skál og leyfið að standa þar til hún er við líkamshita, eða um 37°c.
Stráið þurrgerinu yfir ásamt 1 tsk sykri og leyfið að standa í 10 mínútur.
Blandið restinni af hráefnunum út í og hrærið saman. Ef deigið er of blautt blandið við það smá meira hveiti á meðan þið hnoðið þar til þið fáið rétta áferð. Deigið á að vera svolítið blautt, en þó auðvelt að að meðhöndla án þess að það sé festist við fingurna. Hnoðið deigið þar til það verður slétt og sprungulaust.
Leyfið deiginu að hefast í skál með hreinu viskustykki yfir í allavega klukkutíma áður en litlar kúlur eru myndaðar og settar á bökunarplötu. Passið að hafa bollurnar ekki of stórar þar sem þær stækka vel í ofninum. það komu 10 bollur úr uppskriftinni hjá mér í dag, en þær voru svona meðalstórar. Ég gerði aðeins minni bollur í fyrra og þá komu alveg 14 bollur hjá mér. Leyfið bollunum að hefast á plötunni í allavega hálftíma í viðbót, penslið þær svo með plöntumjólk og bakið í 15 mínútur við 180°C.
Möndlumassi
5 dl möndlumjöl
3 dl flórsykur
5 msk aquafaba (það er vökvinn sem fylgir með kjúklingabaunum í dós)
2-3 msk plöntumjólk eða vegan rjómi
Pínu möndludropar. Ég setti í litlu kryddskeiðina mína sem er 1 ml
Aðferð:
Hellið öllu í matvinnsluvél eða góðan blandara og blandið þar til mjúkt. Þetta á að vera þykkt, en þó auðvelt að meðhöndla.
Leyfið að standa við stofuhita. Ég setti þetta strax í sprautupoka sem gerði það auðvelt að fylla bollurnar.
Bollan sett saman
Bollurnar
Möndlumassinn
1 ferna Alpro jurtarjómi
Flórsykur
Til að setja saman bollurnar klippti ég þríhirning úr lokinu og tók aðeins innan úr. Svo sprautaði ég möndlumassa inn í, sprautaði svo þreyttum rjóma yfir, lagði lokið á og sigtaði flórsykur yfir. Það er að sjálfsögðu líka hægt að skera þær í tvennt, en svona gera Svíarnir þetta svo ég ákvað að slá til, mest upp á lúkkið hehe.
Vona innilega að ykkur líki vel <3
-Veganistur