Gómsætt vegan hvítlauksbrauð með bökuðum hvítlauk og jurtum
/Í dag deilum við með ykkur uppskrift að virkilega góðu ofnbökuðu hvítlauksbrauði með vegan smjöri, parmesanosti, bökuðum hvítlauk og ferskum jurtum. Einfalt og bragðgott sem meðlæti eða snarl. Hvítlauksbrauðið passar fullkomlega með góðu pasta eða súpu og mun slá í gegn í matarboðinu.
Færsla dagsins er í samstarfi við Violife á Íslandi og ég notaði nýja smjörið og prosociano ostinn frá þeim í hvítlauksbrauðið. Við erum alltaf jafn spenntar fyrir því að vinna með Violife því vörurnar þeirra eru í miklu uppáhaldi hjá okkur!
Í hvítlauksbrauðinu er bakaður hvítlaukur. Allir sem fylgjast með TikTok og Instagram reels hafa líklega séð ótal myndbönd þar sem fólk bakar hvítlauk í ofni, pressar geirana út með fingrunum og notar í allskonar rétti. Ég hef vanalega gert hvítlauksbrauð með því að pressa hvítlaukinn beint út í smjörið en ég bara varð að prófa að baka hann í ofninum fyrst og sjá hvernig það kæmi út.
Útkoman var virkilega góð og hvítlaukurinn fær örlítið mildara og sætara bragð sem gerir hvítlaukssmjörið einstaklega gott. Ég notaði tvo heila hvítlauka og fannst það mjög passlegt í þessa uppskrift.
Ég setti ferskar jurtir í hvítlaukssmjörið og ákvað að nota basíliku og blaðsteinselju sem passa báðar virkilega vel við hvítlaukinn. Það má skipta jurtunum út fyrir sínar uppáhalds. Timían er örugglega mjög gott í hvítlauksbrauð t.d.
Það er auðvitað hægt að gera hvítlauksbrauð á mismunandi vegu en mér finnst alltaf best að skera rákir í brauðið og passa að skera ekki alveg niður. Með því helst brauðið saman og ég treð hvítlaukssmjörinu og prosociano ostinum á milli sem gerir brauðið svo ótrúlega mjúkt og “djúsí” að innan en stökkt og gott að utan. Fullkomið!
Eins og ég sagði hér að ofan finnst mér gott hvítlauksbrauð passa virkilega vel með góðum pastarétti eða súpu. Ég mæli með að gera brauðið með t.d. þessu gómsæta pestópasta eða uppáhalds tómatsúpunni minni.
Takk innilega fyrir að lesa og ég vona að þér líki uppskriftin vel! <3
-Helga María
Gómsætt vegan hvítlauksbrauð
Hráefni:
- 1 stórt baguette
- 150 gr vegan smjör frá Violife við stofuhita
- 2 heilir hvítlaukar
- 1/2 dl fersk blaðsteinselja
- 1/2 dl fersk basílika
- 1 msk ólífuolía (plús örlítið til að setja á hvítlaukinn fyrir ofninn)
- 1/2 tsk salt
- 2 msk rifinn vegan prosociano ostur frá Violife plús aðeins meira að toppa með (má sleppa eða hafa annan rifinn vegan ost í staðinn)
- Chiliflögur eftir smekk
Aðferð:
- Hitið ofninn í 200°c.
- Skerið toppinn af hvítlauknum, setjið á hann örlítið af salti og pipar og ólífuolíu og vefjið inn í álpappír. Bakið í 40-50 mínútur eða þar til hann hefur fengið fallegan lit.
- Setjið smjörið í skál ásamt restinni af hráefnunum og kreistið bakaða hvítlaukinn út í. Hrærið vel og passið að hvítlaukurinn blandist vel. Það er hægt að stappa hann aðeins fyrir svo hann maukist alveg örugglega.
- Skerið brauðið í sneiðar en skerið samt ekki alveg niður. Við viljum að brauðið haldist saman. Deilið hvítlaukssmjörinu í rifurnar og troðið aðeins meira af ostinum á milli. Smyrjið svo smjörinu sem safnast saman á köntunum ofan á brauðið.
- Bakið í 10-15 mínútur.
-Þessi uppskrift er unnin í samstarfi við Violife-