Ég og skjaldinn minn!
/Þetta er kafli 4 af ,,Ég ætla að breyta lífi mínu." Ég ætlaði að skrifa þessar færslur vikulega, en hef alls ekki staðið mig hvað það varðar. Hinsvegar ætla ég að reyna að gera betur því það er mjög margt sem mig langar að skrifa um.
Þessi færsla verður örlítið öðruvísi en þær þrjár sem komnar eru. Mig hefur lengi langað að skrifa um mína reynslu af því að lifa með vanvirkan skjaldkirtil, en tilhugsunin hefur á sama tíma oft verið yfirþyrmandi. Nú eru komnar nokkrar vikur síðan ég ákvað að breyta lífi mínu og eitt af því sem ég ákvað að gera í kjölfarið var að skrifa þessa færslu. Í dag finnst mér akkúrat réttur tími til þess og ég ætla því að líta til baka og rifja upp hvernig þetta allt byrjaði.
Árið 2013 upplifði ég ótrúlega margt, og í raun leið mér eins og 2013 væru 2 ár. Ég hætti í sambandi til margra ára, bjó á sófanum hjá vinkonu minni, byrjaði í nýrri vinnu, flutti í fyrsta skipti ein í íbúð og byrjaði svo í nýju sambandi. Lífið mitt tók miklum breytingum og ég breyttist og þroskaðist á sama tíma helling sem manneskja. Það var í lok ársins sem ég fór að finna fyrir ýmsum furðulegum líkamlegum og andlegum einkennum sem ég gat með engu móti skilgreint og áttaði mig því engan veginn á því hvað var í gangi. Mér fór að líða eins og ég væri alltaf þreytt. Ég hafði aldrei átt í vandræðum með að vakna snemma á morgnana, en skyndilega var það ekki bara erfitt, heldur sársaukafullt. Mér leið eins og ég gengi í svefni og hugsaði ekki um annað á daginn en hvað það yrði gott að komast undir sæng. Þreytan var þó ekki það eina sem hrjáði mig, en ég byrjaði líka að þyngjast virkilega hratt. Ég fann hvernig slit mynduðust um allan líkamann og fötin mín hættu fljótlega að passa á mig. Ég botnaði ekkert í þessu. Ég hafði engu breytt þegar kom að matarræðinu og ég gat ekki séð betur en að ég borðaði mjög næringarríkan og góðan mat.
Árið 2014 var erfiðasta ár sem ég hef lifað og þegar ég hugsa til baka sé ég minningarnar í einhverskonar móðu. Á þessum tíma snérist líf mitt um að halda mér vakandi yfir daginn og að reyna að stoppa þessa þyngdaraukningu sem virtist engan endi ætla að taka. Mér leið eins og ég væri með endalausa fyrirtíðaspennu og var rosalega viðkvæm. Við fórum til Barcelona yfir sumarið með tengdafjölskyldu minni og ég hef aldrei upplifað jafn mikla vanlíðan í utanlandsferð. Ég var orðin 20 kílóum þyngri en ég hafði verið tæpu ári áður, og þar sem ég hafði þyngst hratt, var maginn á mér þakinn rauðum slitum. Ég man að ég brotnaði niður í mátunarklefa fyrsta daginn þegar ég mátaði bikiní. Ég skildi ekki hvað var að koma fyrir mig og hvernig ég ætti að laga það.
Sama sumar vann ég á sambýli og ég skil varla að ég hafi komist í gegnum sumarið, því ég var bókstaflega búin á því, bæði líkamlega og andlega. Ég gat samt ekki talað um þetta við neinn, því ég skildi þetta ekki sjálf. Ég gat ekki séð að ég væri veik að nokkru leyti, nema þegar ég fékk magakrampa, sem voru eitt það versta sem ég hef nokkurn tíman gengið í gegnum. Þeir lýstu sér þannig að ég vaknaði um miðja nótt með magann fullan af lofti og ropandi endalaust. Þessu fylgdi sársauki sem var svo sterkur að ég vissi ekki hvernig ég ætti að lifa hann af. Ég fór á bráðamóttökuna nokkrum sinnum þetta sumar vegna magaverkjanna og mér var sagt að leita til sérfræðings, en þar sem verkurinn hætti alltaf nokkrum dögum seinna gerði ég ekkert í því.
Í desember 2014 fór ég í bústað með fjölskyldunni. Það var þá sem mamma mín sá að ekki var allt með felldu. Það fyrsta sem henni þótti óeðlilegt var þessi gríðarlega þyngdaraukning. Ég hafði aldrei átt í vandræðum með þyngdina mína og skyndilega var ég búin að þyngjast um 30 kíló á rúmu ári. Það sem olli henni þó mestum áhyggjum var að það var augljóst að mér leið alls ekki vel. Hún vissi af magakrömpunum, sem voru einnig eitthvað sem ég hafði aldrei gengið í gegnum áður, og svo vissi hún að það hafði liðið yfir mig á stofugólfinu heima fyrr um haustið. Ég hafði ekki hugsað mér að fara til læknis, enda sá ég enga ástæðu til þess. Ég var búin að ákveða að ég væri skyndilega orðin löt og dramatísk og svo væri ég greinilega að borða of mikinn hafragraut á morgnanna og þess vegna væri ég búin að þyngjast svona. Ég sá ekki hvernig læknir gæti hjálpað mér með þetta. Sem betur fer var hún ákveðin og dró mig með sér á heilsugæsluna vikuna eftir. Læknirinn skoðaði mig og ég sagði honum frá öllum einkennunum. Hann sagði að honum þætti þetta hljóma svolítið eins og vanvirkur skjaldkirtill, en sagði mér að vera ekki of vongóð (eins og ég væri virkilega að láta mig dreyma um vanvirkan skjalda.)
Ég var í vinnunni þegar ég fékk símtalið. Mér var tjáð að skjaldkirtillinn minn væri vanvirkur sem væri skýringin á öllu því sem ég hefði verið að upplifa síðasta árið, þreytunni, skapsveiflunum, meltingavandamálunum, þyngdaraukningunni og orkuleysinu. Læknirinn sagði að ég yrði sett á Levaxin og það myndi hjálpa mér að verða aftur ég sjálf. Ég var í skýjunum. Mér var eiginlega alveg sama þó ég væri með þennan sjúkdóm, og vissi svosem lítið um hann. Ég vildi bara fá lífið mitt til baka. Á nokkrum vikum var ég orðin laus við mörg af einkennunum. Ég var farin að geta vaknað auðveldlega á morgnanna, og hætt að þurfa að leggja mig yfir daginn. Skapið var orðið stöðugra og mér leið almennt mun betur. Þyngdaraukninginn hélt þó áfram og voru það mikil vonbrigði. Það var ekki fyrr en hálfu ári eftir að ég byrjaði að taka lyfin sem ég hætti að þyngjast. Það gæti mörgum þótt undarlegt að ég tali svona mikið um þyngdaraukninguna, en það að hafa þyngst svona mikið hefur haft mun meiri áhrif á lífið mitt en ég hefði nokkurtíman getað ímyndað mér. Ég hef aldrei upplifað jafn mikið sjálfshatur og á síðustu árum. Allt sem mér þótti svo eðlilegt áður fór að verða erfitt. Það að fara í partý snérist ekki lengur um að gera sig sæta og hafa gaman, heldur upplifði ég mikinn kvíða og stress yfir því að finna mér föt til að fara í sem pössuðu og hræðslu við að hitta einhvern sem ég hafði ekki hitt frá því áður en þetta allt byrjaði. Við höfum flest heyrt fólk segja eitthvað á borð við ,,Guð, ég hitti X um daginn og ég þekkti hana ekki. Hún er búin að fitna svo mikið að hún lítur út eins og önnur manneskja. Hvernig getur fólk látið þetta gerast, þetta er svo óheilbrigt." Ég óttaðist það stöðugt að fólk talaði svoleiðis um mig. Ég lenti líka stundum í því að hitta gamla vini og ef skjaldkirtillinn kom í tal sagði það ,,Já okei, það hlaut að vera. Ég var alveg mjög hissa að sjá hvað þú værir búin að fitna mikið" eða ,,Ah já okei, ég var að spá hvort þú værir kannski ólétt." Mér þótti þetta gríðarlega erfitt og ósanngjarnt. Mér fór að líða eins og ég væri fórnarlamb sjúkdómsins og hætti að þekkja sjálfa mig þegar ég leit í spegil. Mér hætti að þykja gaman að fara eitthvað fínt og kveið fyrir sumrinu, því ég vildi ekki þurfa að vera léttklædd. Ég hélt þó áfram að næra mig og hugsa um matarræðið því innst inni hafði ég von um að þetta gæti lagast og ég gæti orðið ég sjálf aftur.
Það var svo síðasta vor sem ég áttaði mig á því að lífið mitt hafði verið á "hold" í langan tíma. Ég hafði eytt tveimur árum í að bíða eftir því að fá lífið mitt til baka en áttaði mig svo á því að lífið mitt var beint fyrir framan nefið á mér allan tímann. Ég einfaldlega hafði neitað að horfast í augu við það að lífið mitt er það sem það er akkúrat núna og ég get ákveðið hvernig ég vil lifa því. Eins hafði ég eytt löngum tíma í að bíða eftir að verða ég sjálf aftur, en ég sjálf er engin önnur en sú sem ég er akkúrat núna. Það var erfitt að horfast í augu við þessa hluti, og þá aðallega að viðurkenna hversu eitrað hugarfar ég hafði haft til sjálfrar mín. Hvernig ætlaði ég að verða heilbrigð og hamingjusöm ef mér þótti ekki einu sinni vænt um mig? Á þeirri stundu setti ég mér það markmið að læra að elska sjálfa mig og hætta að brjóta mig niður með orðum og hugsunum.
-Svona myndir hefði ég aldrei tekið af mér fyrir ári síðan, en á fyrri myndinni er ég klædd sundbol á leiðinni í pottinn heima hjá tengdó og á seinni myndinni er ég klædd nýju gallabuxunum mínum og nýjum stuttermabol á leið út í sólina.-
Síðan ég tók þessa ákvörðun sé ég mig og lífið mitt með allt öðrum augum. Vissulega á ég mína slæmu daga og get gleymt mér og oft verð ég að muna að stoppa og minna sjálfa mig á að svona hugsanir hjálpa mér ekkert. Ég ætlaði ekki að skrifa um þessa reynslu fyrr en ég væri orðin ótrúlega heilbrigð og gæti komið með þessa hefðbundnu "success" sögu. Það rann síðan upp fyrir mér að það er gríðarlega mikilvægt að heyra líka frá fólki sem er að ströggla og hefur ekki náð 100% bata. Mig langar heldur ekki að boðskapurinn í minni frásögn sé sá að lífið sé ömurlegt þegar við erum í yfirþyngd en svo sé lífið vandræðalaust þegar maður hefur náð að grennast aftur. Eins má segja að ég hafi fengið hálfgerða hugljómun fyrir nokkrum vikum þegar ég fór til Póllands með kórnum mínum. Ég hafði upplifað þessa hræðslu við það að fara eitthvert þar sem heitt væri í veðri og vita ekkert hvernig ég ætti að klæða mig þarna án þess að líða óþægilega með sjálfa mig. Í ferðinni kynntist ég tveimur frábærum stelpum úr kórnum sem eru í svipaðri stærð og ég, og glíma báðar við skjaldkirtilsvandamál. Ég tók strax eftir því í ferðinni að þær klæddu sig nákvæmlega eins og þeim þótti flott og voru báðar bara þvílíkar skvísur. Þær virtust eiga helling af geggjuðum samfestingum, buxum og kjólum á meðan ég klæddi mig í minn hefðbundna síða, víða svarta bolakjól og leggins við. Þær skammast sín ekkert fyrir stærðina sem þær nota og sögðust panta mikið af fötum á netinu þar sem hægt væri að velja "curvy" stærðir. Síðan ég kom heim úr þessari ferð hefur mér liðið allt öðruvísi gagnvart sjálfri mér og hef klætt mig öðruvísi líka. Ég keypti mér gallabuxur í stærð 52 og ákvað að skammast mín ekkert þó þær væru í "stærri stærð." Ég hef klædd mig í stuttermaboli og ákveðið að þykja vænt um handleggina mína sem ég hef eytt nokkrum árum í að fela í hvert skipti sem ég er í kringum fólk. Í fyrsta sinn í mörg ár hef ég áttað mig á því að ég get vel verið skvísa og ákvað því að héðan í frá er ég hætt að fela mig fyrir sjálfri mér og öðrum.
Lífið er núna og það bíður ekki.
Helga María