Rjómalöguð vegan sveppasúpa
/Hvað er betra á köldum vetrardegi en rjómalöguð vegan sveppasúpa?! Ég ELSKA að gera góðar súpur og oftar en ekki verður sveppasúpa fyrir valinu hjá mér. Sveppir, rjómi, skallotlaukur, hvítlaukur, hvítvín, timían. Dásamlegt!
Þessa súpu er einfalt að útbúa og hún hentar bæði sem hversdagsmatur eða við fínni tilefni. Ég geri hana oft þegar ég vil bjóða upp á góða súpu í veislu eða matarboði og svo er ég vön að útbúa hana sem forrétt á aðfangadagskvöld.
Það er eitthvað við blönduna af sveppum, rjóma og hvítvíni. Hún slær alltaf í gegn hjá mér, hvort sem um er að ræða sósur, súpur eða gómsætan pastarétt.
Timían þykir mér svo algjört “möst” í súpuna. Það er að sjálfsögðu ekkert mál að sleppa því ef ykkur finnst það ekki gott, en mér finnst það gefa súpunni virkilega gómsætt bragð.
Mörgum þykir gott að blanda súpuna í matvinnsluvél eða blandara en persónulega finnst mér gott að hafa hana þykka og með sveppabitum.
Ég ber súpuna alltaf fram með góðu brauði. Þetta brauð finnst mér gott að baka með súpunni þegar ég er í stuði.
Gómsæt rjómalöguð vegan sveppasúpa
Hráefni:
50 gr smjörlíki
1 msk olía
4 skallotlaukar
2-3 hvítlauksgeirar
500 gr sveppir
1 dl hvítvín
4 msk hveiti
1 til 2 greinar ferskt timían
1 tsk þurrkað timían
salt og pipar
1 sveppateningur
1 -2 grænmetisteningar
1 msk sojasósa
300 ml vatn
500 ml vegan mjólk (helst ósæt. Ég nota Oatly haframjólk)
300-400 ml vegan matreiðslurjómi
Salt og pipar eftir smekk
Aðferð:
Setjið smjörlíki og olíu og pönnu.
Saxið lauk og steikið á pönnu þar till hann hefur mýkst.
Pressið hvítlaukinn og setjið á pönnuna og steikið í 2-3 mínútur.
Sneiðið sveppina og bætið út á pönnuna og steikið þar til þeir hafa mýkst og tekið á sig smá lit.
Bætið timían út í.
Hellið víninu yfir og leyfið því að malla í nokkrar mínútur
Stráið hveitinu yfir sveppina og hrærið. Þetta mun verða mjög þykkt.
hellið vatninu út í smám saman og hrærið á meðan svo ekki myndist kekkir.
Myljið sveppakraftinn og grænmetiskraftinn út í svo þeir leysist vel upp.
Hellið mjólkinni og sojasósunni út í og leyfið súpunni að malla í 15-20 mínútur. Smakkið súpuna og sjáið hvort eitthvað vantar af kryddi.
Bætið að lokum rjómanum út í, látið suðuna koma upp og takið þá af hellunni.
Látið súpuna malla í 15-20 mínútur áður en rjóminn fer útí. Á þessu stigi er fínt að smakka súpuna og sjá hvort vantar meira af kryddum.
Ef gera á súpuna daginn áður, líkt og við gerum t.d. oft á jólunum, er fínt að bíða með að setja rjómann útí þar til hún er hituð upp rétt áður en það á að borða hana.
Berið fram með góðu brauði.
Takk fyrir að lesa og vonandi smakkast vel!
-Helga María