Vegan steikarsamloka með grilluðu tófú, hrásalati og bjórsteiktum lauk

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að hinni fullkomnu vegan steikarsamloku með grilluðu tófú, piparmajó, hrásalati og bjórsteiktum lauk. Samlokan er tilvalin að gera fyrir sumargrillveisluna eða taka með sér í lautarferð. Þetta er samloka sem allir elska, hvort sem viðkomandi er vegan eða ekki. Ég mæli með því að bera hana fram með góðum frönskum og þessa dagana er ég með æði fyrir vöfflufrönskum.

Uppskrift dagsins er í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefnin í hana þar. Í Krónunni er mikið úrval af vegan mat og hægt að fá allt sem þarf fyrir vegan grillveisluna þar, hvort sem það er fyrir forrétt, aðalrétt, meðlæti eða eftirrétt.

Grillaða tófúið er aðalpersónan í þessari uppskrift. Það er einstaklega gott og hægt að bera fram með nánast hverju sem er. Ef ég er ekki í stuði til að gera samloku finnst mér gott að borða það með grilluðum kartöflum, hrásalati, góðri sósu og salati. Leyndarmálið er að leyfa tófúinu að marínerast í allavega klukkutíma. Ég reyni að pressa það í viskastykki í sirka klukkutíma og hafa það svo í maríneringunni í 3-4 tíma svo það dragi í sig sem mest bragð.

Þetta hljómar kannski tímafrekt en í raun krefst þetta ekki mikillar fyrirhafnar. það tekur enga stund að hræra saman maríneringunni en það er tíminn á milli sem er lengri. Og trúið mér, það er þess virði að gera þetta tímanlega því tófúið verður svo ótrúlega gott.

Á samlokunni er:

Grillað tófú
piparmajó
hrásalat
klettasalat
tómatur
bjórsteiktur laukur.

Þetta er guðdómlega gott og djúsí. Ekta steikarsamloka sem sannar fyrir öllum að vegan grillmatur sé alls ekki síðri öðrum grillmat. Viljiði uppskriftir af góðu grillmeðlæti? Þá mæli ég með þessari færslu sem er stútfull af góðum hugmyndum.

Takk fyrir að lesa og vonandi smakkast vel!

-Helga María

Vegan steikarsamloka með grilluðu tófú

Vegan steikarsamloka með grilluðu tófú
Fyrir: 3-4
Höfundur: Helga María

Hráefni:

Grillað tófú
  • 1 stk tófú, ca 400-500 gr. (passið að kaupa ekki silken tófú vegna þess að það virkar alls ekki fyrir svona uppskrift)
  • 2 dl sojasósa
  • 3 hvítlauksgeirar
  • 2 msk ólífuolía
  • 1 msk hlynsíróp
  • Safi úr 1/2 sítrónu
  • 1 tsk timían
  • Smá chiliflögur (má sleppa)
  • Brauð fyrir samlokurnar
Köld piparsósa:
  • 1 dl oatly sýrður rjómi eða hreint sykurlaust vegan jógúrt
  • 1 dl vegan Krónu majónes
  • 2 tsk grófmalaður svartur pipar
  • 1/2 tsk laukduft
  • 1/2 tsk salt
Hrásalat
  • 300 gr rifið hvítkál
  • 200 gr rifnar gulrætur
  • 1 lítill rauðlaukur
  • 1 dl vegan krónumajónes
  • 1 dl oatly sýrður rjómi
  • 1 tsk dijonsinnep
  • 1 tsk eplaedik
  • 1/2 tsk salt
  • Svartur pipar eftir smekk
Bjórsteiktur laukur
  • 3 stórir laukar
  • Olía að steikja upp úr
  • 2 msk sykur
  • 2 msk soyasósa
  • salt og pipar
  • 1/2 dl bjór (ég mæli með peroni libero áfengislausa bjórnum sem er til í Krónunni)

Aðferð:

Grillað tófú:
  1. Takið tófúið úr umbúðunum og kreistið létt svo þið fáið út aðeins af vökvanum. Vefjið tófústykkinu inn í eldhúspappír eða viskastykki og leggið eitthvað þungt yfir, t.d. stóra bók eða pönnu. Leyfið að standa í sirka klukkutíma.
  2. Hrærið saman maríneringunni og hellið í box eða stóra skál. Skerið tófúið í 4 sneiðar og leggið í maríneringuna og leyfið að marínerast í minnst klukkustund. Ég reyni að leyfa því að sitja í maríneringunni í 3-4 tíma svo tófúið dragi í sig sem mest bragð.
  3. Græjið restina af hráefnunum á meðan þið bíðið svo að ekki þurfi að gera meira þegar kemur að því að grilla tófúið.
Köld piparsósa
  1. Hrærið öllu saman í skál.
Hrásalat:
  1. Rífið hvítkálið með ostaskerara.
  2. Rífið gulræturnar.
  3. Skerið laukinn í þunna strimla.
  4. Setjið í skál og hrærið restinni af hráefnunum saman við.
Bjórsteiktur laukur
  1. Skerið laukana í frekar þunnar sneiðar.
  2. steikið laukinn upp úr smá olíu þar til hann fer að brúnast vel.
  3. Bætið salt og pipar, sykri og soyasósu og steikið í nokkrar mínútur í viðbót.
  4. Bætið bjórnum útí og steikið í góðar 5 til 10 mínútur.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

-Færslan er unnin í samstarfi við Krónunna-

 
 

Vegan bláberjamöffins með mulningi

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af dúnmjúkum og flöffí bláberjamöffins með stökkum mulningi ofan á. Þessar möffins eru fullkomnar í ferðalagið, afmælisveisluna, sunnudagskaffið eða lautarferðina svo eitthvað sé nefnt. Varstu í berjamjó og veist ekkert hvað þú átt að gera við öll bláberin sem þú tíndir? Þá ertu á réttum stað!

Færsla dagsins er í samstarfi við Naturli á Íslandi og í möffinskökurnar notaði ég bæði smjörlíkið frá þeim og vanillujógúrtina. Við systur notum vörurnar frá Naturli mikið í bæði matargerð og bakstur og erum alltaf jafn stoltar af því þegar við vinnum með þeim.

Framundan er tími berjatínslu og við systur erum mjög spenntar að deila með ykkur allskonar bláberjauppskriftum. Fersk bláber eru svo ómótstæðilega góð í bakstur, hvort sem það eru tertur, pönnukökur, bláberjabökur eða einmitt þessar gómsætu möffins.

Ég nota vanillujógúrtina frá Naturli (joe’ kurt) í möffinskökurnar og jógúrtin gefur þeim bæði gott vanillubragð og gerir þær dúnmjúkar. Ég bakaði oft jógúrtmöffins þegar ég var barn og þessar gómsætu möffins minna mig mjög mikið á þær.

Ef þér líkar þessar möffins mælum við með því að prófa þessar geggjuðu kanilmöffins líka

Að lokum er það mulningurinn, toppurinn, krömblið, krönsið. Punkturinn yfir i-ið ef ég má ganga svo langt. Toppurinn fullkomnar dúnmjúkar möffinskökurnar að mínu mati, svo gómsætur og stökkur. Ég geri hann úr smjörlíki, hveiti og sykri og strái yfir deigið áður en ég baka möffinskökurnar. Svo dásamlega gott!

Spurningar og svör:

  1. Má nota frosin bláber í staðinn fyrir fersk?
    Svar: Já, ég hef gert kökurnar með frosnum bláberjum og það eina sem þarf að hafa í huga er að það tekur aðeins lengri tíma að baka þær því berin eru svo köld.

  2. Þarf að nota sojamjólk?
    Svar: Sko, nei í rauninni ekki. EN ég blanda saman sojamjólk og eplaediki og leyfi að standa í nokkrar mínútur þar til hún þykknar. Þetta finnst mér gera kökurnar enn mjúkari, og eplaedikið hefur ekki sömu áhrif á t.d. haframjólk, en ég hef prófað að baka þær með haframjólk og þær komu líka mjög vel út svoleiðis.

  3. Má frysta möffinskökurnar?
    Svar: Já, ég mæli mjög mikið með því að gera það. Það er fátt betra en að eiga möffins í frystinum og geta tekið út hvenær sem er.

Takk innilega fyrir að lesa og ég vona að ykkur líki vel. Ef þið prófið að gera þessa uppskrift eða einhverja aðra af blogginu, munið að tagga okkur á Instagram, það gleður okkur alltaf svo ótrúlega mikið.

Vegan bláberjamöffins

Vegan bláberjamöffins
Höfundur: Helga María

Hráefni:

  • 100 gr smjörlíki frá Naturli
  • 2.5 dl sykur
  • 2 msk matarolía
  • 1 tsk vanilludropar
  • 1 dl Joe' kurt vanillujógúrt frá Naturli
  • 1 dl sojamjólk + 1 msk eplaedik (leyfið að standa í 10 mín)
  • 300 gr (5 dl) hveiti. Ef þið mælið í dl munið að þjappa hveitinu ekki í dl málið.
  • 1/2 tsk salt
  • 1 msk lyftiduft
  • 200 gr bláber + 1 msk hveiti
Krömbl
  • 65 gr Naturli smjörlíki
  • 1.5 dl hveiti
  • 1 dl sykur

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°c á undir og yfir hita
  2. Blandið saman sojamjólk og eplaediki og leggið til hliðar
  3. Bræðið smjörlíkið og hellið í skál ásamt olíu og sykri og hrærið saman með písk
  4. Bætið jógúrt, vanilludropum og sojamjólkinni saman við og hrærið
  5. Hrærið saman í aðra skál hveiti, lyftidufti og salti og sigtið svo saman við blautu hráefnin og hrærið þar til deig myndast en passið að hræra eins lítið og þið mögulega þurfið svo kökurnar verði ekki þurrar.
  6. Setjið bláberin í skál og stráið yfir 1 msk hveiti og veltið berjunum upp úr því. Þetta gerum við svo berin sökkvi ekki á botninn á kökunum.
  7. Bætið saman við deigið og hrærið saman við með sleikju.
  8. Deilið deiginu í sirka 12 pappírs möffinsform. Ég mæli mikið með að setja formin í möffins ofnform (sjá myndir að ofan). Þetta gerir það að verkum að kökurnar halda forminu vel.
  9. Stráið krömblinu yfir (aðferð hér að neðan) og bakið í 20-30 mínútur eða þar til kökurnar hafa fengið gylltan lit að ofan og tannstöngull kemur hreinn út þegar stungið er í þær (fyrir utan að hann kemur mögulega blár út). Byrjið að fylgjast með kökunum eftir 20 mínútur. Það fer bæði eftir því hvernig ofn þið eigið og hvort þið notið frosin eða fersk ber hversu langan tíma það tekur að baka kökurnar.
Krömbl
  1. Bræðið smjörlíkið og hellið í skál
  2. Bætið saman við það hveiti og sykri og blandið með höndunum þar til það verður að nokkurskonar mylsnu.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Naturli á Íslandi-

 
 

Rjómaostasnúðar með rauðu pestói

Í dag deilum við með ykkur dásamlegum rjómaostasnúðum með rauðu pestói. Þessir snúðar eru ótrúlega einfaldir en ekkert smá mjúkir og gómsætir. Þeir henta fullkomlega til að eiga í nesti í útileguna, skólan eða bara með kaffinu. Það má leika sér með þessa uppskrift á ótal vegu og hægt er að setja nánast hvað sem hugurinn girnist sem fyllingu í snúðana.

Ég elska að baka sætar kökur, muffins og snúða með kaffinu en oft gleymi ég hvað er ótrúlega gaman að baka ósætt bakkelsi, líkt og þessa dásamlegu snúða. Það er svo fullkomið í kaffitímanum eða í nesti, þegar manni langar ekki endilega bara í eitthvað sætt. Mér finnst einhvern veginn alltaf meiri matur í ósætu bakkelsi. Þessir snúðar eru akkúrat þannig, ég geri þá frekar stóra svo það sé hægt að borða einn og verða ágætlega saddur af honum.

Ég hef síðan ég var barn ELSKAÐ rautt pestó og borðaði það oft eintómt ofan á brauð þegar ég var krakki, sem er kannski örlítið furðulegt, en það skiptir svo sem ekki máli. Ég nota það þó mikið í dag til að bragðbæta alls kyns hluti og er rauða vegan pestóið frá Sacla Italia í mjög miklu uppáhaldi hjá mér, hvort sem það er í pastarétti, súpur, eða í baksturinn. Pestóið hentar fullkomlega með vegan rjómaosti og verða snúðarnir svo mjúkir og djúsí með þessari fyllingu.

Ég baka oft snúðana í eldföstu móti þar sem þeir koma svo fallega út en það má einnig baka þá staka á ofnplötu og hentar það kannski betur ef það á til dæmis að frysta eitthvað af þeim til að geyma. Ég geri oft minni snúða úr helmingnum af deiginu til að eiga í frysti og geta gripið þegar mér vantar eitthvað til að taka með mér eða ef ég fæ óvænta gesti. Það er ekkert þægilegra en að vera með bakkelsi í frysti sem er hægt að henda í ofninn í nokkrar mínútur þegar fólk kemur í heimsókn.

Rjómaostasnúðar með rauðu pestói

Rjómaostasnúðar með rauðu pestói
Höfundur: Júlía Sif
Undirbúningstími: 2 HourEldunartími: 20 Min: 2 H & 20 M

Hráefni:

  • 5 dl plöntumjólk
  • 100 gr vegan smjör eða smjörlíki
  • 1 pakki þurrger
  • 1 tsk sykur
  • 1/2 tsk salt
  • 11-12 dl hveiti
  • 200 gr vegan rjómaostur (t.d. Sheese eða oatly)
  • 1 krukka rautt vegan pestó frá Sacla Italia
  • 2 msk plöntumjólk
  • 1-2 msk beyglukrydd (t.d. sesamgaldur frá pottagöldrum)

Aðferð:

  1. Hitið ofnin í 220°C
  2. Byrjið á því að bræða smjörlíki og bæta síðan mjólkinni út í og saman þar til það er sirka við líkamshita.
  3. Stráið þurrgerinu yfir og sykrinum síðan yfir það og leyfið því að bíða í um 5 mínútur. Þurrgerið ætti aðeins að fara að freyða.
  4. Bætið saltinu og hveitinu saman við og hnoðið saman þar til allt deigið hefur losnað frá skálinnni. Byrjið á því að setja 11 dl af hveiti og bætið síðan út í eftir þörfum.
  5. Leyfið deiginu að hefast í skálinni í u.þ.b. 40 mínútur.
  6. Fletjið deigið út, smyrjið rjómaostinum yfir ásamt pestóinu. Rúllið þétt upp og skerið í bita í þeirri stærð sem hver og einn kýs.
  7. Raðið á plötu eða í eldfast mót og pressið aðeins niður á hvern og einn snúð. Leyfið þeim síðan að hefast í 20 mínútur í viðbót.
  8. Smyrjið smá plöntumjólk á hvern snúð og dreyfið beyglukryddinu yfir.
  9. Bakið í 17 til 20 mínútur eða þar til þeir verða fallega gylltir ofan á.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Sacla Italia á Íslandi -

 
 

Mjúkt og gott vegan bananabrauð með valhnetum

Hæhæ!

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að dásamlega góðu og dúnmjúku vegan bananabrauði með vanhnetum. Það er svosem alveg hægt að kalla þetta bananaköku þar sem það er mun meira í þá áttina, en að einhverri ástæðu hefur nafnið bananabrauð fests svo við höldum okkur við það. Ég ber mitt fram með góðu vegan smjöri og ætli það dugi ekki til að kalla það brauð?!

Hvort sem þú vilt kalla það bananabrauð eða bananaköku skiptir ekki miklu máli, það sem er mikilvægast er að bananabrauðið er dúnmjúkt og bragðast svoo vel. Í uppskriftina notaði ég valhnetur en viku seinna bakaði ég það aftur og skipti þeim út fyrir saxað dökkt súkkulaði. Ég get viðurkennt að mér fannst það ennþá betra með súkkulaði þó það sé að sjálfsögðu virkilega gott með hnetunum!

Ég er ein af þeim sem eiga oft til brúna banana heima og segjast alltaf vera á leiðinni að skella í bananabrauð en koma sér aldrei í það. Héðan í frá mun það ekki gerast aftur. Þessi uppskrift er svo einföld að það er eignilega hlægilegt. Það er hægt að deila deiginu í muffinsform ef maður vill baka það ennþá hraðar. En ég mun aldrei láta banana fara til spillis framar. Nú á ég nokkrar sneiðar af þessu gómsæta brauði í frystinum og það er ekkert jafn gott og að geta tekið út eins og tvær sneiðar þegar maður er í stuði.

Deigið í bananabrauðið er hrært með höndunum svo það er engin þörf á að nota hrærivél. Ég byrja á því að hræra saman sykur, olíu, mjólk, eplaedik, vanilludropa og stappaða banana og sigta svo þurrefnin saman við.

Að lokum bæti ég við niðurskornum valhnetum og hræri samanvið með sleikju. Það er ekkert mál að skipta valhnetunum út fyrir aðrar tegundir af hnetum eða fræjum, rúsínur eða súkkulaði eins og ég nefndi hér að ofan. Það má að sjálfsögðu líka sleppa þeim alveg, bananabrauðið verður alveg jafn gott þrátt fyrir það.

Takk innilega fyrir að lesa og ég vona að þér líki vel!

-Helga María

Vegan bananabrauð með valhnetum

Vegan bananabrauð með valhnetum
Höfundur: Helga María

Hráefni:

  • 4,5 dl hveiti (280 g)
  • 1 dl sykur (100 g)
  • 1/2 dl púðursykur (50 g)
  • 1 tsk matarsódi
  • 1,5 tsk lyftiduft
  • 1/2 tsk salt
  • 2 dl vegan mjólk
  • 1 tsk vanilludropar
  • 3 stórir 4 minni þroskaðir bananar
  • 1 msk eplaedik
  • 1 dl matarolía
  • 1 dl niðurskornar valhnetur (má sleppa eða skipta út fyrir t.d. aðrar hnetur, fræ, rúsínur eða súkkulaði)

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 175°c undir og yfir hita.
  2. Hrærið saman olíu, vanilludropa, eplaedik, sykur og púðursykur í skál.
  3. Stappið banana með gaffli og bætið út í skálina og hrærið saman við.
  4. Hrærið saman hveiti, lyftiduft, matarsóda og salt í aðra skál.
  5. Sigtið þurrefnin ofan í skálina með blautu hráefnunum og hrærið.
  6. Skerið niður valhnetur (eða annað ef þið viljið skipta þeim út. Má líka sleppa alveg) og hrærið varlega saman við með sleikju.
  7. Hellið deiginu ofan í brauðform klætt með smjörpappír og bakið í 50-60 mínútur eða þar til pinni sem stungið er í kemur hreinn út. Byrjið að fylgjast með brauðinu reglulega eftir 40 mínútur.
  8. Njótið!!
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur