Vegan hakk og spaghetti

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að dásamlega góðu vegan hakki og spaghetti. Þetta er hinn fullkomni hversdagsmatur að okkar mati þar sem það tekur enga stund að útbúa hann og það er auðvelt að útbúa stóran skammt og eiga í afgang.

Uppskriftin er gerð í samstarfi við Anamma og við notuðum hakkið frá þeim í hana. Við erum alltaf jafn glaðar að fá að vinna með Anamma því við elskum vörurnar frá þeim og notum þær mikið í okkar matargerð.

Hakk og spagettí er klassískur heimilsmatur og ætli það séu ekki öll heimili með sína uppáhalds uppskrift sem alltaf er fylgt. Hakk og spagettí er einnig réttur sem er fullkominn réttur til að bjóða fólki upp á sem er svolítið efins með kjötlausa lífsstílinn. Ég hef boðið fólki upp á það sem fattaði alls ekki að um væri að ræða vegan hakk.

Okkur finnst virkilega gott að hafa rjómaost og smá pestó í sósunni. Það gerir hana svo rjómakennda og góða. Við mælum virkilega með því að prófa. Ólífur eru einnig algjört möst að okkar mati, en við vitum vel að það eru skiptar skoðanir á því, svo við skiljum vel ef þið veljið að sleppa þeim hehe. Það tekur enga stund að skella í þessa bragðgóðu og mettandi hakksósu.

Við toppum svo yfirleitt með vegan parmesanosti eða heimagerðum kasjúhnetuparmesan. Uppskrift af honum finnurðu hér að neðan.

Ertu að leita að fleiri góðum pastaréttum? Prófaðu þá:

Ofnbakað gnocchi bolognese

Vegan rjómalagað sítrónupasta

Ofnbakaður pastaréttur með kúrbít, pestó og rjómaosti

Takk innilega fyrir að lesa og við vonum að þér líki uppskriftin

-Veganistur

Gómsætt vegan hakk og spaghetti

Gómsætt vegan hakk og spaghetti
Fyrir: 4
Höfundur: Veganistur
Undirbúningstími: 5 MinEldunartími: 15 Min: 20 Min
Dásamlega gott vegan hakk og spaghetti. Þetta er hinn fullkomni hversdagsmatur að okkar mati þar sem það tekur enga stund að útbúa hann og það er auðvelt að útbúa stóran skammt og eiga í afgang.

Hráefni:

Vegan hakk og spaghetti
  • 2 msk ólífuolía
  • 1/2 laukur
  • 2 hvítlauksrif
  • 1 msk oregano
  • 1 msk þurrkuð basilíka
  • 1/2 msk salt
  • 1 pakki anamma hakk
  • 400 ml tomat passata (maukaðir tómatar)
  • 1 lítil dós tómatpúrra
  • 1 kúfull msk rautt vegan pestó
  • 150 gr vegan rjómaostur
  • 1 grænmetisteningur
  • 350 gr ósoðið spaghetti
Heimagerður parmesan toppur
  • 1 dl kasjúhnetur
  • 2 msk næringarger
  • 2 tsk salt
  • 1 tsk laukduft

Aðferð:

Vegan hakk og spagettí
  1. Byrjið á því að sjóða pastað eftir leiðbeiningum á pakkningunum.
  2. Saxið niður laukinn og pressið hvítlaukinn.
  3. Hitið olíuna í smá stund á pönnu og mýkið síðan laukinn. Bætið kryddunum og hakkinu saman við og steikið þar til hakkið er nánast tilbúið.
  4. Bætið restinni af hráefnunum út í og hrærið vel svo rjómaosturinn blandist vel saman við. Sjóðið kjötsósuna í sirka 5 mínútur.
  5. Berið fram með baguette brauði og parmesan toppinum
Heimagerður parmesan toppur
  1. Setjið öll hráefnin í blandara eða matvinnsluvél og malið saman.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið #veganistur

-Uppskriftin er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi-

 
 

Heimsins besta vegan gulrótarkaka með rjómaostakremi

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að hinni fullkomnu gulrótarköku. Hún slær í gegn í hvert skipti sem við bökum hana, enda er hún dúnmjúk, ómótstæðilega bragðgóð og toppuð með rjómaostakremi sem er ávanabindandi. Það er einnig virkilega einfalt að baka hana og enn einfaldara að háma hana í sig.

Í þetta sinn bakaði ég kökuna í skúffuformi sem er 42x29x4 cm. Það er þó ekkert mál að baka hana í tveimur 24 cm hringlaga formum. En ég elska allt sem er fljótlegt og einfalt svo ég baka oftast í þessu stóra formi, sérstaklega ef ég er að baka fyrir hóp af fólki. Ég veit vel að þriggja hæða tertur eru mun fallegri, en það er miklu minna vesen að baka, bera fram og borða kökur gerðar í skúffuformi. Svo ég vel þægindin yfirleitt fram yfir útlit. Ég vil taka það fram að hér er Helga að skrifa því Júlía er, eins og þið flest vitið, meistari í að gera fallegar margra hæða tertur.

Ég lýg ekki þegar ég segi að þessi kaka slær í gegn hvar sem hún er borin fram. Ég birti hana fyrir yfir ári síðan á sænska blogginu mínu og hún hefur verið langvinsælasta uppskriftin þar síðan. Ég vona að hún hitti í mark hjá ykkur líka.

Ef þið hafið áhuga á að baka fleiri góðar kökur mæli ég með eftirfarandi:

Vegan rjómaterta með jarðarberjum

Klassíska súkkulaðitertan okkar (hér sjáum við dæmi um hversu fallegar kökur Júlía bakar. Ég baka þessa uppskrift yfirleitt í skúffuformi heh)

Stór súkkulaðibitakaka með karamellusósu

Takk innilega fyrir að lesa og ég vona að ykkur líki uppskriftin!

-Helga María

Heimsins besta vegan gulrótarkaka

Heimsins besta vegan gulrótarkaka
Fyrir: 10-12
Höfundur: Helga María
Hin fullkomna gulrótarköka. Hún slær í gegn í hvert skipti sem við bökum hana, enda er hún dúnmjúk, ómótstæðilega bragðgóð og toppuð með rjómaostakremi sem er ávanabindandi. Það er einnig virkilega einfalt að baka hana og enn einfaldara að háma hana í sig.

Hráefni:

  • 7.5 dl hveiti
  • 3.5 dl sykur
  • 2 tsk lyftiduft
  • 2 tsk matarsódi
  • 1 tsk salt
  • 2 msk kanill
  • 5 dl vegan mjólk (ég notaði haframjólk)
  • 6 dl rifnar gulrætur
  • 1.5 tsk vanilludropar
  • 1.5 msk eplaedik
  • 1.5 dl bragðlaus matarolía
Rjómaostakrem
  • 200 gr vegan rjómaostur
  • 100 smjörlíki við stofuhita
  • 500 gr flórsykur
  • 2 tsk vanilludropar

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 180°c.
  2. Hellið olíu og sykri í stóra skál og hrærið.
  3. Bætið restinni af blautu hráefnunum við og hrærið saman.
  4. Bætið þurrefnunum við og hrærið þar til deigið er laust við kjekki.
  5. Bætið rifnum gulrótum út í og hrærið varlega saman við með sleikju.
  6. Hellið í annaðhvort skúffuform klætt smjörpappír (mitt er 42x29x4 cm) eða tvö 24 cm hringlaga form.
  7. Bakið í 20-30 mínútur eða þar til kökupinni kemur hreinn út.
  8. Látið kökuna kólna og gerið kremið á meðan.
  9. Gerið kremið með því að hræra hráefnunum saman í hrærivél og setjið á kökuna þegar hún hefur kólnað.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið #veganistur