Heimsins besta vegan gulrótarkaka með rjómaostakremi

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að hinni fullkomnu gulrótarköku. Hún slær í gegn í hvert skipti sem við bökum hana, enda er hún dúnmjúk, ómótstæðilega bragðgóð og toppuð með rjómaostakremi sem er ávanabindandi. Það er einnig virkilega einfalt að baka hana og enn einfaldara að háma hana í sig.

Í þetta sinn bakaði ég kökuna í skúffuformi sem er 42x29x4 cm. Það er þó ekkert mál að baka hana í tveimur 24 cm hringlaga formum. En ég elska allt sem er fljótlegt og einfalt svo ég baka oftast í þessu stóra formi, sérstaklega ef ég er að baka fyrir hóp af fólki. Ég veit vel að þriggja hæða tertur eru mun fallegri, en það er miklu minna vesen að baka, bera fram og borða kökur gerðar í skúffuformi. Svo ég vel þægindin yfirleitt fram yfir útlit. Ég vil taka það fram að hér er Helga að skrifa því Júlía er, eins og þið flest vitið, meistari í að gera fallegar margra hæða tertur.

Ég lýg ekki þegar ég segi að þessi kaka slær í gegn hvar sem hún er borin fram. Ég birti hana fyrir yfir ári síðan á sænska blogginu mínu og hún hefur verið langvinsælasta uppskriftin þar síðan. Ég vona að hún hitti í mark hjá ykkur líka.

Ef þið hafið áhuga á að baka fleiri góðar kökur mæli ég með eftirfarandi:

Vegan rjómaterta með jarðarberjum

Klassíska súkkulaðitertan okkar (hér sjáum við dæmi um hversu fallegar kökur Júlía bakar. Ég baka þessa uppskrift yfirleitt í skúffuformi heh)

Stór súkkulaðibitakaka með karamellusósu

Takk innilega fyrir að lesa og ég vona að ykkur líki uppskriftin!

-Helga María

Heimsins besta vegan gulrótarkaka

Heimsins besta vegan gulrótarkaka
Fyrir: 10-12
Höfundur: Helga María
Hin fullkomna gulrótarköka. Hún slær í gegn í hvert skipti sem við bökum hana, enda er hún dúnmjúk, ómótstæðilega bragðgóð og toppuð með rjómaostakremi sem er ávanabindandi. Það er einnig virkilega einfalt að baka hana og enn einfaldara að háma hana í sig.

Hráefni:

  • 7.5 dl hveiti
  • 3.5 dl sykur
  • 2 tsk lyftiduft
  • 2 tsk matarsódi
  • 1 tsk salt
  • 2 msk kanill
  • 5 dl vegan mjólk (ég notaði haframjólk)
  • 6 dl rifnar gulrætur
  • 1.5 tsk vanilludropar
  • 1.5 msk eplaedik
  • 1.5 dl bragðlaus matarolía
Rjómaostakrem
  • 200 gr vegan rjómaostur
  • 100 smjörlíki við stofuhita
  • 500 gr flórsykur
  • 2 tsk vanilludropar

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 180°c.
  2. Hellið olíu og sykri í stóra skál og hrærið.
  3. Bætið restinni af blautu hráefnunum við og hrærið saman.
  4. Bætið þurrefnunum við og hrærið þar til deigið er laust við kjekki.
  5. Bætið rifnum gulrótum út í og hrærið varlega saman við með sleikju.
  6. Hellið í annaðhvort skúffuform klætt smjörpappír (mitt er 42x29x4 cm) eða tvö 24 cm hringlaga form.
  7. Bakið í 20-30 mínútur eða þar til kökupinni kemur hreinn út.
  8. Látið kökuna kólna og gerið kremið á meðan.
  9. Gerið kremið með því að hræra hráefnunum saman í hrærivél og setjið á kökuna þegar hún hefur kólnað.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið #veganistur

Gulrótarbollakökur með rjómaostakremi

Þessar vegan gulrótabollakökur eru þær bestu, einföldustu og mjúkustu gulrótarbollakökur í heimi. Já, þið heyrðuð það hér. Kökurnar eru bókstaflega ómótstæðilegar og silkimjúkt rjómaostakremið ofan á er svo gott að ég gæti borðað það með skeið. Ertu að halda partý, veislu, matarboð eða einfaldlega í stuði til að baka? Þá eru þessar kökur fullkomnar fyrir þig!

Gulrótarbollakökur eru í miklu uppáhaldi hjá mér og mínum nánustu. Kökurnar slá undantekningalaust í gegn hvenær sem ég ber þær fram og það hefur orðið hefð hjá mér síðustu ár að baka þær við allskyns tilefni. Bæði eru þær vinsælar hjá öllum sem smakka þær og á sama tíma er virkilega einfalt að búa þær til. Það gerir þær fullkomnar að baka fyrir afmæli, veislur og aðrar samkomur. Eins er þægilegt að bera þær fram þar sem óþarfi er að nota diska og hnífapör við að borða þær.

Þessi færsla var upprunalega skrifuð árið 2017 en ég sá þessar fallegu gulrætur úti í búð um daginn og ákvað að mynda bollakökurnar upp á nýtt. Uppskriftin er þó sú sama þrátt fyrir nýtt og ferkst útlit.

Eins og ég sagði hér að ofan er einstaklega auðvelt að baka þessar gulrótabollakökur. Hráefnunum er hrært saman í skál með písk á einungis nokkrum mínútum.

  1. Þurrefnum blandað saman í skál

  2. Blautu hráefnunum blandað saman við

  3. Gulræturnar rifnar og þeim blandað saman við

  4. Deiginu skipt í möffinsform og bakaðar

Einfaldara gerist það ekki!

Spurningar og svör

  • Er hægt að gera gulrótaköku úr deiginu í staðinn fyrir bollakökur?
    Já, það er ekkert mál. Hægt er að deila deiginu í tvö 24 cm form og gera þannig tveggja hæða köku

  • Er nauðsynlegt að nota eplaedik?
    Eins og þið hafið líklega tekið eftir notum við eplaedik í nánast allar okkar kökuuppskriftir. Við mælum virkilega með því að hafa það í deiginu þar sem edikið vinnur með matarsódanum að því að gera kökuna mjúka og létta.

  • Er hægt að frysta kökurnar?
    Já, það er ekkert mál. Ef þið ætlið að baka kökurnar fyrir fram og bera þær fram seinna mæli ég þó með því að baka þær fyrir og þá frysta þær ef þið kjósið og svo setja kremið á þegar á að bera þær fram.

  • Er hægt að gera kökurnar glúteinlausar?
    Við höfum sjálfar ekki prufað að gera þessar kökur glúteinlausar og þar sem glúteinlaust hveiti virkar oft öðruvísi en venjulegt getum við ekki lofað sömu úkomu.

Ég baka kökurnar í muffins bökunarformi sem ég set pappírsformin ofan í. Það gerir það að verkum að kökurnar halda forminu vel og auðvelt er að sjá til þess að þær verði jafn háar. Ég mæli mikið með því að nota svona form, það er virkilega þægilegt. ég notaði ísskeið til að setja deigið í formið og fyllti það sirka 3/4 til að vera viss um að þær verði ekki of háar.

Rjómaostakremið er klárlega punturinn yfir i-ið. Vegan rjómaosti, smjörlíki, vanilludropum og flórsykri er þeytt saman í skál þar til úr verður silkimjúkt og gott krem sem er fullkomið ofan á gulrótarkökurnar.

Vegan gulrótarbollakökur með rjómaostakremi

Vegan gulrótarbollakökur með rjómaostakremi
Höfundur: Helga María
Þessar vegan gulrótabollakökur eru þær bestu, einföldustu og mjúkustu gulrótarbollakökur í heimi. Já, þið heyrðuð það hér. Kökurnar eru bókstaflega ómótstæðilegar og silkimjúkt rjómaostakremið ofan á er svo gott að ég gæti borðað það með skeið.

Hráefni:

Gulrótarkaka
  • 6 dl hveiti (athugið að þegar ég mæli hveiti þá moka ég hveitinu úr pokanum með skeið og færi yfir í dl málið. Með því passa ég að pressa ekki of miklu hveiti ofan í málið)
  • 2 1/2 dl sykur
  • 3 tsk lyftiduft
  • 1 1/2 tsk matarsódi
  • 1 msk kanill
  • 1/2 tsk salt
  • 4 dl vegan mjólk (ég notaði haframjólk)
  • 2 tsk vanilludropar
  • 1 dl olía
  • 1 msk eplaedik
  • 5 dl rifnar gulrætur
Rjómaostakrem aðferð:
  • 1 dolla Sheese rjómaostur, hreinn (ca 200gr)
  • 100 gr Krónusmjörlíki
  • 2-3 tsk vanilludropar
  • 1 pakki flórsykur (500gr)
  • Valhnetur að toppa með

Aðferð:

  1. Blandið saman öllum þurrefnunum í skál.
  2. Hrærið haframjólkinni, vanillunni, olíunni og edikinu saman við þar til alveg kekklaust.
  3. Rífið gulræturnar og blandið þeim vel saman við.
  4. Setjið deigið í bollakökuform eða tvo kringlótt form og bakið í 20-25 mínútur í 180°C heitum ofni.
  5. Leyfið kökunum að kólna alveg áður en að kremið er sett á.
Rjómaostakrem
  1. Byrjið á því að þeyta rjómaostinn aðeins einan og sér í hrærivél.
  2. Bætið þar næst smjörlíkinu og vanilludropunum útí og þeytið aðeins saman við.
  3. Setjið síðast flórsykurinn og þeytið kremið þar til fallega slétt og fínt.
  4. Smyrjið eða sprautið kreminu á bollakökurnar eða botnana og njótið.
  5. Við stráðum aðeins af valhnetum yfir kökurnar og fannst það koma alveg æðislega út.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur