Súkkulaðibitakökur

Smákökur eru stór hluti af jólunum hjá öllum Íslendingum. Á öllum heimilum eru bakaðar smákökur fyrir jólin og allir eiga sína uppáhalds sort. Við bökuðum alltaf fullt af jólasmákökum heima þegar ég var yngri. Prófuðum alls konar uppskriftir, góðar og ekki jafn góðar. Þó voru súkkulaðibitakökur alltaf uppáhald allra.

Súkkulaðibitakökur eru virkilega einfaldar í bakstri og alltaf jafn vinsælar hjá stórum sem smáum. Að gera vegan útgáfu af þessum gömlu góðu kökum var alls ekki erfitt. Ef eitthvað er þá er vegan uppskriftin auðveldari en sú upprunalega.

Nú þegar fyrsti í aðventu er liðinn getur fólk með góðri samvisku farið á fullt í bakstur, og borðað allt það góðgæti sem hugurinn girnist. Það er allavega það sem ég geri á aðventunni, á sama tíma og ég plana alla þá hollustu sem ég ætla að demba mér í, í janúar...

Hráfeni:

  • 250 gr vegan smjör (Krónu smjörlíkið er alltaf gott en svo fæst smjör í Hagkaup frá merkinu Earth balance

  • 1 dl sykur

  • 1 dl púðusykur

  • 1/2 dl plöntumjólk

  • 1 tsk vanilludropar

  • 4 1/2 dl hveiti

  • 1 tsk matarsódi

  • örlítið salt

  • 150 gr suðusúkkulaði

Aðferð:

  1. Þeytið saman smjörið og sykurinn í smá tíma, bætið síðan útí mjólkinni og vanniludropunum og þeytið örlítið lengur.

  2. Blandið saman öllum þurrefnunum í skál og hrærið síðan saman við smjörið og sykurinn.

  3. Síðast er súkkulaðið saxað og því blandað saman við deigið.

  4. Rúllið litlar kúlur úr deiginu og bakið í 7-9 mínútur við 180°C. Leyfið kökunum að kólna í nokkrar mínútur á plötunni áður en þær eru teknar af henni svo súkkulaðið verði ekki eftir.

Njótið vel
-Júlía Sif

Rjómalöguð sveppasúpa í brauðskál

IMG_6705.jpg

Á veturna eru súpur og kássur algjörir bjargvættir. Það er fátt meira kósí en ylvolg súpa eftir langan og kaldan dag. Við ætlum að vera duglegar að deila með ykkur góðum súpuuppskriftum í vetur, en í dag ætlum við að sýna ykkur sveppasúpu uppskriftina okkar sem er ein af okkar eftirlætis súpum. 

Súpur eru ekki einungis þægilegar vegna þess að þær ylja manni á köldum dögum, heldur einnig vegna þess að við eldamennskuna þarf yfirleitt bara einn pott og eitthvað til að hæra með. Oftar en ekki er gott að skella hráefnunum í pottinn og leyfa þeim að malla í svolítinn tíma á lágum hita án þess að þurfa mikið að skipta sér af. Eins og okkur þykir gaman að eyða tíma í eldhúsinu er oft rosalega fínt að geta gert fljótlegan, bragðgóðan og næringarríkan mat án mikillar fyrirhafnar. Það skemmtilegasta við þessa súpu er það að hún hentar fullkomlega sem kvöldmatur á venjulegu miðvikudagskvöldi en hentar einnig einkar vel sem forréttur við hvaða tilefni, eins og til dæmis sem forréttur á aðfangadagskvöld. 

Við erum duglegar að gera sveppasúpu við allskonar tilefni.  Við höfum mikið borðað hana á hátíðum og Júlía bar hana til dæmis fram í útskriftarveislunni sinni. Hún er klassísk og það finnst flestum hún góð svo hún hentar til dæmis vel fyrir tilefni þar sem ekki eru allir vegan, því fæstir finna nokkurn bragðmun. Eini munurinn er sá að jurtarjóminn er alls ekki jafn þungur í magann og hinn hefðbundni og við getum lofað ykkur að fólk mun ekki kvarta yfir því. 

Við ákváðum að prufa að bera súpuna fram í brauðsskál. Við keyptum súrdeigsbrauð í Passion bakaríi og einfaldlega skárum ofan af brauðinu, tókum það mesta innan úr og stungum í ofnin á 200°C í sirka 10 mínútur svo skálin yrði ekki blaut í gegn.

Þar sem brauðið var heldur stórt komst nóg af súpu í það fyrir okkur tvær. Næst ætlum við að reyna að finna aðeins minni brauð svo maður geti fengið sína eigin brauðskál. Við þurfum þó varla að taka það fram að brauðskálin er engin nauðsyn, hún var gerð einungis uppá gamanið en kom virkilega vel út. Við mælum þó sterklega með súrdeigsbrauðunum úr Passion bakarí, hvort sem þið viljið nota þau sem skálar eða einfaldlega njóta þess að borða það með súpunni. 

Hráefni:

  • 100 gr vegan smjör

  • 1/2 til 1 laukur (við notuðum hálfan stóran)

  • 200 gr frosin villisveppablanda

  • 250 (1 pakki) sveppir

  • hveitiblanda (2 kúfullar msk hveiti + 1 dl vatn hrisst saman)

  • 1 til 2 greinar ferskt timian

  • 1 tsk þurrkað timian

  • salt og pipar

  • 1 sveppateningur

  • 1 til 2 tsk grænmetiskraftur

  • 250 ml vatn

  • 750 ml Oatly haframjólk

  • 500 ml (tvær fernur) Oatly hafrarjómi

Aðferð:

  1. Leyfið frosnu sveppunum að þiðna í nokkrar mínútur. Skerið þá svo niður ásamt fersku sveppunum og saxið laukinn.

  2. Bræðið smjörið í potti og bætið sveppunum og lauknum saman við. Steikið við lágan hita í dágóðan tíma eða u.þ.b. 15 mínútur. 

  3. Nýtið tímann á meðan í að sjóða vatn í katli eða öðrum potti. Þetta er ekki nauðsynlegt en okkur þykir gott að búa til grænmetissoð með því að sjóða vatn, hella því í skál og leyfa kraftinum að leysast almennilega upp í því áður en við hellum því út í pottinn með sveppunum. 

  4. Hristið saman hveitiblönduna þar til engir kekkir eru eftir. Okkur þykir fínt að nota sultukrukku í verkið því þá er engin hætta á að þetta hristist uppúr. Hellið blöndunni hægt útí og hrærið vel í á meðan.

  5. Hellið grænmetissoðinu útí 50 ml í einu og hrærið vel í á meðan svo ekki myndist kekkir í súpuna. Leyfið suðunni svo að koma upp og hellið síðan mjólkinni útí. 

  6. Látið súpuna malla í 15-20 mínútur áður en rjóminn fer útí.  Á þessu stigi er fínt að smakka súpuna og sjá hvort vantar meira af kryddum. 

  7. Hellið hafrarjómanum útí, leyfið suðunni að koma upp, slökkvið undir og berið fram. 

  8. Ef gera á súpuna daginn áður, líkt og við gerum t.d. oft á jólunum, er fínt að geyma það að setja rjómann útí þar til hún er hituð upp rétt áður en það á að borða hana.

  9. Það má auðvitað mauka súpuna með töfrasprota ef þess er kosið en við kjósum að gera það ekki.

Vonandi njótið þið vel! 
-Veganistur

Vegan lakkrístoppar

Nú nálgast jólin óðfluga og flestir farnir að huga að jólabakstrinum. Við systurnar erum að sjálfsögðu engin undantekning. Þegar við gerðumst vegan bjuggumst við ekki við því að baka lakkrístoppa aftur. Vegan marengs var eitthvað sem fólk almennt hafði ekki hugmynd um að hægt væri að gera. Það var svo fyrir sirka tveimur árum að aquafaba, próteinríki vökvinn sem fylgir kjúklingabaunum í dós, uppgvötaðist. Það var frakkinn Joël Roessel sem fann upp á þessarri snilld. Aquafaba gjörsamlega breytti lífi vegan fólks um allan heim. Nú geta þeir sem kjósa að borða ekki egg eða eru með ofnæmi fyrir eggjum notið þess að borða til dæmis marengstertur og mæjónes svo eitthvað sé nefnt. 

Síðustu jól bökuðum við lakkrístoppa í fyrsta skipti síðan við urðum vegan. Við vorum örlítið skeptískar í fyrstu og vildum ekki gera okkur of miklar vonir. Við urðum því heldur betur hissa þegar lakkrístopparnir komur úr ofninum og smökkuðust nákvæmlega eins og þeir gömlu góðu sem við vorum vanar að borða áður fyrr. 

Við þróuðum uppskriftina sjálfar og birtum á facebooksíðunni okkar en hún vakti strax mikla lukku. Uppskriftin er virkilega einföld og hefur slegið í gegn hjá öllum sem hafa smakkað toppana hjá okkur. Það er að sjálfsögðu vel hægt að bjóða öllum uppá lakkrístoppana, hvort sem fólk er vegan eða ekki, því það er enginn munur á þeim. 

Við erum á fullu að safna góðum hátíðaruppskriftum á bloggið okkar sem henta vel fyrir jólin og í allskonar veislur. 
Núna erum við til dæmis komnar með

Marengstertu
Aspasbrauðrétt
Döðlunammi
Súkkulaðiköku

... Og það er margt fleira á leiðinni. 
 

IMG_6712-2.jpg

Vegan Lakkrístoppar

  • 9 msk aquafaba

  • 300g púðursykur

  • 150g lakkrískurl

  • 150g suðusúkkulaði

 

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita ofninn í 150°c

  2. Þeytið aquafaba í hrærivél þar til vökvinn verður alveg stífur, eða í sirka 15-20 mínútur

  3. Bætið púðursykrinum hægt út í, það er fínt að setja bara eina matskeið í einu og þeytið á meðan

  4. Hrærið vel og lengi, alveg í aðrar 20 mínútur

  5. Slökkvið á hrærivélinni og blandið lakkrísnum útí, ásamt brytjuðu súkkulaðinu, varlega með sleif.

  6. Bakið lakkrístoppana í 15-17 mínútur. Leyfið þeim að kólna í svolítinn tíma á plötunni eftir að þið takið þá út.

Vonum að þið njótið 

-Veganistur

Fullkomið grænmetis lasanga

Ég varð snemma ástfangin af ítölskum mat. Það var eitthvað við pasta, pizzur, tómatlagaðar sósur og þessar einstöku kryddjurtir sem heillaði mig. Ég held að pasta hafi alltaf verið einn af mínum uppáhalds mat, hvort sem það var pasta með kjötsósu, lasanga, kalt pastasalat eða pestópasta. Það er eitthvað við þennan rétt, hann getur bæði verið svo látlaus með einfaldri sósu en á sama tíma svo fínn með aðeins meiri tíma og ást.

Í þetta skiptið ætlum við þó að deila með ykkur uppskrift á einföldu, klassísku grænmetislasanga. Það er langt síðan við fengum fyrst fyrirspurn um að gera lasagna uppskrift.  Lasagna er réttur sem maður getur leikið sér endalaust með. Það skiptir eiginlega ekki máli hvaða grænmeti maður notar, það verður alltaf gómsætt. Þessi uppskrift er mjög hefðbundin og þægileg, en við stefnum á að birta uppskriftir af alls kyns mismunandi útgáfum af þessum skemmtilega rétt í framtíðinni. 

I uppskriftina notuðum við meðal annars Violife rjómaost sem gefur réttinum mjög skemmtilegt bragð. Brúnu linsubaunirnar gera líka mikið fyrir réttinn að okkar mati. Grænmetið er hinsvegar smekksatriði. Það er að sjálfsögðu hægt að nota bara það sem er til í ísskápnum en við ákváðum að nota það sem er í uppáhaldi hjá okkur að þessu sinni. 

það halda margir að það sé rosalegt vesen að útbúa lasagna en í rauninni er það verulega einfalt. Það er tekur kannski smá stund að setja það saman en það er skemmtilegt og algjörlega þess virði. 

Það sem er hins vegar mjög þægilegt við lasanga er að það er í góðu lagi að undirbúið það daginn áður en það skal borið fram. Því hentar það fullkomlega þegar maður fær fólk í mat því maður getur haft það tilbúið í ísskápnunm og skellt því í ofninn rétt áður en gestina ber að garði. Ekkert uppvask eða stress.

Hráefni:

  • 1/2 bolli þurrar brúnar linsur

  • 1 msk grænmetiskraftur

  • 2 til 3 hvítlauksgeirar

  • 1/2 til 1 paprika

  • 1 meðalstór laukur

  • 3 gulrætur

  • hálfur meðalstór blómkálshaus

  • 1 1/2 dós niðursoðnir tómatar

  • 3 msk tómatpúrra

  • 1 msk þurrkuð basilíka

  • 1 msk þurrkað oregano

  • 2 msk grænmetiskraftur

  • salt og pipar

  • spínat

  • 1 dós violife rjómaostur með kryddjurtabragði (herbs)

  • lasanga plötur (passa að þær innihaldi ekki egg)

  • vegan ostur (við notuðum ost frá merkinu follow your heart sem fæst í Gló)

Aðferð

  1. Byrjið á því að skola linsurnar vel og sjóða upp úr einni matskeið af grænmetiskrafti í 40 mínútur. Á meðan er gott að undirbúa fyllinguna.

  2. Skerið gulrætur, papriku og lauk venjulega niður en blómkálið er best að saxa mjög smátt svo það líkist örlítið hakki. Steikið grænmetið með kryddunum og hvítlauknum þangað til það mýkist aðeins. Þegar grænmeti sem nota á í fyllingar og pottrétti líkt og í þessari uppskrift er algjör óþarfi að steikja það upp úr olíu en okkur finnst best að nota bara nokkrar msk af vatni.

  3. Bætið niðursoðnum tómötum og tómatpúrru útí ásamt grænmetiskraftinum. Látið suðuna koma upp og setjið þá soðnar linsurnar saman við og smakkið til með salti og pipar. Leyfið fyllingunni að sjóða í um 10 mínútur og bræðið rjómaostinn í potti á lágum hita á meðan. Það þarf að hræra vel í rjómaostinum á meðan svo hann brenni ekki við.

  4. Setjið í eldfast mót, fyllingu, spínat, lasangaplötur og síðast þunnt lag af rjómaostinum. Endurtakið þrisvar til fjórum sinnum þar til mótið er nánast fullt. Endið síðan á fyllingu og setjið ostin yfir hana.

  5. Bakið í 190°C heitum ofni í 20-25 mínútur.

Lasanga smakkast einstaklega vel borið fram með góðu fersku salati og hvítlauksbrauði, en það er þó alveg nóg eitt og sér.