Smákökur með tvöföldu súkkulaði og sjávarsalti
/Það kemur örugglega engum á óvart að jólin eru uppáhalds tími ársins hjá okkur systrum og þá sérstaklega hvað varðar mat. Við systur erum búnar að eyða síðustu vikum í að prófa og mynda nýjar hátíðlegar uppskriftir og það mun svo sannarlega ekki vanta nýjar jólauppskriftir á blogginu hjá okkur í ár. Fyrsta hátíðlega færslan eru þessar ótrúlega góðu súkkulaðismákökur með tvöföldu súkkulaði.
Smákökurnar eru einskonar “brownie” smákökur og eru þær alveg stútfullar af súkkulaði, ótrúlega mjúkar og gómæstar. Þær eru nánast eins og gott konfekt og henta því einstaklega vel með kaffibollan eða jafnvel eftir góða máltíð.
Ég notaði cocospread súkkulaðismyrjuna frá violife í kökurnar sem gerir þær extra mjúkar og bragðgóðar, en síðan er stráð örlítið af sjávarsalti yfir hverja köku sem dregur enn frekar fram djúpa súkkulaðibragðið. Við mælum með að allir prófi þessar kökur og fylgist með okkur næstu vikur þar sem við munum birta mikið af nýjum uppskriftum.
Hráefni:
1 dolla violife cocospread (150 gr)
50 gr smjörlíki eða vegan smjör
100 gr suðusúkkulaði
1 dl sykur
1 dl púðursykur
2 1/2 dl hveiti
1 tsk lyftiduft
2 msk kakóduft
150 gr saxað suðusúkkulaði
Aðferð:
Byrjið á því að bræða smjörlíki og 100 gr suðusúkkulaði í potti við lágan hita eða yfir vatnsbaði.
Þeytið saman cocospread, sykur og púðursykur í hrærivél eða með handþeytara í 4-5 mínútur
Hellið súkkulaðismjör blöndunni hægt út í sykurblönduna og hafið hrærivélina í gangi á meðan á lágri stillingu.
Blandið þurrefnunum saman í skál og hrærið síðan saman við blautu hráefnin.
Saxið 150 gr af suðusúkkulaði og bætið út í deigið.
Kælið deigið í að minnsta kosti 4 klst eða yfir nótt.
Mótið í litlar kúlur og bakið við 180°C í 8-10 mínútur. Leyfið þeim að kólna á plötunni áður en þið takið þær af.
-Njótið vel og endilega verið dugleg að tagga okkur á instagram þegar þið eruð að baka uppskriftirnar okkar. <3
- Færslan er unnin í samstarfi við Violife á Íslandi -