Vegan jógúrtskál með heimagerðu granóla, marmelaði og ávöxtum

-Samstarf-

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að jógúrtskál með heimagerðu granóla, kókosjógúrt, mangó- og ástaraldinmarmelaði og ferskum ávöxtum. Þetta er tilvalinn morgunmatur og passar einnig vel sem millimál þar sem í skálinni, eða glasinu í þessu tilfelli, er gríðarlegt magn af gómsætum og næringarríkum hráefnum. Granólað inniheldur meðal annars haframjöl, hnetur, möndlusmjör og hlynsíróp og kókosjógúrtin er virkilega mettandi og góð. Marmelaðið og ávextirnir gefa síðan ferska og góða sætu.

Færsla dagsins er í samstarfi við St. Dalfour á Íslandi og í jógúrtskálina notaði ég mangó- og ástaraldinmarmelaðið þeirra. Eitt af því sem ég elska mest við St. Dalfour marmelaðið, fyrir utan bragðið að sjálfsögðu, er að það inniheldur ekta ávexti og engan hvítan sykur. Ég kaupi það miklu frekar en hefðbundna sultu því mér finnst það mun ferskara og betra. Þess vegna er ég svo stolt af því að fá að vinna með þeim.

Við borðum jú með augunum og þess vegna finnst mér skemmtilegt að bera einfaldan morgunverð sem þennan fram á fallegan og skemmtilegan hátt. Áttu von á gestum í brunch? Þá er fullkomið að útbúa litlar skálar eða glös af jógúrt, granóla, marmelaði og ávöxtum. Það er fullkomið til að gefa smá ferskleika á móti restinni af brunchinum, sem oft er svolítið djúsí.

Vantar þig fleiri hugmyndir fyrir brunchinn? Prófaðu þá eftirfarandi:

Döðlupestó og pestósnúðar

Gósmætt kjúklingabaunasalat

Bestu vegan vöfflurnar

Vegan pylsuhorn

Takk innilega fyrir að lesa og ég vona að þér líki uppskriftin. Endilega taggaðu okkur á Instagram og skrifaðu athugasemd hér undir ef þú prófar. Við elskum að heyra frá ykkur! <3

-Helga María

Vegan jógúrtskál með heimagerðu granóla, mangó- og ástaralaldinmarmelaði og ávöxtum

Vegan jógúrtskál með heimagerðu granóla, mangó- og ástaralaldinmarmelaði og ávöxtum
Höfundur: Helga María
Geggjuð jógúrtskál með heimagerðu granóla, kókosjógúrt, mangó- og ástaraldinmarmelaði og ferskum ávöxtum. Þetta er tilvalinn morgunmatur og passar einnig vel sem millimál þar sem í skálinni, eða glasinu í þessu tilfelli, er gríðarlegt magn af gómsætum og næringarríkum hráefnum.

Hráefni:

Jógúrtskál með granóla, marmelaði og ávöxtum
  • Kóksjógúrt
  • Granóla - heimagert eða keypt (uppskrift hér að neðan)
  • Mangó- og ástaraldinmarmelaði frá St. Dalfour
  • Ferskir ávextir eftir smekk. Ég notaði mangó, kiwi og ferskjur. Ég toppaði svo með ristuðum kókosflögum.
Heimagert granóla
  • 4 dl haframjöl
  • 3 dl hnetur að eigin vali (ég notaði möndlur, heslihnetur og pistasíuhnetur)
  • 1 dl kókosmjöl
  • 1 dl niðurskornar döðlur
  • 2 kúfaðar msk kókosolía
  • 1 kúfuð matskeið möndlusmjör
  • 1,25 dl hlynsíróp
  • smá salt

Aðferð:

Jógúrtskál með granóla, marmelaði og ávöxtum
  1. Berið annaðhvort fram í skál eða gerið eins og ég og setjið lög af öllu í skál eða glas og toppið með ávöxtum.
Granóla
  1. Hitið ofninn í 150°c
  2. Skerið hneturnar niður og setjið á skál með haframjöli og kókosmjöli.
  3. Setjið kókosolíu, möndlusmjör, hlynsíróp og smá salt í pott og hitið og hrærið í þar til það hefur bráðnað saman.
  4. Bætið út í skálina og hrærið saman við þurrefnin með sleif eða sleikju.
  5. Skerið döðlurnar niður og hrærið saman við.
  6. Bakið í 15 mínútur og hrærið þá varlega saman til að viðhalda "klumpum" í granólanu.
  7. Bakið í 5-10 mínútur í viðbót og takið svo út og látið kólna.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið #veganistur

-Uppskriftin er unnin í samstarfi við St. Dalfour á Íslandi-

 
 

Kúskússalat með hummus og ristuðum kjúklingabaunum

Í deilum við með ykkur uppskrift að kúskússalati bornu fram með gómsætum hummus og ristuðum kjúklingabaunum. Fullkomið að bera fram með góðu brauði eins og heimapökuðu pönnubrauði, vefjum eða pítubrauði.

Færsla dagsins er í samstarfi við Til hamingju og ég notaði kúskús og ristuð graskersfræ frá þeim í salatið. Við elskum vörurnar frá Til hamingju og notum þær mikið í matargerð og bakstur hérna heima.

Kúskús er virkilega þægilegt að nota í matargerð þar sem það krefst lítillar sem engrar fyrirhafnar. Mér finnst best að hella því í skál og hella sjóðandi vatni ásamt ólífuolíu og salti og leggja lok eða disk yfir. Ég leyfi því að standa í 10-15 mínútur og hræri aðeins í því þegar tíminn er hálfnaður. Kúskús er svo hægt að nota á allskonar vegu, t.d. í allskonar salöt, pottrétti og sem meðlæti.

Salatið sem ég gerði í þetta skipti inniheldur kúskús, tómata, papriku, gúrku, rauðlauk, grænar ólífur, ristuð graskersfræ, steinselju, vegan fetaost, ólífuolíu, sítrónusafa, salt og chiliflögur. Einstaklega gott og ferkst hvort sem það er borðað eitt og sér eða með hummus, ristuðum kjúkligabaunum og brauði eins og ég gerði.

Ég einfaldlega smurði hummusnum á stórt fat og toppaði með ristuðu kjúklingabaununum og kúskússalatinu. Svo toppaði ég með chiliolíu, ólífuolíu, reyktri papriku, kúmmin, salti, pipar og aðeins meiri steinselju. Ég bar þetta svo fram með Liba brauði sem ég steikti á pönnu. Dásamlega gott!

Takk fyrir að lesa og ég vona innilega að ykkur muni líka vel! <3

-Helga María

Kúskússalat með hummus og ristuðum kjúklingabaunum

Kúskússalat með hummus og ristuðum kjúklingabaunum
Höfundur: Helga María

Hráefni:

Kúskússalat
  • 3 dl kúskús frá Til hamingju
  • 4 dl vatn
  • 1 msk ólífuolía + meira til að hella yfir salatið seinna
  • sjávarsalt
  • 1,5 dl ristuð graskersfræ frá Til hamigju
  • 1,5 dl niðurskornir kirsuberjatómatar (ath að grænmetið og magnið sem ég nefni er einungis hugmynd um hvað er hægt að setja í salatið, það má velja bara það sem til er heima eða skipta út hverju sem er)
  • 1,5 dl niðurskorin gúrka
  • 1,5 dl niðurskorin paprika
  • 1,5 dl niðurskornar grænar ólífur
  • 1 dl niðurskorinn rauðlaukur
  • 1,5 dl niðurskorin steinselja
  • 1,5 dl vegan fetaostur
  • Salt og chiliflögur
Hummus
  • 3 dósir kjúklingabaunir skolaðar
  • 2 dl tahini (ég mæli með að kaupa ekta tahini frá t.d. Instanbul market. það er langbest að mínu mati)
  • 3 hvítlauksgeirar
  • Safi úr enni sítrónu
  • 1/2-1 tsk kúmmín (má sleppa)
  • Salt eftir smekk. Mér finnst gott að salta hummusinn vel
  • 2 klakar
  • ískalt vatn eftir þörfum. Mér finnst gott að hafa vatn með klökum og bæta við 1 msk í einu ef hummusinn er of þykkur. Það fer mikið eftir bæði tahini og merki á baununum hversu þykkur hann er.
  • Hlutir sem gott er að toppa hummusinn með: chiliolía, ólífuolía, meira kúmmín, reykt papríkuduft.
Ristaðar kjúklingabaunir
  • 1 dós kjúklingabaunir
  • 1 msk harissamauk
  • 1/2 tsk hvítlauksduft
  • 1/2 tsk laukduft
  • 1 tsk reykt papríka
  • salt og pipar
  • Olía

Aðferð:

Kúskússalat
  1. Hellið kúskús í stóra skál og hellið sjóðandi vatni yfir ásamt ólífulolíu og salti og leggið lok eða disk yfir. Hrærið í eftir sirka 5 mínútur og svo aftur þegar þið ætlið að bæta restinni af hráefnunum út í.
  2. Leyfið að kólna, bætið svo restinni af hráefnunum saman við og smakkið til með salti og pipar.
Hummus
  1. Skolið kjúklingabaunirnar og setjið í matvinnsluvél ásamt restinni af hráefnunum. Bætið vatni við eftir þörfum á meðan matvinnsluvélin vinnur.
  2. Bætið við salti og kryddum eftir smekk.
  3. Smyrjið á fat og toppið með kúskússalatinu og ristuðu kjúklingabaununum.
Ristaðar kjúklingabaunir
  1. Skolið kjúklingabaunirnar í sigti og setjið í skál. Ég reyni að þurrka þær aðeins með viskastykki.
  2. Bætið harissamaukinu og kryddunum saman við.
  3. Steikið upp úr olíu í 10 mínútur eða þar til baunirnar eru orðnar stökkar að utan.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

-Uppskriftin er í samstarfi við Til hamingju-

 
 

Vegan bananapönnukökur

Þessar pönnukökurnar eru algjört æði og í miklu uppáhaldi hjá okkur þar sem það er ótrúlega einfalt að baka þær og eru þær hveiti og sykurlausar. Pönnukökurnar er einnig auðvelt að gera glútenlausar með því að skipta út venjulegu haframjöli fyrir glútenlaust haframjöl. Þær eru mjög næringarríkar og henta líka fullkomlega fyrir lítil börn. Þær tekur enga stund að útbúa og henta fullkomlega í morgunmat eða sem næringarríkt millimál. Það má bera þær fram á alls konar vegu og er til dæmis hægt að sleppa sírópinu í þeim og bera þær fram með vegan smjöri og vegan osti eða banana.

Hollar bananapönnukökur

  • 2 dl fínmalað haframjöl

  • 1/2 tsk lyftiduft

  • 1/2 tsk salt

  • 1 stór banani eða 1 og hálfur lítill

  • 2 msk síróp (t.d. agave eða það síróp sem hver og einn kýs, því má líka alveg sleppa)

  • 2 dl haframjólk eða önnur plöntumjólk

Aðferð:

  1. Malið haframjölið í blandara eða matvinnsluvél þar til það verður að alveg fínu mjöli.

  2. Stappið banana vel niður.

  3. Hrærið öllum hráefnum vel saman í skál.

  4. Steikið upp úr góðri olíu í nokkrar mínútur á hvorri hlið eða þar til pönnukökurnar verða fallega gylltar.

-Njótið vel

Þeyttur vegan fetaostur með sólþurrkuðum tómötum, basilíku og möndlum

Í dag deilum við með ykkur fljótlegum og gómsætum rétti sem er fullkominn sem forréttur, smáréttur, millimál eða partýréttur. Þeyttur vegan fetaostur toppaður með allskonar góðgæti. Að okkar mati bestur borinn fram með nýbökuðu brauði eða góðu kexi.

Færsla dagsins er unnin i samsarfi við Violife á Íslandi og í uppskriftina notum við greek white ostinn þeirra sem minnir a fetaost og rjómaostinn. Ég passa að eiga þessa tvo osta alltaf til í ísskápnum því þeir eru svo hentugir. Rjómaostinn nota ég mikið á brauð, í súpur, sósur og í krem. Fetaostinn myl ég ofan á allskonar matrétti og sallöt. Að þeyta þá saman gerir kraftarverk og er svo dásamlega gott og hægt að toppa með þvi sem mann lystir.

Það tekur innan við 10 mínútur að setja saman þennan rétt. Ég elska allt sem er einfalt og fljótlegt og þetta er svo sannarlega bæði. Á sama tíma er rétturinn bragðgóður og skemmtilegur. Þetta er akkúrat eitthvað sem ég myndi bjóða uppá sem forrétt í matarboðinu eða skella þessu saman þegar ég fæ óvænta gesti og bera fram með góðu brauði og jafnvel víni.

Það er hægt að toppa ostinn með því sem mann lystir og ég hef prófað allskonar útgáfur. Það sem ég hafði í þetta sinn var:

  • Sólþurrkaðir tómatar

  • Basilíka

  • Ristaðar og saltaðar möndlur

  • Ólífuolía

  • Sítrónubörkur

  • Hlynsíróp

  • Chiliflögur

  • Salt og pipar

Ég vona að þið njótið og endilega látið okkur vita ef þið prófið að gera þeytta fetaostinn, hvort sem þið toppið hann eins og við eða prófið að gera hann öðruvisi. Við ELSKUM að heyra frá ykkur!

Þeyttur vegan fetaostur (miðaður sem forréttur fyrir 2-4)

Hráefni:

  • 1 pakki (200gr) greek white fetaosturinn frá Violife

  • 100 gr rjómaosturinn frá Violife (creamy original flavor)

  • 2-4 msk ósæt sojamjólk eða haframjólk - byrjið á 2 msk og sjáið hvort það þarf að bæta meiru við

  • 1 msk sítrónusafi

Aðferð:

  1. Setjið allt í matvinnsluvél og blandið þar til áferðin er mjúk

  2. Setjið i skál og toppið með því sem ykkur þykir gott.

Ég toppaði með:

  • Söxuðum sólþurrkuðum tómötum

  • Söxuðum ristuðum og söltuðum möndlum

  • Saxaðri basilíku

  • Ólífuolíu og olíu frá sólþurrkuðu tómötunum

  • Sítrónuberki

  • Hlynsírópi

  • Chiliflögum

  • Salti og pipar

Magnið af hverju setti ég eftir smekk. Myndi fara varlega í sítrónubörkinn og sírópið og setja frekar minna fyrst og bæta svo við. Mér finnst líka gott að setja út á ofnbakaðan lauk og hvítlauk og ólífur.

Takk innilega fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur vel! <3

-Veganistur

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Violife á Íslandi-

 
 

Hollar hafrakökur með trönuberjum

IMG_9855.jpg

Ég held að það sé svo sannarlega komið haust hérna á litla skerinu okkar en síðustu daga höfum við fengið allan skalan af veðri sitt á hvað. Þegar það fór að snjóa í morgun fannst mér allt í einu ótrúlega raunverulegt að sumarið væri búið. Mér finnst það þó alls ekki vera svo slæmt þar sem oftast finnst mér fylgja haustinu mikil ró, rútína og kósýheit. Við Íslendingar erum kannski svolítið æst á sumrin og alltaf svo hrædd um að vera að missa af sumrinu, og þar er ég svo sannarlega ekki saklaus, svo mér finnst alltaf bara fínt þegar skólarnir fara af stað og meiri rútína kemst á lífið.

Ég er í fyrsta skipti í yfir 3 ár ekki í skóla þetta haustið og verð ég að segja að það er mjög skrítið en á sama tíma auðvitað mjög þægilegt. Ég er þó mest spennt fyrir því að vera ekki í prófatíð rétt fyrir jól og geta loksins undirbúið jólin að heilum hug mörgum vikum fyrir aðfangadag eins og ég vil helst gera.

IMG_9838.jpg

Haustinu fylgir alltaf mikil matarrútína á mínu heimili en mér finnst ég eiga mjög auðvelt með að detta úr rútínu hvað varðar eldamennsku og matarræði á sumrin. Alls ekki að ég sé á einhverju sérstöku matarræði eða neitt slítk, heldur á ég það til að elda lítið heima og vera lítið með undirbúin mat yfir sumartíman. Á haustinn verð ég alltaf ósjálfrátt duglegri að elda heima, skipuleggja matarinnkaup og nesti til að taka með í vinnu eða út í daginn.

Ég er alveg rosalega mikið fyrir sætindi og því finnst mér skipta virkilega miklu máli að kunna að gera alls konar sætindi sem eru holl og er auðvelt að nýta sem millimál yfir daginn eða til að grípa í þegar mig langar í eitthvað. Mér finnst einnig mjög gaman að eiga eitthvað til að bjóða uppá með kaffinu þegar ég fæ fólk óvænt í heimsókn. Hafrasmákökur eru þar í miklu uppáhaldi hjá mér. Þær má nefnilega nýta sem morgunmat eða millimál og eru einnig fullkomnar til að grípa með sér á ferðinni.

IMG_9851-2.jpg

Ég elska að baka úr höfrum þar sem þeir eru stútfullir af trefjum og gefa svo ótrúlega gott bragð. Í þessar kökur nota ég einnig kókosmjöl og með þessi tvö innihaldsefni þarf lítið annað til þess að kökurnar verði ótrúlega bragðgóðar en á sama tíma nokkuð hollar. Ég elska að nota þurrkaða ávexti líkt og rúsínur eða tr0nuber í smákökurnar en það má að sjálfsögðu skipta því út fyrir súkkulaði eða bara sleppa því alveg.

IMG_9856.jpg

Hráefni:

  • 4 dl malaðir hafrar frá Til hamingju (hafrar settir í matvinnsluvél eða blandara og blandað þar til mjög fínt)

  • 1 dl heilir hafrar frá Til hamingju

  • 1 dl kókosmjöl frá Til hamingju

  • 4 msk möluð hörfræ frá Til hamingju

  • 1/2 tsk salt

  • 1 tsk lyftiduft

  • 150 gr mjúkt smjörlíki eða vegan smjör

  • 1 1/4 dl hlynsíróp

  • 1/2 dl haframjólk eða önnur plöntumjólk

  • 1 pakki þurrkuð trönuber frá Til hamingju

Aðferð:

  1. Hrærið saman haframjólkina og hörfræin í litla skál og setjið til hliðar

  2. Blandið restinni af þurrefnunum saman í skál og hrærið aðeins saman.

  3. Skerið smjörlíkið í litla kubba og bætið út í hörfræ blönduna ásamt sírópinu. Setjið saman við þurrefnin og hrærið þar til allt smjörlíkið hefur blandast vel saman og deigið orðið þykkt slétt deig.

  4. Leyfið deiginu að standa í 10 mínútur. Hitið ofnin í 180°C á meðan.

  5. Mótið kúlur í þeirri stærð sem hver og einn vill, ég notaði kúfulla matskeið af deigi fyrir hverja köku. Sléttið aðeins úr þeim. Bakið í miðjum ofni í 12-14 mínútur eða þar til þær verða fallega gylltar á könntunum.

-Njótið vel og ekki gleyma að tagga okkur á instagram þegar þið eruð að baka og elda réttina okkar :D

Júlía Sif

- Færslan er unnin í samstarfi við Til hamingju -

Hollar prótein smákökur

Síðustu vikur (eða mánuði…) hef ég líkt og flestir verið mikið heima, mikið að vinna í tölvunni og dagarnir oft lengri en venjulega. Ég hef mikið verið að “mönnsa” og borða mishollan mat yfir daginn og þá sérstaklega þegar ég sit við tölvuna allan daginn. Matarræðið hefur því ekki alveg verið upp á tíu og ég enda oft á að borða mikið af óhollum mat, nammi, vegan bakkelsi og fleiru í þá áttinu. Ég ákvað því í síðustu viku að reyna að koma mér aðeins út úr því og reyna að búa til hollari valkosti heima til að borða í millimál og grípa í þegar mig langar í eitthvað við tölvuna yfir daginn. Ein af uppskriftunum sem ég er búin að vera að gera yfir daginn eru þessar hollu, góðu prótein smákökur sem er virkilega bragðgóðar og innihalda cookies and creme prótein sem passar fullkomlega með hinum hráefnunum. Þær eru mjög einfaldar og urðu til úr hráefnum sem ég átti bara hérna heima og eru hráefni sem flestir eiga í eldhúsinu. Þær uppfylla alveg þessar

Hráefni:

  • 1 bolli hafrar

  • 1 1/2 tsk lyftiduft

  • 2 skeiðar Cookies and Cream prótein frá PEAK (ég fékk mitt á TrueFitness.is)

  • 1 banani

  • 1 tsk vanilludropar

  • 1/2 dl síróp

  • 1 dl haframjólk

  • 1 dl saxað súkkulaði

Aðferð:

  1. Malið hafrana í blandara eða matvinnsluvél þar til það verður að fínu mjöli

  2. Blandið höfrunum, lyftiduftinu og próteininu saman í skál

  3. Stappið bananan vel niður í mauk.

  4. Setjið restina af hráefnunum fyrir utan súkkulaðið út í þurrefnin og hrærið saman.

  5. Blandið súkkulaðinu út í deigið

  6. Skiptið í sex stórar kökur á bökunarpappír og smyrjið þær aðeins út þar sem kökurnar bráðna ekki út í ofninum líkt og hefðbundnar súkkulaðibitakökur.

  7. Bakið við 175°C í 12-14 mínútur.

Próteinið er gjöf frá TrueFitness.is

Hafra- og speltbrauð með fræjum

IMG_1511-7.jpg

Við fengum skilaboð um daginn þar sem við vorum beðnar að gera fleiri uppskriftir af góðu brauði. Við elskum gott brauð og þess vegna er kannski svolítið skrítið að á blogginu finnist bara tvær brauðuppskriftir, en það eru heimagerðar tortillur og svo ernubrauð. Ernubrauðið er alveg ótrúlega gott, en maður þarf að plana svolítið fram í tímann þar sem deigið þarf að hefast yfir nótt, eða í allavega 8 klst. Stundum fæ ég skyndilega löngun í að baka gómsætt brauð, en nenni ekki að bíða í margar klukkustundir, og þá geri ég þetta gómsæta hafra- og speltbrauð sem ég ætla að deila með ykkur í dag. Þessi uppskrift er ekkert smá einföld og góð og tekur enga stund að gera. 

IMG_1355-2.jpg

Ég vann um stund á veitingastað í Gautaborg og bakaði svipað brauð, sem var virkilega vinsælt. Brauðið innihélt nokkurskonar súrmjólk, sem ég hef skipt út fyrir vegan jógúrt, og svo voru allskonar hnetur í því en ég ákvað að hafa fræ í staðinn því kærastinn minn er með ofnæmi fyrir flestum hnetum. Ég get ekki borið brauðið saman við það sem ég bakaði á veitingastaðnum, þar sem það var ekki vegan og ég smakkaði það aldrei, en ég er viss um að þetta er alveg jafn gott. Uppskriftin er alls ekki sú sama, en hitt brauðið var innblástur við gerð þessa brauðs. 

Ef ég fengi að ráða myndi ég útbúa hlaðborð af mat á hverjum morgni. Ég elska að hafa allskonar að velja úr og þetta brauð er einmitt fullkomið fyrir helgarbrönsinn. Nýbakað brauð, allskonar álegg, nýlagað kaffi, góður appelsínusafi, grautur og ávextir... er hægt að biðja um eitthvað betra?? 

IMG_1490-3.jpg
IMG_1504-2.jpg

Í dag er úrvalið af góðu vegan áleggi orðið endalaust. Hægt er að fá allskonar vegan smjör, osta, skinkur, ótrúlega margar tegundir af hummus, smurosta.. og lengi mætti telja. Ég átti svolítið erfitt með að ákveða hvað ég vildi hafa á brauðinu fyrir færsluna og ákvað á endanum að gera tvær útgáfur. Á sneiðina til vinstri setti ég vegan rjómaostinn frá Oatly, avókadó, sultaðan rauðlauk sem ég keypti úti í búð (Ica fyrir ykkur sem eruð í Svíþjóð), sítronusafa, chilli explosion, gróft salt og svartan pipar. Á hægri sneiðina setti ég svo hummus, kirsuberjatómat, frosinn graslauk og gróft salt. Grauturinn sem er í bakgrunni er svo "overnight oats" með túrmerik og fl. Þið megið endilega láta mig vita ef þið viljið fá uppskrift af grautnum, en ég geri hann daglega og fæ bara ekki nóg. 

IMG_1519-7.jpg

Hafra- og speltbrauð með fræjum

  • 3,5 dl gróft spelt

  • 1,5 dl fínt spelt

  • 2 dl grófir hafrar

  • 1 dl graskersfræ

  • 1/2 dl sólblómafræ

  • 1,5 tsk salt

  • 2 tsk lyftiduft

  • 1 msk olía

  • 3 dl hrein vegan jógúrt

  • 2 dl heitt vatn (bætið við hálfum dl ef þetta verður of þykkt. Deigið á samt að vera þykkt, svolítið eins og slímugur hafragrautur hehe)

  • Gróft salt og fræ til að strá yfir brauðið

  1. Stillið ofninn á 180°c.

  2. Blandið saman þurrefnunum.

  3. Hrærið saman við öllu nema vatninu.

  4. Bætið vatninu við og sjáið hvernig deigið er eftir 2 dl. Ef ykkur finnst það of þykkt, bætið við 1/2-1 dl í viðbót.

  5. Smyrjið brauðform og hellið deiginu í

  6. Bakið í 45-60 mínútur. Það fer rosalega eftir ofnum hversu lengi brauðið þarf að baka. Ofninn minn er frekar lélegur og býður ekki upp á blástur og það tekur alveg rúmlega klukkustund að baka brauðið í honum. Hinsvegar tók það mig 45 mínútur í öðrum ofni um daginn. Brauðið á að vera aðeins gyllt að ofan, en brauðið mitt á myndunum er ekki gyllt, því ég var óþolinmóð og tók það aðeins of snemma út í þetta skiptið.

  7. Ég leyfi brauðinu að kólna aðeins áður en ég sker það, en mér finnst samt gott að hafa það volgt. 

Njótið!! 

Helga María <3

Súkkulaðihúðaðar saltkaramellu-möndlukúlur

IMG_0343.jpg

Gómsætar súkkulaðihúðaðar möndlu og saltkaramellukúlur! Er hægt að biðja um meira?! Hér sit ég japlandi á þessu unaðslega góða sælgæti og hlakka til að deila með ykkur uppskriftinni. 

IMG_0235.jpg

Fyrir ekki svo löngu birti ég mynd af kúlunum á Instagram og spurði hvort áhugi væri fyrir því að fá uppskrift. Ég fékk heldur betur góð viðbrögð svo ég ákvað að kúlurnar skyldu fara á bloggið. Uppskriftin af þeim varð til þegar Siggi, kærastinn minn, spurði mig hvort ég gæti prufað að gera döðlukúlur sem hann gæti borðað. Ég var vön að nota í þær hnetusmjör og kasjúnetur, en þar sem hann er með ofnæmi fyrir flestum hnetum, gat hann aldrei borðað þær.  Ég ákvað því að breyta uppskriftinni og nota í hana möndlur og sjá hvort hún yrði ekki eins góð, og útkoman var enn betri en ég bjóst við. Síðan þá hef ég einungis notað möndlur í kúlurnar og held ég haldi mig við það framvegis. 

Ég geri kúlurnar í Twister könnunni fyrir Blendtec blandarann, en ég myndi mæla með því að notuð sé matvinnsluvél nema þið eigið annaðhvort Vitamix blandara eða Blendtec og Twister könnuna. Það getur verið algjört maus að útbúa svona kúlur í venjulegum blandara og ég sjálf hef frekar slæma reynslu af slíkri tilraun.

IMG_0260.jpg

Kúlurnar eru gómsætar bæði sem millimál þegar mann vantar orku, en líka fullkomnar til að bjóða upp á sem fingramat í veislum eða partýum. Mér finnst best að fá mér kúlu með kaffibolla dagsins, það er eitt besta "combo" sem ég veit. Ef þið viljið hafa þær í heilsusamlegri kanntinum er auðvitað hægt að nota 70% súkkulaði, eða einfaldlega sleppa súkkulaðinu. Mér finnst súkkulaðið samt ómissandi, en það er algjörlega smekksatriði. 

IMG_0285-2.jpg

Ég er mikið fyrir það þegar sætu og söltu er blandað saman svo mér finnst rosalega gott að strá örlitlu salti yfir kúlurnar. Mér þætti ótrúlega gaman að heyra hvað ykkur finnst ef þið gerið kúlurnar, og eins ef þið prufið að nota í þær aðra tegund af hnetum. Þetta er ein af þessum uppskriftum sem hægt er að leika sér endalaust með. 

IMG_0345.jpg

Kúlurnar (sirka 20 stk):

  • 2 dl möndlur

  • 2 og 1/2 dl ferskar döðlur (Það voru akkúrat 10 döðlur) - mikilvægt að taka steininn úr!

  • 1 kúfull msk möndlusmjör

  • 1 tsk hlynsíróp eða agave

  • 2 tsk kakóduft

  • 1/5 tsk salt

  • 1 tsk bráðin kókosolía (má sleppa! Möndlusmjörið sem ég notaði var rosalega þykkt svo ég bætti olíunni út í til að blandarinn ætti auðveldara með að vinna. Ég myndi byrja á því að setja allt hitt og sjá til hvort nauðsynlegt er að setja olíuna)

Utan um kúlurnar:

  • 100g suðusúkkulaði

  • 1/2 tsk kókosolía

  • Gróft salt

Aðferð:

  1. Byrjið á því að setja möndlurnar í matvinnsluvél eða blandara. (ATH að til að hægt sé að gera þetta í blandara þarf að eiga virkilega góða týpu. Ég mæli frekar með að útbúa kúlurnar í matvinnsluvél nema þið eigið hágæða blandara sem ræður við svona matargerð.) Púlsið þar til möndlurnar eru orðnar að kurli. Ég vil hafa mínar ágætlega grófar svo ég passa að mylja þær ekki.

  2. Takið steinana úr döðlunum og bætið þeim í matvinnsluvélina, ásamt kakódufti, salti, sírópi og möndlusmjöri. Maukið þar til allt hefur blandast vel saman. Ef deigið er of þykkt mæli ég með því að bæta kókosolíunni út í

  3. Rúllið úr deiginu litlar kúlur, raðið þeim á disk og setjið í ísskáp í svona 30-60 mínútur

  4. Bræðið súkkulaðið og hrærið saman við það kókosolíunni

  5. Veltið kúlunum upp úr súkkulaðinu og raðið þeim á disk. Ég set bökunarpappír undir þær svo þær festist ekki við diskinn. Stráið yfir þær grófa saltinu og setjið þær í ísskáp í allavega 30 mínútur svo súkkulaðið nái að harðna vel.

veganisturundirskrift.jpg

Gómsætt grænkálssnakk

IMG_8736.jpg

Ég gleymi því aldrei þegar ég smakkaði grænkál í fyrsta sinn. Ég hafði enga hugmynd um hvernig ætti að matreiða það svo ég skellti því í skál ásamt allskonar grænmeti og útbjó stærðarinnar salat. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig mér leið þegar ég tók fyrsta bitann. Kálið var gróft, þykkt og stíft. Ég gat með engu móti skilið afhverju grænkálið var svona vinsæl fæða og afhverju fólk borðaði ekki miklu frekar venjulegt iceberg. Ég ákvað því að grænkál væri ekki minn tebolli.

IMG_8636.jpg
IMG_8644.jpg

Það leið þó ekki á löngu þar til ég fékk grænkálssalat sem lét mig endurskoða málið. Salatið var mjúkt, yndislega bragðgott og síður en svo erfitt að tyggja. Ég lærði þá að galdurinn til að útbúa gott grænkálssalat er að nudda það vel uppúr góðri dressingu. Síðan þá hefur grænkál verið reglulegur partur af matarræðinu mínu. 

Grænkál er hægt að njóta á ýmsa vegu. Auk þess að henta vel í salöt er það góður grunnur í þeytinga og græna safa, en einnig er hægt að útbúa úr því dýrindis grænkálssnakk. Ég viðurkenni að ég hafði ekki mikla trú á því að mér myndi þykja grænkálssnakk neitt svakalega gott. Mér hefði seint dottið í hug að gera snakk úr káli, en var þó svolítið forvitin. Það má með sanni segja að snakkið hafi komið mér gríðarlega á óvart. Ég ætla að deila með ykkur uppskriftinni sem ég geri yfirleitt, en hún er bæði einföld og fljótleg. 

IMG_8688.jpg
IMG_8710-2.jpg

Grænkálssnakk

Uppskriftin er fyrir tvær ofnplötur

  • 1 búnt grænkál

  • 1 msk olía

  • 2 tsk hvítlauksduft

  • 1 tsk laukduft

  • Chili flögur eftir smekk

  • 3 msk næringarger

  • salt eftir smekk

  1. Hitið ofninn á sira 150°c

  2. Þvoið grænkálið, þurrkið það vel, fjarlægið blöðin af stilkunum og rífið hvert blað í nokkra stóra bita

  3. Setjið grænkálið í stóra skál og nuddið olíunni saman við. Passið að hún þekji öll blöði. 

  4. Hellið kryddunum og næringargerinu út í og blandið vel saman við kálið

  5. Leggið kálið á ofnplötu með bökunarpappír. Það skiptir máli að dreifa vel úr kálinu og hafa einungis eitt lag á hverri plötu svo snakkið verði stökkt og gott. Þess vegna geri ég frekar tvær plötur ef ég þarf.

  6. Bakið snakkið á 140°c hita í 20-25 mínútur. stundum sný ég plötunni þegar bökunartíminn er hálfnaður en það er samt ekki nauðsynlegt. 

  7. Leyfið snakkinu að kólna aðeins á plötunni áður en það er borið fram. 

Mér finnst gott að útbúa ídýfu með snakkinu. Uppskriftin af henni er mjög einföld. Ég blanda sýrða rjómanum frá Oatly saman við laukduft, hvítlauksduft, steinselju eða kóríander, salt og pipar. Þessi ídýfa er virkilega góð og hentar mjög vel með grænkálssnakkinu sem og öðru snakki. 

Helga María

 

Bananamöffins

download (4).jpeg

Þegar ég á banana sem eru orðnir mjög þroskaðir skelli ég yfirleitt í þessar góðu bananamuffins en ég baka þær örugglega að minnsta kosti einu sinni í viku. En þær eru ótrúlega góðar og hollar og fara einstaklega vel í nestisboxi

download (2).jpeg

Hráefni:

  • 1 bolli spelt frá himneskri hollustu

  • 1/2 bolli malað haframjöl frá himneskri hollustu

  • 1 tsk matarsódi

  • 1 tsk lyftiduft

  • 1/2 tsk kanill

  • 1 bolli stappaðir bananar (rúmlega 3)

  • 1/3 bolli hlynsíróp

  • 1 bolli plöntumjólk

  • 1 bolli saxað súkkulaði eða rúsínur

Aðferð:

  1. Blandið þurrefnunum saman í skál

  2. Bætið öllu nema súkkulaðinu/rúsínunum saman við og hrærið saman. Setjið súkkulaðið/rúsínurnar síðast og blandið við deigið.

  3. Bakið muffinsarnar í 18-20 mín í 175°C heitum ofni.

download (1).jpeg

Njótið vel
- Júlía Sif

Fjórir auðveldir chia-grautar

Mér finnst ótrúlega þægilegt að gera mér chia-graut á kvöldin til að taka með mér í vinnuna daginn eftir. Það er svolítið síðan ég byrjaði að búa mér til grauta en fyrst um sinn flækti ég það mikið fyrir mér og grautarnir innihéldu mörg hráefni. Síðan þá hef ég þróað þá mikið og ákvað ég að deila með ykkur hversu einföld uppskriftin er orðin. Hver grautur inniheldur einungis þrjú hráefni. Það eru á markaðnum í dag alls konar tegudnri af plöntumjólk með alls konar mismunandi bragði. Mér finnst tilvalið að nota bragðbætta mjólk í grautinn minn til að auðvelda fjölbreyttni, en þá fæ ég ekki leið á grautnum. Ég ákvað að nota uppáhalds mjólkina mína í þetta skiptið en það er haframjólkin frá sænska merkinu Oatly.

Hefðbundni grauturinn

Þessi grautur er æðislegur og ótrúlega hollur. Vanillan er alls ekki nauðsynleg en hún gerir mjög gott bragð sem passar æðislega við peruna.

Hráefni:

  • 3 msk chiafræ

  • 250 ml Oatly haframjólk

  • Örlítið af lífrænni vanillu (má sleppa)

  • 1/2 pera

Aðferð:

  1. Hrærið saman chiafræunum, mjólkinni og vanillunni. 

  2. Skerið peruna í litla bita og bætið út í.

  3. Leyfið grautnum að sitja í allavega 30 mínútur í ísskáp áður en hann er borðaður. Ég geri minn á kvöldin og læt að bíða í ísskáp yfir nóttina.

 

Bleiki grauturinn

Ótrúlega góður grautur en það að hann sé bleikur gerir hann ennþá betri. 

Hráefni:

  • 3 msk chiafræ

  • 1 ferna Oatly jarðaberja drykkjarjógúrt

  • 1/2 - 1 epli

Aðferð:

  1. Hrærið saman chiafræunum og jógúrtinni

  2. Skerið eplið í litla bita og bætið út í.

  3. Leyfið grautnum að sitja í ísskáp í minns 30 mínútur. Ég geri minn á kvöldin og hef hann í ísskápnum yfir nótt.

 

 

 

Suðræni grauturinn

Þessi er uppáhalds grauturinn minn en ég er mjög mikið fyrir mangó. Hann bókstaflega kitlar bragðlaukana.

Hráefni:

  • 3 msk chiafræ

  • 1 ferna Oatly mangó og appelsínu drykkjarjógúrt (230 ml)

  • 1/2 mangó

Aðferð:

  1. Hrærið saman chiafræunum og drykkjarjógúrtinni

  2. Skerið mangóið í litla bita og setjið út í

  3. Leyfið grautnum að sitja í minnst 30 mín í ísskáp. Ég geri minn á kvöldið og leyfi honum að sitja yfir nótt.

 

 

Helgar grauturinn

Þessi grautur er tilvalinn fyrir laugardagsmorgnanna þar sem manni líður bókstaflega eins og maður sé að borða súkkulaðibúðing. Mér finnst súkkulaði og bananar passa fullkomlega saman og þess vegna toppaði ég hann með niðurskornum banana.

Hráefni:

  • 3 msk chiafræ

  • 250 ml Oatly súkkulaðimjólk

  • 1/2 - 1 banani

Aðferð:

  1. Hrærið saman chiafræunum og mjólkinni.

  2. skerið bananan í litla bita og blandið saman við

  3. Leyfið grautnum að sitja í að minnsta kosti 30 mínútur eða yfir nótt.

Kínóa og haframjöls laugardagsnammi

Ég elska að eyða tíma í eldhúsinu en um helgar þegar ég hef tíma langar mig oft að búa til eitthvað gott með kaffinu. Mér datt í hug þessa helgina að gera gömlu góðu rice krispies kökurnar sem allir þekkja örugglega vel. 

Það er örlítið vandasamt að finna vegan rice krispies hér á landi en það er þó til. Ég hef bara fundið það í Nettó en þeir virðast einungis selja vegan útgáfuna. Það sem þarf að passa þegar leita á af vegan úgáfunni er að ekki sé viðbætt D-vítamín í morgunkorninu. Ég átti því miður ekki rice krispies og nennti ekki út í búð þar sem ég vissi að ég ætti örugglega eitthvað sem ég gæti notað í staðin. 

Ég fann í skápunum hjá mér poppað kínóa og haframjöl og ákvað að prófa að nota það. Það kom ótrúlega vel út og er nammið hollara fyrir vikið. Ég ákvað því aðeins að breyta þessari hefðbundnu uppskrift og reyna að gera hana örlítið hollari. Ég skipti smjöri út fyrir kókosolíu og sykrinu fyrir kókospálmasykur og síróp, en þetta átti nú einu sinni að vera nammi. Ég ákvað svo að setja smá hnetusmjör útí þar sem ég átti það til og datt í hug að það myndi gefa mjög gott bragð.

Hráefni:

  • 150 ml kókosolía

  • 80 gr gott dökkt súkkulaði (ég notaði 70% súkkulaði)

  • 1/2 dl kókospálmasykur

  • 2 msk agave síróp

  • 1 dl hnetusmjör (ég nota hnetusmjörið frá Sollu)

  • 4 dl poppað kínóa

  • 3 dl haframjöl

Aðferð:

  1. Bræðið saman við lágan hita súkkulaði, kókospálmasykur og síróp. Það þarf að passa að hræra stanslaust í sykrinum því hann brennur mjög auðveldlega.

  2. Þegar sykurinn er bráðin setjið kókosolíuna útí og hitið þar til suðan kemur upp. Hrærið ennþá stanslaust í blöndunni svo hún brenni ekki.

  3. Takið pottið af hellinn um leið og suðan kemur upp og hrærið hnetusmjörinu út í. Leyfið blöndunni að kólna í 5-10 mínútur svo hún þykkni örlítið. 

  4. Hellið út í kínóanu og haframjölinu og hrærið vel svo það sé allt blandað í súkkulaðinu.

  5. Hellið blöndunni í eldfastmót, en það er mjög gott að hafa smjörpappír undir. Leyfið namminu að vera í frysti í 40-60 mínútur, áður en það er tekið út og skorið í bita.

Súkkulaði prótínstykki

Ég er búin að vera soldið að taka matarræðið mitt í gegn núna í janúar, eftir allt sukkið fyrir jólin. En nú er það orðið svoleiðis hérna á Íslandi að úrvalið af vegan mat, skyndibita, sætindum og bara öllu tilheyrandi er orðið svo gífurlega mikið að það er mjög auðvelt að týna sér í óhollum og næringarsnauðum kostum. Mér fannst því komin tími til að taka nokkur skref til baka og hugsa meira um það hvað ég set ofan í mig. Þegar við systur byrjuðum þetta vegan ferðalag okkar áttum við heima saman og þá var úrvalið af óhollum vegan mat ekki neitt. Við borðuðum því alveg ótrúlega hollt alla daga og sukk var bara eiginlega ekki í boði. Ég er mikið farin að sakna þess, þar sem maður var alltaf stútfullur af orku og leið alveg ótrúlega vel. Ekki misskilja þetta samt, ég er mjög ánægð með sukk úrvalið, það þarf bara aðeins að passa sig að gleyma ekki að næra líkaman almennilega líka.

Ég vissi þó að ég þyrfti að finna eitthvað sem mér fannst gott til að grípa í þegar sætindalöngunin færi að láta bera á sér. Þegar við Ívar vorum að ferðast fyrir ári kynntumst við Clif bar. Við boðuðum mjög mikið af þeim þar sem þeir fengust víða og voru mjög næringaríkir og góðir. Mér datt því í hug að reyna að búa til eitthvað svipað. Einhver svona góð orkustykki sem væru holl og næringarík.

Það er þó hægt að fá fjöldan allan af tilbúnum næringarstykkjum í flestum búðum, sum mjög góð og önnur síðri, en þau hafa það öll sameiginlegt að vera alveg virkilega dýr. Mig kítlaði því mikið í fingurna að reyna að gera eitthvað svona sjálf heima. Það sparar manni alltaf hellings pening að búa til hlutina sjálfur og svo finnst mér alveg frábært að vita alveg upp á hár hvað er í matnum sem ég er að borða.

Eins og mér datt í hug var alls ekki flókið að gera stykkin sjálfur og það tók enga stund. Þau heppnuðust líka alveg ótrúlega vel og hafa verið til hérna heima síðan ég bakaði þau fyrst í byrjun janúar. Við tökum þessi stykki með okkur út um allt, en þau hafa oft bjargað okkur þegar maginn hefur verið sár og við að flýta okkur eitthvað. Það er fyrir öllu að hafa eitthvað gott til að grípa í og vita á sama tíma að það er stútfullt af hollri og góðri næringu.

Hráefni:

  • 15 fersk­ar döðlur

  • 1 dl haframjólk

  • 1 msk. möndl­u­smjör

  • 2 tsk. kó­kospálma­syk­ur (eða sæta að eig­in vali)

  • 1/ - 1 msk. hrákakó

  • 1/ dl veg­an-súkkulaðiprótein (við notuðum hráa próteinið frá Sun warri­or)

  • 2 msk. hör­fræmjöl

  • 1 1/ dl trölla­hafr­ar (við not­umst við glút­en­lausa hafra)

  • 1 dl poppað kínóa (en það færst í heilsubúðum sem og hagkaup og nettó)

  • 1/ dl kó­kos­mjöl

  • 30 gr 70% súkkulaði

Aðferð:

  1. Byrjið á því að taka stein­ana úr öll­um döðlun­um.

  2. Setjið döðlur, haframjólk, möndl­u­smjör, kó­kospálma­syk­ur, kakó og prótein í bland­ara eða mat­vinnslu­vél og blandið þar til þetta verður að sléttu mauki.

  3. Hrærið mauk­inu sam­an við hafr­ana, kínóað, kó­kos­mjölið og súkkulaðið með sleif þar til það er vel blandað sam­an.

  4. Það má bæði rúlla deig­inu í kúl­ur og borða hrá­ar eða móta í stykki og baka við 180°C í 15 mín­út­ur. Ég mæli með að prófa hvort tveggja og finna út hvað ykk­ur finnst best.

Njótið vel
-Júlía Sif