Vegan súkkulaðitrufflur með appelsínulíkjör

IMG_1960.jpg

Í dag deili ég með ykkur annarri uppskrift sem hentar fullkomlega sem heimatilbúin jólagjöf. Þessar trufflur eru mögulega besta nammi sem ég hef gert. Þær eru svo ótrúlega ljúffengar og bráðna bókstaflega í munninum. Þetta er svona uppskrift sem smakkast eins og hún sé rosalega flókin, en er í raun virkilega einföld og þægileg. Ég fékk mér kúlu með síðdegiskaffinu og mér leið eins og það væru komin jól.

IMG_1876-5.jpg

Í nóvember héldum við Siggi upp á afmælið hans og nokkrir vinir okkar mættu með litlar flöskur af allskonar líkjör sem þau höfðu keypt í Alko, finnsku vínbúðinni, þegar þau fóru í “roadtrip” í Ikea á landamærunum. Þau skildu eitthvað af því eftir, þar á meðal Cointreau appelsínulíkjör. Það fyrsta sem ég hugsaði þegar ég smakkaði Cointreau var að hann yrði ég að nota í uppskrift og datt þá í hug að gera trufflur fyrir jólin. Ég var ekki alveg viss hvernig það myndi koma út, en fannst þó trúlegt að líkjörinn myndi passa mjög vel við súkkulaðið, sem hann gerði svo sannarlega. Það er þó hægt að skipta honum út fyrir annan líkjör sem manni þykir góður, eða bara sleppa honum ef maður vill. Ég gerði annan skammt í morgun þar sem ég notaði Amaretto möndlulíkjör og ætla að gera úr honum kúlur í kvöld. Ég smakkaði fyllinguna áður en hún fór í ísskápinn og hún var guðdómlega góð líka. Það er því hægt að leika sér endalaust með svona trufflur.

IMG_1956.jpg

Eins og ég sagði að ofan eru þessar trufflur fullkomnar sem jólagjöf. Það er ekki bara persónulegt og skemmtilegt að gefa heimatilbúnar gjafir, heldur kemur það einnig í veg fyrir að maður kaupi bara eitthvað til að gefa eitthvað, sem oftar en ekki bætir bara við dótið sem fólk kannski notar lítið. Eins eru margir sem eiga ekkert svakalega mikinn pening um jólin og eiga erfitt með að kaupa gjafir handa öllum sem þau vilja gefa. Við Siggi erum bæði í námi og eigum því oft ekki mikinn pening svona í lok annarinnar. Því finnst mér hugmyndin um að búa til gómsætar gjafir frábær.

IMG_1964.jpg

Ég rúllaði nokkrar kúlur upp úr kakó en ákvað líka að hjúpa nokkrar í súkkulaði. Mér fannst bæði alveg virkilega gott, en þessar súkkulaðihúðuðu voru alveg extra góðar að mínu mati. Ég var smá hrædd um að það yrði erfitt að hjúpa kúlurnar, en ég setti þær í frystinn eftir að ég rúllaði þær upp þannig þær fengu aðeins að stífna áður en ég hjúpaði þær og það varð ekkert mál. Ég notaði suðusúkkulaði, en vegan mjólkursúkkulaðið frá Ichoc væri örugglega líka mjög gott utan um kúlurnar. Eins held ég að 70% súkkulaði passi rosalega vel því fyllingin er svo sæt.

IMG_1981-2.jpg
IMG_1984.jpg

Súkkulaðitrufflur með appelsínulíkjör (ca 15 stk)

  • 1 dl Alpro þeytirjómi -Ekki þeyta hann samt

  • 25 g smjörlíki

  • 200 g suðusúkkulaði

  • 2 msk Cointreau appelsínulíkjör - Eða bara sá líkjör sem ykkur þykir góður. Eins og ég sagði að ofan passar Amaretto líka fullkomlega í trufflurnar en svo setja margir viskí eða annað áfengi. Eins er auðvitað hægt að sleppa öllu svoleiðis og hafa þetta einfaldlega súkkulaðitrufflur. Eins er líka smekksatriði hversu mikill líkjör er settur út í. Mér fannst 2 msk alveg passlegt, en svo er hægt að bæta meiru við ef fólk vill.

  • Kakó til að rúlla upp úr eða súkkulaði ef þið ætlið að hjúpa kúlurnar

Aðferð:

  1. Saxið niður súkkulaði og setjið í skál.

  2. Hitið rjóma og smjörlíki í potti þar til suðan er alveg að koma upp.

  3. Hellið heitu rjómablöndunni yfir og hrærið varlega saman við súkkulaðið með sleikju. Súkkulaðið á að bráðna alveg, en ef það bráðnar ekki er hægt að hella blöndunni aftur í pottinn og setja á heitu helluna, án þess þó að kveikja á henni.

  4. Bætið líkjörnum út í þegar súkkulaðið er bráðið.

  5. Hellið blöndunni í skál og látið hana kólna upp á borði og setjið svo í ísskáp í 4-6 klst eða yfir nótt.

  6. Takið út og mótið kúlur. Ef þið ætlið að rúlla þeim úr kakó gerið það strax en ef þið ætlið að hjúpa þær í súkkulaði mæli ég með að raða þeim á smjörpappír og setja í frystinn í 30 mín og hjúpa þær svo. Ég reif niður appelsínubörk og setti ofan á og mér fannst það koma mjög skemmtilega út.

  7. Geymið í loftþéttu íláti í ísskáp.

Takk fyrir að lesa og ég vona að ykkur líki vel.

veganisturundirskrift.jpg

Vegan kókoskonfekt

IMG_1921-3.jpg

Áður en ég gerðist vegan var konfekt í miklu uppáhaldi hjá mér. Mér fannst æðislegt þegar ég fékk heimagert konfekt í jólagjöf, en ég er ein af þeim sem elska heimatilbúnar gjafir. Það er ekkert mál að gera gott vegan konfekt, en það halda margir að eina leiðin til þess sé að gera það úr döðlum og hnetum. Við erum með eina uppskrift af dásamlegum möndlu- og döðlukúlum hér á blogginu, en í dag ætla ég að gera vegan konfekt sem er einfaldlega bara nammi. Ég hef ákveðið að sýna ykkur þrjár uppskriftir næstu daga, sem eru fullkomnar í jólapakkann. Þetta eru allt einfaldar og ótrúlega gómsætar uppskriftir sem slá í gegn, sama hvort fólk er vegan eða ekki. Í dag ætla ég að birta þá fyrstu, og það eru heimagerðir “Bounty” bitar.

Þessir bitar koma þvílíkt á óvart, því þeir minna svo ótrúlega mikið á Bounty súkkulaði. Það tók enga stund að búa þá til og ég naut mín í botn með jólatónlist og kertaljós. Ég er komin í jólafrí og er gríðarlega þakklát að hafa tíma núna fyrir jólin til að gera skemmtilegar uppskriftir. Í fyrra hafði ég engan tíma og missti því svolítið af mínum uppáhalds tíma, sem eru vikurnar fyrir jól, þegar jólastressið er ekki orðið svo mikið og enn er hægt að dunda sér við jólastússið. Núna ætla ég því að njóta þess að gera súper kósý hérna heima og prufa mig áfram með skemmtilegar jólauppskriftir.

IMG_1888.jpg
IMG_1894-2.jpg

Eitt af okkar markmiðum er að sýna öllum að það er ekkert mál að halda jól án þess að borða dýraafurðir. Það er hægt að útbúa vegan útgáfu af nánast öllu og ef ekki, þá er hægt að finna eitthvað annað í staðinn. Við erum með gott úrval af hátíðaruppskriftum hérna á blogginu og ætlum að reyna eins og við getum að koma út nokkrum góðum jólauppskriftum núna á næstu vikum. Eins er æðislegt að sjá hvað fyrirtæki og veitingastaðir eru orðin dugleg að framleiða vegan mat. Það eru ekkert alltof mörg ár síðan við borðuðum hnetusteik í öll mál yfir allar hátíðir og vorum orðnar ansi þreyttar á henni þegar kom að gamlárskvöldi, eins og hnetusteikin er nú góð. Nú er hægt að velja úr ótal skemmtilegum og hátíðlegum uppskriftum og ættu því allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi um jólin.

IMG_1905.jpg

Vegan kókosbitar (ca 20 stykki)

  • 3,5 dl kókosmjöl

  • 1,5 dl Alpro þeytirjómi - Ekki þeyta hann samt

  • 1/2 dl kókosolía

  • 1/2 tsk vanillusykur

  • 2 msk flórsykur

  • Örlítið salt

  • 200-220 g súkkulaði - Ég notaði suðusúkkulaði, en vegan mjólkursúkkulaðið frá Ichoc væri fullkomið utan um kúlurnar.

Aðferð:

  1. Blandið saman í skál kókosmjöli, flórsykri, vanillusykri og salti

  2. Bætið í skálina rjómanum og kókosolíunni og blandið öllu vel saman

  3. Rúllið upp í kúlur eða stykki, raðið á smjörpappír og setjið í frystinn í 30 mínútur

  4. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði

  5. Veltið kókosbitunum upp úr súkkulaðinu. Leggið bitana á smjörpappír og kælið þar til súkkulaðið er orðið hart.


Takk fyrir að lesa og við vonum að ykkur líki vel

Veganistur

Súkkulaðihúðaðar saltkaramellu-möndlukúlur

IMG_0343.jpg

Gómsætar súkkulaðihúðaðar möndlu og saltkaramellukúlur! Er hægt að biðja um meira?! Hér sit ég japlandi á þessu unaðslega góða sælgæti og hlakka til að deila með ykkur uppskriftinni. 

IMG_0235.jpg

Fyrir ekki svo löngu birti ég mynd af kúlunum á Instagram og spurði hvort áhugi væri fyrir því að fá uppskrift. Ég fékk heldur betur góð viðbrögð svo ég ákvað að kúlurnar skyldu fara á bloggið. Uppskriftin af þeim varð til þegar Siggi, kærastinn minn, spurði mig hvort ég gæti prufað að gera döðlukúlur sem hann gæti borðað. Ég var vön að nota í þær hnetusmjör og kasjúnetur, en þar sem hann er með ofnæmi fyrir flestum hnetum, gat hann aldrei borðað þær.  Ég ákvað því að breyta uppskriftinni og nota í hana möndlur og sjá hvort hún yrði ekki eins góð, og útkoman var enn betri en ég bjóst við. Síðan þá hef ég einungis notað möndlur í kúlurnar og held ég haldi mig við það framvegis. 

Ég geri kúlurnar í Twister könnunni fyrir Blendtec blandarann, en ég myndi mæla með því að notuð sé matvinnsluvél nema þið eigið annaðhvort Vitamix blandara eða Blendtec og Twister könnuna. Það getur verið algjört maus að útbúa svona kúlur í venjulegum blandara og ég sjálf hef frekar slæma reynslu af slíkri tilraun.

IMG_0260.jpg

Kúlurnar eru gómsætar bæði sem millimál þegar mann vantar orku, en líka fullkomnar til að bjóða upp á sem fingramat í veislum eða partýum. Mér finnst best að fá mér kúlu með kaffibolla dagsins, það er eitt besta "combo" sem ég veit. Ef þið viljið hafa þær í heilsusamlegri kanntinum er auðvitað hægt að nota 70% súkkulaði, eða einfaldlega sleppa súkkulaðinu. Mér finnst súkkulaðið samt ómissandi, en það er algjörlega smekksatriði. 

IMG_0285-2.jpg

Ég er mikið fyrir það þegar sætu og söltu er blandað saman svo mér finnst rosalega gott að strá örlitlu salti yfir kúlurnar. Mér þætti ótrúlega gaman að heyra hvað ykkur finnst ef þið gerið kúlurnar, og eins ef þið prufið að nota í þær aðra tegund af hnetum. Þetta er ein af þessum uppskriftum sem hægt er að leika sér endalaust með. 

IMG_0345.jpg

Kúlurnar (sirka 20 stk):

  • 2 dl möndlur

  • 2 og 1/2 dl ferskar döðlur (Það voru akkúrat 10 döðlur) - mikilvægt að taka steininn úr!

  • 1 kúfull msk möndlusmjör

  • 1 tsk hlynsíróp eða agave

  • 2 tsk kakóduft

  • 1/5 tsk salt

  • 1 tsk bráðin kókosolía (má sleppa! Möndlusmjörið sem ég notaði var rosalega þykkt svo ég bætti olíunni út í til að blandarinn ætti auðveldara með að vinna. Ég myndi byrja á því að setja allt hitt og sjá til hvort nauðsynlegt er að setja olíuna)

Utan um kúlurnar:

  • 100g suðusúkkulaði

  • 1/2 tsk kókosolía

  • Gróft salt

Aðferð:

  1. Byrjið á því að setja möndlurnar í matvinnsluvél eða blandara. (ATH að til að hægt sé að gera þetta í blandara þarf að eiga virkilega góða týpu. Ég mæli frekar með að útbúa kúlurnar í matvinnsluvél nema þið eigið hágæða blandara sem ræður við svona matargerð.) Púlsið þar til möndlurnar eru orðnar að kurli. Ég vil hafa mínar ágætlega grófar svo ég passa að mylja þær ekki.

  2. Takið steinana úr döðlunum og bætið þeim í matvinnsluvélina, ásamt kakódufti, salti, sírópi og möndlusmjöri. Maukið þar til allt hefur blandast vel saman. Ef deigið er of þykkt mæli ég með því að bæta kókosolíunni út í

  3. Rúllið úr deiginu litlar kúlur, raðið þeim á disk og setjið í ísskáp í svona 30-60 mínútur

  4. Bræðið súkkulaðið og hrærið saman við það kókosolíunni

  5. Veltið kúlunum upp úr súkkulaðinu og raðið þeim á disk. Ég set bökunarpappír undir þær svo þær festist ekki við diskinn. Stráið yfir þær grófa saltinu og setjið þær í ísskáp í allavega 30 mínútur svo súkkulaðið nái að harðna vel.

veganisturundirskrift.jpg

Vegan döðlunammi

Þegar halda á veislur, hvort sem þær eru stórar eða litlar, boð eða bara þegar fólk ber að garði langar manni að geta boðið uppá eitthvað. Þá er gott að eiga eitthvað auðvelt, sem hægt er að henda í á örstundu eða grípa úr frystinum. Þessir döðlubitar henta ótrúlega vel með kaffinu, bæði um miðjan daginn og sem eitthvað sætt eftir matinn í boðinu. Það þarf nefnilega ekki alltaf að vera með eitthvað rosalega flókið svo að það slái í gegn. Þess vegna elska ég þessa uppskrift, hún er ótrúlega einföld en hittir alltaf beint í mark.

Hráefni:

  • 250 gr ferskar döðlur (u.þ.b. einn bolli þegar búið er að taka steinana úr)

  • 130 gr vegan smjör

  • 1/2 bolli púðursykur

  • 100 gr lakkrís

  • 2 1/2 bolli rice krispies (á Íslandi fæst því miður ekki lengur vegan rice krispies frá Kellogs, en það er hægt að nota poppað kínóa pöffs sem fæst í Nettó. Eins höfum við prófað að kaupa kornflex frá öðrum merkjum en Kellogs og það virkar vel líka)

  • 150 gr suðusúkkulaði (1 1/2 plata)

Aðferð

  1. Saxið döðlurnar og setjið í pott ásamt smjörinu og sykrinum og bræðið yfir meðalhita.

  2. Látið sjóða á vægum hita í 7-9 mínútur, eða þar til döðlurnar eru vel bráðnaðar.

  3. Saxið lakkrísinn í smátt kurl og blandið saman við rice krispies í skál. Þegar karamellan er tilbúinn er henni hellt yfir krispies'ið og þessu blandað vel saman.

  4. Ég rúllaði mínu nammi upp í kúlur og hjúpaði ýmist með muldu krispies'i eða súkkulaði en einnig er hægt að dreifa blöndunni þétt í eldfast mót og hella bráðnu súkkulaði yfir. Þá er það látið sitja í frystinum í allt að klukkutíma áður en það er skorið í bita.

Njótið vel

-Júlía Sif