Vegan döðlunammi

Þegar halda á veislur, hvort sem þær eru stórar eða litlar, boð eða bara þegar fólk ber að garði langar manni að geta boðið uppá eitthvað. Þá er gott að eiga eitthvað auðvelt, sem hægt er að henda í á örstundu eða grípa úr frystinum. Þessir döðlubitar henta ótrúlega vel með kaffinu, bæði um miðjan daginn og sem eitthvað sætt eftir matinn í boðinu. Það þarf nefnilega ekki alltaf að vera með eitthvað rosalega flókið svo að það slái í gegn. Þess vegna elska ég þessa uppskrift, hún er ótrúlega einföld en hittir alltaf beint í mark.

Hráefni:

  • 250 gr ferskar döðlur (u.þ.b. einn bolli þegar búið er að taka steinana úr)

  • 130 gr vegan smjör

  • 1/2 bolli púðursykur

  • 100 gr lakkrís

  • 2 1/2 bolli rice krispies (á Íslandi fæst því miður ekki lengur vegan rice krispies frá Kellogs, en það er hægt að nota poppað kínóa pöffs sem fæst í Nettó. Eins höfum við prófað að kaupa kornflex frá öðrum merkjum en Kellogs og það virkar vel líka)

  • 150 gr suðusúkkulaði (1 1/2 plata)

Aðferð

  1. Saxið döðlurnar og setjið í pott ásamt smjörinu og sykrinum og bræðið yfir meðalhita.

  2. Látið sjóða á vægum hita í 7-9 mínútur, eða þar til döðlurnar eru vel bráðnaðar.

  3. Saxið lakkrísinn í smátt kurl og blandið saman við rice krispies í skál. Þegar karamellan er tilbúinn er henni hellt yfir krispies'ið og þessu blandað vel saman.

  4. Ég rúllaði mínu nammi upp í kúlur og hjúpaði ýmist með muldu krispies'i eða súkkulaði en einnig er hægt að dreifa blöndunni þétt í eldfast mót og hella bráðnu súkkulaði yfir. Þá er það látið sitja í frystinum í allt að klukkutíma áður en það er skorið í bita.

Njótið vel

-Júlía Sif