Vegan íspinnar með Pólókexi

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að virkilega einföldum og góðum vegan íspinnum hjúpuðum með súkkulaði og kókosmjöli. Þetta er hið fullkomna sumartrít og við mælum með því að eiga alltaf nokkra til í frystinum. Þessir dásamlegu íspinnar munu ekki valda ykkur vonbrigðum. Þeir eru ótrúlega rjómakenndir og góðir og hverfa fljótt ofan í maga.

Færsla dagsins er í samstarfi við Frón og Pólókexið frá þeim gegnir lykilhlutverki í íspinnunum. Kexið er nefnilega mulið ofan í ísblönduna sem gefur bæði gómsætt kókosbragð og stökkir kexbitarnir passa svo vel við rjómakenndan ísinn. Við erum alltaf jafn stoltar af því að fá að vinna með Fróni því Pólókex hefur verið mikilvægur partur af fæðuhring okkrar systra í mörg ár.

Ísblönduna settum við í íspinnaform. Uppskriftin gerði um 6-8 íspinna. Ef þið eigið ekki svoleiðis form er ekkert mál að setja alla blönduna í eitt stórt form. Íspinnaformin keyptum við í Allt í köku.

vegan-ispinnar-med-polokexi-

Að lokum eru pinnarnir húðaðir með súkkulaði og kókosmjöli. Algjört NAMMI. Þessir heimagerðu íspinnar toppa alla íspinna keypta út í búð að okkar mati. Við mælum mikið með því að þið prófið.

Takk innilega fyrir að lesa og við vonum innilega að ykkur líki uppskriftin vel.

Vegan íspinnar með Pólókexi

Vegan íspinnar með Pólókexi
Fyrir: 6-8
Höfundur: Veganistur
Gómsætir og einfaldir vegan íspinnar hjúpaðir með súkkulaði og kókosmjöli. Þetta er hið fullkomna sumartrít og við mælum með því að eiga alltaf nokkra til í frystinum. Þessir dásamlegu íspinnar munu ekki valda ykkur vonbrigðum. Þeir eru ótrúlega rjómakenndir og góðir og hverfa fljótt ofan í maga.

Hráefni:

  • 1/2 ferna vegan þeytirjómi
  • 1/2 ferna vegan vanillusósa
  • 3/4 dl sykur
  • 1 tsk vanilludropar
  • 80 gr Pólókex
  • Suðusúkkulaði og kókosmjöl að hjúpa með (má sleppa)

Aðferð:

  1. Þeytið saman rjóma og vanillusósu.
  2. Bætið sykri og vanilludropum saman við og þeytið svo það blandist vel saman.
  3. Myljið Pólókex í ziplock poka með kökukefli gróft og blandið saman við með sleikju.
  4. Frystið í ísskpinnaformum eða stóru formi helst yfir nótt, eða allavega í 8 klukkutíma.
  5. Bræðið suðusúkkulaði og hjúpið íspinnana með því og stráið kókosmjöli yfir.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið #veganistur

Vegan rocky road með pistasíuhnetum og trönuberjum

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að gómsætu rocky road súkkulaði með pistasíuhnetum, heslihnetum, apríkósum og trönuberjum. Súkkulaðið er svo toppað með appelsínuberki og grófu salti og er FULLKOMIÐ fyrir hátíðleg tilefni eins og til dæmis jólin. Þetta nammi tekur sem enga stund að útbúa og er meðal annars tilvalið sem jólagjöf fyrir þá sem vilja gefa góðgæti í jólapakkann.

Færsla dagsins er í samstarfi við Til hamingju og í þetta sinn notaði ég pistasísukjarna, trönuber, apríkósur og heslihnetur. Til hamingju selur allskonar hnetur, fræ og þurrkaða ávexti og það skemmtilega við þetta rocky road súkkulaði er að það er hægt að gera það algjörlega eftir sínu höfði. Döðlur, valhnetur, möndlur og ristuð graskersfræ myndu t.d. passa ótrúlega vel.

Ég byrjaði á því að rista hneturnar í nokkrar mínútur því ég vildi hafa þær svolítið stökkar. Það má algjörlega sleppa þessu skrefi, ég hef oft gert þetta án þess að rista hneturnar, en mér finnst mjög gott að gera það.

Ég bræddi súkkulaðið með kókosolíu og hlynsírópi á meðallágum hita og skar hneturnar gróft og klippti apríkósurnar út í og blandaði vel saman.

Ég klæddi lítið form með bökunarpappír og setti blönduna ofan í. Það má nota disk, skál, brauðform, fat eða hvað sem er fyrir súkkulaðið. Ég toppaði með aðeins meira af hnetum, grófu salti og rifnum appelsínuberki og leyfði þessu að kólna.

Þetta sælgæti er alveg guðdómlega gott. Hefðbundið rocky road er gert með því að bræða súkkulaði og blanda því saman við sykurpúða, allskonar nammi og oft kexkökur. Það er bókstaflega sykurbomba og mig langaði að gera eitthvað sem hefði sama “kröns” og á sama tíma eitthvað mjúkt sem kæmi í staðinn fyrir sykurpúðana og apríkósurnar gera það algjörlega. Þær eru svo mjúkar og sætar. Sama má segja um trönuberin. Fullkomið á móti stökku hnetunum. Við erum þó að sjálfsögðu með uppskrift að rocky road súkkulaði hérna á blogginu sem er stútfullt af öllu uppáhalds namminu okkar. Uppskriftin er þó nokkurra ára gömul svo það getur verið að þurfi að skipta einhverjum hráefnum út sem ekki fást lengur.

Súkkulaðið líka extra mjúkt og rjómakennt þar sem ég bræddi það með kókosolíu og hlynsírópi. Það minnir örlítið á trufflur og er alveg dásamlegt.

Takk innilega fyrir að lesa og ég vona að ykkur líki vel!

-Helga María

Vegan rocky road með pistasíuhnetum og trönuberjum

Vegan rocky road með pistasíuhnetum og trönuberjum
Höfundur: Helga María
Dásamlegt vegan rocky road með allskonar hnetum og þurrkuðum ávöxtum. Fullkomið að gera fyrir jólin eða við önnur hátiðleg tilefni

Hráefni:

  • 200 gr gott suðusúkkulaði eða dökkt súkkulaði
  • 30 gr kókosolía
  • 20 gr hlynsíróp
  • 70 gr pistasíukjarnar frá Til hamingju
  • 70 gr heslihnetur frá Til hamingju
  • 50 gr þurrkuð trönuber frá Til hamingju
  • 50 gr þurrkaðar apríkósur frá Til hamingju
  • Gróft salt að toppa með
  • Rifinn appelsínubörkur að toppa með (má sleppa)

Aðferð:

  1. Klæðið form, disk, fat eða skál með bökunarpappír og leggið til hliðar til að nota fyrir súkkulaðið.
  2. Hitið ofninn í 150°c og ristið pistasíukjarnana og heslihneturnar í sirka 5-10 mínútur eða þar til þær eru orðnar stökkar. Passið að brenna þær ekki. (ég tek frá smávegis af hnetunum þegar ég er búin að rista þær sem fara ekki ofan í blönduna heldur toppa ég með þeim í lokinn)
  3. Bræðið súkkulaðið í potti með kókosolíu og hlynsírópi og meðallágum hita. Standið við pottinn og hrærið og passið að súkkulaðið brenni ekki.
  4. Skerið hneturnar niður gróft og bætið út í pottinn (takið frá nokkrar til að toppa með) ásamt trönuberjunum og apríkósunum. Mér finnst best að klippa niður apríkósurnar beint í pottinn. Hrærið vel saman.
  5. Hellið ofan í formið sem þið klædduð með bökunarpappír og toppið með restinni af hnetunum, grófu salti og rifnum appelsínuberki. Leyfið að kólna í kæli eða frysti alveg áður en þið skerið það niður.
  6. Skerið í bita og njótið með öllum sem ykkur þykir vænt um.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

Ristaðar jólamöndlur

IMG_2044-3.jpg

Þá er komið að þriðju og síðustu færslunni í þessari litlu jólagjafaseríu minni. Í vikunni hef ég gert tvær konfekt uppskriftir, en ég gerði dásamlegt kókosnammi og súkkulaðitrufflur sem eru með því besta nammi sem ég hef smakkað. Í dag ætla ég ekki að deila konfekti, heldur færi ég ykkur ristaðar jólamöndlur. Þessar möndlur hef ég sjálf gefið nokkrum sinnum í jólagjafir og þær hafa algjörlega slegið í gegn. Það er orðin hefð hjá mér að búa þær til fyrir jólin og ég held það sé ekkert sem lætur heimilið ilma jafn vel og þegar möndlurnar eru í ofninum.

IMG_1994-2.jpg

Ég er með mun fleiri hugmyndir af góðum ætum jólagjöfum, en ákvað að láta þrjár duga í þetta sinn svo ég nái að gera eitthvað annað fyrir jólin. Allar þessar uppskriftir eru ekki bara fullkomnar sem jólagjafir heldur einnig sniðugar til að hafa í skálum yfir jólin og í jólaboðinu. Þær eru líka góðar til að sýna vinum og kunningjum að vegan nammi er alls ekkert síðra en annað sælgæti. Þessar möndlur t.d eru mjög líkar þeim sem maður fær á jólamörkuðum víðsvegar um heim og fólk hefur yfirleitt orðið hissa þegar ég segi því að ég hafi gert þær sjálf.

Ég hef alltaf verið jólabarn, en ég ákvað fyrir nokkrum árum að gera mitt allra besta við að tengja jólin ekki við gríðarlegt stress og pressu til þess að gera allt fullkomið. Ég viðurkenni að í ár hef ég þó upplifað svolítið af þessu. Ég vildi gera íbúðina súper jólalega, gera billjón jólauppskriftir og kaupa sjúklega flottar jólagjafir handa öllum sem ég þekki…

En svo varð ég að minna mig á að þetta er ekki það sem jólin snúast um fyrir mér. Við fljúgum til Noregs núna 17. des svo það hefði varla tekið því að fara að fylla íbúðina okkar af jólaskrauti, og ég reyni að kaupa sem minnst af dóti sem ég hef ekki þörf fyrir. Ég minnti mig líka á að ég blogga því mér finnst það gaman og það eyðileggur bara fyrir mér að setja svona mikla pressu á að ná að gera þúsund uppskriftir fyrir jólin. Þegar ég stoppaði aðeins og andaði náði ég að sjá þetta allt í öðru ljósi sem gerði það að verkum að ég er meira spennt fyrir jólunum en ég hef verið í mörg ár.

IMG_2015.jpg

Hvað jólagjafirnar varðar hef ég oft fengið samviskubit yfir því að geta ekki gefið öllum sem ég vil. Mér hefur liðið eins og ég sé ömurlegasta systir veraldar, því ég hef ekki sent neitt heim til litlu systkinna minna síðustu ár, en mamma hefur verið svo góð að kaupa eitthvað og skrifa nafnið mitt við. Það er svo leiðinlegt að þurfa að skammast sín fyrir að eiga lítinn pening í desember, en ég held að margir námsmenn t.d kannist vel við að eiga lítið eftir af námslánunum þegar fer að líða að jólunum. Auðvitað eru margir aðrir sem eiga lítinn pening fyrir jólagjöfum, en ég er einfaldlega að tala út frá minni reynslu. Ég man að fyrstu jólin sem ég gaf svona jólamöndlur í gjafir fékk ég meiri viðbrögð frá fólkinu í kringum mig en ég hafði fengið áður. Allir urðu himinlifandi og það var enginn sem hugsaði að þetta hlyti að vera því ég ætti ekki pening fyrir einhverju fínna. Möndlur eru sannarlega ekki ódýrar, en allt annað í uppskriftinni er það. Öll kryddin sem ég nota kosta lítið og endast lengi, og svo safnaði ég fallegum krukkum sem ég þvoði vel og fyllti af möndlunum.

IMG_2054.jpg

Mér þætti ótrúlega gaman að heyra hvort þið gefið heimatilbúnar gjafir, og hvort þið hafið fleiri skemmtilegar hugmyndir af ætum jólagjöfum. Eins finnst okkur alltaf jafn gaman þegar þið gerið uppskriftirnar okkar og sendið okkur, eða merkið við okkur á Instagram.

IMG_2027-2.jpg

Ristaðar jólamöndlur

  • 500 g möndlur með hýði

  • 125 g sykur

  • 2 msk aquafaba (vökvinn sem er í dós af kjúklingabaunum - Ég mæli með að nota vökvann af kjúklingabaunum frá Euroshopper sem fást í Bónus, og mér finnst geggjað að nota svo sjálfar baunirnar í þetta dásamlega salat).

  • 1/2 tsk engifer krydd

  • 1/2 tsk allrahanda krydd

  • 1/2 tsk múskat

  • 1 tsk kanill

  • 1 tsk salt

Aðferð:

  1. Hitið bakaraofninn á 135°c.

  2. Skolið möndlurnar með köldu vatni í sigti og látið vatnið renna af þeim áður en þið setjið þær í skál.

  3. Hrærið kjúklingabaunavökvanum saman við möndlurnar ásamt sykrinum og kryddunum.

  4. Smyrjið ofnskúffu með smá olíu, eða leggið á hana bökunarpappír og dreifið vel úr möndlunum yfir.

  5. Bakið möndlurnar í ca 30 mínútur og hrærið í á 10 mín fresti

  6. Leyfið möndlunum að kólna á plötunni eftir að hún er tekin út en hrærið þó reglulega í svo þær festist ekki.

  7. Geymið möndlurnar í loftþettu íláti.

Takk fyrir að lesa og vonum að ykkur líki vel

veganisturundirskrift.jpg

Vegan súkkulaðitrufflur með appelsínulíkjör

IMG_1960.jpg

Í dag deili ég með ykkur annarri uppskrift sem hentar fullkomlega sem heimatilbúin jólagjöf. Þessar trufflur eru mögulega besta nammi sem ég hef gert. Þær eru svo ótrúlega ljúffengar og bráðna bókstaflega í munninum. Þetta er svona uppskrift sem smakkast eins og hún sé rosalega flókin, en er í raun virkilega einföld og þægileg. Ég fékk mér kúlu með síðdegiskaffinu og mér leið eins og það væru komin jól.

IMG_1876-5.jpg

Í nóvember héldum við Siggi upp á afmælið hans og nokkrir vinir okkar mættu með litlar flöskur af allskonar líkjör sem þau höfðu keypt í Alko, finnsku vínbúðinni, þegar þau fóru í “roadtrip” í Ikea á landamærunum. Þau skildu eitthvað af því eftir, þar á meðal Cointreau appelsínulíkjör. Það fyrsta sem ég hugsaði þegar ég smakkaði Cointreau var að hann yrði ég að nota í uppskrift og datt þá í hug að gera trufflur fyrir jólin. Ég var ekki alveg viss hvernig það myndi koma út, en fannst þó trúlegt að líkjörinn myndi passa mjög vel við súkkulaðið, sem hann gerði svo sannarlega. Það er þó hægt að skipta honum út fyrir annan líkjör sem manni þykir góður, eða bara sleppa honum ef maður vill. Ég gerði annan skammt í morgun þar sem ég notaði Amaretto möndlulíkjör og ætla að gera úr honum kúlur í kvöld. Ég smakkaði fyllinguna áður en hún fór í ísskápinn og hún var guðdómlega góð líka. Það er því hægt að leika sér endalaust með svona trufflur.

IMG_1956.jpg

Eins og ég sagði að ofan eru þessar trufflur fullkomnar sem jólagjöf. Það er ekki bara persónulegt og skemmtilegt að gefa heimatilbúnar gjafir, heldur kemur það einnig í veg fyrir að maður kaupi bara eitthvað til að gefa eitthvað, sem oftar en ekki bætir bara við dótið sem fólk kannski notar lítið. Eins eru margir sem eiga ekkert svakalega mikinn pening um jólin og eiga erfitt með að kaupa gjafir handa öllum sem þau vilja gefa. Við Siggi erum bæði í námi og eigum því oft ekki mikinn pening svona í lok annarinnar. Því finnst mér hugmyndin um að búa til gómsætar gjafir frábær.

IMG_1964.jpg

Ég rúllaði nokkrar kúlur upp úr kakó en ákvað líka að hjúpa nokkrar í súkkulaði. Mér fannst bæði alveg virkilega gott, en þessar súkkulaðihúðuðu voru alveg extra góðar að mínu mati. Ég var smá hrædd um að það yrði erfitt að hjúpa kúlurnar, en ég setti þær í frystinn eftir að ég rúllaði þær upp þannig þær fengu aðeins að stífna áður en ég hjúpaði þær og það varð ekkert mál. Ég notaði suðusúkkulaði, en vegan mjólkursúkkulaðið frá Ichoc væri örugglega líka mjög gott utan um kúlurnar. Eins held ég að 70% súkkulaði passi rosalega vel því fyllingin er svo sæt.

IMG_1981-2.jpg
IMG_1984.jpg

Súkkulaðitrufflur með appelsínulíkjör (ca 15 stk)

  • 1 dl Alpro þeytirjómi -Ekki þeyta hann samt

  • 25 g smjörlíki

  • 200 g suðusúkkulaði

  • 2 msk Cointreau appelsínulíkjör - Eða bara sá líkjör sem ykkur þykir góður. Eins og ég sagði að ofan passar Amaretto líka fullkomlega í trufflurnar en svo setja margir viskí eða annað áfengi. Eins er auðvitað hægt að sleppa öllu svoleiðis og hafa þetta einfaldlega súkkulaðitrufflur. Eins er líka smekksatriði hversu mikill líkjör er settur út í. Mér fannst 2 msk alveg passlegt, en svo er hægt að bæta meiru við ef fólk vill.

  • Kakó til að rúlla upp úr eða súkkulaði ef þið ætlið að hjúpa kúlurnar

Aðferð:

  1. Saxið niður súkkulaði og setjið í skál.

  2. Hitið rjóma og smjörlíki í potti þar til suðan er alveg að koma upp.

  3. Hellið heitu rjómablöndunni yfir og hrærið varlega saman við súkkulaðið með sleikju. Súkkulaðið á að bráðna alveg, en ef það bráðnar ekki er hægt að hella blöndunni aftur í pottinn og setja á heitu helluna, án þess þó að kveikja á henni.

  4. Bætið líkjörnum út í þegar súkkulaðið er bráðið.

  5. Hellið blöndunni í skál og látið hana kólna upp á borði og setjið svo í ísskáp í 4-6 klst eða yfir nótt.

  6. Takið út og mótið kúlur. Ef þið ætlið að rúlla þeim úr kakó gerið það strax en ef þið ætlið að hjúpa þær í súkkulaði mæli ég með að raða þeim á smjörpappír og setja í frystinn í 30 mín og hjúpa þær svo. Ég reif niður appelsínubörk og setti ofan á og mér fannst það koma mjög skemmtilega út.

  7. Geymið í loftþéttu íláti í ísskáp.

Takk fyrir að lesa og ég vona að ykkur líki vel.

veganisturundirskrift.jpg

Vegan kókoskonfekt

IMG_1921-3.jpg

Áður en ég gerðist vegan var konfekt í miklu uppáhaldi hjá mér. Mér fannst æðislegt þegar ég fékk heimagert konfekt í jólagjöf, en ég er ein af þeim sem elska heimatilbúnar gjafir. Það er ekkert mál að gera gott vegan konfekt, en það halda margir að eina leiðin til þess sé að gera það úr döðlum og hnetum. Við erum með eina uppskrift af dásamlegum möndlu- og döðlukúlum hér á blogginu, en í dag ætla ég að gera vegan konfekt sem er einfaldlega bara nammi. Ég hef ákveðið að sýna ykkur þrjár uppskriftir næstu daga, sem eru fullkomnar í jólapakkann. Þetta eru allt einfaldar og ótrúlega gómsætar uppskriftir sem slá í gegn, sama hvort fólk er vegan eða ekki. Í dag ætla ég að birta þá fyrstu, og það eru heimagerðir “Bounty” bitar.

Þessir bitar koma þvílíkt á óvart, því þeir minna svo ótrúlega mikið á Bounty súkkulaði. Það tók enga stund að búa þá til og ég naut mín í botn með jólatónlist og kertaljós. Ég er komin í jólafrí og er gríðarlega þakklát að hafa tíma núna fyrir jólin til að gera skemmtilegar uppskriftir. Í fyrra hafði ég engan tíma og missti því svolítið af mínum uppáhalds tíma, sem eru vikurnar fyrir jól, þegar jólastressið er ekki orðið svo mikið og enn er hægt að dunda sér við jólastússið. Núna ætla ég því að njóta þess að gera súper kósý hérna heima og prufa mig áfram með skemmtilegar jólauppskriftir.

IMG_1888.jpg
IMG_1894-2.jpg

Eitt af okkar markmiðum er að sýna öllum að það er ekkert mál að halda jól án þess að borða dýraafurðir. Það er hægt að útbúa vegan útgáfu af nánast öllu og ef ekki, þá er hægt að finna eitthvað annað í staðinn. Við erum með gott úrval af hátíðaruppskriftum hérna á blogginu og ætlum að reyna eins og við getum að koma út nokkrum góðum jólauppskriftum núna á næstu vikum. Eins er æðislegt að sjá hvað fyrirtæki og veitingastaðir eru orðin dugleg að framleiða vegan mat. Það eru ekkert alltof mörg ár síðan við borðuðum hnetusteik í öll mál yfir allar hátíðir og vorum orðnar ansi þreyttar á henni þegar kom að gamlárskvöldi, eins og hnetusteikin er nú góð. Nú er hægt að velja úr ótal skemmtilegum og hátíðlegum uppskriftum og ættu því allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi um jólin.

IMG_1905.jpg

Vegan kókosbitar (ca 20 stykki)

  • 3,5 dl kókosmjöl

  • 1,5 dl Alpro þeytirjómi - Ekki þeyta hann samt

  • 1/2 dl kókosolía

  • 1/2 tsk vanillusykur

  • 2 msk flórsykur

  • Örlítið salt

  • 200-220 g súkkulaði - Ég notaði suðusúkkulaði, en vegan mjólkursúkkulaðið frá Ichoc væri fullkomið utan um kúlurnar.

Aðferð:

  1. Blandið saman í skál kókosmjöli, flórsykri, vanillusykri og salti

  2. Bætið í skálina rjómanum og kókosolíunni og blandið öllu vel saman

  3. Rúllið upp í kúlur eða stykki, raðið á smjörpappír og setjið í frystinn í 30 mínútur

  4. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði

  5. Veltið kókosbitunum upp úr súkkulaðinu. Leggið bitana á smjörpappír og kælið þar til súkkulaðið er orðið hart.


Takk fyrir að lesa og við vonum að ykkur líki vel

Veganistur

Fjórir Vegan Partýréttir

Eurovision er næstu helgi. Flestir Íslendingar fara í Eurovision-partý, hvort sem þeim þykir keppnin skemmtileg eða ekki. Það er alltaf fínt að hafa afsökun til þess að hitta vini og/eða ættingja, belgja sig út af allskonar grillmat og snarli og skemmta sér fram eftir kvöldi. 

Við systur elskum öll tilefni sem tengjast mat. Við elskum að útbúa spennandi rétti til að taka með í partý og matarboð. Það er samt svolítið algengt að í boðunum séu allskonar fjölbreyttar kræsingar en ekkert vegan fyrir utan saltaðar kartöfluflögur. Við ákváðum því í samstarfi við Krónuna að skella í fjóra gómsæta rétti sem eru fullkomnir fyrir Euro-partýin og allir ofur einfaldir og fljótlegir. 

 

1. Vegan eðla

Sko, þessi uppskrift er kannski engin svaka uppskrift, en þessi gómsæta heita ídýfa er ómissandi í alvöru partý. Ídýfan hefur verið vinsæl í langan tíma en síðustu ár hefur hún gengið undir nafninu ,,eðla." Við höfum gert vegan eðlu ótal oft, hún er alveg jafn góð og þessi sem við borðuðum hér áður fyrr. Nýlega hóf Krónan að selja uppáhalds vegan rjómaostinn okkar sem hefur ekki fengist hér á landi í rúm tvö ár. Það gleður okkur að sjálfsögðu mikið því okkur finnst hann langbestur í svona eðlu. 

  • 1 askja creamy Sheese original

  • 1 krukka salsasósa

  • Follow your heart pizzeria blend ostur - það er undir hverjum og einum komið hversu mikið magn af osti er sett yfir, en við setjum vel af honum. Osturinn frá Follow your heart er einn af okkar uppáhalds vegan osti.
    Ath: Það er mismunandi hversu stórt eldfast mót fólk notar. Við miðum yfirleitt við að hafa sirka 1 cm þykkt af rjómaostinum, 1 cm af salsasósunni og setjum ostinn þannig að hann hylji allt.

  1. Smyrjið rjómaosti í eldfast mót

  2. Hellið salsasósunni yfir

  3. Stráið osti yfir þannig að hann hylji vel

  4. Setjið inn í ofn á 200°c í 15-20 mínútur eða þar til osturinn er bráðinn

  5. Berið fram með snakki að eigin vali. Við notuðum tegund af Dorítós flögum sem er ný í verslunum hér á landi. Flögurnar eru í gulum pokum og heita Lightly salted. (Svart dórítos er líka vegan og mjög gott.)

Eins og við segjum, þetta er varla uppskrift, en það er ekki hægt að gera partýrétta færslu án þess að hafa þessa ídýfu með. 

2. Rocky road bitar

Næsta uppskrift er eiginlega svolítið ólík öllu sem við höfum smakkað. Þetta gómsæta sælgæti kallast Rocky road á ensku, en við vitum ekkert íslenskt nafn yfir bitana. Þetta var í fyrsta skipti sem við útbúum rocky road og urðum því að nota hugmyndarflugið. Það heppnaðist heldur betur vel og bitarnir eru ómótstæðilega góðir. 

  • 4 stykki Vego súkkulaði

  • 100 g suðusúkkulaði

  • 1 tsk kókosolía

  • 2 bollar nammi að eigin vali (Við notuðum tvær tegundir af hlaupinu frá Bubs, saltstangir, lakkrísreimar frá Appolo og svolítið af heslihnetunum úr Vego súkkulaðinu)

  1. Bræðið vego súkkulaðið og suðusúkkulaðið ásamt kókosolíu

  2. Veiðið hneturnar uppúr súkkulaðinu þegar það er bráðið. Ef þið viljið hafa mikið af hnetum þá auðvitað hafiði þær bara í, en við notuðum sirka 1 msk af hnetunum því þær eru annars svolítið yfirþyrmandi. Ástæðan fyrir því að við notuðum Vego súkkulaðið er því það er langbesta súkkulaðið að okkar mati, það gjörsamlega bráðnar uppí manni.

  3. Klippið lakkrísreimarnar í bita, brjótið saltstanginar niður og blandið saman við súkkulaðið í stóra skál ásamt hlaupinu og hnetunum

  4. Setjið smjörpappír í eldfast mót og hellið sælgætisblöndunni ofan í

  5. Geymið í ísskáp í klukkutíma og skerið svo niður í munnbita

Við vorum ekkert smá ánægðar með rocky road bitana. Það er algjörlega valfrjálst hvaða sælgæti er notað en okkur fannst þessi blanda alveg fullkomin.

3. BBQ Oumph! salat með mæjónesi

Við fengum hugmyndina af næsta rétti í Pálínuboði fyrir rúmu ári. Þar var gómsætt BBQ-mæjónes salat borið fram með ritzkexi og við ákváðum strax að búa til okkar útgáfu af svoleiðis. Salatið er æðislegt og er fullkomið með kexi eða á samlokur. Júlía bauð uppá svona salat á kaffistofunni í vinnunni sinni fyrir stuttu og það sló í gegn. 

  • 1 poki Oumph - pure chunk. Við ætluðum að nota pulled Oumph því það inniheldur BBQ sósu. Það var hinsvegar ekki til í Krónunni í dag svo við tókum til okkar ráða og bjuggum til okkar eigin útgáfu

  • 1 miðlungs laukur - smátt saxaður

  • 6 sneiðar af jalapenos - smátt saxað (það er undir hvern og einn komið hversu sterkt hann við hafa salatið)

  • 3 dl BBQ sósa

  • 3 msk vegan mæjónes frá Follow your heart (Vegenaise)

  • örlítið salt

  1. Ef þið notið pulled oumph er fyrsta skrefið ekki nauðsynlegt. Hinsvegar ef þið notið pure chunk mælum við með því að leyfa því að þiðna í sirka hálftíma, rífa bitana í sundur (við notuðum tvo gaffla í verkið), blanda þeim saman við BBQ sósuna í stórri skál og leyfa því að standa í marineringu í sirka hálftíma.

  2. Steikið laukinn á pönnu í nokkrar mínútur

  3. Bætið jalapenos á pönnuna ásamt oumph-bitunum og steikið í sirka 10 mínútur

  4. Hellið blöndunni í skál og leyfið henni að kólna

  5. Blandið mæjónesinu saman við

  6. Berið fram. Okkur þykir gott að bera salatið fram með ritz kexi eða útbúa litlar samlokur t.d úr Baguette brauði

4. Smjördeigs-hnetusmjörs-súkkulaði-ávaxtasæla með vanilluís

Þennan "rétt" skálduðum við upp í morgun. Við vissum ekkert hvort þetta myndi koma vel út eða misheppnast hryllilega. Við urðum ekkert smá hissa á því hvað þetta smakkaðist æðislega vel en á sama tíma hissa yfir því að okkur hafi ekki dottið þetta í hug fyrr. Við höfum ekkert nafn yfir þessa dásemd. Okkur datt fyrst í hug að útbúa einhverskonar eftirrétta-pizzu en ákváðum svo að nota smjördeig. Það vita það ekki allir en smjördeig inniheldur sjaldan smjör og er því oft vegan. Það kemur sér einstaklega vel því smjördeig býður uppá allskonar möguleika. 

  • 3 plötur af smjördeigi. Við notuðum deigið frá TC brød

  • 100 g suðusúkkulaði

  • 2,5 msk fínt hnetusmjör

  • 1 tsk flórsykur

  • ávextir að eigin vali - við notuðum banana og jarðarber

  • NadaMoo! vanilluís - valfrjáls

  1. Leyfið smjördeigsplötunum að þiðna svona hálfpartinn

  2. Leggið plöturnar hlið við hlið, fletjið þær aðeins út og festið saman þannig þær myndi eina plötu. Gatið deigið vel með gaffli og útbúið smá kannt (það er gert svo sósan hellist ekki um allt þegar henni er smurt á)

  3. Bakið smjördeigið í 15 mínútur á 190°c eða þar til það verður örlítið gyllt

  4. Bræðið súkkulaðið og blandið saman við það hnetusmjörinu og flórsykrinum

  5. Smyrjið sósunni á smjördeigið þegar það er tilbúið og komið úr ofninum

  6. Raðið ávöxtunum á, sigtið flórsykur yfir og toppið að lokum með vanilluís. Þetta er bæði hægt að bera fram heitt og kalt, við smökkuðum bæði og fannst hvoru tveggja æðislegt.

Vonandi gefa þessir réttir ykkur smá innblástur til þess að útbúa fjölbreytta veganrétti í Europartýunum næstu helgi, við erum allavega ótrúlega spenntar. 

 

Færslan er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefnin þar. 

Vegan páskaegg

Ég hef ekki keypt mér páskaegg um páskana síðan ég gerðist vegan. Í staðinn hef ég lagt það í vana minn að kaupa mér bara uppáhalds vegan nammið mitt og háma það í mig á meðan að hinir gæða sér á eggjunum sínum. Úrvalið af vegan nammi er orðið svo gríðarlegt í dag að það er ekkert mál fyrir grænkera að njóta hátíðarinnar.

Þetta árið er þó hægt að fá vegan páskaegg í Krónunni en ég ákvað samt að búa mér til mitt eigið egg í fyrsta skipti. Páskaeggið í Krónunni er úr suðusúkkulaði en mig langaði í egg úr vegan mjólkursúkkulaði sem myndi minna meira á það sem ég var vön að borða áður. Ég hafði hugsað um að búa mér til páskaegg í svolítinn tíma en aldrei lagt í það. Ég ákvað að láta reyna á það og ég sé svo sannarlega ekki eftir því.

Það að gera heimagerð páskaegg var þó örlítið meira maus en ég hélt. Það var alls ekki flókið eða erfitt, það var bara aðeins tímafrekara en ég hafði gert ráð fyrir. Ég varð sem betur fer ótrúlega sátt með útkomuna sem gerði þetta allt þess virði.  Ég ætla að deila með ykkur mínum ráðum og því nammi sem ég notaði í eggin.

Ichoc súkkulaðið er uppáhalds súkkulaðið mitt og því fannst mér tilvalið að nota það til að útbúa páskaeggin. Ichoc er vegan mjólkursúkkulaði gert úr hrísgrjónamjólk og það fæst í nokkrum tegundum sem eru allar ómótstæðilega góðar. Súkkulaðið hentaði fullkomlega í páskaeggin sem gerði mig að sjálfsgöðu virkilega glaða, það var mjög auðvelt að vinna með það og það harnaði vel. Páskaegg eru ekki alvöru páskaegg nema þau séu stútfull af gómsætu nammi. Ef maður ætlar á annað borð að belgja sig út af sykri verður maður að gera það almennilega. Ég fór því í leiðangur og valdi mitt uppaáhalds nammi til þess að setja inní eggin. Formin fékk ég í búðinni Allt í köku, en þar fást páskaeggjamót í öllum stærðum og gerðum. Ég notaði mót sem eru 19 centímetrar en mér finnst það mjög mátuleg stærð.

Hráefni í eitt egg:

  • 4 plötur Ichoc súkkulaði (320 gr) (Classic súkkulaðið henntar best en ég gerði líka úr hvíta súkkulaðinu og núggat súkkulaðinu)

  • það nammi sem hugurinn girnist (ég notaði eftirfarandi)

    • bubs hlaup (fæst í Krónunni)

    • biona hlaup (fæst í Nettó)

    • dökkt brak (fæst í Iceland)

    • lakkrís (flestur íslenskur lakkrís er vegan, fyrir utan fylltan lakkrís og lakkrískonfekt. ATH mjólkursýra er vegan og hefur ekkert með kúamjólk að gera)

    • svartur brjóstsykur

    • Hjúpaður lakkrís sem ég hjúpaði sjálf með classic súkkulaðinu

Aðferð:

  1. Það er nauðsynlegt að "tempra" súkkulaðið eins og það er kallað en þá er 2/3 af súkkulaðinu eða í þessu tilfelli u.þ.b. 200 gr brætt yfir vatnsbaði og hrært í á meðan. Þegar súkkulaðið er bráðið er það tekið af hitanum og restinni sem var tekin frá (1/3) bætt út í og hrært þar til allt er bráðnað.

  2. Súkkulaðinu er hellt í páskaeggjaformin og vellt um í góða stund. Mér fannst best að setja vel í fomin, velta því um og leggja fomin svo á hvolf yfir skálina í allt að 10 mínútur. Þetta er svo endurtekið nokkrum sinnum eða þar til frekar þykkt lag af súkkulaði hefur myndast í formin. Passa þarf að brúnirnar séu einnig þykkar svo auðvelt sé að festa eggin saman.

  3. Ef setja á eitthvað í súkkulaðið líkt og lakkrískurl eða krispies er best að setja eitt lag af súkkulaði fyrst í formin áður en kurlinu er bætt út í. 

  4. Formin þurfa síðan að sitja í frysti í allavega 30 mínútur eða þar til súkkulaðið hefur losnað frá plastinu. Þegar fomið er lagt á hvolf á eggið að detta auðvledlega úr.

  5. Til að festa eggin saman er best að vera með súkkulaði sem hefur verið "temprað" og leyft að kólna við stofuhita þar til það verður ágætlega þykkt. Munið að fylla eggin með nammi og málshætti áður en því er lokað.

Gleðilega páska

22710108_10155093561382525_553341027_n.jpg

Vegan döðlunammi

Þegar halda á veislur, hvort sem þær eru stórar eða litlar, boð eða bara þegar fólk ber að garði langar manni að geta boðið uppá eitthvað. Þá er gott að eiga eitthvað auðvelt, sem hægt er að henda í á örstundu eða grípa úr frystinum. Þessir döðlubitar henta ótrúlega vel með kaffinu, bæði um miðjan daginn og sem eitthvað sætt eftir matinn í boðinu. Það þarf nefnilega ekki alltaf að vera með eitthvað rosalega flókið svo að það slái í gegn. Þess vegna elska ég þessa uppskrift, hún er ótrúlega einföld en hittir alltaf beint í mark.

Hráefni:

  • 250 gr ferskar döðlur (u.þ.b. einn bolli þegar búið er að taka steinana úr)

  • 130 gr vegan smjör

  • 1/2 bolli púðursykur

  • 100 gr lakkrís

  • 2 1/2 bolli rice krispies (á Íslandi fæst því miður ekki lengur vegan rice krispies frá Kellogs, en það er hægt að nota poppað kínóa pöffs sem fæst í Nettó. Eins höfum við prófað að kaupa kornflex frá öðrum merkjum en Kellogs og það virkar vel líka)

  • 150 gr suðusúkkulaði (1 1/2 plata)

Aðferð

  1. Saxið döðlurnar og setjið í pott ásamt smjörinu og sykrinum og bræðið yfir meðalhita.

  2. Látið sjóða á vægum hita í 7-9 mínútur, eða þar til döðlurnar eru vel bráðnaðar.

  3. Saxið lakkrísinn í smátt kurl og blandið saman við rice krispies í skál. Þegar karamellan er tilbúinn er henni hellt yfir krispies'ið og þessu blandað vel saman.

  4. Ég rúllaði mínu nammi upp í kúlur og hjúpaði ýmist með muldu krispies'i eða súkkulaði en einnig er hægt að dreifa blöndunni þétt í eldfast mót og hella bráðnu súkkulaði yfir. Þá er það látið sitja í frystinum í allt að klukkutíma áður en það er skorið í bita.

Njótið vel

-Júlía Sif