Vegan súkkulaðitrufflur með appelsínulíkjör
/Í dag deili ég með ykkur annarri uppskrift sem hentar fullkomlega sem heimatilbúin jólagjöf. Þessar trufflur eru mögulega besta nammi sem ég hef gert. Þær eru svo ótrúlega ljúffengar og bráðna bókstaflega í munninum. Þetta er svona uppskrift sem smakkast eins og hún sé rosalega flókin, en er í raun virkilega einföld og þægileg. Ég fékk mér kúlu með síðdegiskaffinu og mér leið eins og það væru komin jól.
Í nóvember héldum við Siggi upp á afmælið hans og nokkrir vinir okkar mættu með litlar flöskur af allskonar líkjör sem þau höfðu keypt í Alko, finnsku vínbúðinni, þegar þau fóru í “roadtrip” í Ikea á landamærunum. Þau skildu eitthvað af því eftir, þar á meðal Cointreau appelsínulíkjör. Það fyrsta sem ég hugsaði þegar ég smakkaði Cointreau var að hann yrði ég að nota í uppskrift og datt þá í hug að gera trufflur fyrir jólin. Ég var ekki alveg viss hvernig það myndi koma út, en fannst þó trúlegt að líkjörinn myndi passa mjög vel við súkkulaðið, sem hann gerði svo sannarlega. Það er þó hægt að skipta honum út fyrir annan líkjör sem manni þykir góður, eða bara sleppa honum ef maður vill. Ég gerði annan skammt í morgun þar sem ég notaði Amaretto möndlulíkjör og ætla að gera úr honum kúlur í kvöld. Ég smakkaði fyllinguna áður en hún fór í ísskápinn og hún var guðdómlega góð líka. Það er því hægt að leika sér endalaust með svona trufflur.
Eins og ég sagði að ofan eru þessar trufflur fullkomnar sem jólagjöf. Það er ekki bara persónulegt og skemmtilegt að gefa heimatilbúnar gjafir, heldur kemur það einnig í veg fyrir að maður kaupi bara eitthvað til að gefa eitthvað, sem oftar en ekki bætir bara við dótið sem fólk kannski notar lítið. Eins eru margir sem eiga ekkert svakalega mikinn pening um jólin og eiga erfitt með að kaupa gjafir handa öllum sem þau vilja gefa. Við Siggi erum bæði í námi og eigum því oft ekki mikinn pening svona í lok annarinnar. Því finnst mér hugmyndin um að búa til gómsætar gjafir frábær.
Ég rúllaði nokkrar kúlur upp úr kakó en ákvað líka að hjúpa nokkrar í súkkulaði. Mér fannst bæði alveg virkilega gott, en þessar súkkulaðihúðuðu voru alveg extra góðar að mínu mati. Ég var smá hrædd um að það yrði erfitt að hjúpa kúlurnar, en ég setti þær í frystinn eftir að ég rúllaði þær upp þannig þær fengu aðeins að stífna áður en ég hjúpaði þær og það varð ekkert mál. Ég notaði suðusúkkulaði, en vegan mjólkursúkkulaðið frá Ichoc væri örugglega líka mjög gott utan um kúlurnar. Eins held ég að 70% súkkulaði passi rosalega vel því fyllingin er svo sæt.
Súkkulaðitrufflur með appelsínulíkjör (ca 15 stk)
1 dl Alpro þeytirjómi -Ekki þeyta hann samt
25 g smjörlíki
200 g suðusúkkulaði
2 msk Cointreau appelsínulíkjör - Eða bara sá líkjör sem ykkur þykir góður. Eins og ég sagði að ofan passar Amaretto líka fullkomlega í trufflurnar en svo setja margir viskí eða annað áfengi. Eins er auðvitað hægt að sleppa öllu svoleiðis og hafa þetta einfaldlega súkkulaðitrufflur. Eins er líka smekksatriði hversu mikill líkjör er settur út í. Mér fannst 2 msk alveg passlegt, en svo er hægt að bæta meiru við ef fólk vill.
Kakó til að rúlla upp úr eða súkkulaði ef þið ætlið að hjúpa kúlurnar
Aðferð:
Saxið niður súkkulaði og setjið í skál.
Hitið rjóma og smjörlíki í potti þar til suðan er alveg að koma upp.
Hellið heitu rjómablöndunni yfir og hrærið varlega saman við súkkulaðið með sleikju. Súkkulaðið á að bráðna alveg, en ef það bráðnar ekki er hægt að hella blöndunni aftur í pottinn og setja á heitu helluna, án þess þó að kveikja á henni.
Bætið líkjörnum út í þegar súkkulaðið er bráðið.
Hellið blöndunni í skál og látið hana kólna upp á borði og setjið svo í ísskáp í 4-6 klst eða yfir nótt.
Takið út og mótið kúlur. Ef þið ætlið að rúlla þeim úr kakó gerið það strax en ef þið ætlið að hjúpa þær í súkkulaði mæli ég með að raða þeim á smjörpappír og setja í frystinn í 30 mín og hjúpa þær svo. Ég reif niður appelsínubörk og setti ofan á og mér fannst það koma mjög skemmtilega út.
Geymið í loftþéttu íláti í ísskáp.
Takk fyrir að lesa og ég vona að ykkur líki vel.