Ristaðar jólamöndlur

IMG_2044-3.jpg

Þá er komið að þriðju og síðustu færslunni í þessari litlu jólagjafaseríu minni. Í vikunni hef ég gert tvær konfekt uppskriftir, en ég gerði dásamlegt kókosnammi og súkkulaðitrufflur sem eru með því besta nammi sem ég hef smakkað. Í dag ætla ég ekki að deila konfekti, heldur færi ég ykkur ristaðar jólamöndlur. Þessar möndlur hef ég sjálf gefið nokkrum sinnum í jólagjafir og þær hafa algjörlega slegið í gegn. Það er orðin hefð hjá mér að búa þær til fyrir jólin og ég held það sé ekkert sem lætur heimilið ilma jafn vel og þegar möndlurnar eru í ofninum.

IMG_1994-2.jpg

Ég er með mun fleiri hugmyndir af góðum ætum jólagjöfum, en ákvað að láta þrjár duga í þetta sinn svo ég nái að gera eitthvað annað fyrir jólin. Allar þessar uppskriftir eru ekki bara fullkomnar sem jólagjafir heldur einnig sniðugar til að hafa í skálum yfir jólin og í jólaboðinu. Þær eru líka góðar til að sýna vinum og kunningjum að vegan nammi er alls ekkert síðra en annað sælgæti. Þessar möndlur t.d eru mjög líkar þeim sem maður fær á jólamörkuðum víðsvegar um heim og fólk hefur yfirleitt orðið hissa þegar ég segi því að ég hafi gert þær sjálf.

Ég hef alltaf verið jólabarn, en ég ákvað fyrir nokkrum árum að gera mitt allra besta við að tengja jólin ekki við gríðarlegt stress og pressu til þess að gera allt fullkomið. Ég viðurkenni að í ár hef ég þó upplifað svolítið af þessu. Ég vildi gera íbúðina súper jólalega, gera billjón jólauppskriftir og kaupa sjúklega flottar jólagjafir handa öllum sem ég þekki…

En svo varð ég að minna mig á að þetta er ekki það sem jólin snúast um fyrir mér. Við fljúgum til Noregs núna 17. des svo það hefði varla tekið því að fara að fylla íbúðina okkar af jólaskrauti, og ég reyni að kaupa sem minnst af dóti sem ég hef ekki þörf fyrir. Ég minnti mig líka á að ég blogga því mér finnst það gaman og það eyðileggur bara fyrir mér að setja svona mikla pressu á að ná að gera þúsund uppskriftir fyrir jólin. Þegar ég stoppaði aðeins og andaði náði ég að sjá þetta allt í öðru ljósi sem gerði það að verkum að ég er meira spennt fyrir jólunum en ég hef verið í mörg ár.

IMG_2015.jpg

Hvað jólagjafirnar varðar hef ég oft fengið samviskubit yfir því að geta ekki gefið öllum sem ég vil. Mér hefur liðið eins og ég sé ömurlegasta systir veraldar, því ég hef ekki sent neitt heim til litlu systkinna minna síðustu ár, en mamma hefur verið svo góð að kaupa eitthvað og skrifa nafnið mitt við. Það er svo leiðinlegt að þurfa að skammast sín fyrir að eiga lítinn pening í desember, en ég held að margir námsmenn t.d kannist vel við að eiga lítið eftir af námslánunum þegar fer að líða að jólunum. Auðvitað eru margir aðrir sem eiga lítinn pening fyrir jólagjöfum, en ég er einfaldlega að tala út frá minni reynslu. Ég man að fyrstu jólin sem ég gaf svona jólamöndlur í gjafir fékk ég meiri viðbrögð frá fólkinu í kringum mig en ég hafði fengið áður. Allir urðu himinlifandi og það var enginn sem hugsaði að þetta hlyti að vera því ég ætti ekki pening fyrir einhverju fínna. Möndlur eru sannarlega ekki ódýrar, en allt annað í uppskriftinni er það. Öll kryddin sem ég nota kosta lítið og endast lengi, og svo safnaði ég fallegum krukkum sem ég þvoði vel og fyllti af möndlunum.

IMG_2054.jpg

Mér þætti ótrúlega gaman að heyra hvort þið gefið heimatilbúnar gjafir, og hvort þið hafið fleiri skemmtilegar hugmyndir af ætum jólagjöfum. Eins finnst okkur alltaf jafn gaman þegar þið gerið uppskriftirnar okkar og sendið okkur, eða merkið við okkur á Instagram.

IMG_2027-2.jpg

Ristaðar jólamöndlur

  • 500 g möndlur með hýði

  • 125 g sykur

  • 2 msk aquafaba (vökvinn sem er í dós af kjúklingabaunum - Ég mæli með að nota vökvann af kjúklingabaunum frá Euroshopper sem fást í Bónus, og mér finnst geggjað að nota svo sjálfar baunirnar í þetta dásamlega salat).

  • 1/2 tsk engifer krydd

  • 1/2 tsk allrahanda krydd

  • 1/2 tsk múskat

  • 1 tsk kanill

  • 1 tsk salt

Aðferð:

  1. Hitið bakaraofninn á 135°c.

  2. Skolið möndlurnar með köldu vatni í sigti og látið vatnið renna af þeim áður en þið setjið þær í skál.

  3. Hrærið kjúklingabaunavökvanum saman við möndlurnar ásamt sykrinum og kryddunum.

  4. Smyrjið ofnskúffu með smá olíu, eða leggið á hana bökunarpappír og dreifið vel úr möndlunum yfir.

  5. Bakið möndlurnar í ca 30 mínútur og hrærið í á 10 mín fresti

  6. Leyfið möndlunum að kólna á plötunni eftir að hún er tekin út en hrærið þó reglulega í svo þær festist ekki.

  7. Geymið möndlurnar í loftþettu íláti.

Takk fyrir að lesa og vonum að ykkur líki vel

veganisturundirskrift.jpg