Vegan kókoskonfekt
/Áður en ég gerðist vegan var konfekt í miklu uppáhaldi hjá mér. Mér fannst æðislegt þegar ég fékk heimagert konfekt í jólagjöf, en ég er ein af þeim sem elska heimatilbúnar gjafir. Það er ekkert mál að gera gott vegan konfekt, en það halda margir að eina leiðin til þess sé að gera það úr döðlum og hnetum. Við erum með eina uppskrift af dásamlegum möndlu- og döðlukúlum hér á blogginu, en í dag ætla ég að gera vegan konfekt sem er einfaldlega bara nammi. Ég hef ákveðið að sýna ykkur þrjár uppskriftir næstu daga, sem eru fullkomnar í jólapakkann. Þetta eru allt einfaldar og ótrúlega gómsætar uppskriftir sem slá í gegn, sama hvort fólk er vegan eða ekki. Í dag ætla ég að birta þá fyrstu, og það eru heimagerðir “Bounty” bitar.
Þessir bitar koma þvílíkt á óvart, því þeir minna svo ótrúlega mikið á Bounty súkkulaði. Það tók enga stund að búa þá til og ég naut mín í botn með jólatónlist og kertaljós. Ég er komin í jólafrí og er gríðarlega þakklát að hafa tíma núna fyrir jólin til að gera skemmtilegar uppskriftir. Í fyrra hafði ég engan tíma og missti því svolítið af mínum uppáhalds tíma, sem eru vikurnar fyrir jól, þegar jólastressið er ekki orðið svo mikið og enn er hægt að dunda sér við jólastússið. Núna ætla ég því að njóta þess að gera súper kósý hérna heima og prufa mig áfram með skemmtilegar jólauppskriftir.
Eitt af okkar markmiðum er að sýna öllum að það er ekkert mál að halda jól án þess að borða dýraafurðir. Það er hægt að útbúa vegan útgáfu af nánast öllu og ef ekki, þá er hægt að finna eitthvað annað í staðinn. Við erum með gott úrval af hátíðaruppskriftum hérna á blogginu og ætlum að reyna eins og við getum að koma út nokkrum góðum jólauppskriftum núna á næstu vikum. Eins er æðislegt að sjá hvað fyrirtæki og veitingastaðir eru orðin dugleg að framleiða vegan mat. Það eru ekkert alltof mörg ár síðan við borðuðum hnetusteik í öll mál yfir allar hátíðir og vorum orðnar ansi þreyttar á henni þegar kom að gamlárskvöldi, eins og hnetusteikin er nú góð. Nú er hægt að velja úr ótal skemmtilegum og hátíðlegum uppskriftum og ættu því allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi um jólin.
Vegan kókosbitar (ca 20 stykki)
3,5 dl kókosmjöl
1,5 dl Alpro þeytirjómi - Ekki þeyta hann samt
1/2 dl kókosolía
1/2 tsk vanillusykur
2 msk flórsykur
Örlítið salt
200-220 g súkkulaði - Ég notaði suðusúkkulaði, en vegan mjólkursúkkulaðið frá Ichoc væri fullkomið utan um kúlurnar.
Aðferð:
Blandið saman í skál kókosmjöli, flórsykri, vanillusykri og salti
Bætið í skálina rjómanum og kókosolíunni og blandið öllu vel saman
Rúllið upp í kúlur eða stykki, raðið á smjörpappír og setjið í frystinn í 30 mínútur
Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði
Veltið kókosbitunum upp úr súkkulaðinu. Leggið bitana á smjörpappír og kælið þar til súkkulaðið er orðið hart.
Takk fyrir að lesa og við vonum að ykkur líki vel
Veganistur