Fjórir Vegan Partýréttir

Eurovision er næstu helgi. Flestir Íslendingar fara í Eurovision-partý, hvort sem þeim þykir keppnin skemmtileg eða ekki. Það er alltaf fínt að hafa afsökun til þess að hitta vini og/eða ættingja, belgja sig út af allskonar grillmat og snarli og skemmta sér fram eftir kvöldi. 

Við systur elskum öll tilefni sem tengjast mat. Við elskum að útbúa spennandi rétti til að taka með í partý og matarboð. Það er samt svolítið algengt að í boðunum séu allskonar fjölbreyttar kræsingar en ekkert vegan fyrir utan saltaðar kartöfluflögur. Við ákváðum því í samstarfi við Krónuna að skella í fjóra gómsæta rétti sem eru fullkomnir fyrir Euro-partýin og allir ofur einfaldir og fljótlegir. 

 

1. Vegan eðla

Sko, þessi uppskrift er kannski engin svaka uppskrift, en þessi gómsæta heita ídýfa er ómissandi í alvöru partý. Ídýfan hefur verið vinsæl í langan tíma en síðustu ár hefur hún gengið undir nafninu ,,eðla." Við höfum gert vegan eðlu ótal oft, hún er alveg jafn góð og þessi sem við borðuðum hér áður fyrr. Nýlega hóf Krónan að selja uppáhalds vegan rjómaostinn okkar sem hefur ekki fengist hér á landi í rúm tvö ár. Það gleður okkur að sjálfsögðu mikið því okkur finnst hann langbestur í svona eðlu. 

  • 1 askja creamy Sheese original

  • 1 krukka salsasósa

  • Follow your heart pizzeria blend ostur - það er undir hverjum og einum komið hversu mikið magn af osti er sett yfir, en við setjum vel af honum. Osturinn frá Follow your heart er einn af okkar uppáhalds vegan osti.
    Ath: Það er mismunandi hversu stórt eldfast mót fólk notar. Við miðum yfirleitt við að hafa sirka 1 cm þykkt af rjómaostinum, 1 cm af salsasósunni og setjum ostinn þannig að hann hylji allt.

  1. Smyrjið rjómaosti í eldfast mót

  2. Hellið salsasósunni yfir

  3. Stráið osti yfir þannig að hann hylji vel

  4. Setjið inn í ofn á 200°c í 15-20 mínútur eða þar til osturinn er bráðinn

  5. Berið fram með snakki að eigin vali. Við notuðum tegund af Dorítós flögum sem er ný í verslunum hér á landi. Flögurnar eru í gulum pokum og heita Lightly salted. (Svart dórítos er líka vegan og mjög gott.)

Eins og við segjum, þetta er varla uppskrift, en það er ekki hægt að gera partýrétta færslu án þess að hafa þessa ídýfu með. 

2. Rocky road bitar

Næsta uppskrift er eiginlega svolítið ólík öllu sem við höfum smakkað. Þetta gómsæta sælgæti kallast Rocky road á ensku, en við vitum ekkert íslenskt nafn yfir bitana. Þetta var í fyrsta skipti sem við útbúum rocky road og urðum því að nota hugmyndarflugið. Það heppnaðist heldur betur vel og bitarnir eru ómótstæðilega góðir. 

  • 4 stykki Vego súkkulaði

  • 100 g suðusúkkulaði

  • 1 tsk kókosolía

  • 2 bollar nammi að eigin vali (Við notuðum tvær tegundir af hlaupinu frá Bubs, saltstangir, lakkrísreimar frá Appolo og svolítið af heslihnetunum úr Vego súkkulaðinu)

  1. Bræðið vego súkkulaðið og suðusúkkulaðið ásamt kókosolíu

  2. Veiðið hneturnar uppúr súkkulaðinu þegar það er bráðið. Ef þið viljið hafa mikið af hnetum þá auðvitað hafiði þær bara í, en við notuðum sirka 1 msk af hnetunum því þær eru annars svolítið yfirþyrmandi. Ástæðan fyrir því að við notuðum Vego súkkulaðið er því það er langbesta súkkulaðið að okkar mati, það gjörsamlega bráðnar uppí manni.

  3. Klippið lakkrísreimarnar í bita, brjótið saltstanginar niður og blandið saman við súkkulaðið í stóra skál ásamt hlaupinu og hnetunum

  4. Setjið smjörpappír í eldfast mót og hellið sælgætisblöndunni ofan í

  5. Geymið í ísskáp í klukkutíma og skerið svo niður í munnbita

Við vorum ekkert smá ánægðar með rocky road bitana. Það er algjörlega valfrjálst hvaða sælgæti er notað en okkur fannst þessi blanda alveg fullkomin.

3. BBQ Oumph! salat með mæjónesi

Við fengum hugmyndina af næsta rétti í Pálínuboði fyrir rúmu ári. Þar var gómsætt BBQ-mæjónes salat borið fram með ritzkexi og við ákváðum strax að búa til okkar útgáfu af svoleiðis. Salatið er æðislegt og er fullkomið með kexi eða á samlokur. Júlía bauð uppá svona salat á kaffistofunni í vinnunni sinni fyrir stuttu og það sló í gegn. 

  • 1 poki Oumph - pure chunk. Við ætluðum að nota pulled Oumph því það inniheldur BBQ sósu. Það var hinsvegar ekki til í Krónunni í dag svo við tókum til okkar ráða og bjuggum til okkar eigin útgáfu

  • 1 miðlungs laukur - smátt saxaður

  • 6 sneiðar af jalapenos - smátt saxað (það er undir hvern og einn komið hversu sterkt hann við hafa salatið)

  • 3 dl BBQ sósa

  • 3 msk vegan mæjónes frá Follow your heart (Vegenaise)

  • örlítið salt

  1. Ef þið notið pulled oumph er fyrsta skrefið ekki nauðsynlegt. Hinsvegar ef þið notið pure chunk mælum við með því að leyfa því að þiðna í sirka hálftíma, rífa bitana í sundur (við notuðum tvo gaffla í verkið), blanda þeim saman við BBQ sósuna í stórri skál og leyfa því að standa í marineringu í sirka hálftíma.

  2. Steikið laukinn á pönnu í nokkrar mínútur

  3. Bætið jalapenos á pönnuna ásamt oumph-bitunum og steikið í sirka 10 mínútur

  4. Hellið blöndunni í skál og leyfið henni að kólna

  5. Blandið mæjónesinu saman við

  6. Berið fram. Okkur þykir gott að bera salatið fram með ritz kexi eða útbúa litlar samlokur t.d úr Baguette brauði

4. Smjördeigs-hnetusmjörs-súkkulaði-ávaxtasæla með vanilluís

Þennan "rétt" skálduðum við upp í morgun. Við vissum ekkert hvort þetta myndi koma vel út eða misheppnast hryllilega. Við urðum ekkert smá hissa á því hvað þetta smakkaðist æðislega vel en á sama tíma hissa yfir því að okkur hafi ekki dottið þetta í hug fyrr. Við höfum ekkert nafn yfir þessa dásemd. Okkur datt fyrst í hug að útbúa einhverskonar eftirrétta-pizzu en ákváðum svo að nota smjördeig. Það vita það ekki allir en smjördeig inniheldur sjaldan smjör og er því oft vegan. Það kemur sér einstaklega vel því smjördeig býður uppá allskonar möguleika. 

  • 3 plötur af smjördeigi. Við notuðum deigið frá TC brød

  • 100 g suðusúkkulaði

  • 2,5 msk fínt hnetusmjör

  • 1 tsk flórsykur

  • ávextir að eigin vali - við notuðum banana og jarðarber

  • NadaMoo! vanilluís - valfrjáls

  1. Leyfið smjördeigsplötunum að þiðna svona hálfpartinn

  2. Leggið plöturnar hlið við hlið, fletjið þær aðeins út og festið saman þannig þær myndi eina plötu. Gatið deigið vel með gaffli og útbúið smá kannt (það er gert svo sósan hellist ekki um allt þegar henni er smurt á)

  3. Bakið smjördeigið í 15 mínútur á 190°c eða þar til það verður örlítið gyllt

  4. Bræðið súkkulaðið og blandið saman við það hnetusmjörinu og flórsykrinum

  5. Smyrjið sósunni á smjördeigið þegar það er tilbúið og komið úr ofninum

  6. Raðið ávöxtunum á, sigtið flórsykur yfir og toppið að lokum með vanilluís. Þetta er bæði hægt að bera fram heitt og kalt, við smökkuðum bæði og fannst hvoru tveggja æðislegt.

Vonandi gefa þessir réttir ykkur smá innblástur til þess að útbúa fjölbreytta veganrétti í Europartýunum næstu helgi, við erum allavega ótrúlega spenntar. 

 

Færslan er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefnin þar.