Súkkulaðihúðaðar saltkaramellu-möndlukúlur

IMG_0343.jpg

Gómsætar súkkulaðihúðaðar möndlu og saltkaramellukúlur! Er hægt að biðja um meira?! Hér sit ég japlandi á þessu unaðslega góða sælgæti og hlakka til að deila með ykkur uppskriftinni. 

IMG_0235.jpg

Fyrir ekki svo löngu birti ég mynd af kúlunum á Instagram og spurði hvort áhugi væri fyrir því að fá uppskrift. Ég fékk heldur betur góð viðbrögð svo ég ákvað að kúlurnar skyldu fara á bloggið. Uppskriftin af þeim varð til þegar Siggi, kærastinn minn, spurði mig hvort ég gæti prufað að gera döðlukúlur sem hann gæti borðað. Ég var vön að nota í þær hnetusmjör og kasjúnetur, en þar sem hann er með ofnæmi fyrir flestum hnetum, gat hann aldrei borðað þær.  Ég ákvað því að breyta uppskriftinni og nota í hana möndlur og sjá hvort hún yrði ekki eins góð, og útkoman var enn betri en ég bjóst við. Síðan þá hef ég einungis notað möndlur í kúlurnar og held ég haldi mig við það framvegis. 

Ég geri kúlurnar í Twister könnunni fyrir Blendtec blandarann, en ég myndi mæla með því að notuð sé matvinnsluvél nema þið eigið annaðhvort Vitamix blandara eða Blendtec og Twister könnuna. Það getur verið algjört maus að útbúa svona kúlur í venjulegum blandara og ég sjálf hef frekar slæma reynslu af slíkri tilraun.

IMG_0260.jpg

Kúlurnar eru gómsætar bæði sem millimál þegar mann vantar orku, en líka fullkomnar til að bjóða upp á sem fingramat í veislum eða partýum. Mér finnst best að fá mér kúlu með kaffibolla dagsins, það er eitt besta "combo" sem ég veit. Ef þið viljið hafa þær í heilsusamlegri kanntinum er auðvitað hægt að nota 70% súkkulaði, eða einfaldlega sleppa súkkulaðinu. Mér finnst súkkulaðið samt ómissandi, en það er algjörlega smekksatriði. 

IMG_0285-2.jpg

Ég er mikið fyrir það þegar sætu og söltu er blandað saman svo mér finnst rosalega gott að strá örlitlu salti yfir kúlurnar. Mér þætti ótrúlega gaman að heyra hvað ykkur finnst ef þið gerið kúlurnar, og eins ef þið prufið að nota í þær aðra tegund af hnetum. Þetta er ein af þessum uppskriftum sem hægt er að leika sér endalaust með. 

IMG_0345.jpg

Kúlurnar (sirka 20 stk):

  • 2 dl möndlur

  • 2 og 1/2 dl ferskar döðlur (Það voru akkúrat 10 döðlur) - mikilvægt að taka steininn úr!

  • 1 kúfull msk möndlusmjör

  • 1 tsk hlynsíróp eða agave

  • 2 tsk kakóduft

  • 1/5 tsk salt

  • 1 tsk bráðin kókosolía (má sleppa! Möndlusmjörið sem ég notaði var rosalega þykkt svo ég bætti olíunni út í til að blandarinn ætti auðveldara með að vinna. Ég myndi byrja á því að setja allt hitt og sjá til hvort nauðsynlegt er að setja olíuna)

Utan um kúlurnar:

  • 100g suðusúkkulaði

  • 1/2 tsk kókosolía

  • Gróft salt

Aðferð:

  1. Byrjið á því að setja möndlurnar í matvinnsluvél eða blandara. (ATH að til að hægt sé að gera þetta í blandara þarf að eiga virkilega góða týpu. Ég mæli frekar með að útbúa kúlurnar í matvinnsluvél nema þið eigið hágæða blandara sem ræður við svona matargerð.) Púlsið þar til möndlurnar eru orðnar að kurli. Ég vil hafa mínar ágætlega grófar svo ég passa að mylja þær ekki.

  2. Takið steinana úr döðlunum og bætið þeim í matvinnsluvélina, ásamt kakódufti, salti, sírópi og möndlusmjöri. Maukið þar til allt hefur blandast vel saman. Ef deigið er of þykkt mæli ég með því að bæta kókosolíunni út í

  3. Rúllið úr deiginu litlar kúlur, raðið þeim á disk og setjið í ísskáp í svona 30-60 mínútur

  4. Bræðið súkkulaðið og hrærið saman við það kókosolíunni

  5. Veltið kúlunum upp úr súkkulaðinu og raðið þeim á disk. Ég set bökunarpappír undir þær svo þær festist ekki við diskinn. Stráið yfir þær grófa saltinu og setjið þær í ísskáp í allavega 30 mínútur svo súkkulaðið nái að harðna vel.

veganisturundirskrift.jpg