Fljótlegur vegan bröns

Núna er komin janúar og þó svo að rútínan fari kannski örlítið hægar af stað á mörgum stöðum sökum ástandsins í samfélaginu finnst mér alltaf gott að huga vel að heilsunni á þessum árstíma. Þessi tími er mér oft erfiður, þegar jólin eru búin, mikið myrkur og leiðinlegt veður og frekar langt í sumarið. Mér finnst hjálpa mér að borða góðan og næringarríkan mat og reyna að búa mér til rútínu sem hentar mér. Ég ætla því að deila með ykkur í dag góðum og næringarríkum bröns sem tekur enga stund að útbúa og er fullkomin um helgar eða til að bjóða vinkonum upp á til dæmis.

Færslan er unnin í samstarfi við Krónuna en þar var að byrja í sölu þessar frábæru smoothie skálar sem koma tilbúnar með öllum innihaldsefnum í heila skál í hverjum pakka. Flestir eru líklega farnir að þekkja svona smotthie skálar hér á landi þar sem nokkur fyrirtæki sem selja þær hafa byrjað á síðustu árum en það er alveg æði að geta gert svona fallegar og næringarríkar skálar heima hjá sér.

Ég prófaði Tropical Bowl, Acai skálina og Ocean Bowl og eru þær hver annari betri. Þær eru einnig stútfullar af góðri næringu og eru fullkomin morgunmatur eða millimál einar og sér líka.

Ofan á skálarnar setti ég

  • Banana

  • Jarðaber

  • Bláber

  • Ferskan ananas

  • Almond candy möndlusmjör frá Wholey

  • Granóla

  • Kókosmjöl

Með skálunum ákvað ég að bjóða upp á ristaðar beyglur með rjómaosti, avocado og tómötum sem og þessar hollu bananapönnukökurnar. Pönnukökurnar er mjög einfalt að baka og eru þær hveiti og sykurlausar. Þær er einnig auðvelt að gera glútenlausar með því að skipta út venjulegu haframjöli fyrir glútenlaust haframjöl. Þær eru mjög næringarríkar og henta líka fullkomlega fyrir lítil börn. Ég bar pönnukökurnar fram með Wholey Sh*t súkkulaði og heslihnetusmyrju, jarðaberjum og hlynsírópi en það var alveg guðdómlega gott.

Hollar bananapönnukökur

  • 2 dl fínmalað haframjöl

  • 1/2 tsk lyftiduft

  • 1/2 tsk salt

  • 1 stór banani eða 1 og hálfur lítill

  • 2 msk síróp (t.d. agave eða það síróp sem hver og einn kýs, því má líka alveg sleppa)

  • 2 dl haframjólk eða önnur plöntumjólk

Aðferð:

  1. Malið haframjölið í blandara eða matvinnsluvél þar til það verður að alveg fínu mjöli.

  2. Stappið banana vel niður.

  3. Hrærið öllum hráefnum vel saman í skál.

  4. Steikið upp úr góðri olíu í nokkrar mínútur á hvorri hlið eða þar til pönnukökurnar verða fallega gylltar.

-Njótið vel og eigið góða helgi.

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna og fæst allt í uppskriftirnar þar -

 
 

Vegan bananapönnukökur

Þessar pönnukökurnar eru algjört æði og í miklu uppáhaldi hjá okkur þar sem það er ótrúlega einfalt að baka þær og eru þær hveiti og sykurlausar. Pönnukökurnar er einnig auðvelt að gera glútenlausar með því að skipta út venjulegu haframjöli fyrir glútenlaust haframjöl. Þær eru mjög næringarríkar og henta líka fullkomlega fyrir lítil börn. Þær tekur enga stund að útbúa og henta fullkomlega í morgunmat eða sem næringarríkt millimál. Það má bera þær fram á alls konar vegu og er til dæmis hægt að sleppa sírópinu í þeim og bera þær fram með vegan smjöri og vegan osti eða banana.

Hollar bananapönnukökur

  • 2 dl fínmalað haframjöl

  • 1/2 tsk lyftiduft

  • 1/2 tsk salt

  • 1 stór banani eða 1 og hálfur lítill

  • 2 msk síróp (t.d. agave eða það síróp sem hver og einn kýs, því má líka alveg sleppa)

  • 2 dl haframjólk eða önnur plöntumjólk

Aðferð:

  1. Malið haframjölið í blandara eða matvinnsluvél þar til það verður að alveg fínu mjöli.

  2. Stappið banana vel niður.

  3. Hrærið öllum hráefnum vel saman í skál.

  4. Steikið upp úr góðri olíu í nokkrar mínútur á hvorri hlið eða þar til pönnukökurnar verða fallega gylltar.

-Njótið vel

Amerískar vegan pönnukökur með sítrónu og birkifræjum

Í dag deili ég með ykkur fyrstu uppskrift ársins en það eru þessar gómsætu amerísku pönnukökur með sítrónu og birkifræjum. Þykkar, dúnmjúkar og einstaklega braðgóðar. Pönnukökurnar eru hinn FULLKOMNI helgarmorgunmatur og passa vel með dögurði. Þær eru líka geggjaðar með kaffinu. Það tekur enga stund að skella í pönnsurnar og það er virkilega auðvelt að útbúa þær.

Sítrónur og birkifræ eru skemmtileg blanda. Við erum nú þegar með uppskrift af gómsætri sítrónuköku með birkifræjum og rjómaostakremi hérna á blogginu. Mér hefur alltaf þótt birkifræ góð en það er ekki langt síðan ég smakkaði þau í fyrsta sinn í sætum bakstri. Áður hafði ég einungis borðað þau í allskonar brauði, rúnstykkjum, beyglum og fl. En þau eru svo sannarlega ekki síður góð í sætum kökum og bakstri.

Í gær listaði ég niður 10 vinsælustu uppskrftirnar á blogginu árið 2021. Uppskriftin okkar af amerískum pönnukökum var ein af þeim vinsælustu og ég skil það vel. Pönnukökur slá einhvernveginn alltaf í gegn. Ég er mikið fyrir þessar þunnu íslensku en finnst amerískar líka mjög góðar. Eitt af því besta við þær síðarnefndu er að það er mun auðveldara að baka þær. Pönnukökudeigið er þykkt og það er létt að flippa þeim. Þær eru þessvegna skotheldar og fljótlegar.

Sjáið þessi fallegu birkifræ. Í deiginu er bæði sítrónusafi og sítrónubörkur sem gefur pönnukökunum dásamlegt bragð.

Ég toppaði pönnsurnar með því sem mér þykir best, þeyttum hafrarjóma, sultu og auðvitað fullt af hlynsírópi!

Ég neyddist að sjálfsögðu til að taka eina svona klassíska pönnukökumynd þar sem ég skar í gegnum allan pönnukökustaflann. Ég hló upphátt á meðan ég tók þessa mynd því ég myndi aldrei borða pönnukökur svona. Ég vil toppa hverja einustu pönnsu með allskonar góðgæti.

Amerískar vegan pönnukökur með sítrónu og birkifræjum

Hráefni:

  • 5 dl hveiti (ca 300 gr). Smá tips: þegar ég nota dl mál til að mæla hveiti legg ég það á borðið og nota matskeið til að moka hveitinu yfir í málið. Með því kemst ég hjá því að pressa of miklu hveiti í dl málið og fæ alltaf sama magn.

  • 2 msk sykur

  • 3 tsk lyftiduft

  • 1 tsk matarsódi

  • 1/2 dl birkifræ

  • Pínulítið salt

  • 3 dl haframjólk eða önnur vegan mjólk

  • 2,5 dl sojajógúrt

  • 1 tsk vanilludropar

  • 2 msk bráðið smjörlíki sem hefur fengið að kólna aðeins (plús meira til að steikja upp úr)

  • Safi og rifinn börkur úr einni sítrónu

Aðferð:

  1. Blandið saman þurrefnunum í skál. Ég bæti yfirleitt birkifræjunum seinast út í þegar ég hef blandað hinum þurrefnunum saman.

  2. Hrærið saman í aðra skál restinni af hráefnunum.

  3. Hellið blautu hráefnunum saman við þau þurru og hrærið saman með písk.

  4. Hitið smjörlíki á pönnu við meðalhita.

  5. Steikið hverja pönnuköku þangað til bubblur myndast á yfirborðinu og botninn hefur fengið fallegan gylltan lit, flippið þá pönnukökunni og steikið þar til hin hliðin hefur einnig fengið fallegan lit.

  6. Berið fram með því sem ykkur dettur í hug. Þeyttum vegan rjóma, sultu, hlynsírópi, vegan “nutella”, ávöxtum.. listinn er endalaus.

Takk fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur uppskriftin. Munið að tagga okkur á instagram ef þið gerið pönnsurnar eða einhverjar aðrar uppskriftir af blogginu okkar. Það gerir okkur alltaf jafn ótrúlega glaðar!

-Helga María

Vegan skonsubrauðterta

IMG_3058-2.jpg

Uppskrift dagsins er af þessari dásamlegu skonsubrauðtertu. Mörgum finnst tilhugsunin kannski svolítið skrítin, en ég lofa ykkur því að þetta passar fullkomlega saman. Mér þótti ekkert smá gaman að útbúa þessa fallegu brauðtertu og salatið sem er á milli er algjört lostæti. Ég hef oft gert það áður og það er dásamlegt á ritzkex og í allskonar samlokur.

IMG_3008-2.jpg

Ég veit að það eru sumir sem hafa alltaf borðað svona skonsutertur og aðrir sem aldrei hafa smakkað þær. Tengdamamma mín útbýr oft svoleiðis en í okkar fjölskyldu voru alltaf þessar hefðbundnu löngu brauðtertur, en þegar ég fór að tala um þetta við mömmu um daginn sagði hún mér að hún hafi oft fengið skonsutertu hjá ömmu sinni þegar hún var barn. Þar sem ég hafði aldrei smakkað svoleiðis ákvað ég að gúggla aðeins og sjá hvað fólk væri að setja á milli og hvernig þetta liti út. Ég fann ekkert svakalega margar uppskriftir og eiginlega engar myndir af svoleiðis, en hinsvegar virðist það vera svo að margir hafi alist upp við að borða svona og geri enn í dag. Síðan við opnuðum bloggið okkar höfum við fengið mikinn áhuga á að veganvæða klassískar uppskriftir, eins og þið flest kannski hafið tekið eftir, og þessi skemmtilega brauðterta er frábær viðbót í safnið.

IMG_3014-3.jpg

Við erum nú þegar með eina uppskrift af brauðtertu á blogginu, en sú uppskrift er ein af þeim fyrstu á blogginu. Vegan skinkan sem við notuðum í þá uppskrift fæst ekki lengur, en í dag eru aðrar tegundir til sem passa alveg jafn vel í salatið. Það er að sjálfsögðu líka hægt að gera “betra en túnfisksalat” uppskriftina okkar og setja á svona brauðtertu auk þess sem aspas- og sveppafylling væri pottþétt fullkomin. Möguleikarnir eru endalausir.

Það kemur fyrir þegar ég útbý rétti fyrir bloggið að ég nýt mín svo mikið og tek svo mikið magn af myndum að ég á erfitt með að velja og langar að hafa þær allar með. Stundum hef ég orðið svolítið hrædd um að færslurnar verði of langar í kjölfarið. Í dag var svoleiðis dagur, en mér fannst svo gaman að mynda þessa tertu að ég á erfitt með að velja og hafna, og þið verðið bara að sætta ykkur við allt myndaflóðið.

IMG_3027.jpg
IMG_3034.jpg

Það eru mörg tilefni framundan til þess að búa til þessa gómsætu brauðtertu, en páskarnir eru á næsta leiti og fermingarnar líka. Þrátt fyrir að það sé allt á kafi í snjó hérna í Piteå ákvað ég að reyna að skreyta tertuna svolítið sumarlega því ég er komin í vorskap. Ég viðurkenni að ég var frekar stressuð fyrir því að skreyta hana og til að vera viss um að ég eyðilegði tertuna ekki smurði ég mæjónesi á disk og æfði mig að skreyta svoleiðis áður en ég lagði í sjálfa tertuna. Ég held barasta að ég sé nokkuð ánægð með lokaútkomuna.

IMG_3045.jpg

Eruði með einhverjar fleiri skemmtilegar hugmyndir að vegan salötum til að setja á svona brauðtertu? Ég væri mikið til í að prufa að gera fleiri útgáfur!

IMG_3053.jpg

Skonsubrauðterta

  • 5 skonsur (uppskrift fyrir neðan)

  • Vegan “kjúklingasalat” (uppskrift fyrir neðan)

  • Mæjónes til að smyrja ofan á

  • Grænmeti til að skreyta með

Aðferð:

  1. Byrjið á því að útbúa salatið. Það er nefnilega frekar mikilvægt að mínu mati að leyfa því að standa í svolitla stund svo það taki vel í sig allt bragð. Ég set það yfirleitt í ísskápinn í minnst klukkustund og helst alveg þrjár.

  2. Bakið skonsurnar og leyfið þeim að kólna.

  3. Setjið saman brauðtertuna og skreytið með því sem ykkur lystir.

Vegan “kjúklingasalat”

  • Vegan mæjónes. Ég gerði eina og hálfa uppskrift af þessu ótrúlega góða vegan mæjónesi. Ég notaði það allt í salatið fyrir utan smá sem ég tók frá til að smyrja ofan á kökuna. Ég var svo fljótfær að ég fattaði ekki að mæla magnið af mæjónesinu fyrir ykkur sem kaupið tilbúið í stað þess að gera sjálf, en ég held það hafi verið um 3 bollar. Ég lofa að gera mæjóið sem fyrst aftur og uppfæra færsluna þá með nákvæmu magni, en ein og hálf uppskrift af því sem ég póstaði hérna með er fullkomið magn.

  • 1 pakki filébitar frá Hälsans Kök

  • Vorlaukur eftir smekk (ég setti 1 dl og fannst það passlegt en myndi jafnvel setja aðeins meira næst)

  • Gular baunir eftir smekk (ég notaði líka 1 dl af þeim og ég kaupi frosnar og leyfi þeim að þiðna. Mér þykja þær mun betri en þessar í dós.)

  • 1 msk gróft sinnep

  • 1 tsk hvítlauksduft

  • salt eftir smekk

Aðferð:

  1. Leyfið bitunum að þiðna í smá stund og steikið þá svo létt á pönnu upp úr olíu og smá salti. Takið af pönnunni og rífið þá í sundur með höndunum eða tveimur göfflum. Það er auðvitað hægt að skera þá bara niður í bita, en mér finnst gott að taka tvo gaffla og rífa bitana aðeins niður með þeim. Mér finnst það gefa þeim góða áferð fyrir salatið.

  2. Útbúið mæjónesið og takið smá af því frá til að smyrja ofan á kökuna. Blandið bitunum saman við mæjóið.

  3. Skerið niður vorlaukinn og blandið saman við ásamt restinni af hráefnunum.

  4. Leyfið salatinu að standa í ísskáp í allavega klukkustund ef kostur er á.

Skonsur

  • 5 dl hveiti

  • 2 msk sykur

  • 4 tsk lyftiduft

  • 1 tsk salt

  • 6-7 dl jurtamjólk. Mér finnst oft fara mikið eftir því hvernig mjólk og hvaða hveiti ég nota. Ég byrja yfirleitt á því að setja 5 dl og sé hversu þykkt deigið er og bæti svo við eftir þörf. Í dag notaði ég 7 dl af sojamjólk. Deigið á að hafa sömu þykkt og amerískar pönnukökur (semsagt þykkara en t.d íslenskar pönnsur)

  • 2 msk olía

Aðferð:

  1. Blandið saman þurrefnunum.

  2. Bætið við blautefnunum og hrærið þar til deigið er laust við kekki.

  3. Útbúið úr deiginu 5 stórar og þykkar pönnukökur. Ég á ekki pönnukökupönnu svo ég notaði venjulega pönnu í svipaðri stærð og passaði að þær væru allar jafn stórar. Deigið er akkúrat passlegt fyrir 5 pönnsur.

  4. Leyfið þeim að kólna áður en tertan er sett saman.

Takk innilega fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur vel. Ef þið gerið brauðtertuna þætti okkur ekkert smá gaman að heyra hvað ykkur finnst. Við minnum á að við erum á Instagram og facebook líka fyrir ykkur sem hafið áhuga á að fylgja okkur þar.

-Veganistur

Íslenskar pönnukökur

IMG_4569-3.jpg

Þessi færsla er gerð í samstarfi við Heiðu, fyrstu íslensku jurtamjólkina og jafnframt því fyrstu fersku jurtamjólkina sem seld er á landinu. Mjólkin er úr höfrum og er hituð á lægra hitastigi en önnur jurtamjólk sem gerir hana enn bragðbetri og gæðameiri. Þar sem mjólkin er ferskvara er mikilvægt að geyma hana í kæli. Heiða fæst bæði ósæt og með örlítill sætu, er undursamlega rjómakennd og bragðgóð og við mælum eindregið með því að styrkja íslenska framleiðslu þar sem hún er mun umhverfisvænni fyrir vikið. Heiða fæst í öllum helstu matvörubúðum landsins.

IMG_4597.jpg

Okkur fannst tilvalið að útbúa klassíska íslenska uppskrift úr mjólkinni og það kom ekkert annað til greina en ekta íslenskar pönnukökur. Við höfum það sem hefð að baka eitthvað gott um helgar. Það er svo róandi að taka sér tíma í eldhúsinu á laugardags- eða sunnudagsmorgni, hlusta á skemmtilegt hlaðvarp og baka eitthvað gómsætt sem fyllir íbúðina góðum ilmi. Við vorum lengi smeykar við að baka íslenskar pönnsur og gerðum alltaf þessar þykku amerísku, sem varla er hægt að klúðra. Það var því ekki fyrr en mamma tók sig til og bakaði vegan útgáfu af íslenskum pönnukökum handa Helgu, sem við áttuðum okkur á því að þessar íslensku eru eiginlega ómissandi og auðveldar í bakstri. 

IMG_4602.jpg

Þessi uppskrift er æði og á mamma okkar heiðurinn af henni. Við elskum að rúlla þeim upp með sykri eða fylla þær af þeyttum vegan rjóma og sultu. Að þessu sinni útbjó Júlía súkkulaðisósu sem hún stráði yfir ásamt ferskum jarðarberjum og flórsykri. Þetta kom ekkert smá vel út. Heiða var alveg fullkomin í baksturinn og það er yndislegt að geta loksins keypt íslenska jurtamjólk sem er dásamlega bragðgóð og ekki skemmir fyrir hvað umbúðirnar eru fallegar. 

IMG_4599.jpg

Hráefni:

  • 8 dl hveiti

  • 1 tsk lyftiduft

  • 1 tsk salt

  • 1 tsk vanilludropar

  • 2,5 dl eplamauk

  • 100 gr brætt smjörlíki

  • 8-10 dl haframjólkin frá Heiðu

Aðferð:

  1. Blandið þurrefnum saman í skál.

  2. Bætið við mjólkinni, brædda smjörlíkinu, eplamaukinu og vanilludropunum.

  3. Steikið á háum hita upp úr smá smjörlíki.

Berið fram með því sem ykkur lystir. Júlía bræddi súkkulaði og blandaði saman við örlita mjólk og helti yfir pönnsurnar sínar. Það kom mjög vel út. 

-Veganistur

39295002_297353777512105_765831551215730688_n.png

-Færslan er unnin í samstarfi við Heiðu-

 

 

Amerískar pönnukökur

Okkur þykir fátt betra en nýbakaðar pönnukökur á sunnudagsmorgnum. Það er eitthvað svo yndislegt við það að vakna og skella í þessar einföldu og gómsætu pönnsur. Þessi uppskrift er skothelld og fljótleg. Við höfum prófað allskonar uppskriftir en endum alltaf aftur á þessari því okkur þykir hun einfaldlega best. 

Eins og flestar uppskriftirnar okkar eru þessar pönnsur virkilega einfaldar. Bragðið gefur samt ekkert eftir, þær eru fullkomlega "fluffy" og bragðgóðar. Við bökum þær við allskonar tilefni. Þær eru frábærar sem morgunmatur einar og sér, eða jafnvel bara miðdegishressing. Þær fullkomna sunnudagsbrönsinn og eru meira að segja góðar sem eftirréttur með vegan ís og súkkulaðisósu. 

Það er misjafnt með hverju við berum pönnsurnar fram. Ef þær eru partur af bröns er einfaldlega best að hafa á þeim hlynsíróp. Við aðrar aðstæður fær hugmyndaflugið að ráða. Júlíu finnst algjört möst að hafa banana á sínum pönnsum en Helga er mikið fyrir allskonar ber. Í þetta skipti ákvað ég að skella allskonar dóti á þær og ég held þær hafi aldrei smakkast betur. 

Ég setti á þær:
Hlynsíróp
Ichoc súkkulaði sem ég skar niður
Hindber
Og kókosmjöl

Hráefni:

  • 2 bollar hveiti

  • 2 msk sykur

  • 4 tsk lyftiduft

  • Smá salt

  • 2 bollar haframjólk - eða önnur jurtamjólk

  • 4 msk olía

  • 1 tsk vanilludropar eða vanillusykur

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita smá olíu á pönnu við meðalhita

  2. Blandið þurrefnum saman í stóra skál

  3. Bætið mjólkinni, olíunni og vanilludropunum útí skálina og hrærið þar til engir kekkir eru

  4. Steikið pönnukökur úr deiginu, sirka 2-3 mínútur á hvorri hlið

  5. Berið fram með því sem ykkur lystir.

Vona að þið njótið

Helga María