Íslenskar pönnukökur

IMG_4569-3.jpg

Þessi færsla er gerð í samstarfi við Heiðu, fyrstu íslensku jurtamjólkina og jafnframt því fyrstu fersku jurtamjólkina sem seld er á landinu. Mjólkin er úr höfrum og er hituð á lægra hitastigi en önnur jurtamjólk sem gerir hana enn bragðbetri og gæðameiri. Þar sem mjólkin er ferskvara er mikilvægt að geyma hana í kæli. Heiða fæst bæði ósæt og með örlítill sætu, er undursamlega rjómakennd og bragðgóð og við mælum eindregið með því að styrkja íslenska framleiðslu þar sem hún er mun umhverfisvænni fyrir vikið. Heiða fæst í öllum helstu matvörubúðum landsins.

IMG_4597.jpg

Okkur fannst tilvalið að útbúa klassíska íslenska uppskrift úr mjólkinni og það kom ekkert annað til greina en ekta íslenskar pönnukökur. Við höfum það sem hefð að baka eitthvað gott um helgar. Það er svo róandi að taka sér tíma í eldhúsinu á laugardags- eða sunnudagsmorgni, hlusta á skemmtilegt hlaðvarp og baka eitthvað gómsætt sem fyllir íbúðina góðum ilmi. Við vorum lengi smeykar við að baka íslenskar pönnsur og gerðum alltaf þessar þykku amerísku, sem varla er hægt að klúðra. Það var því ekki fyrr en mamma tók sig til og bakaði vegan útgáfu af íslenskum pönnukökum handa Helgu, sem við áttuðum okkur á því að þessar íslensku eru eiginlega ómissandi og auðveldar í bakstri. 

IMG_4602.jpg

Þessi uppskrift er æði og á mamma okkar heiðurinn af henni. Við elskum að rúlla þeim upp með sykri eða fylla þær af þeyttum vegan rjóma og sultu. Að þessu sinni útbjó Júlía súkkulaðisósu sem hún stráði yfir ásamt ferskum jarðarberjum og flórsykri. Þetta kom ekkert smá vel út. Heiða var alveg fullkomin í baksturinn og það er yndislegt að geta loksins keypt íslenska jurtamjólk sem er dásamlega bragðgóð og ekki skemmir fyrir hvað umbúðirnar eru fallegar. 

IMG_4599.jpg

Hráefni:

  • 8 dl hveiti

  • 1 tsk lyftiduft

  • 1 tsk salt

  • 1 tsk vanilludropar

  • 2,5 dl eplamauk

  • 100 gr brætt smjörlíki

  • 8-10 dl haframjólkin frá Heiðu

Aðferð:

  1. Blandið þurrefnum saman í skál.

  2. Bætið við mjólkinni, brædda smjörlíkinu, eplamaukinu og vanilludropunum.

  3. Steikið á háum hita upp úr smá smjörlíki.

Berið fram með því sem ykkur lystir. Júlía bræddi súkkulaði og blandaði saman við örlita mjólk og helti yfir pönnsurnar sínar. Það kom mjög vel út. 

-Veganistur

39295002_297353777512105_765831551215730688_n.png

-Færslan er unnin í samstarfi við Heiðu-

 

 

Amerískar pönnukökur

Okkur þykir fátt betra en nýbakaðar pönnukökur á sunnudagsmorgnum. Það er eitthvað svo yndislegt við það að vakna og skella í þessar einföldu og gómsætu pönnsur. Þessi uppskrift er skothelld og fljótleg. Við höfum prófað allskonar uppskriftir en endum alltaf aftur á þessari því okkur þykir hun einfaldlega best. 

Eins og flestar uppskriftirnar okkar eru þessar pönnsur virkilega einfaldar. Bragðið gefur samt ekkert eftir, þær eru fullkomlega "fluffy" og bragðgóðar. Við bökum þær við allskonar tilefni. Þær eru frábærar sem morgunmatur einar og sér, eða jafnvel bara miðdegishressing. Þær fullkomna sunnudagsbrönsinn og eru meira að segja góðar sem eftirréttur með vegan ís og súkkulaðisósu. 

Það er misjafnt með hverju við berum pönnsurnar fram. Ef þær eru partur af bröns er einfaldlega best að hafa á þeim hlynsíróp. Við aðrar aðstæður fær hugmyndaflugið að ráða. Júlíu finnst algjört möst að hafa banana á sínum pönnsum en Helga er mikið fyrir allskonar ber. Í þetta skipti ákvað ég að skella allskonar dóti á þær og ég held þær hafi aldrei smakkast betur. 

Ég setti á þær:
Hlynsíróp
Ichoc súkkulaði sem ég skar niður
Hindber
Og kókosmjöl

Hráefni:

  • 2 bollar hveiti

  • 2 msk sykur

  • 4 tsk lyftiduft

  • Smá salt

  • 2 bollar haframjólk - eða önnur jurtamjólk

  • 4 msk olía

  • 1 tsk vanilludropar eða vanillusykur

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita smá olíu á pönnu við meðalhita

  2. Blandið þurrefnum saman í stóra skál

  3. Bætið mjólkinni, olíunni og vanilludropunum útí skálina og hrærið þar til engir kekkir eru

  4. Steikið pönnukökur úr deiginu, sirka 2-3 mínútur á hvorri hlið

  5. Berið fram með því sem ykkur lystir.

Vona að þið njótið

Helga María