Íslenskar pönnukökur
/Þessi færsla er gerð í samstarfi við Heiðu, fyrstu íslensku jurtamjólkina og jafnframt því fyrstu fersku jurtamjólkina sem seld er á landinu. Mjólkin er úr höfrum og er hituð á lægra hitastigi en önnur jurtamjólk sem gerir hana enn bragðbetri og gæðameiri. Þar sem mjólkin er ferskvara er mikilvægt að geyma hana í kæli. Heiða fæst bæði ósæt og með örlítill sætu, er undursamlega rjómakennd og bragðgóð og við mælum eindregið með því að styrkja íslenska framleiðslu þar sem hún er mun umhverfisvænni fyrir vikið. Heiða fæst í öllum helstu matvörubúðum landsins.
Okkur fannst tilvalið að útbúa klassíska íslenska uppskrift úr mjólkinni og það kom ekkert annað til greina en ekta íslenskar pönnukökur. Við höfum það sem hefð að baka eitthvað gott um helgar. Það er svo róandi að taka sér tíma í eldhúsinu á laugardags- eða sunnudagsmorgni, hlusta á skemmtilegt hlaðvarp og baka eitthvað gómsætt sem fyllir íbúðina góðum ilmi. Við vorum lengi smeykar við að baka íslenskar pönnsur og gerðum alltaf þessar þykku amerísku, sem varla er hægt að klúðra. Það var því ekki fyrr en mamma tók sig til og bakaði vegan útgáfu af íslenskum pönnukökum handa Helgu, sem við áttuðum okkur á því að þessar íslensku eru eiginlega ómissandi og auðveldar í bakstri.
Þessi uppskrift er æði og á mamma okkar heiðurinn af henni. Við elskum að rúlla þeim upp með sykri eða fylla þær af þeyttum vegan rjóma og sultu. Að þessu sinni útbjó Júlía súkkulaðisósu sem hún stráði yfir ásamt ferskum jarðarberjum og flórsykri. Þetta kom ekkert smá vel út. Heiða var alveg fullkomin í baksturinn og það er yndislegt að geta loksins keypt íslenska jurtamjólk sem er dásamlega bragðgóð og ekki skemmir fyrir hvað umbúðirnar eru fallegar.
Hráefni:
8 dl hveiti
1 tsk lyftiduft
1 tsk salt
1 tsk vanilludropar
2,5 dl eplamauk
100 gr brætt smjörlíki
8-10 dl haframjólkin frá Heiðu
Aðferð:
Blandið þurrefnum saman í skál.
Bætið við mjólkinni, brædda smjörlíkinu, eplamaukinu og vanilludropunum.
Steikið á háum hita upp úr smá smjörlíki.
Berið fram með því sem ykkur lystir. Júlía bræddi súkkulaði og blandaði saman við örlita mjólk og helti yfir pönnsurnar sínar. Það kom mjög vel út.
-Veganistur
-Færslan er unnin í samstarfi við Heiðu-