Hummus með krydduðu hakki

-Samstarf-

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að hummus með krydduðu steiktu hakki, tómötum, lauk, steinselju, ristuðum furuhnetum og ólífuolíu. Þennan rétt er tilvalið að bera fram með volgu pítubrauði, steiktu pönnubrauði eða vefjum. Fullkomið þegar þið viljið gera hummusinn ykkar aðeins matarmeiri.

Færsla dagsins er í samstarfi við Anamma á Íslandi og við notuðum að sjálfsögðu hakkið frá þeim í uppskriftina. Við notum vörurnar frá Anamma virkilega mikið og hakkið þeirra er að okkar mati það langbesta á veganmarkaðnum. Við erum því alltaf jafn stoltar af því að fá að vinna með þeim.

Við systur elskum að útbúa stóran skammt af hummus og nota á brauð og í matargerð. Það er til dæmis virkilega gott að gera pastasósu úr hummus, en sósan verður virkilega rjómakennd og góð. Eins gerir hann samlokur og vefjur seðjandi og góðar. Í uppskrift dagsins má auðvitað nota keyptan hummus, það er líka dásamlega gott, en við mælum auðvitað mikið með að útbúa hann sjálf því það er bæði betra að okkar mati og ódýrara.

Eins og ég sagði er þetta hin fullkomna leið til að gera hummusinn matarmeiri. Ég smakkaði svipaðan rétt á veitingastað erlendis fyrir mörgum árum og varð mjög hrifin. Mér finnst mjög gott að toppa hummus með allskonar góðgæti.

Ef þið viljið fleiri hugmyndir mæli ég með þessu kúskússallati með hummus og steiktum kjúklingabaunum.

Ofan á hakkið settum við tómata, lauk, tabascosósu, ristaðar furuhnetur, steinselju og slatta af ólífuolíu. Það er auðvitað hægt að toppa með öllu því sem ykkur þykir gott, eða bera fram með salati. Ég get líka ímyndað mér að það sé mjög gott að setja smá tahinisósu yfir allt saman.

Takk kærlega fyrir að lesa og við vonum að ykkur líki uppskriftin.

Veganistur

Hummus með steiktu hakki

Hummus með steiktu hakki
Fyrir: 4-6
Höfundur: Helga María
Dásamlegur hummus með krydduðu steiktu hakki, tómötum, lauk, steinselju, ristuðum furuhnetum og ólífuolíu. Þennan rétt er tilvalið að bera fram með volgu pítubrauði, steiktu pönnubrauði eða vefjum. Fullkomið þegar þið viljið gera hummusinn ykkar aðeins matarmeiri.

Hráefni:

Steikt hakk:
  • Olía að steikja upp úr
  • 1 poki hakk frá Anamma
  • 2 hvítlauksgeirar
  • 1 tsk malað kóríanderkrydd
  • 1 tsk malað broddkúmen
  • 1 tsk paprikuduft
  • 1 tsk laukduft
  • 1/2 tsk kanill
  • Salt og pipar
  • 1/2-1 dl vatn
Hummus:
  • 3 dósir kjúklingabaunir skolaðar
  • 2 dl tahini (ég mæli með að kaupa ekta tahini frá t.d. Instanbul market. það er langbest að mínu mati)
  • 3 hvítlauksgeirar
  • Safi úr enni sítrónu
  • 1/2-1 tsk broddkúmen
  • Salt eftir smekk. Mér finnst gott að salta hummusinn vel
  • 2 klakar
  • ískalt vatn eftir þörfum. Mér finnst gott að hafa vatn með klökum og bæta við 1 msk í einu ef hummusinn er of þykkur. Það fer mikið eftir bæði tahini og merki á baununum hversu þykkur hann er.
  • Hlutir að toppa með: Steikta hakkið, tómatar, laukur, tabascosósa, fersk steinselja eða kóríander, ristaðar furuhnetur, ólífuolía.
  • Gott að bera fram með: Pítubrauði, djúpsteiktum pítuflögum, vefjum, steiktu pönnubrauði.

Aðferð:

Steikt hakk:
  1. Hitið olíu á pönnu.
  2. Bætið hakkinu út á og steikið í sirka 2 mínútur.
  3. Bætið pressuðum eða rifnum hvítlauk út á ásamt kryddunum og steikið í nokkrar mínútur í viðbót.
  4. Bætið vatninu á pönnuna og steikið þar til það er gufað upp og hakkið orðið tilbúið.
Hummus:
  1. Skolið kjúklingabaunirnar og setjið í matvinnsluvél ásamt restinni af hráefnunum. Bætið vatni við eftir þörfum á meðan matvinnsluvélin vinnur.
  2. Bætið við salti og kryddum eftir smekk.
  3. Smyrjið á fat og toppið með hakkinu og því sem ykkur langar í. Hugmyndir sjáiði hér að ofan.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið #veganistur

Vegan jógúrtskál með heimagerðu granóla, marmelaði og ávöxtum

-Samstarf-

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að jógúrtskál með heimagerðu granóla, kókosjógúrt, mangó- og ástaraldinmarmelaði og ferskum ávöxtum. Þetta er tilvalinn morgunmatur og passar einnig vel sem millimál þar sem í skálinni, eða glasinu í þessu tilfelli, er gríðarlegt magn af gómsætum og næringarríkum hráefnum. Granólað inniheldur meðal annars haframjöl, hnetur, möndlusmjör og hlynsíróp og kókosjógúrtin er virkilega mettandi og góð. Marmelaðið og ávextirnir gefa síðan ferska og góða sætu.

Færsla dagsins er í samstarfi við St. Dalfour á Íslandi og í jógúrtskálina notaði ég mangó- og ástaraldinmarmelaðið þeirra. Eitt af því sem ég elska mest við St. Dalfour marmelaðið, fyrir utan bragðið að sjálfsögðu, er að það inniheldur ekta ávexti og engan hvítan sykur. Ég kaupi það miklu frekar en hefðbundna sultu því mér finnst það mun ferskara og betra. Þess vegna er ég svo stolt af því að fá að vinna með þeim.

Við borðum jú með augunum og þess vegna finnst mér skemmtilegt að bera einfaldan morgunverð sem þennan fram á fallegan og skemmtilegan hátt. Áttu von á gestum í brunch? Þá er fullkomið að útbúa litlar skálar eða glös af jógúrt, granóla, marmelaði og ávöxtum. Það er fullkomið til að gefa smá ferskleika á móti restinni af brunchinum, sem oft er svolítið djúsí.

Vantar þig fleiri hugmyndir fyrir brunchinn? Prófaðu þá eftirfarandi:

Döðlupestó og pestósnúðar

Gósmætt kjúklingabaunasalat

Bestu vegan vöfflurnar

Vegan pylsuhorn

Takk innilega fyrir að lesa og ég vona að þér líki uppskriftin. Endilega taggaðu okkur á Instagram og skrifaðu athugasemd hér undir ef þú prófar. Við elskum að heyra frá ykkur! <3

-Helga María

Vegan jógúrtskál með heimagerðu granóla, mangó- og ástaralaldinmarmelaði og ávöxtum

Vegan jógúrtskál með heimagerðu granóla, mangó- og ástaralaldinmarmelaði og ávöxtum
Höfundur: Helga María
Geggjuð jógúrtskál með heimagerðu granóla, kókosjógúrt, mangó- og ástaraldinmarmelaði og ferskum ávöxtum. Þetta er tilvalinn morgunmatur og passar einnig vel sem millimál þar sem í skálinni, eða glasinu í þessu tilfelli, er gríðarlegt magn af gómsætum og næringarríkum hráefnum.

Hráefni:

Jógúrtskál með granóla, marmelaði og ávöxtum
  • Kóksjógúrt
  • Granóla - heimagert eða keypt (uppskrift hér að neðan)
  • Mangó- og ástaraldinmarmelaði frá St. Dalfour
  • Ferskir ávextir eftir smekk. Ég notaði mangó, kiwi og ferskjur. Ég toppaði svo með ristuðum kókosflögum.
Heimagert granóla
  • 4 dl haframjöl
  • 3 dl hnetur að eigin vali (ég notaði möndlur, heslihnetur og pistasíuhnetur)
  • 1 dl kókosmjöl
  • 1 dl niðurskornar döðlur
  • 2 kúfaðar msk kókosolía
  • 1 kúfuð matskeið möndlusmjör
  • 1,25 dl hlynsíróp
  • smá salt

Aðferð:

Jógúrtskál með granóla, marmelaði og ávöxtum
  1. Berið annaðhvort fram í skál eða gerið eins og ég og setjið lög af öllu í skál eða glas og toppið með ávöxtum.
Granóla
  1. Hitið ofninn í 150°c
  2. Skerið hneturnar niður og setjið á skál með haframjöli og kókosmjöli.
  3. Setjið kókosolíu, möndlusmjör, hlynsíróp og smá salt í pott og hitið og hrærið í þar til það hefur bráðnað saman.
  4. Bætið út í skálina og hrærið saman við þurrefnin með sleif eða sleikju.
  5. Skerið döðlurnar niður og hrærið saman við.
  6. Bakið í 15 mínútur og hrærið þá varlega saman til að viðhalda "klumpum" í granólanu.
  7. Bakið í 5-10 mínútur í viðbót og takið svo út og látið kólna.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið #veganistur

-Uppskriftin er unnin í samstarfi við St. Dalfour á Íslandi-

 
 

Sítrónuostakaka

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af ótrúlega gómsætri og sumarlegri sítrónuostaköku sem slær svo sannarlega í gegn. Kakan hefur virkilega gott sítrónubragð en er á sama tíma mátulega sæt og ekkert smá loftkennd og mjúk. Þessa ostaköku er hinn fullkomni eftirréttur, til dæmis eftir grillmat en hún hentar einnig fullkomlega á veisluborðið eða bara með kaffinu.

Það sem er best við þessa uppskrift er að það þarf ekki að frysta kökuna og best er að útbúa hana í fati eða öðru fallegu móti sem hægt er að bera hana fram í. Það er virkilega einfalt að útbúa kökuna og hana má bera fram samdægurs.

Kakan er svo fallega gul og því er auðvelt að skreyta hana smá til að hún verði mjög falleg á borði og gerir liturinn hana ekkert smá sumarlega. Ég notaði einungis sítrónu sneiðar og smá mynntu til að skreyta mína og kom það mjög fallega út.

Sumarleg sítrónuostakaka

Sumarleg sítrónuostakaka
Höfundur: Veganistur
Sumarleg sítrónuostakaka sem er virkilega gómsæt. Þessi kaka er fullkomin eftirréttur eftir grillmatinn eða bara með kaffinu hvenær sem er. Kökuna er hægt að útbúa sama dag og á að bera hana fram

Hráefni:

Kexbotn
  • 200 gr digestive hafrakex
  • 70 gr bráðið vegan smjör eða smjörlíki
Ostakökufylling
  • 250 ml (1 ferna) oatly þeytirjómi
  • 2 öskjur oatly rjómaostur
  • 1 dl flórsykur
  • börkur af 1 sítrónu
  • safi úr 1/2 sítrónu
Sítrónugljái
  • 1 dl mjólk
  • safi úr 3 sítrónum
  • börkur af 1 sítrónu
  • 1 dl flórsykur
  • 2 msk hveiti

Aðferð:

Kexbotn
  1. Setjið kexið í matvinnsluvél eða blandara og myljið niður
  2. Bræðið smjörið og hellið út í og blandið aðeins saman
  3. Setjið í botnin á fati eða kökuformi og þrýstið niður í botninn
  4. Geymið í kæli á meðan þið útbúið fyllinguna
Ostakökufylling
  1. Þeytið rjóman í hrærivél eða með handþeytara þar til hann verður stífþeyttur
  2. Bætið rjómaostinum, flórsykrinum, sítrónusafanum og sítrónuberkinum út í og þeytið aðeins lengur
  3. Hellið yfir kexbotnin of dreifið jafnt yfir formið
  4. Setjið í kæli á meðan þið útbúið sítrónugljáan
  1. Hristið saman mjólkina og hveitið þannig það verði ekki kekkjótt.
  2. Setjið öll hráefnin saman í pott og hitið að suðu
  3. Sjóðið í nokkrar mínútur eða þar til það þykknar örlítið
  4. Setjið í breiða, grunna skál og leyfið gljáanum að kólna í 30 mínútur áður en þið hellið honum varlega yfir kökuna.
  5. Kælið kökuna í að minnsta kosti 2 klst áður en þið berið hana fram
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

- Þessi uppskrift er unnin í samstarfi við Hagkaup -

 
 

Tortellini með Anamma pylsum

Það eru líklegast margir sem hafa sjaldan eytt jafn miklum tíma heimavið og á þessu ári. Ég er allavega ein af þeim og hefur nánast allt, skólinn, vinnan og fleira færst heim, og það er ekkert skrítið við það lengur að vera lang oftat heima í hádeginu. Mér hefur fundist nauðsynlegt á þessum tímum að luma á góðum, fljótlegum uppskriftum, sérstaklega fyrir hádegin þegar ég er á kafi í einhverju og vil ekki eyða of miklum tíma í að elda.

Ein af þeim uppskriftum sem ég hef mikið gripið í síðustu mánuði er þetta einfalda tortellini með Anamma pyslunum. Þetta er þó svo einföld uppskrift að það er varla hægt að kalla þetta uppskrift. Ég er búin að vera með algjört æði fyrir þessu vegan tortellini sem ég fann í vegan búðinni í skeifunni fyrr á árinu. Ég hef ekki borðað tortellini áður frá því að ég varð vegan svo ég var mjög spennt þegar ég fann þetta.

Þessi vara olli mér svo sannarlega engum vonbrigðum. Það er virkilega bragðgott og þarf mjög lítið að gera svo það verði að gómsætri máltíð. Ég hef einnig borðað mikið af anamma pylsunum og förum við oftast með tvo eða þrjá poka á viku á mínu heimili. Mér finnst algjör snilld að stappa pylsurnar niður og gera þær að einskonar hakki. En líkt og tortelliníið eru þær mjög bragðgóðar og þarf lítið að gera við þær aukalega þegar þær eru notaðar í mat.

Rétturinn verður því til á nokkrum mínutum, það þarf fá hráefni og lítið umstang í kringum eldamennskuna en það finnst mér akkúrat það besta við þessa uppskrift. Þessi réttur hentar líka fullkomlega sem nesti og er ekki síðri þó hann sé orðin kaldur þegar maður gæðir sér á honum.

Hráefni

  • 1 pakki PORCINI tortellini

  • 2-3 anamma vegokorv pylsur

  • 50 gr vegan smjör eða smjörlíki

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 1 lítill vorlaukur

  • 1 dl söxuð fersk steinselja (má nota 1-2 msk þurrkuð steinselja)

  • smá salt og pipar

Aðferð:

  1. Byrjið á því að setja vatn í pott, bíða eftir að suðan komi upp og sjóða tortelliníið eftir leiðbeiningum á pakkningunni

  2. Þíðir pyslurnar, t.d. í örbylgjuofni ef þær hafa ekki fengið tíma til að þiðna) og stappið þær síðan með gaffli þar til þær verða að mauki.

  3. Brærðið smjörið á pönnu og bætið síðan vorlauknum, hvítlauknum og pylsunum út á og steikið.

  4. Þegar pylsurnar eru orðan steiktar og orðnar að góðu hakki bætið þá steinseljunni og soðnu tortellini út á og steikið í 2 til 3 mínútur í viðbót.

-Njótið vel

Þessi færsla er unninn í samstarfi við Anamma á íslandi og Tortellini var gjöf frá vegan búðinni.

 
anamma_logo.png
 

Vegan gnocchi með aspas og spínati

IMG_3109-9.jpg

Uppskrift dagsins er af heimagerðu gnocchi með aspas, hvítlauk, hvítvíni og spínati. Þetta er dásamlega gott og sjálft gnocchiið inniheldur bara þrjú hráefni, kartöflur, hveiti og salt. Það er að sjálfsögðu hægt að nota það í allskonar uppskriftir, bara eins og pasta, en þessi útgáfa er svakalega góð og mér finnst svolítill veitingahúsafílingur í réttinum.

IMG_3081.jpg

Eins og þið kannski sum vitið höfum við Júlía haldið úti veganistur.is í þrjú ár í sumar, en fyrir það vorum við í rúmt ár einungis með Facebook síðu og Instagram. Veganistur áttu fyrst að vera hversdagsleg Facebook síða þar sem við skelltum inn símamyndum af kvöldmatnum okkar án þess að hugsa mikið um það, og sýndum fólki einfaldlega hvað það er auðvelt að vera vegan. Facebook síðan óx mun hraðar en við hefðum haldið og við fórum að fá allskonar fyrirspurnir um hvort við gætum gert uppskriftir af þessu og hinu og smám saman breyttust Veganistur í uppskriftarsíðu.

IMG_3085-3.jpg

Við fórum fljótt að finna fyrir því að fólk væri að fylgjast með og í kjölfarið vildum við leggja meiri vinnu og metnað í bæði uppskriftirnar og myndirnar. Það var svo vorið 2016 að við ákváðum að útbúa alvörunni vefsíðu og þá má segja að boltinn hafi farið að rúlla. Það sem fyrst átti bara að vera lítið áhugamál hefur orðið að risastórum hluta af lífinu okkar. Í dag eru Veganistur það sem við leggjum hvað mesta vinnu í og höfum mikla ástríðu fyrir. Það eruð þið, lesendur okkar, sem gefið okkur endalausan innblástur og styrk til að gera eins vel og við getum. Ykkur erum við gríðarlega þakklátar.

IMG_3088-3.jpg

Við Júlía stöndum tvær í þessu og sjáum um allt sem viðkemur blogginu samhliða fullu námi og öðrum verkefnum. Það getur verið gríðarlega kostnaðarsamt að útbúa nýtt efni fyrir bloggið, bæði í peningum og tíma talið. Kostnaðurinn er misjafn, en við vöndum valið okkar á samstörfum við önnur fyrirtæki virkilega vel og tókum snemma ákvörðun um að hafa engar auglýsingar að öðru tagi á blogginu. Allur peningur og tími sem við leggjum í bloggið okkar og uppskriftir er fyllilega þess virði og við munum aldrei sjá eftir einni einustu krónu.

IMG_3089-2.jpg

Okkur hafa borist margar fyrirspurnir um hvernig sé hægt að styrkja okkur og hingað til hefur það einungis verið hægt með því að lesa og deila blogginu okkar, og þið hafið svo sannarlega gert það. Við erum virkilega hrærðar yfir því hvað þið eruð mörg sem heimsækið síðuna okkar daglega og látið orðið berast til þeirra sem þið þekkið. Þið eruð æði!

IMG_3091-2.jpg

Við höfum þó ákveðið eftir mikla umhugsun að opna Patreon aðgang fyrir þá sem hafa áhuga á að styrkja okkur. Það er einfaldlega svo við höfum meira frelsi varðandi uppskriftir og þurfum ekki að skipuleggja bloggfærslur einungis útfrá því hvað við eigum mikinn pening hverju sinni. Með því að styrkja okkur hjálpar þú semsagt til við að auka svigrúm og afkastagetu okkar. Eins höfum við lengi verið með uppskriftarbók í maganum og við iðum í skinninu við að koma henni út og deila með ykkur ennþá fleiri ótrúlega spennandi og gómsætum uppskriftum.

Á Patreon síðunni okkar sérðu hvað við bjóðum ykkur í staðinn og eitt af því er aðgangur að lokaðri Facebook grúppu þar sem við Júlía munum elda með ykkur live í hverri viku. Við erum ekkert smá spenntar fyrir því og fyrsta uppskriftin sem ég ætla að gera með ykkur er akkúrat þessi. Ég hlakka ekkert smá til og mun svo deila með ykkur nákvæmri tímasetningu þegar nær dregur.

IMG_3093-2.jpg

Við viljum enn og aftur þakka ykkur fyrir. Þegar við stofnuðum Veganistur höfðum við ekki hugmynd um hvað við myndum fá mikinn stuðning frá ykkur öllum. Án ykkar værum við ekki á þeim stað sem við erum í dag.

IMG_3106-5.jpg

Gnocchi

  • 2 bollar stappaðar kartöflur

  • 1,5- 2 bollar hveiti

  • 1,5 tsk salt

Það sem fer með á pönnuna

  • Vegan smjör til að steikja uppúr. Ég setti alveg vænan bita.

  • 200 gr aspas. Ég notaði frosinn í þetta sinn

  • Tvær lúkur babyspínat

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 1 dl hvítvín (má sleppa)

  • Ristaðar furuhnetur til að strá yfir

Aðferð:

  1. Sjóðið kartöflur og afhýðið. Stappið þær vel með kartöflustappara eða gaffi og setjið í stóra skál.

  2. Bætið hveitinu og saltinu saman við. Ég byrjaði á því að setja 1,5 bolla hveiti og bætti svo aðeins við eftir þörf. Hrærið saman við og hafið í huga að þetta verður mjög mjölkennt til að byrja með. Hrærið eins vel og þið getið með sleif og færið svo yfir á borð og notið hendurnar til að hnoða þetta saman í deig.

  3. Skiptið deiginu niður í fjóra hluta, rúllið þá út og skerið sirka 2 cm bita úr þeim.

  4. Það má sleppa þessu skrefi og elda bitana einfaldlega eins og þeir eru þegar búið er að skera þá niður, en ég vildi útbúa smá gnocchi munstur og notaði til þess gaffal. Margir eiga sérstakt bretti sem gerir það mun auðveldara, en ég læt gaffalinn duga. Ég tók bita og flatti hann létt út á gaffalinn og rúllaði svo upp. Ég hefði kannski getað sýnt aðeins skýrari mynd af því hvernig þetta er gert, en það er fullt af myndböndum á youtube sem sýna það mun betur en mér hefði tekist. Passið að strá smá hveiti yfir bitana og láta þá ekki liggja saman á meðan þið gerið þetta því þeir munu festast saman og verða að einni klessu.

  5. Steikið á pönnu hvítlauk, aspas, og spínat uppúr smjörinu. hækkið hitann og hellið hvítvíninu út í og lækkið hitann svo aftur eftir nokkrar mínútur.

  6. Sjóðið vatn í stórum potti og saltið smá. Þegar suðan er vel komin upp skuluði hella gnocchiinu í. Ég myndi ekki setja þá alla í einu þar sem þetta eru svolítið margir bitar. Veiðið bitana upp þegar þeir hafa flotið upp á yfirborðið sem tekur um 90 sekúndur.

  7. Sigtið allt vatn af bitunum og skellið þeim á pönnuna og steikið þá í nokkrar mínútur. Saltið og piprið eftir smekk.

  8. Berið fram með því sem ykkur lystir, en mér finnst alltaf gott að útbúa gómsætt hvítlauksbrauð með.

Takk fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur vel

Veganistur <3

Vegan snitsel á tvo vegu

IMG_0755.jpg

Þessi færsla er sú þriðja í samstarfi okkar með Anamma, og í þetta sinn ákvað ég að útbúa snitselið frá þeim, sem mér þykir gríðarlega gott. Ég gat þó með engu móti ákveðið hvernig ég vildi matreiða snitselið fyrir færsluna, og eftir miklar vangaveltur fram og til baka ákvað ég að útbúa tvo mismunandi rétti úr því. Mér fannst nauðsynlegt að gera eina hefðbundna snitsel máltíð, og útbjó ég með því gómsæta sveppasósu, steiktan aspas og einar þær bestu ofnbökuðu kartöflur sem ég hef gert. Auk þess ákvað ég að gera aðeins öðruvísi máltíð og bjó til snitsel grillsamloku með grænmeti og tarragon-kapers mæjónessósu. Ég er fegin að hafa ákveðið að gera bæði því ég get ekki gert upp á milli. 

Snitselið er eina varan frá Anamma sem ekki er glúteinlaus, en nýlega breyttu þau öllum uppskriftunum sínum og snitselið, sem var glúteinlaust, er það ekki lengur. Að mínu mati eru allar vörunar mun betri eftir breytingarnar og mér finnst snitselið alveg ótrúlega gott, bæði í áferð og bragði. 

IMG_0698.jpg

Kartöflurnar sem ég gerði með voru virkilega góðar, en galdurinn var að sjóða þær fyrst og setja þær svo í ofninn. Við það urðu þær mjúkar og góðar að innan, en dásamlega stökkar að utan. Þær voru fullkomnar með báðum réttunum sem ég gerði. 

IMG_0758.jpg

Þar sem það tekur enga stund að elda snitselið langaði mig að gera með því flott meðlæti sem tekur kannski aðeins meiri tíma, en er samt virkilega einfalt og þægilegt að búa til. Ef tíminn er naumur, eða maður nennir ekki mikilli eldamennsku er auðvitað hægt að skella frönskum í ofninn og útbúa einhverja góða vegan pakkasósu, en ég mæli auðvitað mjög mikið með að búa til eigið meðlæti ef tök eru á.
Eins með samlokuna hér að neðan. Það er ekkert mál að kaupa vegan mæjónes og blanda því saman við hvítlauk og góðar jurtir, en mér fannst heimatilbúna mæjónessósan passa ótrúlega vel með samlokunni. 

IMG_0715-2.jpg
IMG_0780-3.jpg

Snitsel frá Anamma fyrir 4

  • 2 pakkar Anamma snitsel (hver pakki inniheldur 4 stk svo það er fínt að gera ráð fyrir a.m.k 2 á mann)

1. Eldið snitselið eftir leiðbeiningum á pakkanum. Ég steikti það á pönnu upp úr vegan smjöri þar til það var gyllt á báðum hliðum.

Sveppasósa:

  • 1 askja sveppir (250g)

  • Olía til steikingar

  • 500 ml vegan matreiðslurjómi

  • 1 sveppateningur 

  • 1/2 tsk dökk sojasósa (má sleppa - hún gefur sósunni mjög gott bragð en er alls ekki nauðsynleg)

  • Vatn og hveiti til að þykkja (ég mæli það aldrei neitt sérstaklega heldur hristi ég bara saman smávegis af hveiti og smá vatni, það þarf alls ekki mikið).

  1. Sneiðið niður sveppina og setjið í pott. 

  2. Steikið þá uppúr smá olíu í pottinum. Ef mér finnst sveppirnir byrja að festast við botninn finnst mér best að bæta við örlitlu vatni og endurtek það ef mér finnst þurfa. Við það myndast líka smá sveppasoð sem mér finnst gefa sósunni gott bragð. 

  3. Bætið sveppakraftinum út í pottinn þegar sveppirnir eru orðnir mjúkir og hafa rýrnað svolítið, og látið hann leysast upp í soðinu sem hefur myndast í pottinum.

  4. Hellið rjómanum út í og leyfið suðunni að koma upp.

  5. Hristið saman svolítið af hveiti og vatni og hellið út í pottinn í mjórri bunu og meðan þið hrærið hratt í sósunni þar til hún hefur náð þeirri þykkt sem þið kjósið. 

  6. Bætið sojasósunni út í ásamt salti og pipar og smakkið til. 

Ristaðar kartöflur í ofni

  • 2 kg kartöflur

  • 6 msk olía til steikingar

  • 3 hvítlauksgeirar

  • 1 tsk paprikuduft

  • Salt og pipar eftir smekk

  1. Byrjið á því að skræla kartöflurnar

  2. Hitið ofninn í 200 gráður

  3. Skerið kartöflurnar í meðalstóra bita og leggið í bleyti í kalt vatn í sirka korter

  4. Sjóðið vatn í stórum potti á meðan

  5. Sjóðið kartöflurnar þar til þær eru svona nálægt því að verða tilbúnar. Þær eiga ekki að vera orðnar alveg mjúkar í gegn (mínar voru samt mjög nálægt því)

  6. Á meðan kartöflurnar sjóða hitiði olíuna á pönnu og pressið hvítlauksgeirana útí. Þegar þeir eru orðnir brúnir helliði olíunni í skál, sigtið hvítlaukinn úr og leggið til hliðar. Passið að hvítlaukurinn brenni ekki því hann verður notaður seinna 

  7. Takið kartöflurnar úr pottinum og hellið þeim í stóra skál og veltið þeim upp úr olíunni sem þið hituðuð, ásamt paprikudufti, salti og pipar. Passið að þekja kartöflurnar vel. Á þessum tímapunkti líta þær út fyrir að vera svolítið maukaðar og þannig eiga þær að vera

  8. Hellið kartöflunum á hreina ofnplötu og dreifið úr þeim svo þær séu sem minnst klestar saman

  9. Ristið þær í ofninum í 20 mínútur, takið plötuna svo út, snúið kartöflunum og ristið í aðrar 20 mínútur

  10. Þegar þær eru tilbúnar er gott að velta þeim upp úr hvítlauknum sem þið hituðuð í olíunni. Ástæðan fyrir því að ég geri það ekki áður en kartöflurnar fara í ofninn er sú að hann gæti brunnið og þá gefur hann frá sér beiskt bragð sem skemmir svolítið fyrir. 

  11. Bætið við grófu salti ef ykkur finnst þurfa

Með þessu steikti ég svo frosinn aspas á pönnu upp úr sítrónupipar, hvítlauk og salti

 

Grill samloka með snitseli og tarragon- kapersmæjó:

  • Anamma snitsel

  • Gott brauð (mæli með að kaupa heilt brauð og skera í frekar þykkar sneiðar)

  • Grænmeti eftir smekk (ég notaði romain kál, tómata og rauðlauk)

  • 1,5 dl vegan mæjónes (uppskrift okkar af vegan mæjónesi má finna HÉR)

  • 3 tsk kapers

  • 1 tsk tarragon

  • 1/2 tsk rifinn sítrónubörkur

  • Örlítil ólífuolía

  • Salt og pipar eftir smekk

  1. Steikið snitselið á pönnu upp úr olíu eða vegan smjöri þar til það er gyllt báðum megin

  2. Ristið brauðið á pönnu upp úr örlitlu vegan smjöri 

  3. Saxið niður kapers og bætið út í mæjónesið ásamt tarragon, rifnum sítrónuberki, ólífuolíu, salti og pipar

  4. Smyrjið báðar brauðsneiðarnar með mæjónessósunni og setjið snitselið á ásamt því grænmeti sem ykkur þykir best 

  5. Berið fram með gómsætu kartöflunum hér að ofan eða ofnbökuðum frönskum

Vonum að þið njótið!+
- Veganistur

 

anamma.png

- Þessi færlsa er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi-

Vegan lasagna með Anamma sojahakki

IMG_0541.jpg

Stuttu eftir að við opnuðum bloggið okkar birtum við uppskrift af gómsætu grænmetislasagna. Sú uppskrift hefur lengi verið í uppáhaldi og er elduð ansi oft á okkar heimili. Eins og mér finnst uppskriftin æðisleg, hef ég svolítið verið að prufa mig áfram með nýja uppskrift sem minnir e.t.v. meira á þetta klassíska lasagna sem margir þekkja. Þessi uppskrift er svolítið öðruvísi en hin og inniheldur meðal annars sojahakk í stað linsubauna. Þetta lasagna er svo ótrúlega gott að ég eldaði það tvo daga í röð í síðustu viku. 

IMG_0462.jpg

Það hefur komið mér svolítið á óvart hvað mér þykir lasagna gott, því mér þótti það aldrei neitt sérstakt þegar ég var yngri. Ég taldi mér trú um að rétturinn væri bara ekkert fyrir mig, þar til fyrir nokkrum árum þegar ég ákvað að gefa honum annan séns. Ég er gríðarlega fegin að hafa gert það, því í dag er það eitt af því besta sem ég fæ. 

IMG_0468.jpg

Ég hef mikið notað vörurnar frá Anamma síðustu ár og þær valda aldrei vonbrigðum. Anamma er sænskt fyrirtæki sem útbýr einungis vegan matvörur og leggur mikinn metnað og vinnu í vörurnar sínar. Nýlega breyttu þau uppskriftunum á öllum vörunum sínum, og bættu helling við úrvalið hjá sér, og nú bragðast maturinn þeirra enn betur en áður. Í lasagnað fannst mér fullkomið að nota hakkið frá þeim, en ég á alltaf til poka af því í frystinum. Vörurnar frá Anamma fást meðal annars í Bónus, Melabúðinni og Fjarðarkaupum. 

Eitt af því besta við að gera lasagna er að hægt er að nota í það allt það grænmeti sem til er í ísskápnum. Í uppskriftina í færslunni nota ég t.d gulrætur, kúrbít og spínat, en það er síður en svo heilagt. Ég nota yfirleitt bara það sem ég á til sem hentar mér mjög vel, því ég elska að breyta til. 

IMG_0522.jpg
IMG_0531.jpg

Lasagna fyrir 4-6

Hakk í tómatsósu:

  • 1 poki hakk frá Anamma (325g)

  • 1 miðlungsstór laukur

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 2 dósir niðursoðnir tómatar

  • Grillkrydd eftir smekk

  • Oregano eftir smekk (ég er vön að setja frekar mikið)

  • 1 msk balsamik edik

  • salt og pipar

Grænmeti og lasagnaplötur:

  • 1 lítill kúrbítur eða 1/2 stór skorinn í þunnar lengjur. Ég einfaldlega sneiði hann niður með flysjaranum mínum.

  • Sirka 2 gulrætur (1 bolli) skornar í lengjur. Ég nota sömu aðferð og við kúrbítinn.

  • 2 lúkur spínat. Það má alveg vera meira frekar en lítið af spínati því það hverfur nánast við eldun.

  • 1 pakki lasagnaplötur. Það er misjafnt hvað fólk vill hafa mikið af plötum, en ég hafði fjögur lög og notaði þrjár í hvert lag svo það fóru tólf plötur alls í lasagnað hjá mér.

Rjómaostasósa:

  • 1 askja vegan rjómaostur (yfirleitt 150-250g)

  • 2 msk ljóst tahini

  • 1/2 grænmetisteningur

  • 1/2 bolli vatn

  • 1/2 bolli ósæt sojamjólk

  • salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Byrjið á því að pressa hvítlauk og saxa laukinn og steikið á pönnu með örlítilli olíu á miðlungshita.

  2. Bætið hakkinu út í þegar laukurinn er orðinn mjúkur og steikið þar til það hefur þiðnað. Athugið að vegan hakk má steikja beint úr frystinum svo það þarf alls ekki að þíða það fyrir.

  3. Kryddið hakkið með grillkryddi að eigin vali og bætið svo tómötunum útá ásamt oregano og balsamik edik og leyfið því að malla í nokkrar mínútur og smakkið til. Mögulega þarf að bæta við meira af kryddunum, salti og pipar.

  4. Leggið blönduna til hliðar og steikið grænmetið örstutt á annarri pönnu með smá olíu. Það þarf ekki að vera neitt rosalega vel steikt en samt alveg búið að mýkjast svolítið. Leggið til hliðar.

  5. Setjið hráefnin í rjómaostasósuna í pott og hrærið vel saman þar til hún er orðin heit og laus við kekki. Smakkið til og bætið við salti og pipar ef þarf.

  6. Það er engin regla til um það hvernig setja á lasagna saman og ég held ég geri það aldrei nákvæmlega eins. Ég byrja hinsvegar alltaf á því að setja tómatsósu neðst og passa að hún þekji botninn vel.
    Næst raða ég lasagnaplötum og það passar fullkomlega að setja þrjár í hvert lag í mínu eldfasta móti.
    Næst smyr ég yfir góðu lagi af rjómaostasósunni og þar á eftir raða ég grænmetinu yfir, og endurtek svo leikinn.
    Ég nota ekki vegan ost á lasagnað, heldur passa ég að eiga svolítið eftir af rjómaostasósunni sem ég helli yfir áður en lasagnað fer í ofninn.

  7. Bakið við 190°c í 35-40 mínútur.

Við mælum með því að bera lasagnað fram með góðu salat og hvítlauksbrauði. 

Njótið
Veganistur

anamma.png

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi-

 

Gómsæt eplabaka

IMG_3649-3.jpg

Það er ekkert betra eftir góða máltíð en góður eftirréttur. Eða það finnst mér allavega. Uppáhalds eftirréttirnir mínir eru einfaldir eftirréttir, eitthvað sem þarf ekki að hafa mikið fyrir, líkt og góður vegan ís eða einföld kaka. Við erum mjög heppin með það að það er ótrúlega mikið af góðum vegan ís komin á markaðin hér á landi og er þar ísinn frá Oatly einn af mínum uppáhalds. 

IMG_3520-2.jpg
IMG_3531 (3).jpg

Þessi eplabaka er einn af mínum uppáhalds eftirrétti en það er eindfaldlega vegna þess hversu auðvelt er að útbúa hana og hversu góð hún er. Það sem mér finnst líka vera mikill kostur er að það má undirbúa hana snemma um daginn og skella henni síðan bara í ofninn eftir matinn. 

IMG_3624-4.jpg

Kakan samanstendur af grænum eplum, möndlusmjörs-karamellu (sem passar fullkomlega með eplunu) og hafradeigi sem gerir "krönsí" áferð. Bakan passar fullkomlega með vanilluísnum frá Oatly.

IMG_3643-2.jpg

Eplabaka:

Aðferð:

  1. Afhýðið eplin og skerið niður í litla bita. Setjið í eldfast mót og hellið möndlusmjörs-karamellunni yfir.

  2. Útbúið deigið með því að blanda restinni af hráefnunum saman í skál og dreifið yfir eplin. 

  3. Bakið kökuna í 30 til 35 mínútur við 180°C 

Möndlusmjörs-karamella

Aðferð:

  1. Setjið allt saman í pott og leyfið suðunni að koma upp.

  2. Sjóðið í 2 til 3 mínútur og hrærið í á meðan.

Vonum að þið njótið
-Veganistur

innnes2.jpg

-Færslan er unnin í samstarfi við Rapunzel og Innnes-

Vegan stroganoff - Veganoff

IMG_9530.jpg

Hvað er stroganoff? 

Stroganoff er upprunalega rússneskur réttur og inniheldur nautakjötsbita sem látnir eru malla í brúnni sósu úr sýrðum rjóma og bornir fram með pasta eða hrísgrjónum. Rétturinn hefur breyst mikið í gegnum tíðina en í dag eru yfirleitt sveppir og laukur í sósunni ásamt dijon sinnepi og einhverskonar súpukrafti. Mig hefur lengi langað að gera vegan útgáfu af þessum rétti en ég smakkaði hann fyrir mörgum árum í Lettlandi og þótti ekkert smá góður. Ég lét loksins verða að því um daginn og útkoman varð æðisleg. 

IMG_9451.jpg

Ég átti til poka af Oumph! í frystinum og afgangs rauðvín svo ég sló til og sé sko ekki eftir því. Ég bið ykkur að taka því ekki illa þótt uppskriftin sé að einhverju leyti ólík hefðbundinni stroganoff uppskrift, en þrátt fyrir að hún sé ekki alveg eins þá er bragðið ekkert síðra. 

IMG_9465.jpg

Ég ætlaði að hafa kóríander í uppskriftinni en þar sem kærastinn minn getur ekki fyrir sitt litla líf borðað ferskt kóríander ákvað ég að setja það frekar út á diskinn og það kom gríðarlega vel út. Ég held það sé sniðugt að gera það bara nema maður sé viss um að allir sem eru í mat borði kóríander. 

Ég ákvað að bera réttinn fram með hrísgrjónum og útbjó túrmerík-grjón. Þau eru einfaldlega gerð með því að hella örlitlu túrmeríkkryddi út í pottinn meðan grjónin eru að sjóða. Bæði verða þau falleg á litinn og kryddið gefur gott bragð. Þó er mikilvægt að setja ekki of mikið heldur strá örlitlu þannig grjónin verði fallega gul. 

IMG_9515.jpg

Hráefni:

  • 1 poki Oumph! the chunk (Ég notaði filet sem er nákvæmlega eins nema bara stærra, því ég fann ekki the chunk úti í búð)

  • 1 askja sveppir (250g)

  • 1 laukur

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 2 msk dijon sinnep

  • 2 tsk tómatpúrra

  • 2,5 dl Oatly matreiðslurjómi

  • 1 dl Oatly sýrður rjómi

  • 1 dl vatn

  • 1/2 dl vegan rauðvín

  • 1 sveppateningur

  • 1/2 msk dökk sojasósa

  • safi úr ca 1/4 sítrónu

  • salt og pipar

  • Kóríander (má sleppa)

Aðferð:

  1. Takið Oumphið úr frystinum og leyfið því að þiðna í svona 20 mínútur áður en það er matreitt

  2. Saxið niður laukinn og hvítlaukinn og skerið sveppina niður. Ég hef sveppina í svolítið stærri bitum fyrir þennan rétt. Steikið á pönnu upp úr olíu þar til laukurinn fær gylltan lit og sveppirnir hafa mýkst vel.

  3. Skerið Oumphið niður í munnbita. Mér finnst gott að gera það svo ég fái aðeins meira úr pakkanum því sumir bitarnir geta verið svolítið stórir. Þið sjáið á myndunum að ofan hversu stórir bitarnir voru hjá mér. Bætið Oumphinu út á pönnuna ásamt tómatpúrrunni og dijon sinnepinu og steikið í nokkrar mínútur

  4. Hellið rauðvíninu út á pönnuna og hækkið hitann á sama tíma í nokkrar mínútur á meðan

  5. Lækkið hitann aftur niður í miðlungs og bætið rjómanum, sýrða rjómanum, vatninu, sveppakraftinum og sojasósunni út á pönnuna. Leyfið þessu að malla í 10-15 mínútur

  6. Smakkið til með salti og pipar og kreistið sítrónusafann yfir áður en þið berið matinn fram.

Berið fram með grjónum eða pasta. Hérna er uppskrift af fljótlegu hvítlauksbrauði sem er einstaklega gott að bera fram með. 

Veganistur

Vefjur með falafel, hummus og chili-mæjó

IMG_9277-2.jpg
IMG_9227-2.jpg

Nú er janúar að líða undir lok sem þýðir að Veganúar fer að klárast. Okkur hefur þótt virkilega gaman að sjá hversu margir eru að taka þátt í ár og við hvetjum að sjálfsögðu alla til að halda áfram. Eins þætti okkur gaman að heyra hvernig ykkur hefur gengið í Veganúar og hvaða matur ykkur hefur þótt standa fram úr. 

IMG_9252-2.jpg
IMG_9260.jpg

Þessi færsla er sú síðasta í samstarfi okkar við Krónuna í Veganúar en okkur fannst tilvalið að enda á falafel vefjum sem eru í miklu uppáhaldi hjá okkur. Falafel eru bollur gerðar úr kjúlingabaunum og allskyns kryddum. Bollurnar eiga uppruna sinn að rekja til Egyptalands og eru yfirleitt borðaðar í pítubrauði eða vefjum. Okkur þykir best að borða falafel í vefju, með hummus, grænmeti og sterkri sósu. 

IMG_9275-3.jpg
IMG_9287.jpg

Hér er listinn yfir hráefnin. Það er svolítið erfitt að lista niður hlutföll því það er misjafnt hvað fólk vill setja mikið í vefjurnar sínar og hvort fólk borðar fleiri en eina vefju. 

  • Vefjur - Við mælum með þeim frá Planet Deli og Banderos

  • Falafelbollur frá Hälsans Kök - Pakkinn er 300g og miðast við þrjá fullorðna

  • Hummus frá Tribe 

  • Salat að eigin vali

  • Rauðlaukur (má sleppa)

  • Kirsuberjatómatar (má sleppa)

  • Sriracha mæjó frá Flying goose

  1.  Eldið falafelbollurnar eftir leiðbeiningum á pakkanum. Það er bæði hægt að steikja þær á pönnu eða í bakaraofni og við mælum með því síðarnefnda. 

  2. Hitið vefjurnar í nokkrar sekúndur í ofninum eða í örbylgjuofni

  3. Smyrjið vefjuna með hummus, raðið falafelbollunum og því grænmeti sem ykkur lystir ofan á og endið svo á sriracha mæjóinu. Það er virkilega bragðgott en heldur sterkt svo við mælum með að setja ekki of mikið til að byrja með. 

  4. Rúllið vefjurnar upp og njótið!

Veganistur

 

krónan.png

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefnin þar

Kjúklingabaunakarrý

IMG_2023.jpg

Baunir eru dæmi um mat sem ég kunni alls ekki að meta áður en ég varð vegan. Ég held að ástæðan sé fyrst og fremst sú að ég ólst ekki upp við að borða þær, að undanskildum þessum hefðbundnu grænu og gulu baunum sem flestir þekkja. Þegar ég gerðist grænkeri fór ég fljótt að læra að elda baunir og fyrir mér opnaðist nýr heimur. Í dag eru þær í algjöru uppáhaldi hjá mér. 

IMG_1867.jpg

Baunir eru virkilega hollar. Þær innihalda prótín, mikið af trefjum og alls kynns fleirum góðum næringarefnum. Eins finnst varla ódýrari matur í heiminum í dag og henta því vel námsmönnum eins og mér. hægt er að kaupa þurrar baunir og sjóða í stórum skömmtum og frysta t.d, en þær fást einnig tilbúnar í dós og þarfnast þá nánast engrar fyrirhafnar.  Ég viðurkenni að ég mætti vera duglegri að sjóða mínar eigin baunir en það er bara svo ótrúlega auðvelt að kaupa þær tilbúnar í dós.

IMG_1882.jpg
IMG_1926.jpg

Síðustu ár hafa baunir verið virkilega stór partur af mínu mataræði og má segja að ég eldi einhverskonar baunir á hverjum degi. Það eru til ótrúlega margar tegundir af þeim sem allar hafa sína eiginleika og því eru möguleikarnir miklir. Kjúklingabaunir verða oftar en ekki fyrir valinu því þær eru fullkomnar í allskyns rétti, hvort sem það er hummus, falafelbollur, kryddaðar og ristaðar í ofni eða á pönnu, út á salöt eða í pottrétti. 

IMG_1958.jpg

Í þessari viku ákváðum við systur í samstarfi við Krónuna að deila með ykkur einni af okkar einföldustu baunauppskrift. Ég held að það sé einhverskonar karrýpottréttur á matseðlinum okkar í hverri einustu viku en það er vegna þess hversu einfalt og þægilegt er að gera slíka rétti. Það er einnig hægt að gera þennan rétt svo ótrúlega fjölbreyttan að maður fær aldrei leið á honum. Sú útgáfa sem við deilum með ykkur í þessari viku er sú allra einfaldasta en það þarf einungis fjögur hráefni í réttinn, og gengur hann fullkomlega sem máltíð einn og sér en einnig er hægt að hafa alls kyns gott meðlæti með honum.

IMG_1995.jpg

Hráefni:

Aðferð:

  1. saxið laukinn og steikið upp úr örlitlu vatni þar til mjúkur. 

  2. Setjið madras maukið út í, 1/4 ef þið viljið hafa réttinn mildan og meira fyrir sterkari útgáfu.

  3. Hellið vatninu af baununum og bætið þeim útí ásamt kókosmjólkinni og sjóðið í 10 til 15 mínútur

Réttinn má bera fram einan og sér en hann er einnig virkilega góður með hrísgrjónum ,salati og auðveldu pönnubrauði. HÉR er uppskrift af virkilega einföldu brauði.

-Veganistur

Færslan er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefnin þar.

Færslan er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefnin þar.

Vikumatseðill 22.-26. janúar

IMG_5558.jpg

Vikumatseðill 22.janúar til 26.janúar

Mánudagur:
Rjómapasta og hvítlauksbrauð

Þriðjudagur:
Grænmetisbuff, soðið bygg, litríkt salat og heimagerð pítusósa - gerð úr vegan mæjónesi, herbs de provence kryddi (frönskum jurtum) og smá salti.

Miðvikudagur:
Linsubaunasúpa

Fimmtudagur:
Fljótlegt kjúklingabaunakarrý (uppskrift kemur á morgun)

Föstudagur:
Taco Fredag, eins og Svíarnir segja: Vefjur með vegan hakki, salsasósu, Oatly sýrðum rjóma, grænmeti og guacomole

veganisturundirskrift.jpg

Vegan hakk og spaghettí

IMG_9011-2.jpg

Í janúar ætlum við, í samstarfi við Krónuna, að útbúa fjóra gríðarlega einfalda rétti sem tekur einungis nokkrar mínútur að elda. Réttirnir munu henta öllum, hvort sem þeir eru að taka sín fyrstu skref í lífsstílnum eða löngu orðnir sjóaðir. Réttirnir eru fullkomnir fyrir þá sem eru á síðasta snúningi með að kaupa í matinn eða einfaldlega nenna ekki að hafa mikið fyrir kvöldmatnum eftir langan vinnu- eða skóladag. Þó eru þeir líka tilvaldir fyrir þá sem elska að elda og munu réttirnir allir bjóða upp á að hægt sé að bæta við því sem manni þykir gott ef maður er í stuði til að eyða meiri tíma í eldamennskuna. Réttirnir munu passa fyrir alla fjölskylduna og líka fyrir þá sem eru svolítið efins varðandi vegan mat. 

Mér fannst viðeigandi að byrja á þeirri máltíð sem ég geri hvað oftast þegar ég vil elda eitthvað sem er fljótlegt en á sama tíma bragðgott og saðsamt. Hakk og spaghettí hefur alla tíð verið í uppáhaldi hjá mér og enn frekar eftir að ég varð vegan. Sojahakkið frá Hälsans Kök er ótrúlega gott og hentar mjög vel í þennan rétt. Ég er ekki viss um að margir myndu taka eftir því að um vegan hakk sé að ræða þegar þeir borða það í réttum eins og þessum. 

IMG_9094-2.jpg

Það er að sjálfsögðu misjafnt hvaða grænmeti fólk notar í hakk og spaghettí en í þetta skiptið vildi ég hafa þetta virkilega einfalt og notaði frosnar grænar baunir og svartar ólífur. Mér finnst ólífurnar eiginlega þarfar í réttinn en vissulega þykja ekki öllum ólífur góðar og vilja því nota eitthvað annað. Ég myndi þá mæla með sveppum og gulrótum. 

IMG_9078-3.jpg
IMG_9090.jpg

Ég útbjó hvítlauksbrauð og hemp-parmesan sem meðlæti en fyrir þá sem hafa ekki tíma eða nenna ekki að útbúa meðlæti er t.d mjög gott að hafa bara baguette og vegan smjör. Þó er alls ekki þörf á því að hafa meðlæti þar sem rétturinn er saðsamur og bragðgóður einn og sér. 

IMG_9103-2.jpg

Hakk og spaghettí - fyrir 4

  • 400g Spaghettí frá Gestus

  • 1 poki hakk frá Hälsans Kök

  • Olía til steikingar

  • 1 krukka pastasósa frá Gestus

  • 1 dl frosnar grænar baunir (má sleppa)

  • 1 dl svartar ólívur skornar í sneiðar (má sleppa)

Aðferð

1. Sjóðið pastað eftir leiðbeiningunum á pakkanum. Gott er að setja örlítið salt í pottinn og nokkra dropa af olíu

2. Hitið olíu á pönnu og steikið hakkið í sirka fjórar mínútur

3. Bætið grænu baununum, ólívunum og pastasósunni á pönnuna og leyfið því að malla í sirka sjö mínútur

4. Smakkið til með salti og pipar

Hérna eru svo uppskriftir af:
Hvítlauksbrauði
Hemp-parmesan

-Veganistur

krónan.png

-Færslan er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefnin þar-

Amerískar pönnukökur

Okkur þykir fátt betra en nýbakaðar pönnukökur á sunnudagsmorgnum. Það er eitthvað svo yndislegt við það að vakna og skella í þessar einföldu og gómsætu pönnsur. Þessi uppskrift er skothelld og fljótleg. Við höfum prófað allskonar uppskriftir en endum alltaf aftur á þessari því okkur þykir hun einfaldlega best. 

Eins og flestar uppskriftirnar okkar eru þessar pönnsur virkilega einfaldar. Bragðið gefur samt ekkert eftir, þær eru fullkomlega "fluffy" og bragðgóðar. Við bökum þær við allskonar tilefni. Þær eru frábærar sem morgunmatur einar og sér, eða jafnvel bara miðdegishressing. Þær fullkomna sunnudagsbrönsinn og eru meira að segja góðar sem eftirréttur með vegan ís og súkkulaðisósu. 

Það er misjafnt með hverju við berum pönnsurnar fram. Ef þær eru partur af bröns er einfaldlega best að hafa á þeim hlynsíróp. Við aðrar aðstæður fær hugmyndaflugið að ráða. Júlíu finnst algjört möst að hafa banana á sínum pönnsum en Helga er mikið fyrir allskonar ber. Í þetta skipti ákvað ég að skella allskonar dóti á þær og ég held þær hafi aldrei smakkast betur. 

Ég setti á þær:
Hlynsíróp
Ichoc súkkulaði sem ég skar niður
Hindber
Og kókosmjöl

Hráefni:

  • 2 bollar hveiti

  • 2 msk sykur

  • 4 tsk lyftiduft

  • Smá salt

  • 2 bollar haframjólk - eða önnur jurtamjólk

  • 4 msk olía

  • 1 tsk vanilludropar eða vanillusykur

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita smá olíu á pönnu við meðalhita

  2. Blandið þurrefnum saman í stóra skál

  3. Bætið mjólkinni, olíunni og vanilludropunum útí skálina og hrærið þar til engir kekkir eru

  4. Steikið pönnukökur úr deiginu, sirka 2-3 mínútur á hvorri hlið

  5. Berið fram með því sem ykkur lystir.

Vona að þið njótið

Helga María