Mexíkóskt maískornasalat

Í dag deilum við með ykkur gómsætu og einföldu maískornasalati sem inniheldur papríku, chilli, rauðlauk, kóríander og lime. Þetta bragðmikla salat passar fullkomlega með mexíkóskum mat og grillmat til dæmis.

Salatið er ótrúlega einfalt og tekur aðeins nokkrar mínútur að græja, en það gerir hvaða máltíð sem er ótrúlega góða. Það er einnig einfalt að skipta út grænmetinu fyrir það grænmeti sem hver og einn á til hverju sinni en sú blanda sem er hér, er að okkar mati sú fullkomna.

Uppskriftin er í samstarfi við ORA en það vörumerki þekkja lang flestir íslendingar mjög vel. Maískornin frá ORA má alls ekki vanta í allan mexíkóskan mat að okkar mati og er þetta salat mjög einföld og fljótleg leið til að gera maískorn einstök og spennandi.

Ein af mínúm uppáhalds leiðum til að bera fram salatið er í litlum tacos með til dæmis vegan hakki og guacamole. Það er virkilega einföld en góð máltíð sem lítur út fyrir að vera mjjög “fancy” og er einstaklega gaman að bjóða upp á.

Mexíkóskt maísbaunasalat

Mexíkóskt maísbaunasalat
Höfundur: Júlía Sif
Undirbúningstími: 10 MinEldunartími: 5 Min: 15 Min
Einfalt og gott maískornasalat sem hentar til dæmis með mexíkóskum mat eða alls konar grillmat.

Hráefni:

  • 1 dós ORA Maískorn
  • 1/2 msk vegan smjör eða smjörlíki til steikingar
  • 1/4 rauð papríka
  • 1/4 rauðlaukur
  • 1/2 rautt chilli (takið fræin úr)
  • 1/2 dl ferskt kóríander (má sleppa)
  • safi úr hálfri lime
  • 1/2 tsk sjávarsalt
  • 1 kúfull msk majónes
  • 1 kúfull msk vegan sýrður rjómi
  • Salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Steikið maísbaunirnar á pönnu uppúr vegan smjöri eða smjörlíki og salti í nokkrar mínútur eða þar til kornin byrja að verða fallega gyllt hér og þar
  2. Setið maískornin í skál og leyfið að kólna aðeins á meðan þið undirbúið restina af grænmetinu
  3. Saxið niður grænmetið og blandið saman við maískornin ásamt restinni af hráefnunum.
  4. Hrærið saman og smakkið til með salti og pipar.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við ORA -

Vegan rjómalagað sítrónupasta

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að gómsætu rjómalöguðu sítrónupasta með vegan parmesanosti, steinselju og chiliflögum. Rétturinn er virkilega einfaldur og fljólegur og bragðast alveg einstaklega vel. Hvort sem þú vilt elda eitthvað gott í kvöldmatinn hversdagslega eða ætlar að halda matarboð er sítrónupasta tilvalinn réttur. Ég mæli með að bera pastað fram með gómsætu brauði og njóta!

Færsla dagsins er í samstarfi við Violife og í pastaréttinn notaði ég Prosociano ostinn frá þeim sem er vegan parmesanostur. Hann er dásamlega góður og passar fullkomlega með allskonar pastaréttum. Við systur elskum vörurnar frá Violife og notum þær mjög mikið í okkar daglega lífi. Prosociano osturinn er í miklu uppáhaldi hjá mér þessa dagana og ég nota hann í nánast allt sem ég útbý.

Ég notaði spaghetti að þessu sinni en það er líka gott að nota t.d. linguine eða rigatoni. Passið að sjóða pastað bara þar til það er “al dente” svo það verði ekki klístrað og mjúkt. Já, og munið að salta pastavatnið vel!!

Sósan er einföld og það tekur enga stund að útbúa hana, en hún er svakalega góð. Hún inniheldur:

smjörlíki
ólífuolíu
hvítlauk
chiliflögur
sítrónubörk
sítrónusafa
vegan parmesanost
örlítið af vatninu sem pastað er soðið upp úr
salt og pipar

Pastað er svo að lokum toppað með steinselju. Svo gott!

Ég hef verið í miklu pastastuði undanfarið. Ég er t.d. alltaf á leiðinni að deila með ykkur uppáhalds vodkapastanu mínu sem ég elda mikið. Ætli ég verði ekki að drífa mig í því í næstu viku. Við erum með allskonar góðar uppskriftir af pasta hérna á blogginu nú þegar og ég mæli með því að kíkja á ÞETTA ofnbakaða pestópasta sem Júlía útbjó í haust og hefur svo sannarlega slegið í gegn!

Eins og við systur höfum talað mikið um uppá síðkastið ætlum við árið 2022 að vera duglegari að birta uppskriftir af allskonar kvöldmat. Við fáum svo oft spurningar um hvort við getum ekki sýnt meira af hversdagslegum mat og svoleiðis og við lofum að gera meira af því. Að sjálfsögðu munu koma gómsætar kökur og fl. en við höfum oft verið lélegar í að birta “venjulegan mat” svo við erum mjög spenntar fyrir því og tökum alltaf fagnandi á móti allskonar fyrirspurnum og áskorunum!

Ég vona innilega að ykkur líki uppskriftin og ef þið prófið að elda hana, eða einhverja aðra uppskrift af blogginu, væri ótrúlega gaman ef þið taggið okkur á Instagram. Það gerir okkur alltaf svo ótrúlega glaðar!

Rjómalagað vegan sítrónupasta

Hráefni:

  • 400 gr pasta - ég notaði spaghetti

  • 3 hvítlauksgeirar

  • Safi og börkur úr einni sítrónu

  • Chiliflögur eftir smekk. Það er svo misjafnt hversu mikið fólk þolir

  • 2,5 dl vegan matreiðslurjómi

  • 1,5 dl vatn sem pastað hefur verið soðið í

  • Rifinn prosociano (vegan parmesan frá Violife) eftir smekk. Þetta finnst mér líka vera svolítið smekksatriði. Ég notaði sirka 1/2 ost í sósuna og toppaði svo með aðeins meira. Það þarf allavega ekki meira en einn ost en það eru ekki allir sem vilja hafa svo mikið af parmesan en mér finnst það gera sósuna virkilega góða og “creamy”

  • Salt og pipar

  • Fersk steinselja að toppa með

Aðferð:

  1. Byrjið á því að sjóða pastað eftir leiðbeiningum á pakkanum þar til það er “al dente” og sigtið þá vatnið frá. ATHUGIÐ að það þarf að taka frá 1.5 dl af vatninu og nota í sósuna. Munið að salta pastavatnið vel.

  2. Setjið ólífuolíu og smjörlíki í pott, pressið hvítlauk og steikið hann í 30 - 60 sekúndur. Hann á að mýkjast en á ekki að taka á sig brúnan lit.

  3. Rífið sítrónubörk út í pottinn (geymið smá ef þið viljið nota til að toppa pastað með) og kreistið sítrónusafann og hrærið saman við hvítlaukinn ásamt chiliflögunum og leyfið þessu að eldast í nokkrar sekúndur.

  4. Hellið rjómanum útí ásamt salti og pipar og leyfið rjómanum að hitna vel.

  5. Hellið vatninu frá pastanu út í og hrærið.

  6. Bætið pastanu út í sósuna (ekki hella sósunni út í pastað því þá er erfiðara að sjá til þess að þetta verði nógu “creamy”) og passið að sósan þekji pastað vel.

  7. Toppið með prosociano og steinselju og berið fram með góðu brauði.

Takk fyrir að lesa og vona að ykkur líki vel

-Helga María

-Þessi færsla er í samstarfi við Violife á Íslandi-

 
 

Vegan osta og brokkolí ofnréttur með hrísgrjónum

Við systur ætlum að vera duglegri þetta árið að deila með ykkur auðveldum og sniðugum hversdagsmat þar sem við fáum alltaf margar fyrirspurnir um það þegar við skoðum hvað þið vilja sjá meira af. Það er svo ótrúlega auðvelt að festast í því að elda alltaf það sama og svo er oft mjög yfirþyrmandi að ákveða hvað á að vera í matinn á hverjum degi. Mér kvöldmaturinn oft hanga yfir mér allan daginn þegar ég veit ekki búin að ákveða fyrirfram hvað ég eigi að hafa í matinn. Ég mæli því alveg 100% með því að gefa sér nokkrar mínútur á sunnudögum í að gera matseðil fyrir vikuna en það hjálpar mér ekkert smá mikið. Þá finnst mér oft mjög þægilegt að geta kíkt á netið og fundið hugmyndir af réttum.

Síðustu vikur hef ég verið að prófa mig mjög mikið áfram með rétti sem ekki þarf að standa yfir eða svokallað “one-pot” rétti. Ég er alveg að dýrka þessa eldunar aðferð en þetta eru sem sagt réttir þar sem öllu er skellt í eldfast mót eða pott og síðan látið eldast án þess að það þurfi að hræra í eða gera nokkuð. Það er svo mikil snilld fyrir þá daga sem ég nenni ekki að elda, að geta skellt öllu í eldfast mót og inní ofn og síðan bara gert hvað sem er í klukkutíma á meðan rétturinn eldast. Rétturinn sem ég deili með ykkur í dag er ótrúlega góður og það þarf ekkert að hafa fyrir honum, en ég mun klárlega deila fullt af svona uppskriftum með ykkur í framtíðinni!

Ofnrétturinn samanstendur af hrísgrjónum í botninum, brokkolí og vegan soyjakjöti yfir og er hann síðan ofnbakaður upp úr vegan cheddar rjómaostasósu. Þetta er hinn fullkomni heimilismatur, tekur enga stund og dugar fyrir 4 til 5 fullorðna ef það er meðlæti með. Hann er ótrúlega bragðgóður og hægt er að bera hann fram einan og sér eða með góðu meðlæti. Ég ber réttinn oftast fram með góðu fersku salati en þá er algjört lykilatriði að hafa nýja vegan fetaostinn frá Sheese með en það er nýr ostur sem kemur í teningum. Fetaostur var uppáhalds osturinn minn þegar ég var yngri og hef ég verið með þennan vegan ost með öllu sem ég borða síðan ég keypti hann fyrst. Mér finnst einnig passa mjög vel að hafa vegan hvítlauksbrauð með en það er hægt að gera sjálfur eða kaupa brauðið frá Hatting sem er tilbúið vegan hvítlauksbrauð og má að sjálfsögðu finna í Krónunni.

Mér finnst ótrúlega gott að búa til kryddlög fyrir fetaostinn líkt og venjan er hérna heima en það er ótrúlega einfalt og smakkast hann alveg eins og venjulegi fetaosturinn sem hægt er að kaupa í krukku út í búð. Í kryddlögin set ég eftirfarandi:

  • Vel af góðri ólífuolíu, ég hef verið að nota D.O.P olíuna frá Olifa

  • Timían

  • Rósmarín

  • Ítölsk hvítlauksblanda frá pottagöldrum

  • Grófmalaður pipar

  • Örlítið salt

Ég set mjög lítið af hveju kryddi fyrir sig og hræri þessu síðan aðeins saman.

Hráefni (réttur fyrir 4):

  • 2 dl hrísgrjón

  • 3 dl vatn + 2 grænmetisteningar

  • 1 cheddar rjómaostur frá Sheese

  • 250 ml vegan hafrarjómi

  • 2 msk ítalskt pastakrydd frá pottagöldrum

  • 3 hvítlauksgeirar

  • 1-2 tsk salt

  • 1 haus brokkolí

  • 4 litlir vorlaukar

  • 1 pakki vegan kjúklingur (t.d. oumph)

  • sirka 1/2 poki rifin epic mature cheddar frá Violife (eða það magn sem passar yfir réttinn)

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°C

  2. Hellið hrísgrjónum í stórt eldfast mót

  3. Leysið tvo grænmetisteninga upp í heitu vatni og hellið yfir hrísgrjónin

  4. Hrærið saman í skál rjómaostinum, vegan hafrarjóma, hvítlauksgeirum og kryddunum

  5. Hellið yfir hrísgrjónin og blandið aðeins saman við hrísgrjónin og vatnið.

  6. Skerið niður vorlauk og brokkolí og dreyfið yfir ásamt soyja kjötinu. Ýtið aðeins ofan í vökvan.

  7. Stráið rifna ostinum yfir réttinn

  8. Setjið álpappír yfir eldfasta mótið og eldið í ofninum í 50 mínútur. Takið þá álpappírinn af og leyfið réttinum að vera í 15 mínútur í viðbót í ofninum.

-Njótið vel

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefni í réttinn þar -

 
 

Vegan grænmetisbollur með grænu pestó

Nú er komið nýtt ár og því fylgir að sjálfsögðu veganúar. Margir hafa sett sér ný markmið og sumir með það markmið að gerast vegan eða minnka dýraafurðaneyslu. Okkur finnst þessi mánuður alltaf jafn skemmtilegur og fáum við mikið að skilaboðum frá fólki sem er að byrja að vera vegan sem er alltaf jafn gaman. Við ætlum því að sjálfsögðu að vera duglegar að deila með ykkur nýjum sem gömlum uppskriftum núna í janúar sem og alls konar öðrum fróðleik. Við mælum að sjálfsögðu með að allir fylgi okkur á Instagram þar sem við erum duglegar að sýna frá alls konar vegan tengdu.

Uppskriftin sem ég ætla að deila með ykkur í dag er af ótrúlega auðveldum og hollum grænmetisbollum með grænu pestói. Þessar bollur eru virkilega bragðgóðar og hægt er að bera þær fram á alls konar vegu. Það er einnig auðvelt að gera þær í stóru magni og mæli ég með að gera til dæmis þrefalda eða fjórfalda uppskrift og setja í frysti. Ég elska að eiga til góða og holla rétti í frystinum sem ég get gripið í þegar ég hef ekki mikinn tíma til að elda.

Í bollunum er, ásamt hnetum og baunum, grænt pestó sem gerir þær ótrúlega bragðmiklar og góðar. það þarf því ekkert að krydda þær aukalega þar sem basil-hvítlauksbragðið af pestóinu skín vel í gegn. Bollurnar eru stútfullar af góðum næringarefnum úr baununum og hnetunum og auðvelt er að gera þær glútenlausar með því að nota glútenlaust brauðrasp.

Bollurnar má bera fram á ótal vegu. Ég ber þær mjög oft fram með rjómapasta, en þá sýð ég gott pasta, geri einfalda rjómasósu á pönnu með vegan rjóma, rjómaosti, hvítlauk og grænmetiskrafti. Velti pastanu síðan upp úr sósunni og ber bollurnar fram með. Þá mæli ég með að hafa grænt pestó með sem hægt er að setja út á og jafnvel vegan parmesanost og hvítlauksbrauð.

Bollurnar henta einnig fullkomlega með kaldri sósu og grænmeti, hvort sem það er í pítubrauði, vefju eða með hrísgrjónum til dæmis. Þær má einnig borða kaldar og henta því mjög vel sem nesti.

Pestó grænmetisbollur (20-24 litlar bollur)

  • 1 dós pinto baunir

  • sirka 2 bollar eða 2 lúkur spínat, eða eftir smekk

  • 1 dl malaðar kasjúhnetur

  • 1/2 krukka grænt vegan pestó frá Sacla Italia

  • 1/4 laukur

  • 1 1/2 dl brauðrasp

  • 1/2 tsk salt

Aðferð:

  1. Byrjið á því að vinna kasjúhneturnar í blandara eða matvinnsluvél þar til fínmalaðar, setjið til hliðar.

  2. Setjið spínatið í blandarann eða matvinnsluvélina og maukið, bætið pinto baununum út í og maukið gróflega saman.

  3. Saxið laukinn mjög smátt og hrærið öllum hráefnunum saman í skál.

  4. Mótið kúlur eða buff úr deiginu en það á að vera þannig að þið getið meðhöndlað það í höndunum. Ef það er of blautt má bæta aðeins við af brauðraspi.

  5. Bakið við 200°C í 20 mínútur.

-Tillögur af því hvernig bera megi fram bollurnar má finna í færslunni hér að ofan. Njótið vel.

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Sacla Italia á Íslandi -

 
 

Buffaló blómkálsborgari með gráðaostasósu

Mér finnst fátt betra um helgar en góður “helgar”matur. Við borðum yfirleitt pizzu eða hamborgara á föstudögum og elska ég að finna upp nýjan góðar borgara uppskriftir. Uppskriftin sem ég ætla að deila með ykkur í dag er svo sannarlega ekki af verri endanum en það er buffaló blómkáls borgari með Blue cheese sósunni frá Sacla Italia

Eftir að ég smakkaði blue cheese sósuna fyrst þá hef ég elskan að gera buffaló blómkálsvængi en þessi sósa passar alveg fullkomlega með buffalósósu. Mig langaði þó að gera þessa uppskrift eða svitaða uppskrift sem væri aðeins meiri máltíð einhvern veginn og datt þá í hug að gera eins konar buff úr blómkáli sem hægt væri að nýta í borgara með þessari frábæru sósu.

Blómkálsbuffin er ótrúlega einfalt að gera og er í rauninni gert nákvæmlega eins og blómkálsvængir, nema blómkálið er einfaldlega skorið í sneiðar. Það má því alveg nota sömu uppskrift til að gera vængi eða jafnvel nýta þessa uppskrift sem eins konar blómkálssteik og bera fram með sósunni, salati og kartöflum til dæmis.

Hráefni (4 borgarar) :

  • 4 vegan hamborgarabrauð

  • 4 buffaló blómkálsbuff

  • 1 krukka vegan blue ch**se sósa frá Sacla Italia

  • Vegan hrásalat

  • Ferskt grænmeti

  • Franskar eða ofnbakað kartöflur

Aðferð:

  1. Útbúið blómkálsbuffin eftir uppskrift hér að neðan.

  2. Útbúið hrásalatið

  3. Bakið kartöflur eða franskar í ofni eða útbúið það meðlæti sem hver og einn vill hafa með.

  4. Berið fram og njótið.

Buffaló blómkálsbuff

  • 1 stór blómkálshaus

  • 1 bolli hveiti

  • 2 tsk laukduft

  • 2 tsk hvítlauksduft

  • 2 tsk paprikuduft

  • 1 msk oregano

  • 1 tsk salt

  • 1 tsk pipar

  • 1 bolli haframjólk (bætið við smá auka ef ykkur finnst hveitiblandan og þykk)

  • 1 dl buffalósósa eða önnur hot sauce

Aðferð:

  1. Hitið ofnin í 200°C

  2. Blandið öllum þurrefnum saman í skál og hellið síðan haframjólkinni út í og hrærið vel.

  3. Skerið blómkálið í þykkar sneiðar með stönglinum svo sneiðin haldist heil. Snyrtið vel í kringum stylkin og minnkið hans eins mikið og hægt er án þess að sneiðin detti í sundur. Ég byrja á því að skera hausinn beint í tvennt og næ síðan tveimur sneiðum úr hvorum helming.

  4. Veltið hverri sneið upp úr hveitiblöndunni. Hitið vel af olíu á pönnu þar til hún verður vel heit. Ég set svi mikið að það sé sirka 1 og 1/2 cm af olíu í pönnunni. Steikið hverja blómkálssneið í nokkrar mínútur á hvorri hlið eða þar til fallega gylltar á báðum hliðum.

  5. Hellið buffaló sósunni í breiða, grunna skál og veltið hverri blómkálssneið upp úr henni.

  6. Setjið á bökunarpappír og bakið í 200°C heitum ofni í 10 mínútur á hvorri hlið, sem sagt 20 mínútur samtals.

Hrásalat

  • 1 dl vegan majónes

  • 1 dl þunnt skorið hvítkál

  • 1 dl þunnt skorið ferskt rauðkál

  • 2 litlar eða 1 meðalstór gulrót

  • 1 tsk agave síróp

  • Salt eftir smekk

Aðferð:

  1. Skerið hvítkálið og rauðkálið í mjög þunnar sneiðar.

  2. Rífið niður gulræturnar.

  3. Blandið öllum hréfnum saman í skál. Saltið eftir smekk

-Njótið vel

- Færslan er unnin í samstarfi við Sacla Italia á Íslandi -

Falafel úr chana dal baunum

Síðan ég varð ólétt hef ég verið mikið að prófa mig áfram með fleiri baunarétti og svona aðeins “hollari” fæðu. Ég myndi segja að mataræðið mitt sé nú alveg frekar hollt yfir höfuð en ég á það til að elda mikið af soyakjöti og plana flestar máltíðir í kringum slík hráefni. Ég hugsa að partur af því sé til komið vegna þess að fyrst þegar við systur urðum vegan var lítið til að slíkum vörum og samanstóð mataræðið okkar eingöngu af grænmeti, ávöxtum, baunum, hnetum og fræjum. Þar af leiðandi opnaðist alveg nýr heimur fyir mér þegar vegan kjöt fór að vera í boði.

En eftir að ég varð ólétt hef ég aðeins verið að reyna að fara til baka og gera fleiri rétti úr minna unnum vörum og hef því verið að koma baunum meira og meira inn í mataræðið mitt aftur þar sem þær eru alveg stútfullar af góðri næringu, próteini, trefjum og alls kona góðu. Ég er þó alls ekki að segja að vegan “kjöt” sé óhollt og borða ég það yfirleitt eitthvað á hverjum degi líka.

Mér hefur fundist mjög gaman að leika mér með allskonar baunir síðustu mánuði og þá sérstaklega baunirnar frá Oddpods en við erum búnar að vera í samstarfi með þeim síðan í sumar. Baunirnar eru svo frábærar þar sem þær er hægt að nota á svo marga vegu og er hægt að leika sér með nánast hvaða baunir sem er í alls konar mismunandi réttum. Það sem mér finnst vera mikill plús við þetta merki er að það er hægt að fá baunir líkt og brúnar linsur og chana dal baunirnar sem ég nota í þessari uppskrift forsoðnar, en það hefur ekki verið auðvelt að nálgast slíkt hérna heima. Þessar baunir þarf yfirleitt að leggja í bleyti og sjóða sjálfur. Oddpods baunirnar koma hins vegar tilbúnar til neyslu beint úr pokanum og eru þær soðnar upp úr vatni og grænmetiskrafti sem gerir þær einstaklega bragðgóðar.

Nú er ég í vaktavinnu og er því oft heima í hádeginu hina og þessa daga og því finnst mér nauðsynlegt að kunna að gera góða, fljótlega rétti í hádeginu þegar ég á t.d. ekki afganga frá því kvöldinu áður eða eitthvað slíkt. Auðveldar grænmetisbollur sem taka enga stund eru alveg fullkomnar í svona fljótlega rétti og er þessi uppskrift alveg einstaklega góð þar sem hún er SVO auðveld og tekur innan við 15 mínútur að græja. Þær má einnig nota á svo marga vegu, t.d. með góðu salati, í pítubrauði eða í vefjur. Það er líka svo frábært að það er hægt að nota hvaða baunir sem er í hana og því alltaf hægt að grípa í þessa uppskrift sama hvaða baunir eru til. Í þetta skipti ætla ég að deila með ykkur uppskrift með Chana dal baununum frá Oddpods en það eru gular “split peas” líkt og notað er í baunasúpu.

Hráefni:

  • 1 poki Chana dal baunir frá Oddpods

  • 1 hvítlauksrif

  • 1 msk ferskt kóríander

  • 1 msk ferksur graslaukur

  • 1 tsk malaður kóríander

  • 1 tsk laukduft

  • 1 tsk kúminduft

  • 2-3 msk ferskur sítrónusafi

  • salt

Aðferð:

  1. Setjið öll hráefnin saman í blandara eða matvinnsluvél og maukið þar til fínt duft. Tekur einungis um 2-3 mínútur í góðum blandara.

  2. Mótið í bollur, buff eða það sem hentar hverju sinni.

  3. Steikið á pönnu í nokkrar mínútur á hvorri hlið eða bakið í ofni í 12-15 mínútur við 200°C.

  4. Berið fram með tzaziki sósu og salati eða í pítúbrauði, vefju eða sem borgari.

Tzatziki sósa

  • 1 bolli hreint jógúrt (mín uppáhalds eru Oatly Turkisk havregurt eða hreina sojade)

  • 2 msk rifin gúrka

  • 1/2 hvítlauksrif

  • salt

  • 1 msk ferskur sítrónusafi

  • 1 msk niðursaxað ferskt dill

Aðferð:

  1. Rífið gúrkuna niður og pressið hvítlaukinn eða saxið bæði mjög smátt. Saxið dillið.

  2. Blandið öllum hráefnum saman í skál og smakkið til með salti.

-Njótið vel og endilega kíkið á instagram hjá okkur en þar er stutt myndband af því hvernig ég geri bollurnar.

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Oddpods á Íslandi -

 
 

Linsubauna "Shepert's pie"

IMG_9897.jpg

Mér finnst ég alltaf byrja þessar færslur á að tala um veðrið en það hefur snjóað af og til á landinu síðustu daga og hef ég þurft að skafa nánast alla morgna síðustu vikuna svo það er eiginlega bara ekki annað hægt. Matarvenjur mínar fara líka bara svo rosalega eftir veðri einhvernveginn, en það er akkúrat þess vegna sem ég ákvað að deila með ykkur þessari tilteknu uppskrift núna.

IMG_9874.jpg
IMG_9875.jpg

Uppskriftin er af svokallari “Sherpert’s pie” en ég held að það sé ekki mikil hefð fyrir því að fólk eldi þennan rétt hérna á Íslandi. Ég kynntist honum allavega ekki fyr en eftir að ég varð vegan þar sem það er mjög auðvelt að gera vegan útgáfu af alls konar svona bökum. Þessi útgáfu er mín uppáhalds en fyllingin er svo góð að það væri eiginlega hægt að borða hana á jólunum að mínu mat. Ég set rauðvín í sósuna sem gerir hana eitthvað svo hátíðlega og svo er kartöflumús líka í svo miklu uppáhaldi hjá mér.

Mér finnst þessi rétturinn vera fullkomin þegar það er kalt úti og tikkar í öll boxin yfir þennan svokallaða “comfort food”. Mér finnst líka einhvern veginn aldrei jafn skemmtilegt að kaupa gænmeti og á haustin þegar það er svo extra ferskt og mikið úrval í búðum, og því ákvað ég að hafa réttin stútfullan af fallegu grænmeti. Það má að sjálfsögðu nýta nánast hvaða grænmeti sem er í hann, sleppa einhverju eða skipta út eftir smekk hvers og eins. Ég set oft sveppi eða brokkolí út í ef ég á það til en mér finnst mikilvægast að það séu laukur, gulrætur og baunir í honum.

Uppistaðan í bökunni eru síðan linsubaunirnar en þær eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Þær draga svo vel í sig bragð og finnst mér áferðin á þeim einhvern veginn betri en á flestum öðrum baunum. Ég notaði baunirnar frá Oddpods þar sem það er svo einfalt að geta bara hent þeim út á pönnuna beint úr pakkningunni. Einnig eru baunirnar frá Oddpods soðnar upp úr grænmetiskrafti en það finnst mér gera þær bragðbetri en aðrar baunir og hentar það sérstaklega vel í rétti eins og þennan.

IMG_9917.jpg

Ég mæli með að elda stóra böku, en þessi uppskrift dugar fyrir 4-5 fullorðna, þar sem hún er eiginlega bara ennþá betri daginn eftir.

Linsubaunafylling:

  • 2 pakkar brúnar linsur frá Oddpods

  • 2-3 msk ólífuolía

  • 1 laukur

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 3 gulrætur

  • 3 stilkar sellerí

  • 1 dl frosnar grænar baunir

  • 250 ml vatn + 1 msk hveiti hrist saman

  • 250 ml hafrarjómi

  • 1 sveppateningur

  • 1 msk dijon sinnep

  • 3 msk eða ein lítil dós tómatpúrra

  • 1-2 msk soyasósa

  • 1/2 dl rauðvín

  • 2 lárviðarlauf

  • salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Byrjið á því að skera niður allt grænmeti í litla kubba.

  2. Steikið upp úr ólífuolíu þar til grænmetið fer að mýkjast

  3. Bætið baununum út í ásamt smá salti og pipar og steikið í nokkrar mínútur í viðbót á meðalhita.

  4. Bætið restinni af hráefnunum út í og hrærið vel saman. Leyfið suðunni að koma upp og sjóðið í u.þ.b. 5 mínútur. Smakkið til með salti og pipar

  5. Setjið í eldfast mót, útbúið kartfölumúsina og dreyfið henni jafnt yfir. Bakið við 200°C í 15 mínútur eða þar til kartöflumúsin verður fallega gyllt að ofan.

  6. Passið að taka lárviðarlaufin úr þegar bakan er borðuð.

Kartöflumús

  • 1 kg kartöflur

  • 150 gr smjörlíki eða vegan smjör

  • 1-2 dl haframjólk

  • vel af salti (eftir smekk)

Aðferð:

  1. Sjóðið kartöflurnar í u.þ.b. 20 mínútur eða þar til þær eru mjúkar í gegn þegar stungið er gaffli í þær.

  2. Afhýðið kartöflurnar og stappið saman með kartöflustappara eða setjið í gegnum kartöflupressu.

  3. Setjið kartöflurnar, smjörlíki og 1 dl af mjólk saman í pott og hrærið vel í á lágum hita. Bætið við salti og haframjólk eftir þörfum.

-Við mælum með að bera réttinn fram með fersku salati og hvítlauksbrauði en það má líka bera hann fram einan og sér.

- Þessi færsla er í samstarfi við OddPods á Íslandi -

 
Oddpods-logo---edited.png
 

Djúpsteiktir vegan mac and cheese bitar

djupsteiktir-mac-and-cheese-bitar-tilbunir-a-disk.jpg

Hæ!

Uppskriftin sem við deilum með ykkur í dag er hinn FULLKOMNI partýmatur. Djúpsteiktir vegan mac and cheese bitar. Svo dásamlega stökkir að utan og djúsí að innan. Bitarnir henta vel sem t.d pinnamatur, meðlæti, snarl eða kvöldmatur. Þeir myndu bókstaflega slá í gegn sem meðlæti með góðum hamborgara eins og þessum HÉR!

Hraefni-fyrir-mac-and-cheese-bita.jpg

Færslan er í samstarfi við Violife á Íslandi en við elskum ostinn frá þeim. Í uppskriftina ákvað ég að nota tvær týpur, Original flavor og Epic mature cheddar. Mér fannst þeir passa svo vel saman í ostasósuna. Það er þó hægt að nota hvaða ost frá þeim sem er. Það er örugglega geggjað að prófa að setja svolítið af rjómaosti líka. Möguleikarnir eru endalausir. Ég vissi að ég vildi nota Epic mature cheddar ostinn til að fá þetta gómsæta cheddar bragð. Ég sé sko ekki eftir því!

Hér í Piteå fæ ég ekki rifna ostinn frá Violife svo ég keypti hann í stykki og reif sjálf. Þið heima búið hinsvegar svo vel að geta keypt hann rifinn svo ég mæli með því. Epic mature osturinn fæst bara í stykkjum þó.

Þennan rétt er hægt að leika sér með og breyta eftir eigin höfði. Ég mæli auðvitað með því að ALLIR prufi að gera djúpsteikta mac and cheese bita, en það er auðvitað hægt að borða matinn beint úr pottinum eða færa hann í eldfast mót, strá yfir t.d. panko brauðraspi og baka í ofni. Ef þið veljið að baka hann í ofni eða borða beint úr pottinum er örugglega gott að bæta við t.d. brokkólí eða öðru grænmeti í hann!

mac-and-cheese-bitar-velt-uppur-jogurti.jpg

Við vitum öll hvað er gaman að koma fólki á óvart með spennandi nýjum réttum sem kannski flestum hefði ekki einu sinni dottið í hug að útbua. Þessir bitar eru akkúrat dæmi um svoleiðis mat. Matur sem stelur senunni við allskonar tilefni!

Djúpsteiktan mat tekur alltaf svolitla stund að útbúa en þrátt fyrir það er virkilega einfalt að útbúa djúpsteiktu mac and cheese bitana. Þeir eru einnig dæmi um mat sem gaman er að útbúa og okkur systrum þykir alltaf jafn spennandi að smakka eitthvað nýtt. Hlökkum mikið til að heyra hvað ykkur finnst!

Tilbunir-mac-and-cheese-bitar-opnir.jpg

Djúpsteiktir vegan mac and cheese bitar (sirka 30 stykki litlir bitar)

Hráefni:

Fyrir sjálfan mac and cheese réttinn:

  • 125 gr makkarónur

  • 20 gr smjörlíki

  • 20 hveiti

  • 3 dl vegan mjólk (ég notaði haframjólk)

  • 80 gr Violife ostur að eigin vali (ég notaði 40 gr original og 40 gr epic mature cheddar)

  • 1/2 tsk laukduft

  • 1/2 tsk hvítlauksduft

  • 2 msk næringarger

  • 1/2 tsk eplaedik

  • salt og pipar eftir smekk

Það sem þarf til að velta uppúr og djúpsteikja:

Blautt:

  • Sirka 500 ml hrein vegan jógúrt

  • 1 tsk eplaedik

  • Nokkrir dropar hot sauce (má sleppa en ég mæli með)

Þurrt:

  • 2 dl hveiti

  • 2 dl panko brauðrasp (eða venjulegt brauðrasp ef þið finnið ekki panko)

  • 1 tsk lyftiduft

  • 1 tsk salt

  • 2 tsk hvítlauksduft

  • 2 tsk laukduft

  • 3 tsk paprikuduft

  • 1 tsk oregano krydd

  • 1 tsk timían krydd

  • 1 tsk basilika krydd

  • 1 tsk hvítur pipar

  • svartur pipar eftir smekk

  • Olja að djúpsteikja í (ég notaði 1 líter)

Aðferð:

  1. Sjóðið makkarónurnar eftir leiðbeiningum á pakkanum. Saltið vatnið vel.

  2. Bræðið smjörlíki í öðrum potti.

  3. Bætið hveiti út í og hrærið með píski. Leyfið hveitiblöndunni að eldast svolítið og hrærið í á meðan. Við viljum fá burtu bragðið af hráu hveiti en hveitiblandan á þó ekki að verða brún.

  4. Bætið mjólkinni út í sirka 1 dl í einu og hrærið ve á meðan. Þannig fáiði þykka og fína sósu.

  5. Bætið rifna ostinum, eplaediki, laukdufti, hvítlauksdufti, salti og pipar samanvið og hrærið þangað til osturinn er alveg bráðinn.

  6. Hellið vatninu af makkarónunum og bætið þeim út í sósuna ásamt næringargerinu. Saltið og piprið meira ef ykkur finnst þurfa. Þetta má vera svolítið braðgmikið.

  7. Leggið réttinn í box og setjið inn í ísskáp í klukkutíma.

  8. Takið út og myndið litlar bollur. Mér finnst gott að hafa bitana svona sirka 2 munnbita. Þannig fékk ég 30 kúlur. Leggið bollurnar á fat og setjið í frystinn í sirka hálftíma eða þar til bollurnar eru orðnar vel stífar. Þær þurfa ekki að frosna þó.

  9. Undirbúið djúpsteikinguna. Blandið saman jógúrti, eplaediki og sterku sósunni í djúpan disk.

  10. Blandið saman hveiti, panko brauðraspi, lyftidufti og öllum kryddunum í annan djúpan disk.

  11. Hitið olíuna í 180°c.

  12. Veltið bitunum í jógúrtblönduna og svo hveitiblönduna og djúpsteikið þar til bitarnir fá fallegan, dökkan gylltan lit.

  13. Berið fram með t.d. vorlauk og góðri sósu. Ég mæli með salsasósu eða pizzasósu.

Takk kærlega fyrir að lesa og vona að þið njótið!
Ekki gleyma að tagga okkur á Instagram ef þið prófið einhverja af réttunum okkar! <3

-Helga María

-Þessi færsla er í samstarfi við Violife á Íslandi-

 
violife-logo-1.png
 

Tælensk núðlusúpa með rauðu karrý

IMG_9725.jpg

Eftir að hafa eytt þremur mánuðum í asíu fyrir nokkrum árum hefur asískur matur og þá sérstaklega tælenskur matur verið í mjög miklu uppáhaldi hjá mér. Ég hugsa að ég gæti borðað núðlur, hrísgrjón og karrý á hverjum einasta degi án þess að fá leið á því. Í ferðinni áttaði ég mig á því hversu miklu betri asískar þjóðir eru í að nota krydd og grænmeti heldur en við og fann ég hvergi fyrir því að erfitt væri að vera vegan eða að borða ekki kjöt. Allir réttir eru stútfullir af góðu grænmeti, hrísgrjónum, núðlum og geggjuðum kryddum.

Ég gerði þau mistök að kaupa mér ekki krydd og kryddblöndur til að taka með heim, en ég fór hins vegar mikið að prófa alls konar kryddmauk í matargerð eftir að ferðinni lauk. Það er til fjöldin allur af góðum karrý og kryddmaukum hérna heima sem gera tælensku og asísku matargerðina einfalaldari en hægt er að hugsa sér. Það þarf þó að passa sig á því að oft má finna innihaldsefni í slíkum maukum sem ekki eru vegan eins og t.d. fiskisósur og fiskikraft.

IMG_9712.jpg

Í krónunni er einstaklega gott úrval af svona kryddmaukum og finnst mér ég finna eitthvað nýtt í nánast hverri einustu búðarferð. Ég get eitt góðum tíma í þessari deild búðarinnar að skoða allar þessar spennandi vörur. Maukinn og vörurnar frá Taste of Asia gripu strax athygli mína þegar ég sá þau fyrst snemma á þessu ári en tók ég eftir að flest maukin frá þeim innihalda 100% vegan innihaldsefni og henta mér því einstaklega vel.

Ég hef prófað mikið af þessum vörum en hefur rauða karrýmaukið alltaf verið til í skápunum hjá mér síðan ég smakkaði það fyrst. Það er ótrúlega bragðgott, og hentar fullkomlega í súpur, kássur eða bara á tófú og núðlur. Ég elska einnig hvað er gott úrval af góðum núðlum frá þessu merki, en lengi vel var nánast einungis hægt að fá “skyndinúðlur” og hrísgrjónanúðlur í felstum matvöruverslunum.

Í þessari færslu ætla ég að deila með ykkur einum af mínum uppáhalds réttum. Það er kókoskarrýsúpa með tófúi og Somen núðlum.

IMG_9743.jpg

Hráefni

  • 4 msk ólífuolía

  • 1 stór gulrót

  • 4-5 cm af blaðlauk

  • 1 rauð papríka

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 1 cm ferskt engifer

  • 1 pakki tófú

  • Tófú marinering

    • 1/2 dl soyasósa

    • 4 msk ólífuolía

    • 1 tsk hlynsíróp

    • 1 tsk chilli mauk (sambal oelek frá Taste of Asia)

    • 1/2 tsk pressaður hvítlaukur

  • 1 krukka rautt karrýmauk frá Taste of Asia

  • 1 tsk chillimauk (sambal oelek frá Taste of Asia) má sleppa

  • 2 msk hlynsíróp

  • salt og pipar eftir smekk

  • 2 dósir kókosmjólk

  • 2 lítrar vatn

  • 2 grænmetisteningar

  • 1/2 pakki somen núðlur frá Taste of Asia

  • Límóna og ferskur kóríander til að bera fram með súpunni

Aðferð:

  1. Byrjið á því að þerra og skera niður tófúið. Blandið öllum hráefnum fyrir marineringuna saman í skál og setjið teningana út í. Veltið vel upp úr marineringunni og setjið til hliðar

  2. Skerið niður allt grænmeti, rífið engifer og pressið hvítlaukinn.

  3. Steikið grænmetið upp úr ólífuolíunni í stórum potti þar til það mýkist vel.

  4. Bætið rauða karrýmaukinu út í pottinn ásamt 1/2 dl af vatni og steikið áfram í nokkrar mínútur.

  5. Bætið kókosmjólkinni út í pottinn ásamt vatninu, grænmetiskraftinum, hlynsírópi og chillimaukinu.

  6. Leyfið suðunni að koma upp við vægan meðalhita og hrærið í af og til á meðan.

  7. Á meðan súpan sýður er gott að nota tíman til að steikja tófúið. Hitið pönnu, hellið tófúinu ásamt mareneringunni út á pönnuna og steikið á háum hita þar til það verður fallega gyllt á öllum hliðum.

  8. Þegar suðan er komin upp á súpunni er gott að smakka hana til og bæta við salti, pipar og grænmetiskraft ef ykkur finnst þurfa. Leyfið súpunni að sjóða í 15 mínútur.

  9. Bætið núðlunum út í og leyfið súpunni að sjóða í 3 mínútur í viðbót. Slökkvið undir og bætið tófúinu út í pottinn.

  10. Berið fram með límónusneið og ferskum kóríander fyrir þá sem vilja. Einnig er gott að hafa með baunaspírur og muldar salthnetur en það þarf ekki.

-Njótið vel!

- Færslan er unnin í samstarfi við Krónuna -

 
KRONAN-merki.png
 

Grillaðar vegan pylsur á þrenns konar vegu

IMG_0438.jpg

Í dag er föstudagur og því finnst mér tilvalið að deila með ykkur líklega síðustu grillfærslu sumarsins. Þetta sumar er búið að líða alveg ótrúlega hratt og er erfitt að trúa því að núna séu skólar að komast á fullt. Núna í lok ágúst finnst mér því fullkomið að deila með ykkur þessari færslu sem inniheldur mismunandi tillögur af því hvernig bera megi fram Anamma pylsurnar. Anamma pylsurnar eru í miklu uppáhaldi hjá okkur systrum og elskum við að grilla þær því það er svo einfalt og þægilegt. Þær eru einnig fullkomin matur til að taka með sér í útilegur eða í grillveislur til vina eða fjölskyldu.

IMG_0455-2.jpg

Ég elska hefðbundnar pylsur með tómatsósu, steiktum lauk og sinnepi en finnst einnig alveg ótrúlega skemmtilegt að leika mér með mismunandi hráefni og matreiða pylsurnar á ólíka vegu. Það má breyta réttinum alveg með því að setja aðrar sósur eða góð salöt á pylsurnar. Það má undirbúa öll hráefnin í þessari færslu fyrirfram þar sem þau eru öll mjög einföld og taka með sér í lautarferð eða hvar sem planið er að grilla.

IMG_0459-2.jpg

Þessi hefðbundna:

  • Anamma pylsur

  • Tómatsósa

  • Steiktur laukur

  • Sinnep (ég nota yfirleitt bæði pylsusinnep og sætt sinnep)

  • Heimagert kartöflusalat (uppskrift neðst í færslunni)

  • Pylsubrauð

Aðferð:

  1. Útbúið kartöflusalatið eftir uppskriftinni neðst í þessari færslu.

  2. Grillið pylsurnar í nokkrar mínútur á hverri hlið eða þar til þær fá fallega gylltar rákir.

  3. Hitið pylsubrauðinn og raðið hráefnunum á eins og hver og einn vill.

BBQ pylsur:

  • Anamma pylsur með bbq sósu

  • Chilli majónes

  • Grænt salat

  • Hrásalat

Aðferð:

  1. Byrjið á því að útbúa hrásalat, uppskriftina af því má finna neðst í þessari færslu.

  2. Pennslið pylsurnar með bbq sósu og grillið í nokkrar mínútur á hvorri hlið eða þar til pylsurnar frá fallegar rákir.

  3. Hitið pylsubrauðin og raðið hráefnunum í eftir smekk.

IMG_0462-2.jpg

Þessi mexíkóska:

  • Anamma pylsur

  • Mangósalsa (uppskrift neðst í færslunni)

  • Guacamole (uppskrift neðst í færslunni)

  • Grænt salat

  • Sýrður rjómi

  • Svart Doritos

Aðferð:

  1. Byrjið á því að útbúa mangósalsað og guacamole sem er hér neðst í færslunni.

  2. Grillið pyslurnar í nokkrar mínútur á hvorri hlið þar til þær fá fallegar gylltar rákir.

  3. Hitið pylsubrauðin og raðið hráefnunum í eftir smekk.

Kartöflusalat

  • 500 gr kartöflur

  • 2 dl vorlaukur (einnig hægt að nota blöndu af venjulegum lauk og graslauk)

  • 3/4 dl vegan majónes

  • 1 dl Oatly sýrður rjómi

  • 1 msk gróft sinnep

  • 2 tsk sítrónusafi

  • salt og pipar

Aðferð:

  1. Skerið kartöflurnar í litla bita og gufusjóðið í 20 mínútur. Það er líka alveg hægt að sjóða kartöflurnar venjulega og flysja og skera niður þegar þær hafa kólnað.

  2. Saxið vorlaukinn og blandið öllu nema kartöflunum saman í skál. Setjið kartöflurnar út í þegar þær hafa kólnað alveg.

  3. Berið fram með hverju sem er, en salatið passar auðvitað sérstaklega vel með öllum grilluðum mat.

Hrásalat

  • 1 dl vegan majónes

  • 1 dl þunnt skorið hvítkál

  • 1 dl þunnt skorið ferskt rauðkál

  • 2 litlar eða 1 meðalstór gulrót

  • 1 tsk agave síróp

  • Salt eftir smekk

Aðferð:

  1. Skerið hvítkálið og rauðkálið í mjög þunnar sneiðar.

  2. Rífið niður gulræturnar.

  3. Blandið öllum hréfnum saman í skál. Saltið eftir smekk

Mangó salsa

  • 1 dl niðurskorið mangó

  • 1 dl niðurkorið papríka

  • 1/2 dl niðursaxaður rauðlaukur

  • safi úr hálfri lime

  • Salt eftir smekk

  • Ferskt kóríander eftir smekk (má sleppa)

Aðferð:

  1. Skerið niður grænmetið og mangóið í litla bita.

  2. Blandið öllum hráefnum saman í skál.

  3. Saltið eftir smekk.

Guacamole

  • 2-3 stór avocado

  • 1/2 hvítlauksgeiri

  • 1 tómatur

  • 1/2 lítill rauðlaukur

  • Salt og pipar eftir smekk

  • Safi úr 1/2 lime

  • Ferstk kóríander (má sleppa)

Aðferð:

  1. Byrjið á því að stappa avocadoin vel saman með gaffli

  2. Saxið niður tómat og rauðlauk og pressið hvítlauk

  3. Blandið öllum hráefnum saman við avocadómaukið og hrærið vel saman.

  4. Saltið og piprið eftir smekk

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi -

 
anamma_logo.png
 

Uppáhalds grillmeðlætið okkar

Við systur höldum áfram að deila með ykkur uppáhalds grill uppskriftunum okkar en nú er komið að uppáhalds grill meðlætinu okkar. Okkur systrum finnst svo gaman að grilla og ennþá skemmtilegra að njóta matarins með góðum vinum eða fjölskyldu. Í þessari færslu deilum við með ykkur þremur réttum sem henta sem meðlæti með grillmatnum eða sem geggjaðir forréttir sem munu alltaf slá í gegn.

Við elskum að nota ferskt og gott grænmeti á grillið og er það uppistaðan í öllum smáréttunum sem koma hér á eftir. Það er ekkert smá auðvelt að gera ótrúlega ljúffenga grillrétti með einföldum hráefnum og fær grænmetið í þessum réttum að njóta sín ótrúlega vel.

IMG_9492.jpg

Grillaður chilli maís með vegan parmesan

  • 2 ferskir maísstönglar

  • Chilliolía

    • 1/2 dl góð ólífuolía

    • 1 tsk chillikrydd

    • 1/2 tsk paprikukrydd

    • 2 tsk blandaðar jurtir

    • 1/2 tsk laukduft

    • 1/2 tsk hvítlauksduft

    • 1 tsk salt

  • Heimagerður vega parmesan

    • 1 dl kasjúhnetur

    • 1 tsk laukduft

    • 1 tsk hvítlauksduft

    • 2 tsk salt

    • 2-3 msk næringarger

  • Oatly sýrður rjómi

Aðferð:

  1. Byrjið á því að taka vel utan af maísstönglunum og passið að fjarlæga alla “strengina” vel. Byrjið á því að sjóða maísstönglana í 10 mínútur í stórum potti. Gott er að salta vatnið vel.

  2. Á meðan er gott að undurbúa chilliolíuna, en einungis þarf að blanda öllum hráefnunum fyrir olíuna saman í skál og setjið til hliðar.

  3. Setjið öll hráefnin fyrir parmesan ostinn í blandara eða matvinnsluvél og blandið þar til hráefnin verða að fínu dufti. Setjið til hliðar.

  4. Grillið maísstönglana þar til þeir verða fallega gylltir eða fá smá “brennda” bletti hér og þar.

  5. Penslið olínnu á maísinn um leið og hann kemur af grillinu og veltið þeim síðan upp úr heimagerða parmesan ostinum.

  6. Berið fram með vegan sýrðum rjóma.

Grillaðar kartöflur með chilli majónesi og chorizo pylsum

  • 2 stórar grillkartöflur

  • Vegan smjör

  • Salt

  • Chilli majónes (keypt eða heimagerð)

    • 2 dl vegan majónes

    • 1-2 tsk sambal oelek (chillimauk)

  • 1 vegan Chorizo pylsa

  • Graslaukur

Aðferð:

  1. Mér finnst best að byrja á því að sjóða kartöflurnar í 20 mínútur þar sem það tekur óratíma að grilla stórar kartöflur.

  2. Vefjið hvorri kartöflu inn í álpappír ásamt klípu af vegan smjöri og salti

  3. Grillið kartöflurnar í álpappírnum í 15 mínútur, gott er að snúa þeim af og til.

  4. Hrærið saman majónesinu og chillimaukinu fyrir heimagert chillimajó

  5. Skerið chorizo pylsuna í litla bita og steikið í 2-3 mínútur upp úr olíu á vel heitri pönnu.

  6. Skerið ofan í kartöflurnar, setjið klípu af vegan smjöri og smá salt ofan í og stappið því aðeins saman við kartöfluna. Dreifið chilli majónesinu, chorizo pylsubitunum og niðurskornum graslauk yfir og berið fram.

Vatnsmelónu grillsalat

  • 1/2 stór vatnsmelóna

  • 1 gúrka

  • 1/2 rauðalukur

  • safi úr 1/2 lime

  • örítið salt

  • Niðursöxuð mynta (má sleppa)

Aðferð:

  1. Skerið vatnsmelónuna, gúrkuna og rauðlaukinn niður í þá stærð sem þið kjósið.

  2. Blandið saman í skál og hellið safanum af límónunni yfir. Setjið salt og myntu saman við og blandið vel saman.

  3. Berið fram með öllum grillmat eða sem forréttur fyrir hvaða mat sem er.

-Njótið vel

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefnin þar

 
KRONAN-merki (1).png
 


Grillspjót með grænmeti og tófú, og köld piparsósa

IMG_9424.jpg

Við erum loksins farin að finna fyrir smá sumri hérna í höfuðborginni og sjá smá sól en það er fátt sem mér finnst betra þegar það sést í sól en að grilla. Grillmatur er bara eitthvað svo einstaklega góður og stemmingin við að grilla er engu lík. Ég hef alltaf verið mjög dugleg að prófa nýja rétti á grillið á sumrin og er það svo sannarlega ekkert mál að gera góðan vegan grillmat. Það er hægt að finna fullt af góðum hamborgurum og pylsum eða öðrum vegan “kjöt” vörum í búðum í dag og er alls konar grænmeti einnig einstaklega gott á grillinu.

Í þetta skiptið ætla ég hins vegar að deila með ykkur, í samstarfi við Krónuna, ótrúlega góðum grillpinnum með alls konar grænmeti og tófú. Tófú er snilldar hráefni sem passar í alls konar rétti þar sem það er tiltölulega bragðlítið eitt og sér en ef það er marinerað dregur það í sér bragðið af marineringunni. Það passar því alveg ótrúelga vel á grillið þar sem grillmarinergingar er algjört lykilatriði oft í grillmat. Ég notaðist við gómsæta sítrónu og kryddjurta marinerignu en hún passar fullkomlega með grænmeti og tófu. Það má nota allt það grænmeti sem manni dettur í hug í þessari uppskrift.

IMG_9426.jpg

Það sem er svo þægilegt við þennan rétt er að auðvelt er að græja marineringuna í box, skera grænmetið og tófúið út í og taka þetta með sér hvort sem það er í útileguna, sumarbústað eða í grillveisluna. Þá þarf einfaldlega að þræða pinnana, skella þeim á grillið og maturinn er tilbúin. Það finnst mér alveg æði því þá þarf ekki að fara í einhverja sérstaka “eldamennsku” í útilegunni en mér finnst lang þægilegast að fara í útilegur með matinn nánast tilbúin og að þurfa ekki að undirbúa hann mikið á staðnum.

IMG_9419.jpg

Grillpinnana ber ég fram með því meðlæti sem ég á til hverju sinni. Grillaðar kartöflur finnst mér vera algjörlega ómissandi og köld piparsósa einnig. Í þetta skiptið var ég einnig með grillaðan aspas sem ég velti aðeins upp úr ólífuolíu og salti áður en ég setti hann á grillið. Grillaður maís passað einnig mjög vel með en ef ég grilla maís þá sýð ég hann fyrst í um 10 mínútur því þá verður hann extra safaríkur. Það geri ég einnig við kartöflurnar áður en ég grilla þær.

IMG_9432.jpg

Grillpinnar (sirka 10 spjót, fyrir 4)

  • Marinering

    • 3/4 dl góð ólífuolía

    • 3/4 dl sítrónusafi (safi úr sirka 2 sítrónum)

    • börkur af 1 sítrónu

    • 3-4 hvítlauksgeirar

    • 1 msk oreganó

    • 1 msk rótargrænmetiskrydd frá pottagöldrum (eða einhvers konar blandaðar jurtir)

    • 1-2 msk ferskt timían

    • 1 tsk papríkuduft

    • 1 tsk laukduft

    • 1/2 tsk chilli duft eða chilli flögur (má sleppa)

    • 1 msk sesamfræ

  • 1/2 rauð paprika

  • 1/2 gul eða appelsínugul papríka

  • 1 rauðlaukur

  • 1 pakki kastaníusveppir

  • 1 pakki tófú

Aðferð:

  1. Blandið öllum hráefnunum fyrir marineringuna í stóra skál eða stórt box.

  2. Skerið grænmeti og tófúið í mjög grófa bita, bitarnir eiga að vera frekar stórir svo þeir tolli vel á grillpinnunum.

  3. Setjið grænmetið og tófúið út í marineringuna og veltið því vel um þar til allir bitar eru vel þakknir af kryddolíunni.

  4. Leyfið þessu að liggja í marineringunni í að minnsta kosti 30 mínútur, en því meiri tíma sem þetta fær að hvíla því betra.

  5. Byrjið að huga að meðlætinu en ég var með grillaðar kartöflur, aspas, blandað ferskt salat og kalda sósu með. Uppskrift af sósunni er hér fyrir neðan.

  6. Takið um 10 grillpinna og leyfið þeim að liggja í vatni í 10 til 15 mínútur. Takið pinnana úr vatninu og þræðið grænmeti og tófú á þá í þeirri röð sem þið viljið.

  7. Grillið í nokkrar mínútur á hverri hlið eða þar til grænmetið og tófúið fær fallegar “bruna” rákir. Við mælum með að hafa grill álbakka undir svo maturinn brenni ekki of mikið að utan.

Köld piparsósa

  • 1 dl oatly sýrður rjómi eða hreint sykurlaust vegan jógúrt

  • 1 dl vegan Krónu majónes

  • 2 tsk grófmalaður svartur pipar

  • 1/2 tsk laukduft

  • 1/2 tsk salt

  • 1 tsk sítrónusafi

  • 1-2 msk vatn (eftir því hversu þunna þið viljið sósuna)

Aðferð:

  1. Hrærið öllu saman í skál.

-Njótið vel og endilega verið dugleg að tagga okkur og krónuna ef þið hendið í vegan grillveislu með uppskriftinni þar sem okkur finnst svo ótrúlega gaman að sjá myndir frá ykkur <3

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna.

 
KRONAN-merki.png
 

Vegan taquitos

IMG_0391.jpg

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af vegan taquitos. “Hvað er taquitos?” spyrja eflaust einhverjir, en taquitos eru litlar maíspönnukökur eða hveiti tortillapönnukökur fylltar með gómsætri fyllingu, rúllaðar upp og steiktar eða djúpsteiktar. Taquitos eru svo bornar fram með því sem mann lystir og að okkar mati er þetta hinn fullkomni helgarkvöldmatur. Krispí að utan með mjúkri fyllingu inní, bornar fram með gómsætum sósum, tortillaflögum og litríku grænmeti. Þetta er eitt af því besta sem við systur höfum eldað lengi!

Sólin hefur skinið mikið uppá síðkastið og við komnar í mikið grillstuð og hlökkum til að byrja að vinna að sumarlegum grilluppskriftum fyrir ykkur. Okkur þætti ótrúlega gaman ef þið sendið okkur hugmyndir af réttum sem ykkur langar að sjá, hvort sem það er matur á grillið eða aðrar sumarlegar uppskriftir.

IMG_0379.jpg

Það er einmitt eitthvað svo sumarlegt við þessar gómsætu taquitos. Við erum ekki vissar hvort það eru fallegu litirnir, eða samsetningin af bragðinu, en það skiptir svo sem ekki öllu. Við sjáum fyrir okkur að gott sé að borða taquitos úti í sólinni með gómsætu meðlæti, eins og guacomole með miklum límónusafa. Gera svo einhvern ískaldan og safaríkan drykk með og njóta í botn.

Færsla dagsins er í samstarfi við Old El Paso, Við notuðum frá þeim white corn vefjurnar, Salsa dip, tortillaflögurnar og tacokryddið. Vörurnar frá Old El Paso eru ótrúlega gómsætar og henta ótrúlega vel í þennan frábæra rétt sem og fleiri af okkar uppáhalds mexíkósku uppskriftum.

IMG_0388.jpg

Sjáiði litina? Ég er á því að allt sem er svona litríkt og fallegt sé gott. Allavega nánast allt hehe.

IMG_0393.jpg

Vegan Taquitos

Hráefni;

  • Olía til að steikja upp úr

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 1/2 rauðlaukur

  • 1 pakki vegan “kjúklingur”

  • 1 pakki tacokrydd frá El Old Paso

  • 1,5 dl vatn

  • 1 dl vegan rjómaostur

  • 1,5 dl svartar baunir úr dós

  • 1 - 1,5 dl Taco dip frá Old El Paso

  • Safi úr 1/2 lime

  • Nokkrir dropar af sterkri sósu (má sleppa) - við notuðum mangó-habanero sósu

  • Salt og pipar eftir smekk

  • Rifinn vegan ostur

  • 2 pakkar White corn tortillur frá Old El Paso (í hvorum pakka eru 10 vefjur)

Aðferð:

  1. Leyfið vegan “kjúklingnum” að þiðna.

  2. Rífið “kjúklinginn” í sundur með því að nota tvo gaffla.

  3. Pressið hvítlaukinn og skerið rauðlaukinn í þunna strimla.

  4. Hitið olíu á pönnu.

  5. Steikið hvítlaukinn og laukinn á pönnunni þar til þeir hafa fengið svolítinn lit.

  6. Bætið vegan “kjúklingnum” á pönnuna og steikið í nokkrar mínútur.

  7. Bætið kryddinu og vatninu út á og steikið í nokkrar mínútur í viðbót.

  8. Hellið baununum í sigti og skolið undir köldu vatni til að fá af þeim mest af safanum úr dósinni.

  9. Bætið baununum á pönnuna ásamt salsasósunni og blandið vel saman við restina.

  10. Bætið að lokum rjómaostinum, sterku sósunni og limesafanum út á og leyfið þessu að malla í nokkrar mínútur. Saltið og piprið ef ykkur finnst þurfa.

  11. Takið af hellunni og leggið fyllinguna til hliðar.

  12. Útbúið rúllurnar með því að leggja vefju á borðið, strá vegan osti í botninn, setja svolítið af fyllingunni í og rúlla upp. Það á að vera hægt að rúlla þetta frekar þetta svo passið að setja ekki alltof mikið af fyllingu í hverja. Endurtakið svo þar til þið hafið fyllt allar vefjurnar.

  13. Hitið slatta af olíu á pönnu. Djúpsteikið hverja rúllu þar til hún fær gylltan lit.

  14. Leggið á fat með eldhúspappír sem dregur í sig svolítið af olíunni.

Meðlæti sem við höfðum með rúllunum:

  • Icebergsalat

  • Ferskt jalapeno og habanero chili

  • Vegan sýrður rjómi

  • Vorlaukur

  • Tortillaflögur frá Old El Paso

  • Kóríander

  • Guacomole

    • Lárpera

    • Tómatur

    • Rauðlaukur

    • Hvítlaukur

    • Limesafi

    • Salt og pipar

  • Maísmajónessalat

    • Steikur maís

    • Vegan majónes

    • Vegan sýrður rjómi

    • Vorlaukur

    • Kóríander

    • Limesafi

    • Salt og pipar

Takk fyrir að lesa og njótið!

Helga María og Júlía Sif

-Þessi færsla er í samstarfi við Old El Paso á Íslandi-

 
old-el-paso-800x800.jpg
 

Vegan ostahorn með aspas og sveppum

IMG_0333-4.jpg

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af gómsætum ostahornum með sveppa- og aspasfyllingu. Þessi ostahorn eru fullkomin til að taka með sér í ferðalagið eða bjóða uppá í veislum. Þau bragðast eins og uppáhalds heiti brauðrétturinn okkar og við erum vissar um að þau munu slá í gegn við allskonar tilefni.

IMG_0296-3.jpg

Svona horn er að sjálfsögðu hægt að leika sér endalaust með og breyta til hvað varðar fyllingu. Færsla dagisins er í samstarfi með Violife og í aspashornin notuðum við bæði hreina rjómaostinn þeirra og rifinn ost. Vegan ostarnir og rjómaostarnir eru svo fullkomnir í svona horn en Violife framleiða allskonar spennandi bragðtegundir. Við gætum t.d. ímyndað okkur að bæði hvítlauks- og jurtarjómaosturinn og chilirjómaosturinn séu æðislegir í svona horn. Af sneiddu ostunum væri svo örugglega æði að nota t.d. þann með sveppabragði og þann með “kjúklingabragði”.

Það er langt síðan við systur hittumst síðast og blogguðum saman. Ég (Helga) bý í Svíþjóð svo við erum vanar að þurfa að vinna svolítið i sitthvoru lagi. Núna er ég þó á landinu og því höfum við getað tekið okkur smá tíma í að blogga. Það er alltaf jafn gaman þegar við vinnum saman og það minnir okkur á það hversu dýrmætt það er að við rekum þessa síðu saman, sem í fyrstu átti bara að vera lítið “hobbí”, en er í dag orðið svo stór hluti af lífinu okkar.

IMG_0309.jpg

Við hlökkum til að heyra hvað ykkur finnst um aspashornin og hvort þau munu klárast jafn fljótt og þau gerðu hjá okkur. Eins megiði endilega deila með okkur ef þið prófið að gera aðra fyllingu í hornin og hvernig það kom út. Við elskum að fá nýjar og skemmtilegar hugmyndir.

IMG_0342-3.jpg

Ostahorn með aspas og sveppum

Hornin sjálf:

  • 8-10 dl hveiti (byrjið á 8 og bætið svo við eftir þörfum)

  • 1 pakki þurrger

  • 1 msk sykur

  • 1 tsk salt

  • 5 dl plöntumjólk

  • 100 gr smjörlíki

Aðferð:

  1. Bræðið smjörlíki í potti og bætið mjólkinni saman við. Mjólkin þarf ekki að hitna mikið, heldur vera við líkamshita.

  2. Hellið mjólkurblöndunni í stóra skál og stráið þurrgerinu saman við. Leyfið því að standa í nokkrar mínútur eða þar til það byrjar að freyða svolítið.

  3. Bætið restinni af hráefnunum útí.

  4. Bætið við meira hveiti ef þarf. Ég held ég hafi á endanum notað um 9 dl. Deigið má ekki vera of þurrt, þið eigið að geta stunduð hreinum fingri ofan í án þess að deig klessist við hann. Hnoðið deigið létt. Ef þið notið hrærivél er fínt að miða við að deigið sé tilbúið þegar það byrjar að losna frá skálinni.

  5. Leyfið deiginu að hefast í klukkutíma í skál með viskustykki eða plastfilmu yfir.

  6. Hitið ofninn í 200°c

  7. Skiptið deiginu í tvennt ef þið viljið hafa hornin frekar stór en í fernt ef þið viljið hafa þau minni (við gerðum stór) og fletjið út hvern helming fyrir sig í hring. Skerið niður í sneiðar (sjá mynd að ofan), setjið fyllingu á og stráið rifnum Violife osti yfir. Passið ykkur að setja ekki alltof mikið af fyllingu í hvert því það þarf að vera hægt að rúlla þessu upp án þess að allt velli úr. Rúllið upp frá breiðari endanum.

  8. Smyrjið með örlítilli vegan mjólk og stráið yfir einhverju sem ykkur þykir gott. Við notuðum sesamgaldur frá pottagöldrum en það er líka gott að strá yfir sesamfræjum, grófu salti eða jafnvel rifnum Violife osti.

  9. Bakið í 10-12 mínútur eða þar til hornin hafa fengið gylltan og fínan lit.

  10. Leyfið þeim að kólna svolítið áður en þau eru borin fram.

Aspas- og rjómaostafylling:

  • Olía til steikingar

  • 2 öskjur hreinn rjómaostur frá Violife

  • 1 dós grænn aspas plús 1 msk safi úr dósinni

  • 100 gr sveppir

  • 1 sveppakraftur

  • Salt og pipar ef þarf. Sveppakrafturinn er saltur svo smakkið til svo að þetta verði ekki of salt.

Aðferð:

  1. Hitið olíu á pönnu

  2. Saxið sveppina smátt og steikið á pönnunni

  3. Saxið aspasinn líka aðeins og bætið á pönnuna

  4. Myljið sveppakraftinn og bætið á pönnuna ásamt 1 msk af aspas safanum

  5. Takið af pönnunni og leyfið að kólna aðeins

  6. Setjið rjómaostinn í skál og bætið sveppa- og aspasblöndunni út í og hrærið saman.

  7. Bætið salti og pipar ef ykkur finnst þurfa.

Takk fyrir að lesa og njótið vel!

-Helga María og Júlía Sif

-Þessi færsla er í samstarfi við Violife á Íslandi-

 
violife-logo-1.png
 

Klassísk súkkulaðiterta

Súkkulaðikökur eru í miklu uppáhaldi hjá flestum. Þegar við gerðumst vegan urðu vinir og ættingar oftar en ekki stressaðir að fá okkur í afmælis- og matarboð. Þeim fannst tilhugsunin um að baka vegan köku yfirþyrmandi og ómöguleg. ,,Getið þið ekki bakað sjálfar bara, ég kann ekkert að baka svona vegan kökur" heyrðum við í hvert einasta skipti. Ástæðan fyrir því að fólk hræðist bakstur á vegan kökum er yfirleitt sá algengi misskilningur að vegan kökur innihaldi þrjátíu hráefni og að það taki marga klukkutíma að búa þær til. Það gæti hreinlega ekki verið meira fjarri sanni.

Kakan okkar er gríðarlega einföld og virkar bæði sem hefðbundin súkkulaðikaka og einnig sem dýrindis bollakökur. Þeir sem hafa smakkað hjá okkur kökuna eru yfirleitt steinhissa á því hvað hún er bragðgóð. ,,Vá þetta bragðast nú bara nákvæmlega eins og súkkulaðikakan sem ég er vön að gera."
Ástæðan er einmitt sá algengi misskilningur að vegan matur og kökur séu alltaf öðruvísi og verri á bragðið en annar matur. Aftur gæti það ekki verið meira fjarri sanni. 

Þessi uppskrift er ein af fyrstu vegan kökuuppskriftum sem við systur þróuðum og birti Helga hana fyrst fyrir mörgum árum á gömu bloggi sem hún var með. Hún varð strax lang vinsælasta uppskriftin á síðunni og var birt meðal annars á vefsíðu Kvennablaðsins. Fljótlega fór það að spyrjast út að til væri uppskrift af vegan súkkulaðiköku sem innihéldi færri en tíu hráefni og ekki bara það, að hún innihéldi einungis hráefni sem allir þekkja og flestir eiga til inni í skáp. Skyndilega hætti fólkið í kringum okkur að vera hrætt við að fá okkur í afmælisveislur. Í dag nota flestir okkar vina og fjölskyldumeðlima þessa uppskrift þegar þeir baka súkkulaðikökur þar sem þeim finnst ótrúlega þægilegt að geta boðið upp á köku sem hentar vegan fólki og er laus við flesta ofnæmisvalda.

Það er ekki einungis kakan sem slær í gegn heldur skiptir smjörkremið miklu máli líka. Það er nefnilega ekkert mál að útbúa vegan smjörkrem og það myndi enginn þekkja það í sundur frá öðru kremi. Það fæst gríðarlega gott vegan smjör í flestum búðum í dag og einnig er smjörlíki nánast alltaf vegan. Við notumst þó mest við smjörlíki í kremið þar sem það heldur vel stífleika og gerir smjörkremið fallegt og þægilegt að vinna með.

Þriðji algengi misskilningurinn hvað varðar vegan bakstur er sá að vegan kökur séu hollustukökur. Fólk setur oft upp svip þegar við segjumst ætla að baka köku því það sér fyrir sér harða hráfæðiköku úr hnetum og döðlum.  Flestir verða yfirleitt hissa yfir því hvað kökurnar eru mjúkar, sætar og gómsætar en verður þó yfirleitt mög hissa þegar það fær þau svör að kakan sé ekki endilega holl. Það er nefnilega ennþá mjög margir sem setja enn samansem merki á milli vegan og hollustu.

Svo ef þið eruð að leita ykkur að uppskrift af hollri köku er þessi uppskrift ekki fyrir ykkur. Hér er á ferð klassísk súkkulaðikaka úr hveiti og sykri og uppistaða kremsins er smjörlíki og flórsykur. 

Júlía nýtur þess mikið að útbúa fallegar kökur og hefur frá því að hún var lítil haft mjög gaman af því að skreyta kökur fallega og fylgja nýjustu “trendunum” í kökuskreytingum. Þeir sem hafa fylgst með blogginu í einhvern tíma muna líklegast vel eftir rósaköku myndunum sem voru áður við þessa uppskrift en var það mikið “trend” í kökuskreytingum þegar við útbjuggum hana fyrst. Nú hefur þó margt breyst og er mikið í tísku núna að gera háar fallegar kökur með súkkulaði sem lekur niður með hliðunum. Okkur fannst því nauðsynlegt að nýta tækifærið og uppfæra þessa vinsælu uppskrift með nýjum fallegum myndum.

Við bættum við súkkulaði ganache sem við notuðum sem fyllingu á milli kökubotnanna og til að láta leka fallega niður með hliðum kökunnar. Það þarf þó alls ekki að hafa það með og er kakan virkilega góð með smjörkreminu einu og sér. Við mælum þó með að allir prófi að setja ganache á milli með kreminu því það tekur kökuna alveg á næsta stig. Uppskriftin af því er að sjálfsögðu hér að neðan.

IMG_0212.jpg

Súkkulaðikökubotnar með smjörkremi og ganache

Súkkulaðikökubotnar með smjörkremi og ganache
Höfundur: Veganistur
( 0 reviews )
Undirbúningstími: 20 MinEldunartími: 30 Min: 50 Min
Klassísku súkkulaðikökubotnarnir hafa verið ein vinsælasta uppskriftin okkar frá upphafi. Þessi uppskrift er fullkomin í afmæliskökuna, sem skúffukaka eða í muffinsform.

Hráefni:

Súkkulaðikökubotnar
  • 3 bollar hveiti
  • 2 bollar Dan sukker sykur
  • 1/2 bolli kakó
  • 2 tsk matarsódi
  • 1 tsk salt
  • 2 bollar vatn (eða 2 bollar kallt kaffi)
  • 2/3 bolli bragðlaus olía - við notuðum sólblómaolíu
  • 2 tsk vanilludropar
  • 1 msk eplaedik
Einfalt súkkulaðismjörkrem
  • 400g smjörlíki eða vegan smjör við stofuhita
  • 500g Dan sukker flórsykur
  • 1/2 dl kælt, sterkt uppáhelt kaffi
  • 1 msk kakó
  • 1 tsk vanilludropar
  • 50g suðusúkkulaðisúkkulaði
Súkkulaði ganache
  • 50 gr suðusúkkulaði eða það súkkulaði sem hver og einn kýs að nota.
  • 50 gr vegan þeytirjómi

Aðferð:

Súkkulaðikökubotnar
  1. Hitið ofninn í 175°c með blæstri
  2. Blandið þurrefnum saman í skál
  3. Bætið restinni af hráefnunum saman við og hrærið þar til engir kekkir eru í deiginu
  4. Smyrjið tvö kökuform og skiptið deiginu jafnt í þau. Þessi uppskrift passar akkurat í tvö 20-24 cm hringlaga kökuform eða þrjú 15 cm kökuform. Það er þó einnig hægt að baka kökuna í eldföstu móti, lítilli skúffu eða sem bollakökur.
  5. Bakið í 20-30 mínútur eða þar til tannstöngull eða grillpinni kemur hreinn út þegar honum er stungið í botnana.
Einfalt súkkulaðismjörkrem
  1. Þeytið smjörið í hrærivél eða með rafmagnsþeytara þar til það er vel mjúkt og loftkennt.
  2. Bætið öllum hráefnum nema súkkulaðinu útí og hrærið vel saman.
  3. Bræðið súkkulaðið og hellið því útí og hrærið á meðan á litlum hraða.
  4. Leyfið kökubotnunum að kólna alveg áður en kreminu er smurt á.
  5. Ath. Ef gera á þriggja hæða köku og skreyta hana þarf að gera eina og hálfa uppskrift af kreminu. Okkur þykir gott að gera tvöfalda uppskrift og ef það er afgangur þá frystum við það og notum seinna.
Súkkulaði ganache
  1. Brjótið súkkulaðið niður og skerið það í litla bita og setjið í skál sem má fara í örbylgjuofn.
  2. Vigtið rjómann og hellið honum út í skálina. Það er ekki sniðugt að slumpa þessa uppskrift þar sem við viljum fá ákveðna áferð á súkkulaðið svo hægt sé að vinna með það.
  3. Setjið súkkulaðið og rjóman í örbylgjuofn og hitið í 20 sekúndur. Takið út og hrærið til í skálinni. Setjið súkkulaði blönduna aftur í örbylgjuofn í 10 sekúndur í einu þar til súkkulaðið er alveg bráðnað. Það er best að hræra mjög vel í skálinni á milli þess sem blandan er hituð, helst með litlum sósupísk eða gaffli.
  4. Ef nota á ganache a milli botnanna er best að setja fyrst vel af smjörkremi á neðri botninn, dreifa vel úr því og búa síðan til holu í kremið í miðjunni. Ganache’ið þarf að fá að kólna aðeins og er honum síðan hellt í holuna og næsti botn settur yfir.
  5. Til að láta það lekur niður með hliðum kökunnar er mikilvægt að kæla kökuna tilbúna í allavega 30 mínútur áður. Leyfið einnig ganache’inum að kólna aðeins og prófið að láta það leka niður hliðina á glasi t.d. áður en þið byrjið á kökunni. Súkkulaði ganache’ið á að leka hægt og rólega niður glasið þegar það er tilbúið. Ef það lekur hratt í mjög mjórri bunu er það enn of heitt.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

- Þessi færsla er unnin við Nathan og Olsen -

download.png

Tómat og ostapasta með Violife "feta"osti.

Fyrir um það bil ári síðan, þegar Covid var ný byrjað og ég lá heima í nokkrar vikur eftir aðgerð, “downloadaði” ég í fyrsta skipti Tik Tok forritinu. Ég var MJÖG fljót að þefa uppi alls konar matar og baksturs “aðganga” en ég get legið yfir skemmtilegum matarmyndböndunum á Tik Tok oft tímunum saman. Það hafa ótal matar “trend” sprottið upp á forritinu sem ég elska að fylgja og prófa að gera sjálf heima hjá mér.

Fyrir ekki svo löngu fór ég, og líklegast flestir sem eru á samfélagsmiðlum, að sjá endalaust af mjög auðveldri pastauppskrift á netinu sem samanstóð af tómötum, hvítlauk og fetaosti. Ég vissi strax að ég yrði að gera þessa uppskrift vegan með violife greek white block ostinum þar sem ég hef mjög góða reynslu af honum. Ég prófaði að gera vegan útgáfu af pastanu fyir u.þ.b. mánuði síðan og er þetta ein sú auðveldasta uppskrift sem ég veit um.

Pastað kom ótrúlega vel út með vegan ostinum og eftir að ég deildi með ykkur myndbandi af því á Instagram fékk ég fullt af spurningum út í uppskriftina svo ég ákvað að koma henni hérna inn fyrir ykkur. Ég hef eldað þennan rétt margoft síðustu vikurnar og mér finnst þetta vera fullkomin réttur þegar ég veit ekki hvað ég á að hafa í matinn eða nenni ekki að elda. Ég einfaldlega hendi pasta í pott, restinni af hráefnunum inn í ofn og blanda þessu síðan saman hálftíma seinna. Alveg fullkomið þegar það er mikið að gera.

IMG_0183.jpg

Hréfni (fyrir 4):

  • 300 gr pasta

  • 4 msk olífuolía

  • u.þ.b. 300 gr af kirsuberjatómötum eða öðrum litlum tómötum

  • 1 pakki violife greek white block

  • 3 hvítlauksrif

  • 1 msk óregano eða aðrar ítalskar jurtir

  • Smá fersk basilíka (má sleppa)

  • Vel af salti

Aðferð:

  1. Setjið ólífuolíu, tómatana í hvítlauksrifin í eldfast mót eða pönnu sem má fara í ofn. Ég hef hvítlauksrifin heil með hýðinu á. Hrærið tómatana saman við olíuna og myndið síðan gat í miðju mótinu fyrir ostin. Leggið heilan ost í mitt formið og hellið örlítið af olíu yfir hann. Stráið saltinu og óreganóinu yfir ostinn og tómatana.

  2. Bakið í 200°C heitum ofni í 25-30 mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður og tómatarnir orðnir vel grillaðir að ofan.

  3. Sjóðið pastað samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum á meðan að tómatarnir og osturinn eru í ofninum.

  4. Takið ostinn úr ofninum, pressið hvílauksrifin úr hýðinu og takið það frá. Stappið tómatana og hvítlaukinn vel saman við gríska ostinn og hellið síðan pastanum út í og blandið vel saman. Rífið nokkur basilíkulauf yfir og bætið við smá salti ef ykkur finnst það þurfa.

IMG_0179.jpg

-Njótið vel og takk fyrir að lesa. <3

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Violife á íslandi

 
violife-logo-1.png
 

Pítsa með rauðu pestó og ceasar dressingu.

Pítsur eru í miklu uppáhaldi hjá mér og líkt og hjá mörgum hef ég oftar en ekki pítsu í matinn á föstudagskvöldum. Eftir að ég varð vegan fór ég að prófa mjög mikið af msimunandi hráefnum ofan á pítsur og elska ég að finna nýjar samsetningar sem koma vel út. Þegar ég bjó í Danmörku kynntist ég því að setja grænt salat og salatdressingar ofan á pítsur og það hefur verið í miklu uppáhaldi hjá mér núna síðustu mánuði.

Ég hef mikið verið að nota salat dressingarnar úr vegan línunni frá Sacla en þær eru ótrúlega ferskar og góðar og passa fullkomlega ofan á pítsur. Áður en ég fékk þær í hendurnar notaði ég oft majónessósur í þetta en ég fékk alltaf smá ógeð eftir nokkrar sneiðar þar sem majónessósur eru mikið feitari og þyngri að mínu mati. Þess vegna hef ég verið í skýjunum eftir að ég fékk Sacla sósurnar. Bæði Ceasar sósan sem ég nota í þessari uppskrift og Blue cheese sósan frá þeim passa fullkomlega ofan á pítsu. Ég nota venjulegt salat ofan á, frekar en klettasalat þar sem mér finnst það passa betur með salatdressingunum.

Hráfeni:

  • Pítsadeig (annað hvort heimagert eða keypt deig)

  • Rautt pestó úr vegan línu Sacla Italia

  • Rauðlaukur

  • Rauð eða gul papríka

  • Rifinn vegan ostur (ég nota alltaf origianl violife ostinn)

  • 3 msk olífuolía + örlítið salt

  • Grænt salat

  • sirka 1/2 flaska Ceasar sósa frá Sacla italia

Aðferð:

  1. Stillið ofnin á 220°C blástur

  2. Fletjið út pítsadeigið og smyrjið með vel af rauða pestóinu.

  3. Skerið rauðlaukinn og papríkuna í strimla og dreyfið á deigið. Dreyfið ostinum yfir, hellið ólífuolíunni yfir ostinn og stráið smá salti yfir.

  4. Bakið pítsuna í ofninum þar til osturinn bráðnar og deigið verður fallega gyllt í könntunum. Tekur sirka 12 mínútur.

  5. Skerið salatið niður og dreyfið yfir pítsuna þegar hún kemur út úr ofninum. Hellið sósunni yfir pítsuna, notið það magn sem hver og einn vill.

Takk fyrir að lesa og njótið vel.

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Sacla Italia á Íslandi

 
sacla-logo.png
 

Ofnbakað gnocchi í pestórjómasósu

IMG_0022-2.jpg

Hæ kæru vinir. Vona að þið hafið það gott!

Í dag deili ég með ykkur uppskrift af ofnbökuðu gnocchi med grænkáli í gómsætri pestórjómasósu. Þetta er einn af þeim réttum sem er einfalt að útbúa en smakkast eins og á veitingastað. Hversu fullkomið?!

IMG_0001_1-4.jpg

Síðustu vikur hef ég fundið ástríðuna mína fyrir matargerð og bakstri koma aftur. Eftir nokkra mánuði þar sem ég nennti ekki einu sinni að hugsa um mat, og borðaði einungis til að næra mig, var ég orðin svolítið áhyggjufull. Ég var farin að velta því fyrir mér hvort ég myndi nokkurn tíman fá góða hugmynd aftur í eldhúsinu og hvort ég væri kannski alveg búin að missa áhugann á því að elda mat. Eftir áramótin hefur mér þó liðið mun betur og hef fundið hvernig hugmyndirnar byrja að koma til mín aftur. Það hefur verið yndisleg tilfinning að finna hvernig ég sprett fram úr rúminu til að skrifa niður hugmynd af réttium sem mig langar að prófa.

Þessi réttur var einmitt dæmi um það. Ég lá í rúminu eitthvað kvöldið og þegar ég var í þann mund að sofna sá ég fyrir mér pönnu fulla af gnocchi í rjómakenndri pestósósu. Ég hljóp framúr og skrifaði niður á blað; “Gnocchi, pestó - heimagert, rjómi, hvítvín, sítrónusafi, grænkál eða spínat eða eitthvað svoleiðis”. Daginn eftir keypti ég svo hráefnin í réttinn og prófaði, og útkoman var dásamlega góð.

IMG_0012-4.jpg

Ég komst að því fyrir ekki svo löngu að hægt er að kaupa vegan ferskt gnocchi og ég hoppaði hæð mína af gleði. Á sama tíma og ég elska að útbúa mitt eigið (uppskrift HÉR) þá er það tilbúna alveg ótrúlega gott og einfaldar eldamennskuna til muna. Ég kaupi gnocchi frá Rana og það er 100% vegan. Mörg önnur merki innihalda egg og mjólk svo það er mikilvægt að lesa á pakkninguna til að vera viss. Gnocchi frá Rana fæst í Fjarðarkaupum, Hagkaupum og Melabúðinni!

IMG_0016-4.jpg

Ofnbakað gnocchi í pestórjómasósu

Hráefni:

  • 500 gr gnocchi, heimagert eða keypt tilbúið

  • olía til að steikja upp úr

  • 1 meðalstór gulur laukur

  • 1 hvítlauksgeiri

  • 150 gr grænkál eða spínat

  • 1.5 tsk oregano

  • 250 ml vegan matreiðslurjómi. Oatly er minn uppáhalds

  • 1.5 dl þurrt hvítvín

  • 1 dl vatn

  • safi og börkur af hálfri sítrónu

  • 1/2 dl heimagert grænt pestó - uppskrift hér að neðan (Hægt að nota tilbúið úr búð líka og við mælum mikið með pestóinu frá Sacla)

  • chiliflögur eftir smekk

  • rifinn vegan ostur til að toppa með

  • gott brauð að bera fram með. Ég bar réttinn fram með baguettebrauði

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°c.

  2. Hitið olíu á pönnu við meðalháan hita.

  3. Skerið niður laukinn og pressið hvítlaukinn og steikið þar til hann fær smá lit.

  4. Bætið gnocchi út á pönnuna og steikið í nokkrar mínútur.

  5. Bætið oregano og grænkáli út á og steikið þar til grænkálið hefur mýkst og minnkað aðeins.

  6. Hækkið hitann og bætið hvítvíninu útí og eldið í sirka 3-5 mínútur.

  7. Bætið pestó, rjóma, vatni, sítrónusafa, sítrónuberki og chiliflögum út á og lækkið hitann aftur niður í miðlungshita. Blandið saman og takið af hellunni.

  8. Færið yfir í eldfastmót, nema þið notið pönnu sem hægt er að setja beint inní ofn. Stráið rifnum vegan osti yfir og setjið í ofninn þar til osturinn hefur bráðnað og fengið gylltan lit.

Pestó

Hráefni:

  • 50 gr fersk basilika

  • 1/2 dl furuhnetur

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 1/2 dl ólífuolía

  • Salt og pipar

Aðferð:

  1. Blandið öllu fyrir utan olíunni saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél.

  2. Hrærið olíunni saman við.

Takk fyrir að lesa og njótið!

-Helga María

Hollt og gott Enchilada úr korter í 4 kælinum í Krónunni │ Veganistur x Krónan │ AD

Hráefni:

  • 1 pakki kjúklingabaunasalat úr korter í 4 kælinum

  • 1 pakki fajitas grænmeti úr korter í 4 kælinum

  • 1 pakki hrísgrjón með sveppum úr korter í 4 kælinum

  • 1 krukka tómat og ólífusalsa úr korter í 4 kælinum eða venjuleg salsasósa

  • safi úr hálfu lime

  • 6-8 maís tortilla pönnukökur (má líka nota venjulegar tortillakökur)

  • 100-150 ml vegan rjómaostur

  • Avókadósalat

    • 2-3 avókadó

    • 2 stórir tómatar eða um 6 litlir

    • safi úr hálfu lime

    • salt og pipar

    • ferskt kóríander

Aðferð:

  1. Hitið ofninn við 200°C

  2. Blandið kjúklingabaunasalati, fajitas grænmeti og hrísgjrónum saman í skál ásamt salsanum, geymið 2-3 msk af salsa til að smyrja yfir réttinn í lokin.

  3. Smyrjið hverja tortilla köku með smá vegan rjómaosti, setjið fyllingu inn í, rúllið upp og raðið í eldfast mót.

  4. Smyrjið smá rjómaosti og salsa yfir hverja rúllu fyrir sig.

  5. Bakið í ofninum í 20 mínútur.

  6. Útbúið avókadó salatið með því að skera niður avókadó og tómata og hræra það saman með lime safanum, salti og pipar og sökuðu fersku kóríander.

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna

KRONAN-merki.png

Anamma hátíðarsteik á tvo vegu

IMG_9274.jpg

Þegar ég var yngri var jólamaturinn heilagur fyrir mér. Það var alltaf það nákvæmlega sama í matinn á aðfangadag og því mátti alls ekki breyta. Eftir að ég varð vegan koma hins vegar varla jól nema ég sé með nýjan hátíðarrétt á boðstólnum. Á hverju ári hef ég prófað mig áfram með uppskriftir af alls konar steikum og er oft með fleiri en einn aðalrétt núna í jólamatinn.

Þetta árið er ég búin að vera að prófa mjög einfaldar uppskriftir sem henta einstaklega vel fyrir þá sem eru að byrja að fikra sig áfram í vegan matargerð og þá sem eru kannski að elda vegan mat fyrir vini eða ættingja en eru ekki vegan sjálf. Í þessar steikur þarf engin flókin hráefni og er matreiðslan sjálf einstaklega fljótleg og einföld. Ég gerði sömu steikina á tvo mismunandi vegu og komu þær báðar virkilega vel út. Steikunar henta einnig fullkomlega með hefðbundnu hátíðarmeðlæti sem er nú þegar á borðstólnum á flestum heimilum landsins.

Wellington steik (fyrir 4 til 5)

  • 6 stk Anamma hamborgarar

  • 4-5 kastaníu sveppir eða tveir portobello sveppir

  • 1-2 skarlott laukar eftir stærð

  • 2 stilkar ferskt tímían eða ferskt rósmarín

  • salt og pipar

  • 4 hvítlauksgeirar

  • 50 gr vegan smjör

  • 1-2 msk dijon sinnep

  • 1 rúlla tilbúið vegan smjördeig úr kæli eða frysti

Aðferð:

  1. Byrjið á því að setja sveppina, laukinn, 2 hvítlauksgeira og tímían eða rósmarín af einum stilk í blandara og blandið saman.

  2. Leyfið hamborgunum að þiðna og stappið þá saman og mótið í fallega steik.

  3. Bræðið vegan smjör á pönnu með restinni af hvítlauk og rósamríni eða tímían og steikið síðan hamborgarasteikina á öllum hliðum á pönnunni.

  4. Smyrjið sveppablöndunni á smjördeig, penslið steikina með dijon sinnepinu og rúllið steikinni inn í smjördeigið.

  5. Penslið steikina með smá plöntumjólk eða plöntu rjóma.

  6. Bakið við 200°C í 30 til 35 mínútur eða þar til hún verður fallega gylt að ofan.

Steik með púðursykurgljáa

  • 6 stk Anamma hamborgara

  • 1/2 dl púðursykur

  • 2 msk tómatsósa

  • 2 msk sætt sinnep

  • smá salt

  • 2 ananassneiðar úr dós

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°C

  2. Leyfið hamborgunum að þiðna, stappið þá saman og mótið í langa fallega steik.

  3. Bræðið saman púðursykurinn, tómatsósu og sinnepið.

  4. Setjið vel af púðursykurgljáanum (sirka 2/3) á steikina og bakið í ofni í 15 mínútur.

  5. Takið steikina úr ofninum, smyrjið restinni af gljáanum yfir steikina og setjið tvær ananassneiðar á steikina og bakið í 10 mínútur í viðbót.

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Ásbjörn Ólafsson, Bitz og Anamma á Íslandi.

anamma_logo.png
vendor_189.png