Falafel úr chana dal baunum

Síðan ég varð ólétt hef ég verið mikið að prófa mig áfram með fleiri baunarétti og svona aðeins “hollari” fæðu. Ég myndi segja að mataræðið mitt sé nú alveg frekar hollt yfir höfuð en ég á það til að elda mikið af soyakjöti og plana flestar máltíðir í kringum slík hráefni. Ég hugsa að partur af því sé til komið vegna þess að fyrst þegar við systur urðum vegan var lítið til að slíkum vörum og samanstóð mataræðið okkar eingöngu af grænmeti, ávöxtum, baunum, hnetum og fræjum. Þar af leiðandi opnaðist alveg nýr heimur fyir mér þegar vegan kjöt fór að vera í boði.

En eftir að ég varð ólétt hef ég aðeins verið að reyna að fara til baka og gera fleiri rétti úr minna unnum vörum og hef því verið að koma baunum meira og meira inn í mataræðið mitt aftur þar sem þær eru alveg stútfullar af góðri næringu, próteini, trefjum og alls kona góðu. Ég er þó alls ekki að segja að vegan “kjöt” sé óhollt og borða ég það yfirleitt eitthvað á hverjum degi líka.

Mér hefur fundist mjög gaman að leika mér með allskonar baunir síðustu mánuði og þá sérstaklega baunirnar frá Oddpods en við erum búnar að vera í samstarfi með þeim síðan í sumar. Baunirnar eru svo frábærar þar sem þær er hægt að nota á svo marga vegu og er hægt að leika sér með nánast hvaða baunir sem er í alls konar mismunandi réttum. Það sem mér finnst vera mikill plús við þetta merki er að það er hægt að fá baunir líkt og brúnar linsur og chana dal baunirnar sem ég nota í þessari uppskrift forsoðnar, en það hefur ekki verið auðvelt að nálgast slíkt hérna heima. Þessar baunir þarf yfirleitt að leggja í bleyti og sjóða sjálfur. Oddpods baunirnar koma hins vegar tilbúnar til neyslu beint úr pokanum og eru þær soðnar upp úr vatni og grænmetiskrafti sem gerir þær einstaklega bragðgóðar.

Nú er ég í vaktavinnu og er því oft heima í hádeginu hina og þessa daga og því finnst mér nauðsynlegt að kunna að gera góða, fljótlega rétti í hádeginu þegar ég á t.d. ekki afganga frá því kvöldinu áður eða eitthvað slíkt. Auðveldar grænmetisbollur sem taka enga stund eru alveg fullkomnar í svona fljótlega rétti og er þessi uppskrift alveg einstaklega góð þar sem hún er SVO auðveld og tekur innan við 15 mínútur að græja. Þær má einnig nota á svo marga vegu, t.d. með góðu salati, í pítubrauði eða í vefjur. Það er líka svo frábært að það er hægt að nota hvaða baunir sem er í hana og því alltaf hægt að grípa í þessa uppskrift sama hvaða baunir eru til. Í þetta skipti ætla ég að deila með ykkur uppskrift með Chana dal baununum frá Oddpods en það eru gular “split peas” líkt og notað er í baunasúpu.

Hráefni:

  • 1 poki Chana dal baunir frá Oddpods

  • 1 hvítlauksrif

  • 1 msk ferskt kóríander

  • 1 msk ferksur graslaukur

  • 1 tsk malaður kóríander

  • 1 tsk laukduft

  • 1 tsk kúminduft

  • 2-3 msk ferskur sítrónusafi

  • salt

Aðferð:

  1. Setjið öll hráefnin saman í blandara eða matvinnsluvél og maukið þar til fínt duft. Tekur einungis um 2-3 mínútur í góðum blandara.

  2. Mótið í bollur, buff eða það sem hentar hverju sinni.

  3. Steikið á pönnu í nokkrar mínútur á hvorri hlið eða bakið í ofni í 12-15 mínútur við 200°C.

  4. Berið fram með tzaziki sósu og salati eða í pítúbrauði, vefju eða sem borgari.

Tzatziki sósa

  • 1 bolli hreint jógúrt (mín uppáhalds eru Oatly Turkisk havregurt eða hreina sojade)

  • 2 msk rifin gúrka

  • 1/2 hvítlauksrif

  • salt

  • 1 msk ferskur sítrónusafi

  • 1 msk niðursaxað ferskt dill

Aðferð:

  1. Rífið gúrkuna niður og pressið hvítlaukinn eða saxið bæði mjög smátt. Saxið dillið.

  2. Blandið öllum hráefnum saman í skál og smakkið til með salti.

-Njótið vel og endilega kíkið á instagram hjá okkur en þar er stutt myndband af því hvernig ég geri bollurnar.

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Oddpods á Íslandi -

 
 

Vefjur með falafel, hummus og chili-mæjó

IMG_9277-2.jpg
IMG_9227-2.jpg

Nú er janúar að líða undir lok sem þýðir að Veganúar fer að klárast. Okkur hefur þótt virkilega gaman að sjá hversu margir eru að taka þátt í ár og við hvetjum að sjálfsögðu alla til að halda áfram. Eins þætti okkur gaman að heyra hvernig ykkur hefur gengið í Veganúar og hvaða matur ykkur hefur þótt standa fram úr. 

IMG_9252-2.jpg
IMG_9260.jpg

Þessi færsla er sú síðasta í samstarfi okkar við Krónuna í Veganúar en okkur fannst tilvalið að enda á falafel vefjum sem eru í miklu uppáhaldi hjá okkur. Falafel eru bollur gerðar úr kjúlingabaunum og allskyns kryddum. Bollurnar eiga uppruna sinn að rekja til Egyptalands og eru yfirleitt borðaðar í pítubrauði eða vefjum. Okkur þykir best að borða falafel í vefju, með hummus, grænmeti og sterkri sósu. 

IMG_9275-3.jpg
IMG_9287.jpg

Hér er listinn yfir hráefnin. Það er svolítið erfitt að lista niður hlutföll því það er misjafnt hvað fólk vill setja mikið í vefjurnar sínar og hvort fólk borðar fleiri en eina vefju. 

  • Vefjur - Við mælum með þeim frá Planet Deli og Banderos

  • Falafelbollur frá Hälsans Kök - Pakkinn er 300g og miðast við þrjá fullorðna

  • Hummus frá Tribe 

  • Salat að eigin vali

  • Rauðlaukur (má sleppa)

  • Kirsuberjatómatar (má sleppa)

  • Sriracha mæjó frá Flying goose

  1.  Eldið falafelbollurnar eftir leiðbeiningum á pakkanum. Það er bæði hægt að steikja þær á pönnu eða í bakaraofni og við mælum með því síðarnefnda. 

  2. Hitið vefjurnar í nokkrar sekúndur í ofninum eða í örbylgjuofni

  3. Smyrjið vefjuna með hummus, raðið falafelbollunum og því grænmeti sem ykkur lystir ofan á og endið svo á sriracha mæjóinu. Það er virkilega bragðgott en heldur sterkt svo við mælum með að setja ekki of mikið til að byrja með. 

  4. Rúllið vefjurnar upp og njótið!

Veganistur

 

krónan.png

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefnin þar