Klassískt ceasar salat


Klassískt ceasar salat í vegan útgáfu með VFC “kjúklinga”lundum

Ótrúlega gott, einfalt salat með vegan ceasar dressingu. Ég elska að fá mér gott salat á sumrin en þetta er akkúrat fullkomið sumarsalat að mínu mati. “kjúklinga”lundirnar frá VFC passa fullkomlega í salati en þær eru með stökkum, bragðgóðum hjúp sem gefur salatinu extra “kröns”. Uppskriftin er fyrir eitt salat sem er nóg sem heil máltíð og svo er ekkert mál að margfalda eftir því hversu margir munu borða.


Klassískt ceasar salat með heimagerðri dressingu

Klassískt ceasar salat með heimagerðri dressingu
Fyrir: 1
Höfundur: Veganistur
Undirbúningstími: 10 MinEldunartími: 22 Min: 32 Min

Hráefni:

Ceasar salat
Heimagerð vegan ceasar dressing

Aðferð:

Ceasar salat
  1. Byrjið á því að rista brauðteningana við 220°C á grillstillingu í ofni. Fylgist vel með og hristið þá aðeins til þegar þeir eru orðnir gullnir efst. Þetta tók sirka 6 mínútur á hvorri hlið hjá mér, 12 í heildina.
  2. Setjið VFC lundirnar í ofn á 200°C í 14 mínútur
  3. Útbúið sósuna.
  4. Skerið salatið niður, setjið út í brauðteninga og lundirnar. Blandið sósunni vel saman við og rífið parmesan yfir.
Heimagerð vegan ceasar salat
  1. Blandið öllum hráefnum nema vatninu saman í skál. Bætið örlitlu vatni út í þangað til þið fáið þá þykkt sem þið viljið. Smakkið til með salti og pipar.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið #veganistur

- Þessi fersla er unnin í samstarfi við VFC -

Sumarlegt pastasalat með hvítlauks vinagrette dressingu

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af ótrúlega sumarlegu pastasalati. Þetta salat er virkilega bragðmikið og hentar fullkomlega á sumardegi, hvort sem það er í hádeginu, kvöldmat eða sem millimál. Salatið geymist einnig vel í kæli og er því tilvalið að eiga það til að grípa með sér.

Í salatinu eru alls konar hráefni sem saman gera það einstaklega bragðgott. Ég ákvað að nota stökka bacon bita en þeir eru bragðmiklir og innihalda vel af próteini. Síðan setti ég fetaost til að fá smá “creamy” áferð og milt bragð á móti beikon bitunum. Ferskjurnar bæta síðan við sætu og toppaði ég það síðan með ótrúlega bragðgóðri salat dressingu frá hagkaup sem er slgjört must.

Ég elska svona rétti sem hægt er að gera mikið af í einu og eiga afgang í nesti daginn eftir en þetta salat er einnig alveg fullkomið til að eiga í ísskápnum til að grípa í. Það geymist mjög vel og er gott í tvo daga í ísskáp eftir að það er búið til. Þetta er hinn fullkomni sumarréttur sem tekur enga stund að græja.

Sumarlegt pastasalat með hvítlauks vinagrette dressingu

Sumarlegt pastasalat með hvítlauks vinagrette dressingu
Fyrir: 4
Höfundur: Júlía Sif
Undirbúningstími: 10 HourEldunartími: 12 Hour: 22 Hour
Virkilega sumarlegt og einfalt pastasalat með stökkum "beikon" bitum, ferskjum, vegan fetaosti, fersku grænmeti og hvítlauks vinagrette dressingu.

Hráefni:

  • 300 gr pastaslaufur
  • 150 gr vegan bac*n bits frá oumph
  • sirka 15 gr af vegan smjöri
  • 1 pakki vaxa salatblanda
  • 1 lítill kassi kirsuberjatómatar
  • 1/3 gúrka
  • 1/3 violife fetaosta kubbur
  • 1/2 rauðlaukur
  • 2 þroskaðar ferskjur
  • 1 flaska hvítlauks vinagrette dressing frá stonewall kitchen

Aðferð:

  1. Byrjið á því að sjóða pastað eftir leiðbeiningunum á pakkningunum. Kælið pastað vel með köldu vatni þegar það er alveg soðið.
  2. Steikið bac*n bitana upp úr vegan smjöri þar til þeir verða smá stökkir. Setjið til hliðar.
  3. Saxið salatið niður. Skerið gúrkuna, ferskjurnar og fetaostin í kubba. Skerið tómatana og tvennt og saxið rauðlaukinn í mjög þunnar sneiðar.
  4. Blandið öllum hráefnunum saman í skál og hrærið. Hellið sósunni yfir og hrærið vel saman við.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Hagkaup og fást öll hráefnin þar -

 
 

Mexíkóskt maískornasalat

Í dag deilum við með ykkur gómsætu og einföldu maískornasalati sem inniheldur papríku, chilli, rauðlauk, kóríander og lime. Þetta bragðmikla salat passar fullkomlega með mexíkóskum mat og grillmat til dæmis.

Salatið er ótrúlega einfalt og tekur aðeins nokkrar mínútur að græja, en það gerir hvaða máltíð sem er ótrúlega góða. Það er einnig einfalt að skipta út grænmetinu fyrir það grænmeti sem hver og einn á til hverju sinni en sú blanda sem er hér, er að okkar mati sú fullkomna.

Uppskriftin er í samstarfi við ORA en það vörumerki þekkja lang flestir íslendingar mjög vel. Maískornin frá ORA má alls ekki vanta í allan mexíkóskan mat að okkar mati og er þetta salat mjög einföld og fljótleg leið til að gera maískorn einstök og spennandi.

Ein af mínúm uppáhalds leiðum til að bera fram salatið er í litlum tacos með til dæmis vegan hakki og guacamole. Það er virkilega einföld en góð máltíð sem lítur út fyrir að vera mjjög “fancy” og er einstaklega gaman að bjóða upp á.

Mexíkóskt maísbaunasalat

Mexíkóskt maísbaunasalat
Höfundur: Júlía Sif
Undirbúningstími: 10 MinEldunartími: 5 Min: 15 Min
Einfalt og gott maískornasalat sem hentar til dæmis með mexíkóskum mat eða alls konar grillmat.

Hráefni:

  • 1 dós ORA Maískorn
  • 1/2 msk vegan smjör eða smjörlíki til steikingar
  • 1/4 rauð papríka
  • 1/4 rauðlaukur
  • 1/2 rautt chilli (takið fræin úr)
  • 1/2 dl ferskt kóríander (má sleppa)
  • safi úr hálfri lime
  • 1/2 tsk sjávarsalt
  • 1 kúfull msk majónes
  • 1 kúfull msk vegan sýrður rjómi
  • Salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Steikið maísbaunirnar á pönnu uppúr vegan smjöri eða smjörlíki og salti í nokkrar mínútur eða þar til kornin byrja að verða fallega gyllt hér og þar
  2. Setið maískornin í skál og leyfið að kólna aðeins á meðan þið undirbúið restina af grænmetinu
  3. Saxið niður grænmetið og blandið saman við maískornin ásamt restinni af hráefnunum.
  4. Hrærið saman og smakkið til með salti og pipar.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við ORA -

Falafel úr chana dal baunum

Síðan ég varð ólétt hef ég verið mikið að prófa mig áfram með fleiri baunarétti og svona aðeins “hollari” fæðu. Ég myndi segja að mataræðið mitt sé nú alveg frekar hollt yfir höfuð en ég á það til að elda mikið af soyakjöti og plana flestar máltíðir í kringum slík hráefni. Ég hugsa að partur af því sé til komið vegna þess að fyrst þegar við systur urðum vegan var lítið til að slíkum vörum og samanstóð mataræðið okkar eingöngu af grænmeti, ávöxtum, baunum, hnetum og fræjum. Þar af leiðandi opnaðist alveg nýr heimur fyir mér þegar vegan kjöt fór að vera í boði.

En eftir að ég varð ólétt hef ég aðeins verið að reyna að fara til baka og gera fleiri rétti úr minna unnum vörum og hef því verið að koma baunum meira og meira inn í mataræðið mitt aftur þar sem þær eru alveg stútfullar af góðri næringu, próteini, trefjum og alls kona góðu. Ég er þó alls ekki að segja að vegan “kjöt” sé óhollt og borða ég það yfirleitt eitthvað á hverjum degi líka.

Mér hefur fundist mjög gaman að leika mér með allskonar baunir síðustu mánuði og þá sérstaklega baunirnar frá Oddpods en við erum búnar að vera í samstarfi með þeim síðan í sumar. Baunirnar eru svo frábærar þar sem þær er hægt að nota á svo marga vegu og er hægt að leika sér með nánast hvaða baunir sem er í alls konar mismunandi réttum. Það sem mér finnst vera mikill plús við þetta merki er að það er hægt að fá baunir líkt og brúnar linsur og chana dal baunirnar sem ég nota í þessari uppskrift forsoðnar, en það hefur ekki verið auðvelt að nálgast slíkt hérna heima. Þessar baunir þarf yfirleitt að leggja í bleyti og sjóða sjálfur. Oddpods baunirnar koma hins vegar tilbúnar til neyslu beint úr pokanum og eru þær soðnar upp úr vatni og grænmetiskrafti sem gerir þær einstaklega bragðgóðar.

Nú er ég í vaktavinnu og er því oft heima í hádeginu hina og þessa daga og því finnst mér nauðsynlegt að kunna að gera góða, fljótlega rétti í hádeginu þegar ég á t.d. ekki afganga frá því kvöldinu áður eða eitthvað slíkt. Auðveldar grænmetisbollur sem taka enga stund eru alveg fullkomnar í svona fljótlega rétti og er þessi uppskrift alveg einstaklega góð þar sem hún er SVO auðveld og tekur innan við 15 mínútur að græja. Þær má einnig nota á svo marga vegu, t.d. með góðu salati, í pítubrauði eða í vefjur. Það er líka svo frábært að það er hægt að nota hvaða baunir sem er í hana og því alltaf hægt að grípa í þessa uppskrift sama hvaða baunir eru til. Í þetta skipti ætla ég að deila með ykkur uppskrift með Chana dal baununum frá Oddpods en það eru gular “split peas” líkt og notað er í baunasúpu.

Hráefni:

  • 1 poki Chana dal baunir frá Oddpods

  • 1 hvítlauksrif

  • 1 msk ferskt kóríander

  • 1 msk ferksur graslaukur

  • 1 tsk malaður kóríander

  • 1 tsk laukduft

  • 1 tsk kúminduft

  • 2-3 msk ferskur sítrónusafi

  • salt

Aðferð:

  1. Setjið öll hráefnin saman í blandara eða matvinnsluvél og maukið þar til fínt duft. Tekur einungis um 2-3 mínútur í góðum blandara.

  2. Mótið í bollur, buff eða það sem hentar hverju sinni.

  3. Steikið á pönnu í nokkrar mínútur á hvorri hlið eða bakið í ofni í 12-15 mínútur við 200°C.

  4. Berið fram með tzaziki sósu og salati eða í pítúbrauði, vefju eða sem borgari.

Tzatziki sósa

  • 1 bolli hreint jógúrt (mín uppáhalds eru Oatly Turkisk havregurt eða hreina sojade)

  • 2 msk rifin gúrka

  • 1/2 hvítlauksrif

  • salt

  • 1 msk ferskur sítrónusafi

  • 1 msk niðursaxað ferskt dill

Aðferð:

  1. Rífið gúrkuna niður og pressið hvítlaukinn eða saxið bæði mjög smátt. Saxið dillið.

  2. Blandið öllum hráefnum saman í skál og smakkið til með salti.

-Njótið vel og endilega kíkið á instagram hjá okkur en þar er stutt myndband af því hvernig ég geri bollurnar.

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Oddpods á Íslandi -

 
 

Haustlegt kartöflusalat með Ceasar dressingu

IMG_9761.jpg

Ég held að það sé óhætt að segja að það sé komið haust og þar af leiðandi er fullt af fersku og góðu grænmeti í búðum akkúrat núna. Ég elska að gera góða rétti úr rótargrænmeti á haustinn og finnst það alltaf fylgjast haustinu á mínu heimili. Kartöflur eru eitt af þeim hráefnum sem er sérstaklega gott á haustinn að mínu mati og ef það er einhver matur sem ég held að ég gæti lifað alfarið á, þá eru það kartöflur. Ég bókstaflega elska kartöflur, hvort sem þær eru soðnar, ofnbakaðar, maukaðar í kartfölumús eða bara hvernig sem er.

IMG_9756.jpg

Einn af mínum uppáhalds réttum með kartöflum er kartöflusalat. Ég elska að hafa eitthvað í matinn sem passar með kartöflusalat til að geta haft það sem meðlætii. Þetta salat er engu líkt og það er svo gott að það er nánast hægt að borða það eitt og sér. Það má einnig bæta út í það t.d. linsubaunum og meira af salati og þá er það orðið máltíð út af fyrir sig. Ég hins vegar elska að hafa sem mest af kartöflum og sem minnst af einhverju öðru og ef ég á að segja alveg eins og er stelst ég oft í að setja afgang af salatinu ofan á brauð og borða það þannig.

IMG_9777.jpg

Salatið er einstaklega einfalt í undirbúningi, þar sem ég notast við Ceasar dressinguna frá Sacla Italia og þarf þar með ekki að krydda neitt aukalega nema mögulega setja smá salt. Það er þó best að smakka salatið til fyrst þar sem “reyktu bitarnir” eru einnig saltir.

IMG_9757.jpg

Hráefni

  • 500 gr kartöflur

  • Klettasalat, sirka 2 bollar

  • 2-3 litlir vorlaukar

  • 1 dl smokey bites frá Oumph

  • 1/2 dl ristaðar furuhnetur

  • salt ef þarf

  • 1/2 flaska vegan Ceasar sósa frá Sacla Italia

Aðferð:

  1. Skerið kartöflurnar í bita, stærðin má vera eftir smekk, og sjóðið í um 10 mínútur eða þar til þær eru mjúkar í gegn. Ég hef hýðið á kartöflunum en það má að sjálfsgöðu taka það af.

  2. Saxið niður vorlaukinn og klettasalatið.

  3. Steikið reyktu bitana í nokkrar mínútur á pönnu, takið til hliðar og ristið síðan furuhneturnar á sömu pönnu þar til þær verða fallega gylltar.

  4. Leyfið öllum hráefnum að kólna aðeins.

  5. Blandið öllu saman í skál og hellið dressingunni yfir. Hrærið vel saman og smakkið til hvort að þurfi að salta aukalega.

-Njótið vel og takk fyrir að lesa.

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Sacla Italia á Íslandi -

 
logo Sacla.jpg
 

Kjúklingabaunasalat með vorlauk og vínberjum

IMG_9662.jpg

Í dag ætla ég að deila með ykkur uppskrift af ótrúlega gómsætu kjúklingabaunasalati. Við erum nú þegar með eina uppskrift af slíku salati hérna á blogginu sem heitir “betra en túnfisksalat” og er alveg ótrúlega gott en það sem ég elska við kjúklingabaunasalöt er hvað er hægt að gera þau á marga vegu. Þetta er eitthvað það þægilegasta sem hægt er að gera þegar von er á heimsókn og slær alltaf rækilega í gegn hjá mér.

Í þetta skipti er salatið í samstarfi við Oddpods en það er baunir sem koma tilbúnar til neyslu beint úr pakningunum. Þær koma þó ekki í niðursuðudósum líkt og baunir gera venjulega og þar af leiðandi ekki í neinum vökva, það gerir það að verkum að þær halda næringarefnum betur. Salatið inniheldur rauða papríku, vorlauk og rauð vínber og er það alveg svo ferskt og gott!

Á Instagram hjá okkur má einnig finna “REELS” myndband þar sem sést hversu auðvelt er að útbúa salatið.

IMG_9671.jpg

Hráefni:

  • 1 pakki kjúklingabaunir frá oddpodds

  • 1/2 dl niðursöxuð rauð paprika

  • 1/2 dl niðursaxaður vorlaukur

  • u.þ.b. 1 dl niðurskorin rauð vínber

  • 1/2 tsk paprikuduft

  • 1/2 tsk laukduft

  • 2 kúfullar msk vegan majónes

  • 1 kúfull msk vegan sýrður rjómi (má líka setja 1 msk í viðbót af majónesi í staðin)

  • salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Byrjið á því að stappa kjúklingabaunir gróft niður með kartfölurstappara eða gaffli.

  2. Saxið niður grænmetið og vínberin.

  3. Hrærið saman majónesið og sýrða rjómanum.

  4. Blandið öllu saman í skál og smakkið til með salti og pipar

-Njótið vel og endilega kíkið á REELS myndböndin okkar á Instagram :D

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Oddpods á Íslandi -

1592222828650.jpg

Sumarlegt salat

Þar sem ég er vegan þarf ég yfirleitt alltaf að taka með mér nesti í vinnuna. Ég elda stórar máltíðir svo það sé nóg fyrir bæði mig og kærastann minn í hádegismat daginn eftir. Stundum henntar það þó ekki alveg, t.d. þegar að við förum út að borða eða höfum einfaldlega ekki tíma til að elda stóra góða máltíð, en þá er hægt að redda sér á alls konar vegu.

Ég á alltaf til grænmetisbuff eða bollur í frystinum til að grípa í og svo er úrvalið af fljótlegum vegan mat alltaf að aukast. Snemma í vetur kom á markaðinn skyndiréttur frá Allos. Þegar ég sá þetta ákvað ég að grípa nokkra pakka með og prófa. Við prófuðum að taka réttina með okkur í nesti en urðum ósátt hvað þeir eru lítið mettandi. Við hefðum örugglega þurft að taka þrjá hvort til þess að verða södd, en réttirnir voru aftur á móti virkilega bragðgóðir.

Um daginn ákvað ég að prufa mig áfram með réttina. Ég átti ennþá tvo pakka og þar sem við vorum ekkert rosalega spennt fyrir réttunum, ákvað ég að gá hvort ég gæti ekki kryddað örlítið uppá þá. Útkoman var æðislegt sumarsalat sem kom okkur báðum mikið á óvart. Við höfum verið dugleg að úbúa samskonar salöt og taka með okkur í nesti. Þau verða þó aldrei alveg eins því við nýtum það sem við eigum í ísskápnum hverju sinni. Salötin eru mettandi en þó frekar létt og henta því einnig vel sem hádegismatur á sólríkum degi. 

Ég skiptist á að nota grjón, bygg, kínóa eða kúskús. Svo set ég grænmeti, ávexti og fræ. Það er hægt að leika sér endalaust með þetta og finna hvað manni þykir best. Réttirnir eru bragðmiklir svo það er óþarfi að krydda salötin aukalega. 

Hráefni:

  • 1 pakki Allos vegan skyndiréttur

  • 1 bolli einhvers konar grunnur (Í þessu salati var ég með kúskús og kínóa í bland)

  • spínat

  • kirsuberjatómatar

  • epli

  • graskersfræ

Aðferð:

  1. Eldið skyndiréttinn eftir leiðbeiningum á pakkanum og sjóðið þann grunn sem þið hyggist nota. Mér finnst gott að sjóða kínóa og kúskús upp úr smá grænmetiskrafti.

  2. Leyfið skyndiréttinum og grunninum að kólna en á meðan er hægt að undirbúa restina af salatinu og blanda þessu svo saman þegar allt hefur kólnað vel.

  3. Ég sker spínatið, tómatana og eplin í litla bita svo auðvelt sé að borða salatið. Fræin set ég heil saman við.

Júlía Sif