Ljúffeng vegan sætkartöflusúpa með kókosmjólk, rauðu karrí og hnetusmjöri

saetkartoflusupa-tilbuin-og-pottur

Í dag deili ég með ykkur uppskrift að sætkartöflusúpu með kókosmjólk, rauðu karrí og hnetusmjöri. Einstaklega braðgóð súpa sem tekur einungis 30 mínutur að elda og passar fullkomlega sem bæði hversdagsmatur, í matarboðið eða við önnur tilefni. Súpan er stútfull af bæði bragði og næringu frá hráefnum svo sem sætum kartöflum, gulrótum, lauk, hvítlauk, engifer, chili, kókosmjólk, rauðu karrí, hnetusmjöri og lime.

Sækartöflusúpa hráefni ofan frá. Sætar kartöflur, gulrætur, kókosmjólk, hnetusmjör

Þegar ég varð fyrst vegan var sætkartöflusúpa einn af þeim fáu réttum sem ég kunni að elda. Sú súpa smakkaðist þó ekkert í líkingu við súpuna sem ég deili með ykkur í dag. Það vill svo skemmtilega til að uppskriftin að gömlu súpunni er ennþá hérna inni á blogginu og eina ástæðan fyrir því er sú að fólk virðist elda hana oft. Hún er með vinsælli uppskriftum á blogginu okkar enn í dag. Á þessum árum borðaði ég svo mikið af sætkartöflusúpu að ég hef ekki fengið mig til að snerta hana síðastliðin ár.

Sætkartöflusúpa sætar kartöflur og gulrætur skornar í bita

Ég ákvað þó fyrir stuttu að prófa að gera hana aftur en leggja mitt að mörkum til að gera hana virkilega gómsæta. Ég hef lært mikið um matargerð síðan ég gerði gömlu súpuna fyrir mörgum árum svo ég vissi að ég gæti gert mun betur. Það sem ég vissi var að:

  1. Ég vildi að súpan hefði djúpt og gott bragð en væri ekki bara dísæt súpa með kókosbragði.

  2. Ég vildi hafa hana svolitið þykka og matarmikla svo ég yrði vel södd.

  3. Ég vildi hafa hnetusmjör í henni.

Útkoman var þessi dásamlega góða súpa sem ég get stolt mælt með að þið prófið að gera!

Það er ekki oft sem ég vel að mauka súpurnar mínar. Mér finnst yfirleitt að hafa bita í þeim. Ég fæ t.d. áfall þegar fólk maukar sveppasúpu. En sætkartöflusúpa er ein af þeim fáu súpum sem ég mauka alltaf. Ég vil þó alls ekki hafa hana þunna svo þessi súpa er í þykkari kantinum. Mér finnst mikilvægt að finna að súpan er matarmikil og mettandi.

Sætkartöflusúpa í potti með trésleif ofan í

Eins og ég sagði hér að ofan er auðvelt og fljótlegt að útbúa þessa sætkartöflusúpu. Það gerir hana að mjög hentugum hversdags kvöldmat. Mér finnst hún samt passa mjög vel sem matur um helgar eða jafnvel í matarboðum því hún er svo ljúffeng. Ég myndi mæla með að bera hana fram með þessu hérna fljótlegu heimagerðu pönnubrauði.

Sætkartöflusúpa tilbúin og toppuð með kóríander og jarðhnetum. Hönd heldur á skeið í súpunni

Ég toppaði súpuna með fersku kóriander og ristuðum jarðhnetum. Ég get ímyndað mér að það sé gott að bæta við vegan jógúrt ofan á líka en ég átti hana ekki til.

Sætkartöflusúpa nærmynd af tilbúinni súpu í skál með kóríander og jarðhnetum

Takk innilega fyrir að lesa og ég vona að þér líki uppskriftin!

-Helga María! <3

Ljúffeng vegan sætkartöflusúpa með kókosmjólk, rauðu karrý og hnetusmjöri

Ljúffeng vegan sætkartöflusúpa með kókosmjólk, rauðu karrý og hnetusmjöri
Höfundur: Helga María
Einstaklega braðgóð sætkartöflusúpa sem tekur einungis 30 mínutur að elda og passar fullkomlega sem bæði hversdagsmatur, í matarboðið eða við önnur tilefni. Súpan er stútfull af bæði bragði og næringu frá hráefnum svo sem sætum kartöflum, gulrótum, lauk, hvítlauk, engifer, chili, kókosmjólk, rauðu karrí, hnetusmjöri og lime.

Hráefni:

  • 2 meðalstórar sætar kartöflur (sirka 600-650 gr)
  • 2 meðalstórar gulrætur (sirka 300 gr)
  • 1 laukur
  • 1 rauður chilipipar
  • 2 hvítlauksgeirar
  • 1 msk rifið engifer
  • 4 tsk rautt karrýmauk
  • 700 ml vatn
  • 1 grænmetisteningur
  • 1 dós þykk kókosmjólk (400ml)
  • 1-2 msk sojasósa
  • safi úr 1 lime
  • 1/2 dl hnetusmjör (ég notaði gróft en það má auðvitað nota fínt líka)
  • Salt og pipar eftir smekk
  • Ferskt kóríander og salthnetur að toppa með

Aðferð:

  1. Saxið lauk og steikið uppúr olíu í potti á meðalháum hita þar til hann mýkist
  2. Pressið hvítlauk, rífið engifer, saxið chili og bætið út í pottinn og steikið í smá stund í viðbót. Saltið örlítið.
  3. Bætið karrýmaukinu út í og steikið í sirka 1-2 mínútur á meðan þið hrærið.
  4. Afhýðið sætu kartöflurnar og gulræturnar og bætið út í pottinn ásamt kókosmjólk, vatni, grænmetiskrafti og sojasósu. Látið malla í 15-20 mínútur þar til auðvelt er að stinga í gegnum sætu kartöflurnar og gulræturnar.
  5. Bætið hnetusmjöri og limesafa út í pottinn og mixið súpuna með töfrasprota.
  6. Smakkið til og bætið við salti, pipar eða limesafa ef þarf.
  7. Berið fram með t.d. góðu brauði og toppið með kóríander og fræjum.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið veganistur

Dásamleg vegan lasagnasúpa

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að vegan lasagnasúpu. Súpan inniheldur allt sem gott lasagna inniheldur, svo sem tómata, vegan hakk, lasagnaplötur, grænmeti, gómsæt ítölsk krydd og mikið af hvítlauk. Þetta er hin fullkomna súpa að elda á köldum vetrardegi. Hún vermir svo sannarlega líkama og sál.

Uppskrift dagsins er í samstarfi við Anamma á Íslandi og ég notaði vegan hakkið frá þeim. Við höfum lengi unnið með Anamma og erum gríðarlega stoltar af því. Vörurnar frá þeim eru svo góðar og hakkið frá þeim, bæði þetta “hefðbundna” og formbar hakkið nota ég svakalega mikið í mína matargerð. Ég hef eldað marga rétti með Anamma hakkinu fyrir vegan vini og vini sem borða kjöt og þeir hafa alltaf slegið í gegn. Þessi súpa er akkúrat dæmi um slíkan rétt.

Við erum með uppskrift af lasagnasúpu í bókinni okkar en þessi sem ég deili í dag er að mörgu leyti ólík. Mig langaði að gera hana aðeins meira eins og alvöru lasagna og ég er mjög stolt af útkomunni. Hún er virkilega bragðgóð og mettandi og ég er viss um að hún verður elduð oft í kvöldmatinn á mínu heimili á næstunni. Ég mæli með að gera hvítlauksbrauð með súpunni en uppskrift að svoleiðis brauði er að finna HÉR!

Eins og ég sagði hér að ofan inniheldur súpan gómsæt ítölsk krydd og ég notaði:

Oregano
Basiliku
Timían
Rósmarín
Majoram

Kryddin passa fullkomlega við tómatana og rjómann og gera súpuna svo dásamlega góða!

Vegan lasagna súpa

Hráefni:

  • Olía og/eða smjörlíki að steikja uppúr

  • 1 meðalstór laukur

  • 6 hvítlauksgeirar

  • 2 meðalstórar gulrætur

  • 2 sellerístiklar

  • 1 msk oregano

  • 1 msk þurrkuð basilika

  • 1 tsk rósmarín

  • 1 tsk timían

  • 1 tsk majoram

  • pínu chiliflakes

  • 2 msk sojasóa

  • 325 gr hakk frá Anamma (1 lítill poki)

  • 2 dósir niðursoðnir tómatar (hver dós 400g)

  • 1 líter vatn

  • 2 grænmetisteningar

  • 1 msk balsamikedik

  • 3 lárviðarlauf

  • 6 lasagnaplötur

  • 250 ml vegan matreiðslurjómi

  • Salt og pipar

  • Rifinn vegan ostur að setja í að lokum (má sleppa)

Aðferð:

  1. Hitið olíu/smjörlíki í potti.

  2. Saxið laukinn og bætið út í og steikið þar til hann mýkist.

  3. Skerið niður gulrætur og sellerí og bætið út í ásamt pressuðum eða rifnum hvítlauksgeirum og steikið í nokkrar mínútur eða þar til grænmetið mýkist.

  4. Bætið út í pottinn kryddunum, hakkinu og sojasósunni og steikið í nokkrar mínútur.

  5. Hellið tómötunum og vatninu út í og setjið balsamikedik, lárviðarlaufin og grænmetiskraftinn út í líka og leyfið þessu að ná suðu.

  6. Brjótið þá lasagnaplötur út í og leyfið súpunni að malla í 15-20 mínútur og verið viss um að lasagnaplöturnar séu orðnar mjúkar.

  7. Hellið rjómanum út í og smakkið til með salti og pipar. Leyfið súpunni að hitna þar til hún nær næstum því suðu, takið þá af hellunni, stráið vegan osti yfir og hrærið honum saman við svo hann bráðni. Það má að sjálfsögðu sleppa ostinum ef þið viljið en mér finnst það gott.

  8. Berið fram með góðu brauði og toppið með t.d. ferskri basíliku og vegan parmesanosti.

Takk fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur uppskriftin vel!

-Helga María

-Þessi uppskrift er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi-

 
 

Vegan rjómalagað sítrónupasta

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að gómsætu rjómalöguðu sítrónupasta með vegan parmesanosti, steinselju og chiliflögum. Rétturinn er virkilega einfaldur og fljólegur og bragðast alveg einstaklega vel. Hvort sem þú vilt elda eitthvað gott í kvöldmatinn hversdagslega eða ætlar að halda matarboð er sítrónupasta tilvalinn réttur. Ég mæli með að bera pastað fram með gómsætu brauði og njóta!

Færsla dagsins er í samstarfi við Violife og í pastaréttinn notaði ég Prosociano ostinn frá þeim sem er vegan parmesanostur. Hann er dásamlega góður og passar fullkomlega með allskonar pastaréttum. Við systur elskum vörurnar frá Violife og notum þær mjög mikið í okkar daglega lífi. Prosociano osturinn er í miklu uppáhaldi hjá mér þessa dagana og ég nota hann í nánast allt sem ég útbý.

Ég notaði spaghetti að þessu sinni en það er líka gott að nota t.d. linguine eða rigatoni. Passið að sjóða pastað bara þar til það er “al dente” svo það verði ekki klístrað og mjúkt. Já, og munið að salta pastavatnið vel!!

Sósan er einföld og það tekur enga stund að útbúa hana, en hún er svakalega góð. Hún inniheldur:

smjörlíki
ólífuolíu
hvítlauk
chiliflögur
sítrónubörk
sítrónusafa
vegan parmesanost
örlítið af vatninu sem pastað er soðið upp úr
salt og pipar

Pastað er svo að lokum toppað með steinselju. Svo gott!

Ég hef verið í miklu pastastuði undanfarið. Ég er t.d. alltaf á leiðinni að deila með ykkur uppáhalds vodkapastanu mínu sem ég elda mikið. Ætli ég verði ekki að drífa mig í því í næstu viku. Við erum með allskonar góðar uppskriftir af pasta hérna á blogginu nú þegar og ég mæli með því að kíkja á ÞETTA ofnbakaða pestópasta sem Júlía útbjó í haust og hefur svo sannarlega slegið í gegn!

Eins og við systur höfum talað mikið um uppá síðkastið ætlum við árið 2022 að vera duglegari að birta uppskriftir af allskonar kvöldmat. Við fáum svo oft spurningar um hvort við getum ekki sýnt meira af hversdagslegum mat og svoleiðis og við lofum að gera meira af því. Að sjálfsögðu munu koma gómsætar kökur og fl. en við höfum oft verið lélegar í að birta “venjulegan mat” svo við erum mjög spenntar fyrir því og tökum alltaf fagnandi á móti allskonar fyrirspurnum og áskorunum!

Ég vona innilega að ykkur líki uppskriftin og ef þið prófið að elda hana, eða einhverja aðra uppskrift af blogginu, væri ótrúlega gaman ef þið taggið okkur á Instagram. Það gerir okkur alltaf svo ótrúlega glaðar!

Rjómalagað vegan sítrónupasta

Hráefni:

  • 400 gr pasta - ég notaði spaghetti

  • 3 hvítlauksgeirar

  • Safi og börkur úr einni sítrónu

  • Chiliflögur eftir smekk. Það er svo misjafnt hversu mikið fólk þolir

  • 2,5 dl vegan matreiðslurjómi

  • 1,5 dl vatn sem pastað hefur verið soðið í

  • Rifinn prosociano (vegan parmesan frá Violife) eftir smekk. Þetta finnst mér líka vera svolítið smekksatriði. Ég notaði sirka 1/2 ost í sósuna og toppaði svo með aðeins meira. Það þarf allavega ekki meira en einn ost en það eru ekki allir sem vilja hafa svo mikið af parmesan en mér finnst það gera sósuna virkilega góða og “creamy”

  • Salt og pipar

  • Fersk steinselja að toppa með

Aðferð:

  1. Byrjið á því að sjóða pastað eftir leiðbeiningum á pakkanum þar til það er “al dente” og sigtið þá vatnið frá. ATHUGIÐ að það þarf að taka frá 1.5 dl af vatninu og nota í sósuna. Munið að salta pastavatnið vel.

  2. Setjið ólífuolíu og smjörlíki í pott, pressið hvítlauk og steikið hann í 30 - 60 sekúndur. Hann á að mýkjast en á ekki að taka á sig brúnan lit.

  3. Rífið sítrónubörk út í pottinn (geymið smá ef þið viljið nota til að toppa pastað með) og kreistið sítrónusafann og hrærið saman við hvítlaukinn ásamt chiliflögunum og leyfið þessu að eldast í nokkrar sekúndur.

  4. Hellið rjómanum útí ásamt salti og pipar og leyfið rjómanum að hitna vel.

  5. Hellið vatninu frá pastanu út í og hrærið.

  6. Bætið pastanu út í sósuna (ekki hella sósunni út í pastað því þá er erfiðara að sjá til þess að þetta verði nógu “creamy”) og passið að sósan þekji pastað vel.

  7. Toppið með prosociano og steinselju og berið fram með góðu brauði.

Takk fyrir að lesa og vona að ykkur líki vel

-Helga María

-Þessi færsla er í samstarfi við Violife á Íslandi-

 
 

Vegan osta og brokkolí ofnréttur með hrísgrjónum

Við systur ætlum að vera duglegri þetta árið að deila með ykkur auðveldum og sniðugum hversdagsmat þar sem við fáum alltaf margar fyrirspurnir um það þegar við skoðum hvað þið vilja sjá meira af. Það er svo ótrúlega auðvelt að festast í því að elda alltaf það sama og svo er oft mjög yfirþyrmandi að ákveða hvað á að vera í matinn á hverjum degi. Mér kvöldmaturinn oft hanga yfir mér allan daginn þegar ég veit ekki búin að ákveða fyrirfram hvað ég eigi að hafa í matinn. Ég mæli því alveg 100% með því að gefa sér nokkrar mínútur á sunnudögum í að gera matseðil fyrir vikuna en það hjálpar mér ekkert smá mikið. Þá finnst mér oft mjög þægilegt að geta kíkt á netið og fundið hugmyndir af réttum.

Síðustu vikur hef ég verið að prófa mig mjög mikið áfram með rétti sem ekki þarf að standa yfir eða svokallað “one-pot” rétti. Ég er alveg að dýrka þessa eldunar aðferð en þetta eru sem sagt réttir þar sem öllu er skellt í eldfast mót eða pott og síðan látið eldast án þess að það þurfi að hræra í eða gera nokkuð. Það er svo mikil snilld fyrir þá daga sem ég nenni ekki að elda, að geta skellt öllu í eldfast mót og inní ofn og síðan bara gert hvað sem er í klukkutíma á meðan rétturinn eldast. Rétturinn sem ég deili með ykkur í dag er ótrúlega góður og það þarf ekkert að hafa fyrir honum, en ég mun klárlega deila fullt af svona uppskriftum með ykkur í framtíðinni!

Ofnrétturinn samanstendur af hrísgrjónum í botninum, brokkolí og vegan soyjakjöti yfir og er hann síðan ofnbakaður upp úr vegan cheddar rjómaostasósu. Þetta er hinn fullkomni heimilismatur, tekur enga stund og dugar fyrir 4 til 5 fullorðna ef það er meðlæti með. Hann er ótrúlega bragðgóður og hægt er að bera hann fram einan og sér eða með góðu meðlæti. Ég ber réttinn oftast fram með góðu fersku salati en þá er algjört lykilatriði að hafa nýja vegan fetaostinn frá Sheese með en það er nýr ostur sem kemur í teningum. Fetaostur var uppáhalds osturinn minn þegar ég var yngri og hef ég verið með þennan vegan ost með öllu sem ég borða síðan ég keypti hann fyrst. Mér finnst einnig passa mjög vel að hafa vegan hvítlauksbrauð með en það er hægt að gera sjálfur eða kaupa brauðið frá Hatting sem er tilbúið vegan hvítlauksbrauð og má að sjálfsögðu finna í Krónunni.

Mér finnst ótrúlega gott að búa til kryddlög fyrir fetaostinn líkt og venjan er hérna heima en það er ótrúlega einfalt og smakkast hann alveg eins og venjulegi fetaosturinn sem hægt er að kaupa í krukku út í búð. Í kryddlögin set ég eftirfarandi:

  • Vel af góðri ólífuolíu, ég hef verið að nota D.O.P olíuna frá Olifa

  • Timían

  • Rósmarín

  • Ítölsk hvítlauksblanda frá pottagöldrum

  • Grófmalaður pipar

  • Örlítið salt

Ég set mjög lítið af hveju kryddi fyrir sig og hræri þessu síðan aðeins saman.

Hráefni (réttur fyrir 4):

  • 2 dl hrísgrjón

  • 3 dl vatn + 2 grænmetisteningar

  • 1 cheddar rjómaostur frá Sheese

  • 250 ml vegan hafrarjómi

  • 2 msk ítalskt pastakrydd frá pottagöldrum

  • 3 hvítlauksgeirar

  • 1-2 tsk salt

  • 1 haus brokkolí

  • 4 litlir vorlaukar

  • 1 pakki vegan kjúklingur (t.d. oumph)

  • sirka 1/2 poki rifin epic mature cheddar frá Violife (eða það magn sem passar yfir réttinn)

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°C

  2. Hellið hrísgrjónum í stórt eldfast mót

  3. Leysið tvo grænmetisteninga upp í heitu vatni og hellið yfir hrísgrjónin

  4. Hrærið saman í skál rjómaostinum, vegan hafrarjóma, hvítlauksgeirum og kryddunum

  5. Hellið yfir hrísgrjónin og blandið aðeins saman við hrísgrjónin og vatnið.

  6. Skerið niður vorlauk og brokkolí og dreyfið yfir ásamt soyja kjötinu. Ýtið aðeins ofan í vökvan.

  7. Stráið rifna ostinum yfir réttinn

  8. Setjið álpappír yfir eldfasta mótið og eldið í ofninum í 50 mínútur. Takið þá álpappírinn af og leyfið réttinum að vera í 15 mínútur í viðbót í ofninum.

-Njótið vel

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefni í réttinn þar -

 
 

10 vinsælustu uppskriftirnar okkar árið 2021!

Gleðilegt nýtt ár kæru vinir!

Í dag langar okkur að taka saman okkar 10 vinsælustu uppskriftir árið 2021. Við erum orðlausar yfir því hversu mörg þið eruð sem lesið bloggið okkar í hverjum mánuði og hversu mikinn kærleika þið sýnið okkur allan ársins hring. Það gefur okkur svo gríðarlega mikið að heyra hvað ykkur finnst uppskriftirnar góðar. Öll skilaboð og athugasemdir sem við fáum frá ykkur hlýa virkilega um hjartarætur. Við gætum ekki verið heppnari með lesendur og fylgjendur. TAKK!

En á morgun birtum við fyrstu uppskrift ársins en í dag lítum við yfir liðið ár og sjáum hvað sló mest í gegn á blogginu! Við birtum þær ekki í neinni sérstakri röð heldur listum bara þær 10 vinsælustu!

Klassíska súkkulaðitertan okkar!

Þessi uppskrift er ein af okkar allra fyrstu hérna á blogginu og er á hverju ári á listanum yfir þær 10 vinsælustu. Við getum sagt að þessi kaka er sú allra mest bakaða á blogginu. Við skiljum vel af hverju. Hún er einföld, skotheld en á sama tíma gríðarlega bragðgóð og mjúk. Júlía tók sig til og myndaði kökuna aftur. Eins og ég sagði var þetta ein af okkar allra fyrstu uppskriftum og ljósmyndahæfileikar okkar hafa sem betur fer skánað töluvert síðan 2016 svo okkur fannst kominn tími til að fríska aðeins upp á færsluna. Uppskriftin er þó að sjálfsögðu ennþá sú sama, fyrir utan það að Júlía bætti inn í færsluna uppskrift af gómsætu súkkulaðiganache. Uppskrift af kökunni finniði HÉR!

Heitt rúllubrauð með aspas og sveppum!

Önnur uppskrift sem lendir alltaf á top 10 listanum á blogginu er heita aspas rúllubrauðið okkar. Þessi uppskrift er einnig ein af okkar fyrstu uppskriftum og ég man að ég var uppi í sumarbústað þegar ég ákvað skyndilega að prófa að skella í aspasbrauðrétt. Ég hafði ekki prófað að gera svoleiðis í mörg ár en hugsaði að það gæti ekki verið svo erfitt. Brauðrétturinn kom heldur betur vel út og smakkaðist alveg eins og mig hafði minnt. Ég brunaði á Selfoss með réttinn heim til ömmu og lét hana og Júlíu smakka og þeim fannst hann æðislega góður. Meira að segja ömmu sem er oft frekar skeptísk á vegan mat, allavega á þeim tíma. Daginn eftir gerði ég hann svo aftur og myndaði. Athugið að myndin hér að ofan er úr bókinni okkar. Uppskriftin á blogginu er gömul og myndirnar líka. Þetta er ein af þessum uppskriftum sem mig dauðlangar að mynda aftur. Júlía verður eiginlega að taka það að sér þar sem ég fæ ekki rúllubrauðið hérna í Svíþjóð. Uppskriftina af brauðréttinum finniði HÉR!

Döðlukaka með karamellusósu og ís!

Þessi kaka er í miklu uppáhaldi hjá mér og það kom mér eiginlega á óvart hversu vinsæl hún varð. Við höfðum aldrei verið beðnar um uppskrift af svona köku að ég held. Ég man eftir því að hafa séð marga baka svona fyrir einhverjum árum síðan en finnst ég aldrei vera vör við það lengur. Döðlukakan er virkilega gómsæt og mjúk og með karamellusósunni og vanilluís er þetta fullkominn eftirréttur. Ég mæli virkilega með því að prófa ef þið hafið aldrei gert það. Ég held ég verði að skella í hana bráðum. Ég gerði þessa færslu snemma árið 2019. Ég fæ mikla nostalgíu þegar ég sé þessa mynd því ég man að á þessum tíma 2018-2019 elskaði ég að prófa nýjar og spennandi uppskrift. Ég veganæsaði allar kökur sem mér datt í hug og var svo forvitin í eldhúsinu. Mér líður stundum eins og ég sakni þess tíma svolítið. Ég er enn forvitin og elska að gera uppskriftir en á þessum tíma lærði ég svo mikið af því sem ég kann núna í eldhúsinu og var svo gríðarlega stolt eftir hverja einustu færslu. En jæja nóg um það. Kakan er æði! Uppskriftina finniði HÉR!

Ofnbakað pasta með rauðu pestói!

Þessi fáránlega einfaldi og gómsæti pastaréttur sló í gegn á blogginu okkar á þessu ári. Eitt af því sem við systur höfum mikið rætt um að bæta okkur í er að pósta meira af hefðbundnum heimilislegum kvöldmat. Við elskum að veganæsa allskonar kökur og hátíðarrétti, eins og þið hafið líklega flest tekið eftir, en gleymum oft að birta “venjulegan mat”. Það sem við sjálfar eldum okkur í kvöldmat. Við tókum okkur svolítið á með það á síðastliðnu ári og það er svo sannarlega eitt af okkar markmiðum 2022 að gera ennþá meira af. Þessi pastaréttur er einmitt fullkominn kvöldmatur. Öllu hráefni er skellt í eldfast mót eða pott og eldað saman. Útkoman er dásamleg. Uppskriftina finniði HÉR!

Súkkulaðimöffins með súkkulaðibitum!

Möffins sem smakkast eins og á kaffihúsi. Hvað get ég sagt? Þetta eru þær allra bestu möffinskökur sem ég hef bakað. Það er kjánalegt að segja það en ég er virkilega stolt af þessari uppskrift. Ég man að það fór mikill tími og mikil orka í að búa uppskriftina til. Ég prófaði hana nokkrum sinnum og vildi alls ekki að þær væru þurrar. Eftir nokkrar tilraunir urðu þær alveg eins og ég vildi hafa þær. En það voru ekki bara kökurnar sem tóku nokkrar tilraunir heldur tók ég heilan dag í að mynda þær og myndirnar komu hræðilega út. Ég man að ég tók þær á brúnum bakgrunni og brúnu litirnir runnu saman í eitt. Daginn eftir tók ég mig saman og myndaði þær aftur og varð mun ánægðari með útkomuna. Uppskriftina finniði HÉR!

Mexíkósúpa!

Næst á dagskrá er ein önnur uppskrift sem lendir alltaf með þeim 10 vinsælustu á hverju ári. Mexíkósúpan sem Júlía birti árið 2017. Þessa súpu höfum við systur eldað svo oft og fáum aldrei leið á henni. Þetta er hin fullkomna súpa til að elda fyrir matarboð, afmæli eða aðrar samkomur þar sem sniðugt er að bera fram súpu. Hún er matarmikil, gómsæt og hægt að toppa hana með allskonar góðu. Við fengum fyrir einhverjum árum síðan skilaboð frá konu sem sagðist hafa eldað súpuna fyrir landbúnaðaráðherra Noregs og að hann hafi orðið yfir sig hrifinn. Það voru ein skemmtilegustu skilaboð sem við höfum fengið. Uppskriftina finniði HÉR!

Amerískar pönnukökur!

Við erum ekki hissar á því að amerískar pönnukökur séu á top 10 listanum yfir vinsælustu uppskriftirnar okkar. Við systur elskum að baka pönnukökur og gerum pönnsur óspart í morgunmat um helgar. Uppskriftina birtum við í byrjun 2017 og hana er einnig að finna í bókinni okkar. Psst. Það gæti mögulega verið ný pönnukökuuppskrift á leiðinni á bloggið ekki seinna en á morgun!! Myndin hér að ofan er úr bókinni okkar. Uppskriftina finniði HÉR!

Hamborgari með bjórsteiktum lauk og hamborgarasósu!

Djúsí og gómsætur hamborgari. Eitthvað sem allir elska. Við gerðum þessa uppskrift saman sumarið 2019. Ég var komin til Íslands til að dvelja þar yfir sumarið og við vorum að hefjast handa við að mynda uppskriftirnar fyrir bókina okkar. Við byrjuðum á því að mynda nokkrar uppskriftir fyrir bloggið og þessi gómsæti borgari var einn af þeim. Þetta var byrjun á dásamlegu sumri. Við mynduðum bókina og þroskuðumst mikið í okkar vinnu við það. Við byrjuðum líka að þróa uppskriftina af veganistuborgaranum sem er seldur á Hamborgarafabrikkunni. Mér hlýnar um hjartað við að sjá þessa færslu og við að sjá að ykkur líki hún svona vel. Uppskriftina finniði HÉR!

Frosin Amaretto ostakaka með ristuðum möndlum!

Árið 2021 var árið sem ég byrjaði að nota áfengi meira í matargerð og bakstur. Ég geri mér grein fyrir því að það er riskí að birta of mikið af svoleiðis uppskriftum því mörgum líkar það verr að gera uppskriftir sem innihalda áfengi og svo er flest áfengi mjög dýrt og fáir sem eiga lager af því og eru ekki spennt fyrir því að kaupa flösku af amaretto til að nota smávegis af því í eina ostakökuuppskrift. Á sama tíma hefur mér þótt gaman að fá að þroskast og læra meira um eldamennsku og ég er glöð þegar ég birti það sem mér þykir gott og skemmtilegt. Ég hef því leyft sjálfri mér að pósta uppskriftum sem innihalda líkjör, hvítvín og fleira í þeim dúr en passað að halda þeim uppskriftum undir takmörkum. Jafnvægið er best. Þessi kaka er sú sem ég kannski naut þess mest að gera á þessu ári. Að sjá hvernig bragðið og útlitið kom út akkúrat eins og ég hafði óskað mér gerði mig ótrúlega glaða og ég er mjög ánægð að sjá þegar þið útbúið hana! Uppskriftina finniði HÉR!

Tælensk núðlusúpa með rauðu karrý!

Síðasta uppskriftin á listanum er þessi gríðarlega fallega og gómsæta núðlusúpa með rauðu karrý og tófú sem Júlía birti á árinu. Súpan er annað dæmi um virkilega góðan kvöldmat. Júlía eyddi þremur mánuðum í Asíu fyrir nokkrum árum og varð mjög hugtekin af tælenskri matargerð. Þessi súpa er innblásin af öllum þeim gómsæta mat sem hún borðaði þar. Einstaklega falleg súpa sem er fullkomin fyrir vetrarmánuðina. Uppskriftina finniði HÉR!

Takk innilega fyrir að lesa og takk enn og aftur fyrir að þið eldið og bakið uppskriftirnar okkar, sendið okkur svo falleg skilaboð og sýnið okkur þennan gríðarlega stuðning. Við erum svo þakklátar fyrir ykkur öll að við erum að springa! <3

-Veganistur

Vegan hakkabuff með rjómakenndri lauksósu

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af einföldu vegan hakkabuffi með lauksósu og kartöflugratín. Einfaldur heimilismatur sem er bragðgóður og saðsamur. Mér finnst best að bera hakkabuff fram með rjómakenndri lauksósu og annaðhvort kartöflugratíni eða soðnum kartöflum. Þegar ég spái í því held ég að allar kartöflur passi með hvort sem það eru þær sem ég hef þegar nefnt eða kartöflumús, franskar eða ofnbakaðar. Súrar gúrkur og sulta er svo “möst” að mínu mati. Ég notaði sænska títuberjasultu en rifsberjasulta myndi einnig passa fullkomlega með!

Færsla dagsins er í samstarfi við Anamma á Íslandi. Formbar hakkið frá þeim er það allra besta í svona hakkabuff. Það er ólikt venjulegu vegan hakki að því leiti að auðvelt er að móta það í buff, bollur eða borgara án þess að þurfa að nota önnur bindiefni með. Það er því nóg að krydda eftir smekk, forma buff og elda. “Formbar” hakkið fæst í Hagkaupum, Vegan búðinni, Fjarðarkaupum og Melabúðinni.

Eitt af markmiðum mínum fyrir komandi ár er að vera dugleg að birta uppskriftir af góðum hversdagslegum heimilismat sem er einfaldur en á sama tíma bragðgóður og spennandi. Við viljum að grænkerar hafi endalaust af hugmyndum af góðum mat að elda og elskum að deila með ykkur uppskriftum af gómsætum vegan mat.

Sjáið þennan fallega steikta lauk. Hann gefur sósunni svo gómsætt bragð.

Það er svo ótrúlega auðvelt að útbúa þessi gómsætu vegan hakkabuff og ég elska að leyfa þeim að malla aðeins í rjómakenndri lauksósunni í lokinn.

Vegan hakkabuff með rjómakenndri lauksósu

Hráefni:

  • Olía til steikingar

  • 500 gr formbar hakk frá Anamma (hakkinu leyft að þiðna þar til það er kallt eins og úr ísskáp)

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 1 msk fljótandi grænmetiskraftur eða 1/2 grænmetisteningur muldur niður

  • 1 msk sojasósa

  • 1 msk vegan matreiðslurjómi

  • 1 msk gróft sinnep

  • Salt og pipar eftir smekk

Lauksósa:

  • Olía að steikja upp úr

  • 1 mjög stór laukur eða 2 venjulegir

  • 400 ml vegan matreiðslurjómi

  • 1/3 teningur sveppakraftur eða grænmetiskraftur

  • 1/2-1 tsk sojasósa

  • 1 tsk þurrkað timían

  • Salt og pipar eftir smekk (farið varlega í saltið því bæði sveppakrafturinn og sojasósan gefa mikla seltu)

Aðferð:

  1. Byrjið á því að gera buffin tilbúin til steikingar. Látið hakkið þiðna en hafið það þó kalt þegar þið meðhöndlið það. Ef það nær of miklum hita verður erfiðara að móta það. Ég miða við að það sé við það hitastig sem það væri beint úr kæliskáp. Þetta tekur 30-40 mínútur. Ég hef þó sjálf sett hakkið í örbylgjuna á afþýðingu ef ég lendi í stressi og það skemmdi alls ekki fyrir.

  2. Setjið hakkið í skál ásamt restinni af hráefninum og blandið saman með höndunum. Mótið 4 buff og leggið til hliðar.

  3. Skerið laukinn niður í þunna strimla og steikið á pönnu uppúr olíu. Saltið laukinn örlítið svo hann svitni vel. Leyfið honum að steikjast í nokkrar mínútur þar till hann fær gylltan og fínan lit. Takið hann þá af pönnunni og leggið til hliðar en þrífið pönnuna ekki því við steikjum buffin beint á henni og laukurinn gefur bara gott bragð.

  4. Bætið við meiri olíu á pönnuna og steikið buffin á meðalháum hita þar til þau eru vel steikt á báðum hliðum. Þau eru svolítið þykk svo það þarf að passa að þau séu steikt í gegn. Þau eiga að hafa fengið meira “þétta” áferð þegar potað er í þau.

  5. Bætið lauknum aftur á pönnuna með buffunum og bætið við restinni af sósuhráefnunum og hrærið svo hún blandist vel. Ég myl niður sveppakraftinn svo hann blandist auðveldlega í sósuna. Piprið eftir smekk og saltið smá þó það sé að mínu mati ekki þörf á miklu salti.

  6. Berið fram með meðlæti að eigin vali. Ég hafði með þeim súrar gúrkur, títuberjasultu og kartöflugratín, en uppskriftina af gratíninu finniði HÉRNA.

Takk fyrir að lesa og vona að þið njótið!

-Helga María

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi-

 
 

Falafel úr chana dal baunum

Síðan ég varð ólétt hef ég verið mikið að prófa mig áfram með fleiri baunarétti og svona aðeins “hollari” fæðu. Ég myndi segja að mataræðið mitt sé nú alveg frekar hollt yfir höfuð en ég á það til að elda mikið af soyakjöti og plana flestar máltíðir í kringum slík hráefni. Ég hugsa að partur af því sé til komið vegna þess að fyrst þegar við systur urðum vegan var lítið til að slíkum vörum og samanstóð mataræðið okkar eingöngu af grænmeti, ávöxtum, baunum, hnetum og fræjum. Þar af leiðandi opnaðist alveg nýr heimur fyir mér þegar vegan kjöt fór að vera í boði.

En eftir að ég varð ólétt hef ég aðeins verið að reyna að fara til baka og gera fleiri rétti úr minna unnum vörum og hef því verið að koma baunum meira og meira inn í mataræðið mitt aftur þar sem þær eru alveg stútfullar af góðri næringu, próteini, trefjum og alls kona góðu. Ég er þó alls ekki að segja að vegan “kjöt” sé óhollt og borða ég það yfirleitt eitthvað á hverjum degi líka.

Mér hefur fundist mjög gaman að leika mér með allskonar baunir síðustu mánuði og þá sérstaklega baunirnar frá Oddpods en við erum búnar að vera í samstarfi með þeim síðan í sumar. Baunirnar eru svo frábærar þar sem þær er hægt að nota á svo marga vegu og er hægt að leika sér með nánast hvaða baunir sem er í alls konar mismunandi réttum. Það sem mér finnst vera mikill plús við þetta merki er að það er hægt að fá baunir líkt og brúnar linsur og chana dal baunirnar sem ég nota í þessari uppskrift forsoðnar, en það hefur ekki verið auðvelt að nálgast slíkt hérna heima. Þessar baunir þarf yfirleitt að leggja í bleyti og sjóða sjálfur. Oddpods baunirnar koma hins vegar tilbúnar til neyslu beint úr pokanum og eru þær soðnar upp úr vatni og grænmetiskrafti sem gerir þær einstaklega bragðgóðar.

Nú er ég í vaktavinnu og er því oft heima í hádeginu hina og þessa daga og því finnst mér nauðsynlegt að kunna að gera góða, fljótlega rétti í hádeginu þegar ég á t.d. ekki afganga frá því kvöldinu áður eða eitthvað slíkt. Auðveldar grænmetisbollur sem taka enga stund eru alveg fullkomnar í svona fljótlega rétti og er þessi uppskrift alveg einstaklega góð þar sem hún er SVO auðveld og tekur innan við 15 mínútur að græja. Þær má einnig nota á svo marga vegu, t.d. með góðu salati, í pítubrauði eða í vefjur. Það er líka svo frábært að það er hægt að nota hvaða baunir sem er í hana og því alltaf hægt að grípa í þessa uppskrift sama hvaða baunir eru til. Í þetta skipti ætla ég að deila með ykkur uppskrift með Chana dal baununum frá Oddpods en það eru gular “split peas” líkt og notað er í baunasúpu.

Hráefni:

  • 1 poki Chana dal baunir frá Oddpods

  • 1 hvítlauksrif

  • 1 msk ferskt kóríander

  • 1 msk ferksur graslaukur

  • 1 tsk malaður kóríander

  • 1 tsk laukduft

  • 1 tsk kúminduft

  • 2-3 msk ferskur sítrónusafi

  • salt

Aðferð:

  1. Setjið öll hráefnin saman í blandara eða matvinnsluvél og maukið þar til fínt duft. Tekur einungis um 2-3 mínútur í góðum blandara.

  2. Mótið í bollur, buff eða það sem hentar hverju sinni.

  3. Steikið á pönnu í nokkrar mínútur á hvorri hlið eða bakið í ofni í 12-15 mínútur við 200°C.

  4. Berið fram með tzaziki sósu og salati eða í pítúbrauði, vefju eða sem borgari.

Tzatziki sósa

  • 1 bolli hreint jógúrt (mín uppáhalds eru Oatly Turkisk havregurt eða hreina sojade)

  • 2 msk rifin gúrka

  • 1/2 hvítlauksrif

  • salt

  • 1 msk ferskur sítrónusafi

  • 1 msk niðursaxað ferskt dill

Aðferð:

  1. Rífið gúrkuna niður og pressið hvítlaukinn eða saxið bæði mjög smátt. Saxið dillið.

  2. Blandið öllum hráefnum saman í skál og smakkið til með salti.

-Njótið vel og endilega kíkið á instagram hjá okkur en þar er stutt myndband af því hvernig ég geri bollurnar.

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Oddpods á Íslandi -

 
 

Tælensk núðlusúpa með rauðu karrý

IMG_9725.jpg

Eftir að hafa eytt þremur mánuðum í asíu fyrir nokkrum árum hefur asískur matur og þá sérstaklega tælenskur matur verið í mjög miklu uppáhaldi hjá mér. Ég hugsa að ég gæti borðað núðlur, hrísgrjón og karrý á hverjum einasta degi án þess að fá leið á því. Í ferðinni áttaði ég mig á því hversu miklu betri asískar þjóðir eru í að nota krydd og grænmeti heldur en við og fann ég hvergi fyrir því að erfitt væri að vera vegan eða að borða ekki kjöt. Allir réttir eru stútfullir af góðu grænmeti, hrísgrjónum, núðlum og geggjuðum kryddum.

Ég gerði þau mistök að kaupa mér ekki krydd og kryddblöndur til að taka með heim, en ég fór hins vegar mikið að prófa alls konar kryddmauk í matargerð eftir að ferðinni lauk. Það er til fjöldin allur af góðum karrý og kryddmaukum hérna heima sem gera tælensku og asísku matargerðina einfalaldari en hægt er að hugsa sér. Það þarf þó að passa sig á því að oft má finna innihaldsefni í slíkum maukum sem ekki eru vegan eins og t.d. fiskisósur og fiskikraft.

IMG_9712.jpg

Í krónunni er einstaklega gott úrval af svona kryddmaukum og finnst mér ég finna eitthvað nýtt í nánast hverri einustu búðarferð. Ég get eitt góðum tíma í þessari deild búðarinnar að skoða allar þessar spennandi vörur. Maukinn og vörurnar frá Taste of Asia gripu strax athygli mína þegar ég sá þau fyrst snemma á þessu ári en tók ég eftir að flest maukin frá þeim innihalda 100% vegan innihaldsefni og henta mér því einstaklega vel.

Ég hef prófað mikið af þessum vörum en hefur rauða karrýmaukið alltaf verið til í skápunum hjá mér síðan ég smakkaði það fyrst. Það er ótrúlega bragðgott, og hentar fullkomlega í súpur, kássur eða bara á tófú og núðlur. Ég elska einnig hvað er gott úrval af góðum núðlum frá þessu merki, en lengi vel var nánast einungis hægt að fá “skyndinúðlur” og hrísgrjónanúðlur í felstum matvöruverslunum.

Í þessari færslu ætla ég að deila með ykkur einum af mínum uppáhalds réttum. Það er kókoskarrýsúpa með tófúi og Somen núðlum.

IMG_9743.jpg

Hráefni

  • 4 msk ólífuolía

  • 1 stór gulrót

  • 4-5 cm af blaðlauk

  • 1 rauð papríka

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 1 cm ferskt engifer

  • 1 pakki tófú

  • Tófú marinering

    • 1/2 dl soyasósa

    • 4 msk ólífuolía

    • 1 tsk hlynsíróp

    • 1 tsk chilli mauk (sambal oelek frá Taste of Asia)

    • 1/2 tsk pressaður hvítlaukur

  • 1 krukka rautt karrýmauk frá Taste of Asia

  • 1 tsk chillimauk (sambal oelek frá Taste of Asia) má sleppa

  • 2 msk hlynsíróp

  • salt og pipar eftir smekk

  • 2 dósir kókosmjólk

  • 2 lítrar vatn

  • 2 grænmetisteningar

  • 1/2 pakki somen núðlur frá Taste of Asia

  • Límóna og ferskur kóríander til að bera fram með súpunni

Aðferð:

  1. Byrjið á því að þerra og skera niður tófúið. Blandið öllum hráefnum fyrir marineringuna saman í skál og setjið teningana út í. Veltið vel upp úr marineringunni og setjið til hliðar

  2. Skerið niður allt grænmeti, rífið engifer og pressið hvítlaukinn.

  3. Steikið grænmetið upp úr ólífuolíunni í stórum potti þar til það mýkist vel.

  4. Bætið rauða karrýmaukinu út í pottinn ásamt 1/2 dl af vatni og steikið áfram í nokkrar mínútur.

  5. Bætið kókosmjólkinni út í pottinn ásamt vatninu, grænmetiskraftinum, hlynsírópi og chillimaukinu.

  6. Leyfið suðunni að koma upp við vægan meðalhita og hrærið í af og til á meðan.

  7. Á meðan súpan sýður er gott að nota tíman til að steikja tófúið. Hitið pönnu, hellið tófúinu ásamt mareneringunni út á pönnuna og steikið á háum hita þar til það verður fallega gyllt á öllum hliðum.

  8. Þegar suðan er komin upp á súpunni er gott að smakka hana til og bæta við salti, pipar og grænmetiskraft ef ykkur finnst þurfa. Leyfið súpunni að sjóða í 15 mínútur.

  9. Bætið núðlunum út í og leyfið súpunni að sjóða í 3 mínútur í viðbót. Slökkvið undir og bætið tófúinu út í pottinn.

  10. Berið fram með límónusneið og ferskum kóríander fyrir þá sem vilja. Einnig er gott að hafa með baunaspírur og muldar salthnetur en það þarf ekki.

-Njótið vel!

- Færslan er unnin í samstarfi við Krónuna -

 
KRONAN-merki.png