Graskers- og sætkartöflusúpa með vegan pylsum

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að graskers- og sætkartöflusúpu með steiktum vegan pylsum. Súpan er rjómakennd og yljandi og steiktu pylsurnar gera hana enn matarmeiri og seðjandi. Við mælum með að bera hana fram með góðu brauði. Ertu að leita að uppskrift fyrir kvöldmatinn, prófaðu þá þessa einföldu og gómsætu súpu.

Uppskrift dagsins er í samstarfi við Anamma á Íslandi og við notuðum pylsurnar þeirra í uppskriftina. Við notum vörurnar frá Anamma mikið í okkar matargerð og pylsurnar eru í miklu uppáhaldi. Við erum alltaf jafn stoltar af því að vinna með þeim.

Pylsurnar stöppuðum við og steiktum svo þær urðu að nokkurskonar hakki eða kurli. Það er algjör snilld að steikja pylsurnar á þennan hátt og nota í súpur, rjómapasta eða aðra rétti. Með þeim hætti gefa pylsurnar smá beikon “fíling.”

Hér er önnur æðisleg uppskrift með stöppuðum pylsum.

Súpan er svo maukuð með töfrasprota eða í blandara þegar rótargrænmetið er soðið í gegn.

Við toppuðum súpuna með steiktu pylsunum og spírum. Það er líka virkilega gott að gera brauðteninga og toppa með eða bera súpuna fram með góðu brauði.

Takk innilega fyrir að lesa og við vonum að ykkur líki uppskriftin

-Veganistur

Sætkartöflu-og graskerssúpa með vegan pylsum

Fyrir: 4
Höfundur: Veganistur
Undirbúningstími: 10 MinEldunartími: 30 Min: 40 Min
Gómsæt haustleg súpa sem yljar og er fullkomin á köldu haustkvöldi

Hráefni:

  • 2 msk ólífuolía
  • 3 litlir laukar (eða 1 og 1/2 venjulegur)
  • 1 heill hvítlaukur (eða 4 hvítlauksrif)
  • 2 frekar litlar sætar kartöflur
  • 1/2 grasker
  • 1 og 1/2 líter vatn
  • 2 dósir kókosmjólk
  • 1 tsk karrýduft
  • 1 tsk túrmerik
  • 1/2 - 1 tsk chilli flögur
  • 2 tsk salt
  • 2 grænmetisteningar
  • 20 gr vegan smjör eða 2 msk ólífuolía
  • 1 pakki anamma pylsur
  • Spírur (má sleppa)

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita olíuna í potti og mýkja laukinn og hvítlaukinn aðeins ásamt kryddunum.
  2. Skerið sætu kartöfluna og graskerið í grófa teninga og bætið út í pottin ásamt vatninu, kókosmjólkinni og grænmetisteningunum.
  3. Leyfið suðunni að koma upp, lækkið hitan og sjóðið í 30 mínútur.
  4. Á meðan súpan sýður, stappið pylsurnar þar til þær verða að mauki. Fínt er að afþýða pyslurnar aðeins í örbylgju ef þær eru teknar beint úr frysti.
  5. Hitið pönnu með vegan smjörinu og steikið pylsumaukið. Hrærið vel í allan tíman og bútið niður maukið jafn óðum og það steikist þar til það verður að eins konar kurli.
  6. Maukið súpuna og berið fram með pylsu kurlinu. Við mælum með að hver og einni setja pylsurnar út á diskinn sinn sér.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið #veganistur

Gómsæt vegan gúllassúpa

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að dásamlega góðri og bragðmikilli vegan gúllassúpu. Súpan er virkilega matarmikil og er bæði fullkomin í kvöldmatinn og frábær afgangur að eiga inni í ísskáp því hún er bara betri daginn eftir ef eitthvað er. Hún er líka tilvalin í veisluna og ég mæli mikið með því að bera hana með góðu brauði.

Færsla dagsins er í samstarfi við Hagkaup og þar fáiði öll hráefni sem þarf í súpuna. Próteinið sem ég valdi að nota í þetta sinn er Oumph! the chunk sem er ókryddað sojakjöt. Mér finnst það virkilega gott í súpur og pottrétti. Ef þið eruð ekki mikið fyrir það er auðvitað hægt að sleppa því og setja jafnvel tófú eða baunir í staðinn. Ég mæli samt mikið með að nota Oumph!.

Grænmetið sem ég setti í súpurnar voru laukur, hvítlaukur, kartöflur og gulrætur. Það má skipta því út fyrir eitthvað annað eins og sætar kartöflur, rófur og papriku. Ég kryddaði súpuna með paprikudufti, kúmen (og athugið, nú á ég ekki við proddkúmen sem við notum mest í matargerð, heldur kúmen sem er t.d. í kúmenbrauði). Þessi krydd eru mjög ólík og gefa því matnum allt annað bragð.

Ég toppaði súpuna svo með sýrðum rjóma frá Oatly og steinselju. Ég get ekki mælt meira með þessari geggjuðu súpu. Þar er algjört kuldakast um þessar mundir og fátt betra á þannig dögum en góð yljandi súpa.

Langar þig í fleiri hugmyndir að góðri súpu? Prufaðu þá þessar:

Geggjuð sætkartöflusúpa með rauðu karrý og hnetusmjöri

Gómsæt linsubaunasúpa

Tælensk núðlusúpa með rauðu karrý

Rjómakennd sveppasúpa

Takk fyrir að lesa og ég vona innilega að ykkur líki vel! <3

-Helga María

Vegan gúllassúpa

Vegan gúllassúpa
Fyrir: 4
Höfundur: Helga María
Dásamlega góð og bragðmikil gúllassúpa. Bæði fullkomin í kvöldmatinn og frábær afgangur að eiga inni í ísskáp því hún er bara betri daginn eftir ef eitthvað er. Hún er líka tilvalin í veisluna og ég mæli mikið með því að bera hana með góðu brauði.

Hráefni:

  • 1 msk olía
  • 1 pakki Oumph! the cunk eða annað sojakjöt. Hægt að nota tófú eða baunir ef þið kjósið það heldur.
  • 2 meðalstórir gulir laukar
  • 4 hvítlauksgeirar
  • 2 msk tómatpúrra
  • 1 msk paprikuduft
  • 1 msk kúmenfræ (ath. ekki broddkúmen sem notað er mikið í matargerð heldur kúmenfræ sem sett eru t.d. í kúmenbrauð)
  • 1 msk hveiti
  • 1 dós (ca 400ml) niðursoðnir tómatar
  • 1,7 l vatn
  • 3 grænmetisteningar
  • 2 lárviðarlauf
  • 2 meðalstórar gulrætur
  • 4 meðalstórar kartöflur
  • 1/2 dl söxuð steinselja
  • Salt og pipar eða chiliflakes eftir smekk
  • Sýrður rjómi frá Oatly til að toppa súpuna með ef maður vill
  • Gott brauð að borða með súpunni

Aðferð:

  1. Hitið olíu í potti á meðalháum hita.
  2. Skerið niður lauk og steikið þar till hann mýkist.
  3. Pressið eða rífið hvítlaukinn útí og steikið í sirka mínútu í viðbót.
  4. Bætið Oumphinu út í og steikið þar til það hefur mýkst og fengið á sig örlítinn lit. Ef þið látið það þiðna fyrir myndi ég skera það í aðeins minni bita, en ef þið steikið það beint úr frysti mæli ég með að taka skæri og klippa það niður í minni bita þegar það er búið að steikjast aðeins.
  5. Bætið tómatpúru, paprikudufti og kúmeni út í og steikið í sirka 2 mínútur á meðan þið hrærið.
  6. Bætið hveitinu saman við, hrærið og steikið 1-2 mínútur.
  7. Hellið niðursoðnu tómötunum út í ásamt 1 líter af vatninu (við geymum restina aðeins).
  8. Brjótið grænmetisteninga út í og leggið lárviðarlaufin í og leyfið súpunni að malla á frekar lágum hita í 1-2 klukkutíma.
  9. Skerið niður kartöflur og gulrætur og bætið út í súpuna ásamt restinni af vatninu og leyfið henni að sjóða í 30 mínútur eða þar til grænmetið er mjúkt í gegn. Ef ykkur finnst súpan of þykk, bætið 1-2 dl af vatni í viðbót.
  10. Bætið steinseljunni saman við og smakkið til með salti og pipar eða chiliflakes.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Hagkaup-

 
 

Salt-oumph og baunir

Nú styttist óðfluga í sprengidaginn og því deilum við með ykkur í dag umfærðri uppskrift af hini fullkomnu sprengidagssúpu. Þessi súpa er í mjög miklu uppáhaldi hjá okkur en í hana setjum við að sjálfsögðu kartöflur, gulrætur og rófur.

Okkur finnst líka nauðsynlegt að hafa eitthvað matarmikið í súpunni í staðin fyrir saltkjötið og ákváðum við því að kíkja í frystin í hagkaup. Þar fundum við þetta dásamlega saltaða og smóký oumph sem passaði savo ótrúlega vel út í. Það er mjög bragðmikið og fullkomin staðgengill fyrir saltkjötið. Einn pakki passar fyrir sirka 4 skammta af súpu.

Súpan er svo ótrúlega einföld og mælum við með því að fólk geri stóra uppskrift því hún er jafnvel betri daginn eftir. Við steikjum oumphið sér á pönnu og setjum út í hvern og einn disk svo það haldi bragðinu sem best og soðni ekki í súpunni.

Baunasúpa

Baunasúpa
Höfundur: Júlía Sif
Undirbúningstími: 12 HourEldunartími: 2 Hour: 14 Hour
Sprengidagssúpa sem má að okkar mati njóta allan ársins hring líka

Hráefni:

  • 500 gr gular hálfbaunir (sprengidagsbaunir)
  • 2 - 2 1/2 lítri vatn
  • 2 grænmetisteningar
  • vel af salti
  • 1/2 kg kartöflur
  • 1/2 stór rófa
  • 4 gulrætur
  • 1 pakki salty og smóký oumph

Aðferð:

  1. Skolið baunirnar vel og setjið í bleyti daginn áður eða snemma um morguninn.
  2. Hellið vatninu af baununum og setjið í pott með vatninu og sjóðið í 1 1/2 klukkustund. Hrærið reglulega í súpunni á meðan og fleytið froðunni af eftir þörfum.
  3. Bætið grænmetinu, tening og smá salti saman við og sjóðið í 30 mínútur í viðbót.
  4. Smakkið til og bætið við salti eftir þörfum.
  5. Steikið oumphið og berið fram með.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

- Færslan er unnin í samstarfi við Hagkaup -

 
 

Ljúffeng vegan sætkartöflusúpa með kókosmjólk, rauðu karrí og hnetusmjöri

saetkartoflusupa-tilbuin-og-pottur

Í dag deili ég með ykkur uppskrift að sætkartöflusúpu með kókosmjólk, rauðu karrí og hnetusmjöri. Einstaklega braðgóð súpa sem tekur einungis 30 mínutur að elda og passar fullkomlega sem bæði hversdagsmatur, í matarboðið eða við önnur tilefni. Súpan er stútfull af bæði bragði og næringu frá hráefnum svo sem sætum kartöflum, gulrótum, lauk, hvítlauk, engifer, chili, kókosmjólk, rauðu karrí, hnetusmjöri og lime.

Sækartöflusúpa hráefni ofan frá. Sætar kartöflur, gulrætur, kókosmjólk, hnetusmjör

Þegar ég varð fyrst vegan var sætkartöflusúpa einn af þeim fáu réttum sem ég kunni að elda. Sú súpa smakkaðist þó ekkert í líkingu við súpuna sem ég deili með ykkur í dag. Það vill svo skemmtilega til að uppskriftin að gömlu súpunni er ennþá hérna inni á blogginu og eina ástæðan fyrir því er sú að fólk virðist elda hana oft. Hún er með vinsælli uppskriftum á blogginu okkar enn í dag. Á þessum árum borðaði ég svo mikið af sætkartöflusúpu að ég hef ekki fengið mig til að snerta hana síðastliðin ár.

Sætkartöflusúpa sætar kartöflur og gulrætur skornar í bita

Ég ákvað þó fyrir stuttu að prófa að gera hana aftur en leggja mitt að mörkum til að gera hana virkilega gómsæta. Ég hef lært mikið um matargerð síðan ég gerði gömlu súpuna fyrir mörgum árum svo ég vissi að ég gæti gert mun betur. Það sem ég vissi var að:

  1. Ég vildi að súpan hefði djúpt og gott bragð en væri ekki bara dísæt súpa með kókosbragði.

  2. Ég vildi hafa hana svolitið þykka og matarmikla svo ég yrði vel södd.

  3. Ég vildi hafa hnetusmjör í henni.

Útkoman var þessi dásamlega góða súpa sem ég get stolt mælt með að þið prófið að gera!

Það er ekki oft sem ég vel að mauka súpurnar mínar. Mér finnst yfirleitt að hafa bita í þeim. Ég fæ t.d. áfall þegar fólk maukar sveppasúpu. En sætkartöflusúpa er ein af þeim fáu súpum sem ég mauka alltaf. Ég vil þó alls ekki hafa hana þunna svo þessi súpa er í þykkari kantinum. Mér finnst mikilvægt að finna að súpan er matarmikil og mettandi.

Sætkartöflusúpa í potti með trésleif ofan í

Eins og ég sagði hér að ofan er auðvelt og fljótlegt að útbúa þessa sætkartöflusúpu. Það gerir hana að mjög hentugum hversdags kvöldmat. Mér finnst hún samt passa mjög vel sem matur um helgar eða jafnvel í matarboðum því hún er svo ljúffeng. Ég myndi mæla með að bera hana fram með þessu hérna fljótlegu heimagerðu pönnubrauði.

Sætkartöflusúpa tilbúin og toppuð með kóríander og jarðhnetum. Hönd heldur á skeið í súpunni

Ég toppaði súpuna með fersku kóriander og ristuðum jarðhnetum. Ég get ímyndað mér að það sé gott að bæta við vegan jógúrt ofan á líka en ég átti hana ekki til.

Sætkartöflusúpa nærmynd af tilbúinni súpu í skál með kóríander og jarðhnetum

Takk innilega fyrir að lesa og ég vona að þér líki uppskriftin!

-Helga María! <3

Ljúffeng vegan sætkartöflusúpa með kókosmjólk, rauðu karrý og hnetusmjöri

Ljúffeng vegan sætkartöflusúpa með kókosmjólk, rauðu karrý og hnetusmjöri
Höfundur: Helga María
Einstaklega braðgóð sætkartöflusúpa sem tekur einungis 30 mínutur að elda og passar fullkomlega sem bæði hversdagsmatur, í matarboðið eða við önnur tilefni. Súpan er stútfull af bæði bragði og næringu frá hráefnum svo sem sætum kartöflum, gulrótum, lauk, hvítlauk, engifer, chili, kókosmjólk, rauðu karrí, hnetusmjöri og lime.

Hráefni:

  • 2 meðalstórar sætar kartöflur (sirka 600-650 gr)
  • 2 meðalstórar gulrætur (sirka 300 gr)
  • 1 laukur
  • 1 rauður chilipipar
  • 2 hvítlauksgeirar
  • 1 msk rifið engifer
  • 4 tsk rautt karrýmauk
  • 700 ml vatn
  • 1 grænmetisteningur
  • 1 dós þykk kókosmjólk (400ml)
  • 1-2 msk sojasósa
  • safi úr 1 lime
  • 1/2 dl hnetusmjör (ég notaði gróft en það má auðvitað nota fínt líka)
  • Salt og pipar eftir smekk
  • Ferskt kóríander og salthnetur að toppa með

Aðferð:

  1. Saxið lauk og steikið uppúr olíu í potti á meðalháum hita þar til hann mýkist
  2. Pressið hvítlauk, rífið engifer, saxið chili og bætið út í pottinn og steikið í smá stund í viðbót. Saltið örlítið.
  3. Bætið karrýmaukinu út í og steikið í sirka 1-2 mínútur á meðan þið hrærið.
  4. Afhýðið sætu kartöflurnar og gulræturnar og bætið út í pottinn ásamt kókosmjólk, vatni, grænmetiskrafti og sojasósu. Látið malla í 15-20 mínútur þar til auðvelt er að stinga í gegnum sætu kartöflurnar og gulræturnar.
  5. Bætið hnetusmjöri og limesafa út í pottinn og mixið súpuna með töfrasprota.
  6. Smakkið til og bætið við salti, pipar eða limesafa ef þarf.
  7. Berið fram með t.d. góðu brauði og toppið með kóríander og fræjum.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið veganistur

Tælensk núðlusúpa með rauðu karrý

IMG_9725.jpg

Eftir að hafa eytt þremur mánuðum í asíu fyrir nokkrum árum hefur asískur matur og þá sérstaklega tælenskur matur verið í mjög miklu uppáhaldi hjá mér. Ég hugsa að ég gæti borðað núðlur, hrísgrjón og karrý á hverjum einasta degi án þess að fá leið á því. Í ferðinni áttaði ég mig á því hversu miklu betri asískar þjóðir eru í að nota krydd og grænmeti heldur en við og fann ég hvergi fyrir því að erfitt væri að vera vegan eða að borða ekki kjöt. Allir réttir eru stútfullir af góðu grænmeti, hrísgrjónum, núðlum og geggjuðum kryddum.

Ég gerði þau mistök að kaupa mér ekki krydd og kryddblöndur til að taka með heim, en ég fór hins vegar mikið að prófa alls konar kryddmauk í matargerð eftir að ferðinni lauk. Það er til fjöldin allur af góðum karrý og kryddmaukum hérna heima sem gera tælensku og asísku matargerðina einfalaldari en hægt er að hugsa sér. Það þarf þó að passa sig á því að oft má finna innihaldsefni í slíkum maukum sem ekki eru vegan eins og t.d. fiskisósur og fiskikraft.

IMG_9712.jpg

Í krónunni er einstaklega gott úrval af svona kryddmaukum og finnst mér ég finna eitthvað nýtt í nánast hverri einustu búðarferð. Ég get eitt góðum tíma í þessari deild búðarinnar að skoða allar þessar spennandi vörur. Maukinn og vörurnar frá Taste of Asia gripu strax athygli mína þegar ég sá þau fyrst snemma á þessu ári en tók ég eftir að flest maukin frá þeim innihalda 100% vegan innihaldsefni og henta mér því einstaklega vel.

Ég hef prófað mikið af þessum vörum en hefur rauða karrýmaukið alltaf verið til í skápunum hjá mér síðan ég smakkaði það fyrst. Það er ótrúlega bragðgott, og hentar fullkomlega í súpur, kássur eða bara á tófú og núðlur. Ég elska einnig hvað er gott úrval af góðum núðlum frá þessu merki, en lengi vel var nánast einungis hægt að fá “skyndinúðlur” og hrísgrjónanúðlur í felstum matvöruverslunum.

Í þessari færslu ætla ég að deila með ykkur einum af mínum uppáhalds réttum. Það er kókoskarrýsúpa með tófúi og Somen núðlum.

IMG_9743.jpg

Hráefni

  • 4 msk ólífuolía

  • 1 stór gulrót

  • 4-5 cm af blaðlauk

  • 1 rauð papríka

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 1 cm ferskt engifer

  • 1 pakki tófú

  • Tófú marinering

    • 1/2 dl soyasósa

    • 4 msk ólífuolía

    • 1 tsk hlynsíróp

    • 1 tsk chilli mauk (sambal oelek frá Taste of Asia)

    • 1/2 tsk pressaður hvítlaukur

  • 1 krukka rautt karrýmauk frá Taste of Asia

  • 1 tsk chillimauk (sambal oelek frá Taste of Asia) má sleppa

  • 2 msk hlynsíróp

  • salt og pipar eftir smekk

  • 2 dósir kókosmjólk

  • 2 lítrar vatn

  • 2 grænmetisteningar

  • 1/2 pakki somen núðlur frá Taste of Asia

  • Límóna og ferskur kóríander til að bera fram með súpunni

Aðferð:

  1. Byrjið á því að þerra og skera niður tófúið. Blandið öllum hráefnum fyrir marineringuna saman í skál og setjið teningana út í. Veltið vel upp úr marineringunni og setjið til hliðar

  2. Skerið niður allt grænmeti, rífið engifer og pressið hvítlaukinn.

  3. Steikið grænmetið upp úr ólífuolíunni í stórum potti þar til það mýkist vel.

  4. Bætið rauða karrýmaukinu út í pottinn ásamt 1/2 dl af vatni og steikið áfram í nokkrar mínútur.

  5. Bætið kókosmjólkinni út í pottinn ásamt vatninu, grænmetiskraftinum, hlynsírópi og chillimaukinu.

  6. Leyfið suðunni að koma upp við vægan meðalhita og hrærið í af og til á meðan.

  7. Á meðan súpan sýður er gott að nota tíman til að steikja tófúið. Hitið pönnu, hellið tófúinu ásamt mareneringunni út á pönnuna og steikið á háum hita þar til það verður fallega gyllt á öllum hliðum.

  8. Þegar suðan er komin upp á súpunni er gott að smakka hana til og bæta við salti, pipar og grænmetiskraft ef ykkur finnst þurfa. Leyfið súpunni að sjóða í 15 mínútur.

  9. Bætið núðlunum út í og leyfið súpunni að sjóða í 3 mínútur í viðbót. Slökkvið undir og bætið tófúinu út í pottinn.

  10. Berið fram með límónusneið og ferskum kóríander fyrir þá sem vilja. Einnig er gott að hafa með baunaspírur og muldar salthnetur en það þarf ekki.

-Njótið vel!

- Færslan er unnin í samstarfi við Krónuna -

 
KRONAN-merki.png
 

Tómatsúpa og grillaðar samlokur

IMG_2636-2.jpg

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af gómsætri tómatsúpu og grilluðum samlokum. Ég er ein af þeim sem get borðað súpu allan ársins hring. Það skiptir ekki máli hvort það er snjóstormur eða sumarblíða, súpa er alltaf uppáhalds.

IMG_2594-3.jpg

Í súpuna notaði ég meðal annars ferska tómata, tómata í dós, fullt af hvítlauk, lauk og ferskar jurtir. Það sem gerir súpuna síðan rjómakennda er vegan matreiðslurjómi og rjómaosturinn frá Violife. Uppskriftin er í samstarfi við Violife og ég notaði rjómaostinn frá þeim í bæði súpuna og samlokurnar, en í þær notaði ég svo líka hefðbundna ostinn frá þeim.

Íslendingar búa svo vel við að geta valið á milli ýmissa bragðtegunda af Violife vörunum. Þar sem ég bý erlendis hef ég ekki sama úrval og þessvegna nota ég “original” af bæði ostinum og rjómaostinum. Ég mæli þó með því fyrir ykkur að prófa eitthvað af hinum bragðtegundunum ef þið komist í þær. Í súpuna hefði jafnvel verið gott að nota hvítlauks- og jurtarjómaostinn í súpuna og kannski hot peppers í grilluðu samlokurnar. Ég elska allar vörurnar frá Violife en síðast þegar ég var á Íslandi smakkaði ég þann besta ost sem ég hef smakkað frá þeim og hann heitir Epic mature cheddar flavor. Ef þið hafið ekki smakkað hann mæli ég með því að þið gerið það strax í dag. Ég vildi óska að ég fengi hann hérna í norður Svíþjóð!

IMG_2629-3.jpg

Ég vona að þið smakkið, þó það sé sumar og sól. Gómsæt súpa er einhvernveginn alltaf jafn góð!

IMG_2637.jpg

Tómatsúpa

Hráefni:

  • 500 gr ferskir tómatar

  • 5-6 hvítlauksgeirar

  • 1 laukur

  • Ferskt timían ca 2-3 msk

  • 6 blöð fersk salvía

  • 3 msk ólífuolía

  • 2 dósir niðursoðnir tómatar

  • 1 grænmetisteningur

  • 2 dl vegan matreiðslurjómi

  • 1 pakki rjómaostur frá Violife

  • 1 msk balsamikedik

  • 1 tsk sykur (bætið við meiru ef ykkur finnst vanta. Má líka sleppa sykrinum ef ykkur finnst hann óþarfur)

  • salt og pipiar

  • chiliflögur eftir smekk

  • fersk basilika til að toppa með

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 210°c

  2. Setjið ferska tómata, hvítlauk, lauk, jurtir, ólífuolíu, salt og pipar í pott eða eldfastmót og inní ofninn og bakið í 30 mínútur. Ég á steypujárnspott svo ég gerði allt saman bara í honum.

  3. Bætið tómötum í dós samanvið og mixið aðeins með töfrasprota eða í blandara þar til þið fáið þá áferð sem þið kjósið. Ég mæli með að setja smá vatn í botninn á dósinni til að ná með restinni af tómötunum og það sakar ekki að fá smá vatn með í súpuna. Mér finnst gott að hafa smá “chunks” í súpunni minni svo ég passaði mig að blanda hana ekki of mikið.

  4. Færið pottinn á hellu og bætið saman við grænmetiskraftinum, matreiðslurjómanum, rjómaostinum, balsamikediki, sykri og kryddum. Leyfið súpunni að malla í nokkrar mínútur og smakkið til. Saltið meira ef ykkur finnst þurfa.

Grillaðar samlokur

Hráefni

  • Gott brauð

  • vegan smjör eða olía til að smyrja brauðið að utanverðu

  • Rjómaostur frá Violife, mæli með original, garlic & herbs eða Hot peppers

  • Ostur frá Violife

Aðferð:

  1. Smyrjið brauðsneiðarnar að utanverðu með smá vegan smjöri eða ólífuolíu.

  2. Smyrjið svo rjómaostinum á og bætið við eins miklum osti og ykkur lystir.

  3. Grillið í samlokugrilli eða steikið á pönnu þar til osturinn bráðnar og brauðið fær á sig gylltan lit.

  4. Berið fram með súpunni. Mér finnst geggjað að dýfa samlokunum í súpuna.

Takk fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur vel!

-Færslan er í samstarfi við Violife á Íslandi-

 
violife-logo-1.png
 

Aspassúpa og hátíðar meðlætið │ Veganistur TV │ 7. þáttur

Aspassúpa

  • 75 gr vegan smjör eða smjörlíki

  • 1 dl hveiti

  • 2 dósir niðursoðinn aspas (soðið og aspasinn)

  • 2 lítrar Oatly Barista mjólkin

  • 4 msk grænmetiskraftur (2 grænmetisteningar)

  • 2 tsk salt

  • 1/2 lítri Oatly iMat matreiðslurjómi

Aðferð:

  1. Bryjið á því að bræða smjörlíki í stórum potti. Þegar smjörlíkið er bráðið setjið hitan á hellunni niður á miðlungs eða lágan hita.

  2. Stráið hveitinu út í smjörið og hrærið það saman í hveitibolli, Bollan á að vera frekar þurr.

  3. Hellið soðinu af tveimur aspadósum í könnu og bætið út í pottinn í nokkrum skömmtum og hrærið vel saman við hveitibollunna. Ekki setja of mikið vökva út í pottinn í einu því þá er líklegra að kekkir myndist í súpunni.

  4. Þegar allt soðið er komið saman við bætið hálfum lítra af mjólkinni saman við og hrærið vel og síðan restinni af mjólkinni.

  5. Bætið grænmetiskrafti og saltinu saman við og leyfið því að hitna þar til suðan kemur upp.

  6. Þegar suðan er komin upp bætið matreiðslurjómanum og aspasinum saman við og hitið í nokkrar mínútur í viðbót.

  7. Berið fram með hvítu hveitibrauði.

Pipar sveppasósa

  • 25 gr vegan smjör eða smjörlíki

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 200 gr sveppir

  • 2 tímían stilkar (ferkst)

  • salt og pipar

  • 1 bréf piparsósa

  • 250 ml vatn

  • 2 msk grænmetiskraftur (1 grænmetisteningur)

  • 250 ml Oatly iMat matreiðslurjómi

  • 1 tsk rifsberjahlaup eða rifsberjasulta

Aðferð:

  1. Skerið sveppina í þunnar sneiðar, kremjið hvítlaukinn og setjið út á heita pönnu mðe vegan smjörinu og tímían stilkunum.

  2. Steikið í nokkrar mínútur þar til að vökvi fer að myndast úr sveppunum.

  3. bætið vatninu, piparsósunni og grænmetiskraftinum út á pönnuna og hrærið saman þar til duftið er alveg komið saman við vatnið.

  4. Bætið rjómanum og rifsberjasultunni saman við og leyfið suðunni að koma upp. Sjóðið í sirka 5 mínútur.

Brúnaðar kartöflur (10 meðalstórar kartöflur)

  • 10-12 soðnar litlar kartöflur

  • 50 gr vegan smjör

  • 100 gr sykur

  • 1/2 dl Oatly-hafrarjómi

Aðferð:

  1. Bræðið sykurinn á meðalhita á pönnu og passið að fylgjast vel með.

  2. Setjið smjörið útí um leið og sykurinn er bráðinn svo hann brenni ekki.

  3. Þegar smjörið er bráðið er slökkt undir, rjómanum hellt útí og hrært standslaust í hálfa mínútu áður en kartöflunum er helt út í.

Eplasalat

  • 2 meðalstór græn epli

  • 1 bolli græn vínber

  • 1 dl Oatly sýrður rjómi

  • 1/2 dl þeyttur vegan rjómi

Aðferð:

  1. Takið hýðið af eplunum og skerið niður í litla kúbba

  2. Skerið vínberin í tvennt

  3. hrærið sýrða rjómanum og þeytta rjómanum saman við ávextina í stórri skál.

-Njótið vel

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna og Oatly á Íslandi

 
 
KRONAN-merki.png
Oatly_logo_svart.png
 

Vegan Mexíkósúpa

Mér finnst alveg ótrúlega gaman að halda veislur og bara yfir höfum að bjóða fólki í mat. Súpur eru alltaf fullkomin kostur þegar halda á matarboð, maður einfaldlega hendir einhverju í pott og lætur það malla þar til gestina ber að garði. Gæti ekki verið einfaldara.

Mexíkóskar súpur með maísflögum og öllu tilheyrandi hafa lengi verið mjög vinsælar í veislum hér á landi. En það finnst mér ekki skrítið miðað við hversu góðar þær eru og hversu skemmtilegt er að bera þess háttar súpu fram. Ég fékk tengdaaforeldra mína í mat í vetur og ákvað þá loksins að láta verða að því að gera mína eigin vegan mexíkósúpu.

Ég ákvað að nota í hana Oumph! þar sem það virðist alltaf slá í gegn, ásamt því að mynda áhugaverðar umræður við matarborðið þegar einhver kveikir allt í einu á perunni að þetta sé ekki kjúklingur. Einnig hafði ég svartar baunir og maís í súpunni þar sem mér finnst hvoru tveggja algjör nauðsyn í alla mexíkóska rétti. Súpan sló algjörlega í gegn og síðan þá er ég oft búin að bera hana fram við alls konar tilefni, en hún er tilvalin í allt frá litlum matarboðum til fermingarveisla.

Hráefni (fyrir 5-6 manns)

  • 1 poki pure Oumph!

  • 3 msk kókosolía

  • 3 hvítlauksgeirar

  • 1 rautt chilli (takið fræin úr fyrir mildari súpu)

  • cumin, paprikuduft, oregano, 1 msk af hverju

  • 1/2 tsk cayenne pipar

  • salt og pipar eftir smekk

  • 1-1 1/2 paprika (ég nota gula, græna og rauða í bland)

  • u.þ.b. 10 cm af blaðlauk

  • 2-3 gulrætur

  • 2 dósir gestus niðursoðnir tómatar

  • 1 krukka af salsasósu (230 gr)

  • 2 1/2 Kallo grænmetisteningar

  • 1600 ml vatn

  • 1 dós gestus svartar baunir

  • 100-150 gr af maísbaunum

  • 150 gr Sheese hreinn rjómaostur

Aðferð:

  1. Hitið kókosolíuna í stórum potti. Setjið Oumph!, hvítlauk, chilli og kryddin út í og steikið í góða stund.

  2. Skerið grænmetið í litla bita og bætið út í. Steikið í góðan tíma upp úr kryddunum eða þar til grænmetið er orðið vel mjúkt.

  3. Setjið út í tómatana, salsasósuna, grænmetiskraftinn og vatnið og leyfið suðunni að koma upp. Sjóðið súpuna við meðalhita í góðan tíma, eða minnst 30 mínútur. Mér finnst best að leyfa súpunni að malla í allavega klukkutíma við lágan hita. Smakkið súpuna til og bætið út í kryddum eða krafti eftir smekk.

  4. Skolið baunirnar og bætið þeim út í þegar súpan hefur fengið að sjóða vel ásamt maísnum og rjómaostinum. Hrærið rjómaostinn við svo hann bráðni alveg og leyfið suðunni að koma aftur upp.

  5. Ég ber súpuna fram ýmist með maísflögum, Oatly sýrðum rjóma, rifnum osti (ég mæli með Follow your heart), avocado og súrdeigsbrauði. En mér finnst einnig alveg nauðsynlegt að saxa smá ferskt kóríander og strá yfir.

Njótið vel
Júlía Sif

 

Færslan er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefnin þar