"Marry me" Oumph! með orzo (risoni)


Hinn fullkomni kvöldmatur!

Í dag deilum við uppskrift af rjómkenndum rétti með orzo (risoni), oumph, sólþurrkuðum tómötum og spínati. Rétturinn er innblásin af vinsælum rétti sem kallast “marry me chicken.” Þetta er fljótlegur og gómsætur réttur sem minnir mikið á risotto en er mun auðveldara að útbúa.

Uppskrift dagsins er í samstarfi við Oumph á Íslandi og ég notaði Thyme & garlic Oumph í uppskriftina. Ég nota Oumph gríðarlega mikið í mína matargerð og elska að sjá hvað úrvalið stækkar ört hjá þeim. Thyme & garlic mun samt alltaf vera í miklu uppáhaldi hjá mér. Ég toppaði með basiliku, vegan parmesan, sítrónuberki og chiliflögum. Þið trúið því ekki hversu góð lykt var í eldhúsinu á meðan þessi gómsæti réttur var að malla. Útkoman er þessi rjómakenndi gómsæti réttur sem er fullkomið að bera fram með góðu baguettebrauði. Ég hlakka til að gera fleiri útgáfur af þessum rétti, kannski oumph með risoni og góðri sítrónusósu. Ég get líka vel trúað því að það væri virkilega gott að setja rjómaost út í.



"Merry me" Oumph! með orzo (risoni)

"Merry me" Oumph! með orzo (risoni)
Fyrir: 2-3
Höfundur: Veganistur

Hráefni:

  • 1 msk olía frá sólþurrkuðum tómötum
  • Smá vegan smjör (má nota olíu)
  • 1 pakki Oumph garlic & thyme
  • 2 skalottlaukar
  • 3 hvítlauksgeirar
  • Chiliflögur eftir smekk
  • 250 gr orzo (risoni)
  • 100 gr sólþurrkaðir tómatar
  • 1 dl hvítvín eða hvítt matreiðsluvín
  • 1-2 msk dijonsinnep (ég notaði eina kúfulla)
  • 700 ml vatn
  • 1 grænmetisteningur
  • 1 dl rifinn vegan parmesanostur
  • 65 gr babyspínat
  • 1/2 dl basilika
  • 250 ml vegan matreiðslurjómi
  • 1 msk sítrónusafi
  • Salt og pipar ef þarf
  • Gott baguette að bera fram með

Aðferð:

  1. Látið Oumphið þiðna aðeins og skerið það niður í aðeins minni bita.
  2. Hitið olíu frá sólþurrkuðu tómötunum og vegan smjör í potti.
  3. Steikið Oumphið í nokkrar mínútur á meðalháum hita eða þar til það mýkist vel.
  4. Skerið niður lauk og pressið eða rífið hvítlaukinn og bætið út í pottinn ásamt chiliflögum og steikið í nokkrar mínútur svo laukurinn og hvítlaukurinn mýkist vel. Hrærið reglulega í svo að laukurinn brenni ekki.
  5. Skerið sólþurrkuðu tómatana niður og bætið út í ásamt risoni og steikið í sirka tvær mínútur á meðan þið hrærið vel í.
  6. Bætið víninu og dijonsinnepinu út í og látið steikjast í nokkrar mínútur í viðbót.
  7. Hellið vatninu út í ásamt grænmetisteningnum og látið malla í 10-15 mínútur eða þar til risoniið er orðið mjúkt. Hrærið reglulega í svo að það festist ekki í botninum.
  8. Bætið spínati, rjóma, parmesanosti, basiliku og sítrónusafa út í og leyfið að hitna svolítið áður en þið berið fram. Smakkið til og bætið salti og pipar ef ykkur finnst þurfa. Toppið svo með basiliku, parmesanosti og sítrónuberki.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið #veganistur

-Færslan er unnin í samstarfi við Oumph! á Íslandi-

 
 

Sticky teryaki tófú með brokkólí og sesamfræjum

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að guðdómlega góðu sticky teryaki tófú með brokkólí, vorlauk og sesamfræjum. Dásamlega braðgóður, einfaldur og saðsamur réttur sem tekur aðeins 20 mínútur að útbúa og inniheldur örfá hráefni.

Uppskrift dagsins er í samstarfi við Kikkoman á Íslandi og hvítlauks teryakisósan þeirra gegnir lykilhlutverki í réttinum. Það er mikill heiður að fá að vinna með Kikkoman því við systur höfum notað vörurnar frá þeim í mörg ár.

Þessi réttur er einn af þeim sem tekur bókstaflega enga stund að skella í, en smakkast alls ekki svoleiðis. Tófúið er einfaldlega steikt á pönnu ásamt engiferinu, brokkólíið gufusoðið og svo er sósan sett á ásamt maísmjöli. Tófúið er svo borið fram með grjónum, vorlauk, sesamfræjum og kóríander. Einfaldara gerist það ekki!

Við erum spennar að nota Kikkoman teryakisósuna í fleiri rétti. Það er til dæmis hægt að leika sér með þennan rétt og bæta við meira grænmeti. Þunnt skornar gulrætur og paprika myndi til dæmis passa virkilega vel að okkar mati.

Sticky teryaki tófú með brokkolí og sesam fræjum

Sticky teryaki tófú með brokkolí og sesam fræjum
Fyrir: 4
Höfundur: Veganistur

Hráefni:

  • 400 gr tófú
  • 4 msk hitaþolin ólífuolía
  • 1 cm engifer (sirka 1 tsk þegar búið er að saxa það mjög smátt)
  • 1/2 haus brokkolí
  • 1 flaska TERIYAKI sauce with roasted garlic frá Kikkoman
  • 1 kúfull msk maísmjöl
  • sesam fræ, ferskt kóríander og niðursneiddur vorlaukur til að bera fram með réttinum
  • U.þ.b. 200 gr hrísgrjón

Aðferð:

  1. Byrjið á því að sjóða hrísgrjónin eftir leiðbeiningum á pakkningunum.
  2. Saxið engifer niður mjög smátt og skerið tófúið í kubba. Skerið brokkolí"blómin" frá stilknum.
  3. Setjið vatn í pott og leyfið suðunni að koma upp, setjið brokkolíið út í og sjóðið í 7 mínútur.
  4. Hitið olíuna á pönnu og bætið síðan út á engiferinu og tófúinu ásamt örlítið af salti. Steikið saman þar til tófúið verður fallega gyllt að utan.
  5. Bætið teriyaki sósunni út á pönnuna ásamt borkkolíinu og leyfið suðunni að koma upp. Stillið helluna á lágan hita og stráið maísmjölinu yfir og hrærið strax vel saman við.
  6. Berið fram með soðnum hrísgrjónum, sesamfræjum, vorlauk og ferskum kóríander.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið #veganistur

Takk fyrir að lesa og við vonum að ykkur líki uppskriftin!

-Veganistur

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Kikkoman á Íslandi-

 
 

Gómsæt vegan gúllassúpa

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að dásamlega góðri og bragðmikilli vegan gúllassúpu. Súpan er virkilega matarmikil og er bæði fullkomin í kvöldmatinn og frábær afgangur að eiga inni í ísskáp því hún er bara betri daginn eftir ef eitthvað er. Hún er líka tilvalin í veisluna og ég mæli mikið með því að bera hana með góðu brauði.

Færsla dagsins er í samstarfi við Hagkaup og þar fáiði öll hráefni sem þarf í súpuna. Próteinið sem ég valdi að nota í þetta sinn er Oumph! the chunk sem er ókryddað sojakjöt. Mér finnst það virkilega gott í súpur og pottrétti. Ef þið eruð ekki mikið fyrir það er auðvitað hægt að sleppa því og setja jafnvel tófú eða baunir í staðinn. Ég mæli samt mikið með að nota Oumph!.

Grænmetið sem ég setti í súpurnar voru laukur, hvítlaukur, kartöflur og gulrætur. Það má skipta því út fyrir eitthvað annað eins og sætar kartöflur, rófur og papriku. Ég kryddaði súpuna með paprikudufti, kúmen (og athugið, nú á ég ekki við proddkúmen sem við notum mest í matargerð, heldur kúmen sem er t.d. í kúmenbrauði). Þessi krydd eru mjög ólík og gefa því matnum allt annað bragð.

Ég toppaði súpuna svo með sýrðum rjóma frá Oatly og steinselju. Ég get ekki mælt meira með þessari geggjuðu súpu. Þar er algjört kuldakast um þessar mundir og fátt betra á þannig dögum en góð yljandi súpa.

Langar þig í fleiri hugmyndir að góðri súpu? Prufaðu þá þessar:

Geggjuð sætkartöflusúpa með rauðu karrý og hnetusmjöri

Gómsæt linsubaunasúpa

Tælensk núðlusúpa með rauðu karrý

Rjómakennd sveppasúpa

Takk fyrir að lesa og ég vona innilega að ykkur líki vel! <3

-Helga María

Vegan gúllassúpa

Vegan gúllassúpa
Fyrir: 4
Höfundur: Helga María
Dásamlega góð og bragðmikil gúllassúpa. Bæði fullkomin í kvöldmatinn og frábær afgangur að eiga inni í ísskáp því hún er bara betri daginn eftir ef eitthvað er. Hún er líka tilvalin í veisluna og ég mæli mikið með því að bera hana með góðu brauði.

Hráefni:

  • 1 msk olía
  • 1 pakki Oumph! the cunk eða annað sojakjöt. Hægt að nota tófú eða baunir ef þið kjósið það heldur.
  • 2 meðalstórir gulir laukar
  • 4 hvítlauksgeirar
  • 2 msk tómatpúrra
  • 1 msk paprikuduft
  • 1 msk kúmenfræ (ath. ekki broddkúmen sem notað er mikið í matargerð heldur kúmenfræ sem sett eru t.d. í kúmenbrauð)
  • 1 msk hveiti
  • 1 dós (ca 400ml) niðursoðnir tómatar
  • 1,7 l vatn
  • 3 grænmetisteningar
  • 2 lárviðarlauf
  • 2 meðalstórar gulrætur
  • 4 meðalstórar kartöflur
  • 1/2 dl söxuð steinselja
  • Salt og pipar eða chiliflakes eftir smekk
  • Sýrður rjómi frá Oatly til að toppa súpuna með ef maður vill
  • Gott brauð að borða með súpunni

Aðferð:

  1. Hitið olíu í potti á meðalháum hita.
  2. Skerið niður lauk og steikið þar till hann mýkist.
  3. Pressið eða rífið hvítlaukinn útí og steikið í sirka mínútu í viðbót.
  4. Bætið Oumphinu út í og steikið þar til það hefur mýkst og fengið á sig örlítinn lit. Ef þið látið það þiðna fyrir myndi ég skera það í aðeins minni bita, en ef þið steikið það beint úr frysti mæli ég með að taka skæri og klippa það niður í minni bita þegar það er búið að steikjast aðeins.
  5. Bætið tómatpúru, paprikudufti og kúmeni út í og steikið í sirka 2 mínútur á meðan þið hrærið.
  6. Bætið hveitinu saman við, hrærið og steikið 1-2 mínútur.
  7. Hellið niðursoðnu tómötunum út í ásamt 1 líter af vatninu (við geymum restina aðeins).
  8. Brjótið grænmetisteninga út í og leggið lárviðarlaufin í og leyfið súpunni að malla á frekar lágum hita í 1-2 klukkutíma.
  9. Skerið niður kartöflur og gulrætur og bætið út í súpuna ásamt restinni af vatninu og leyfið henni að sjóða í 30 mínútur eða þar til grænmetið er mjúkt í gegn. Ef ykkur finnst súpan of þykk, bætið 1-2 dl af vatni í viðbót.
  10. Bætið steinseljunni saman við og smakkið til með salti og pipar eða chiliflakes.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Hagkaup-

 
 

Hvít pizza með kartöflum og timían

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að hvítri pizzu eða pizza bianco, með sýrðum rjóma, kartöflum, rauðlauk, timían og chiliflögum. Eftir baksturinn er hún svo toppuð með klettasalati, ristuðum möndlum, vegan parmesanosti og sítrónuberki. Þetta er mín allra uppáhalds pizza sem slær í gegn í hvert skipti sem ég býð vinum og fjölskyldu upp á hana. Ef þið hafið ekki prófað hvíta pizzu mæli ég með því að gera það á næsta pizzakvöldi.

Ég útbjó einfalt og gott pizzadeig sem bæði er hægt að gera í hrærivél og með höndunum. Ég nota aðferðina “slap and fold” sem mér finnst mjög þægileg til að fá gott deig. Í myndbandinu hér að neðan sjáið þið hvernig ég nota þá aðferð.

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Hagkaup og þar fáiði allt sem þarf í þessa gómsætu pizzu. Hagkaup standa sig svo vel í að bjóða upp á spennandi vegan vörur og við erum ekkert smá stoltar af því að fá að vinna með þeim.

Úr deiginu koma tvær pizzur sem ég myndi segja að hver um sig sé nóg fyrir tvær manneskjur. Sem gerir það að verkum að uppskriftin er fyrir fjóra EN ef þið eruð svakalega svöng, sem margir eru þegar verið er að baka pizzu mæli ég með því að gera tvöfalda uppskrift.

Mörgum finnst eflaust tilhugsunin um kartöflur á pizzu svolítið skrítin, en um leið og þið prófið munið þið sjá hversu ótrúlega gott það er. Galdurinn er að skera kartöflunar mjööög þunnt. Ég notaði mandólín. Ef þið eigið ekki svoleiðis og eigið erfitt með að skera sneiðarnar virkilega þunnt er ekkert mál að skella þeim á pönnu í stutta stund áður en þær fara á pizzuna. Við viljum nefnilega ekki hafa kartöflurnar hráar.

Athugið að á myndinni hér að ofan hef ég sett ristuðu möndlurnar á hana áður en ég bakaði hana. Það geri ég oft en þær eiga það til að brenna við, svo ég prófaði á seinni pizzunni sem ég bakaði að setja þær eftir á og þar sem möndlurnar eru þegar ristaðar og saltaðar fannst mér það betra svoleiðis.

Timían og kartöflur eru guðdómleg blanda að mínu mati. Þar sem pizzan er hvít er engin pizzasósa en í stað hennar smurði ég botninn með sýrðum rjóma sem ég hafði blandað við hvítlauk og smá salt. Ekkert smá gott!!

Vantar þig hugmynd af geggjuðum eftirrétti að bera fram eftir pizzuna? Hér er uppskrift af æðislega góðri súkkulaðimús með appelsínubragði.

Hvít pizza með kartöflum og timían

Hvít pizza með kartöflum og timían
Höfundur: Helga María
Hvít pizza eða pizza bianco, með sýrðum rjóma, kartöflum, rauðlauk, timían og chiliflögum. Eftir baksturinn er hún svo toppuð með klettasalati, ristuðum möndlum, vegan parmesanosti og sítrónuberki. Mín allra uppáhalds pizza sem slær í gegn í hvert skipti sem ég býð vinum og fjölskyldu upp á hana. Ef þið hafið ekki prófað hvíta pizzu mæli ég með því að gera það á næsta pizzakvöldi.

Hráefni:

Pizzadeig fyrir tvær pizzur
  • 500-550 g hveiti (byrjið á því að setja 500 og bætið við ef deigið er mjög blautt)
  • 6 g þurrger
  • 2 tsk salt
  • 2 tsk sykur
  • 4 msk ólífuolía
  • 350 ml vatn (35-37°c)
Hvít pizza með kartöflum og timían
  • Tvö pizzadeig annaðhvort heimagerð eða keypt
  • 250 ml sýrður rjómi frá Oatly
  • 1 hvítlauksgeiri
  • Salt
  • 200 gr rifinn epic mature cheddarostur frá Violife
  • 1 rauðlaukur
  • Kartöflur eftir smekk. Ég notaði sirka 2 litlar á hverja pizzu
  • Ferskt timían
  • Smá ólífuolía
  • Salt og chiliflögur
  • Eftir bakstur:
  • Klettasalat
  • Ristaðar og saltaðar möndlur
  • Hvítlauksolía
  • prosociano (parmesan) ostur frá Violife
  • Rifinn sítrónubörkur

Aðferð:

Pizzadeig fyrir tvær pizzur
  1. Hrærið saman hveiti, þurrgeri, sykri og salti í skál.
  2. Bætið vatni og ólífuolíu saman við.
  3. Deigið mun vera blautt í fyrstu, en hafið ekki áhyggjur. Ef þið notið hærivél hnoðið þar til deigið sleppist frá skálinni. Ef þið hnoðið með höndunum byrjið á því að setja svolítið af hveiti á borðið og hnoða það með blautum höndum og notið svo aðferðina slap and fold. Það er svolítið erfitt að útskýra aðferðina en í myndbandinu hér að ofan sjáiði hvernig ég geri. Þetta geri ég í svolitla stund eða þar til deigið fer frá því að vera blautt í að verða slétt og fínt.
  4. Látið deigið hefast í sirka einn klukkutíma í skál.
  5. Deila deiginu næst í tvennt og útbúið tvær kúlur með því að draga saman kantanna á deiginu. Þetta sýni ég líka í myndbandinu hér að ofan. Leggið viskastykki yfir kúlurnar og leyfið þeim að hefast í 20-30 mínútur í viðbót. Hitið ofninn, pizzasteininn eða pizzastálið á meðan á hæsta hita sem ofninn býður uppá.
  6. Fletjið deigið ekki út með kökukefli heldur notið hendurnar til að fletja út pizzurnar.
  7. Toppið deigið með því sem þið ætlið að hafa á (uppskrift af því hér að neðan) og bakið þar til pizzan hefur fengið lit og osturinn vel bráðnaður. Ég nota pizzastál sem ég hita á hæsta hita með ofninum í sirka 40 mínútur. Ég hef stálið hátt í ofninum og baka pizzuna beint á stálinu. Ég set 2 ísbita eða lítið eldfast mót með vatni í botninn á ofninum og loka honum svo. Það tekur mig bara 3-4 mínútur að baka pizzuna á stálinu. Þetta sýni ég líka í myndbandinu hér að ofan.
  8. Ef þið eigið ekki pizzastál og pizzaspaða myndi ég setja deigið á smjörpappír áður en þið toppið hana með álegginu og rennið því svo beint á ofnplötu.
Hvít pizza með kartöflum og timían
  1. Hrærið sýrðum rjóma saman við hvítlauksgeira og smá salt og smyrjið á pizzadeigið.
  2. Bætið rifnum osti yfir.
  3. Skerið kartöflurnar virkilega þunnt. Ég nota mandolin svo þær verða mjög þunnar. Ég held að ostaskeri ætti líka að geta virkað. Ef þið eigið ekki mandólín eða eigið erfitt með að skera kartöflurnar mjög þunnt er ekkert mál að steikja skífurnar örlítið fyrir svo að þær verði alls ekki hráar þegar pizzan er tilbúin. Skífurnar verða svo þunnar með mandolini að það er engin þörf á að steikja þær fyrir.
  4. Bætið rauðlauk og timían á pizzuna og toppið að lokum með smá ólífuolíu, salti og chiliflögum.
  5. Rennið pizzunni á pizzaspaða ef þið eigið svoleiðis. Mér finnst það enn erfiðasti parturinn en er að æfa mig. Bakið pizzuna þar til hún er orðin gyllt og osturinn vel bráðnaður. Ég skrifa hér að ofan í uppskriftinni að pizzadeiginu hvernig ég baka mínar pizzur á stálinu.
  6. Takið hana út og toppið með klettasalati, vegan parmesanosti, ristuðum og söltuðum möndlum, hvítlauksolíu, sítrónuberki og salti.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

Takk fyrir að lesa og vona að þér líki uppskriftin!

-Helga María

-Þessi færsla er gerð í samstarfi við Hagkaup-

 
 

Einföld og fljótleg kúrbítsbuff með kaldri sósu

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að einföldum og fljótlegum kúrbítsbuffum með indverskum kryddum bornum fram með kaldri sósu. Buffin eru hinn fullkomni hversdagsmatur þar sem það tekur enga stund að útbúa þau. Aðal uppistaðan er zucchini og kjúklingabaunahveiti sem geriri þau stútfull af góðri næringu!

Ég hef verið í miklu kúrbítsstuði síðustu mánuði og finnst gott að nota þau í allskonar matargerð og bakstur. Margir fatta ekki hversu mikið hægt er að gera við zucchini en ég nota það í súpur, pottrétti, buff, ríf það út í hafragraut og kökudeig og elska að skera það niður þunnt og nota sem álegg á pizzu. Möguleikarnir eru virkilega endalausir!

Mér finnst virkilega gott að útbúa allskonar buff heima, hvort sem það eru grænmetisbuff, vegan hakkabuff eða baunabuff. Ég hef gert þessi buff á allskonar hátt. Stundum bæti ég við rifnum gulrótum, kartöflum eða hvítkáli. Ég nota í raun það sem ég á til heima að hverju sinni. Í þetta sinn vildi ég hafa þau frekar einföld en var í stuði til að setja þau í indverskan búning. Ég notaði engifer, túrmerík, garam masala, kóríanderkrydd, kúmmín, frosið kóríander og chili. Útkoman varð dásamleg.

Buffin steiki ég á pönnu upp úr smá olíu en það er auðvitað hægt að baka þau í ofni eða air fryer líka. Ef þið bakið þau mæli ég með því að bæta örlítilli ólífuolíu út í deigið. Ég bar buffin fram með gómsætri kaldri sósu sem ég gerði úr meðal annars vegan sýrðum rjóma, hvítlauk, frosnu kóríander og sítrónusafa. Sósan passar fullkomlega með buffunum að mínu mati. Ég bar einnig fram mangó chutney með en steingleymdi að hafa það með á myndunum því miður, en það kom virkilega vel út með buffunum líka.

Einföld kúrbítsbuff með kaldri sósu

Einföld kúrbítsbuff með kaldri sósu
Fyrir: 2-3
Höfundur: Helga María
Í dag deilum við með ykkur uppskrift að einföldum og fljótlegum kúrbítsbuffum með indverskum kryddum bornum fram með kaldri sósu. Buffin eru hinn fullkomni hversdagsmatur þar sem það tekur enga stund að útbúa þau. Aðal uppistaðan er zucchini og kjúklingabaunahveiti sem geriri þau stútfull af góðri næringu!

Hráefni:

Kúrbítsbuff
  • 100 gr kjúklingabaunahveiti
  • 20 gr hrísgrjónahveiti
  • 400 gr rifinn kúrbítur
  • 2 vorlaukar
  • 1 msk rifið engifer
  • 2 tsk garam masala
  • 1 tsk túrmerík
  • 1 tsk kúmmín
  • 1 tsk kóríanderkrydd
  • 1 tsk lyftiduft
  • 1 msk frosið kóríander
  • chiliflögur
  • salt og pipar
Sósan:
  • 2 dl vegan sýrður rjómi
  • 2 rifnir eða pressaðir hvítlauksgeirar
  • 2 tsk frosið kóríander
  • 1 tsk laukduft
  • 2 tsk sítrónusafi
  • 2 tsk ólífuolía
  • Salt og pipar

Aðferð:

Kúrbítsbuff:
  1. Blandið kjúklingabaunahveiti, hrísgrjónahveiti, kryddum, lyftidufti, salti og pipar í skál.
  2. Rífið niður kúrbít, saxið vorlauk, rífið engifer og bætið út í skálina ásamt frystu kóríander og hrærið saman svo úr verði deig. Ég nota hendurnar við að hræra þessu saman.
  3. Hitið olíu á pönnu, búið til buff og steikið þar til þau fá gylltan lit.
Sósan:
  1. Blandið öllu saman í skál og berið fram með buffunum. Það er mjög gott að gera sósuna snemma svo hún geti fengið að standa aðeins í ísskápnum.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

Takk fyrir að lesa og vonandi líkar þér uppskriftin!

-Helga María <3

Vegan osta og brokkolí ofnréttur með hrísgrjónum

Við systur ætlum að vera duglegri þetta árið að deila með ykkur auðveldum og sniðugum hversdagsmat þar sem við fáum alltaf margar fyrirspurnir um það þegar við skoðum hvað þið vilja sjá meira af. Það er svo ótrúlega auðvelt að festast í því að elda alltaf það sama og svo er oft mjög yfirþyrmandi að ákveða hvað á að vera í matinn á hverjum degi. Mér kvöldmaturinn oft hanga yfir mér allan daginn þegar ég veit ekki búin að ákveða fyrirfram hvað ég eigi að hafa í matinn. Ég mæli því alveg 100% með því að gefa sér nokkrar mínútur á sunnudögum í að gera matseðil fyrir vikuna en það hjálpar mér ekkert smá mikið. Þá finnst mér oft mjög þægilegt að geta kíkt á netið og fundið hugmyndir af réttum.

Síðustu vikur hef ég verið að prófa mig mjög mikið áfram með rétti sem ekki þarf að standa yfir eða svokallað “one-pot” rétti. Ég er alveg að dýrka þessa eldunar aðferð en þetta eru sem sagt réttir þar sem öllu er skellt í eldfast mót eða pott og síðan látið eldast án þess að það þurfi að hræra í eða gera nokkuð. Það er svo mikil snilld fyrir þá daga sem ég nenni ekki að elda, að geta skellt öllu í eldfast mót og inní ofn og síðan bara gert hvað sem er í klukkutíma á meðan rétturinn eldast. Rétturinn sem ég deili með ykkur í dag er ótrúlega góður og það þarf ekkert að hafa fyrir honum, en ég mun klárlega deila fullt af svona uppskriftum með ykkur í framtíðinni!

Ofnrétturinn samanstendur af hrísgrjónum í botninum, brokkolí og vegan soyjakjöti yfir og er hann síðan ofnbakaður upp úr vegan cheddar rjómaostasósu. Þetta er hinn fullkomni heimilismatur, tekur enga stund og dugar fyrir 4 til 5 fullorðna ef það er meðlæti með. Hann er ótrúlega bragðgóður og hægt er að bera hann fram einan og sér eða með góðu meðlæti. Ég ber réttinn oftast fram með góðu fersku salati en þá er algjört lykilatriði að hafa nýja vegan fetaostinn frá Sheese með en það er nýr ostur sem kemur í teningum. Fetaostur var uppáhalds osturinn minn þegar ég var yngri og hef ég verið með þennan vegan ost með öllu sem ég borða síðan ég keypti hann fyrst. Mér finnst einnig passa mjög vel að hafa vegan hvítlauksbrauð með en það er hægt að gera sjálfur eða kaupa brauðið frá Hatting sem er tilbúið vegan hvítlauksbrauð og má að sjálfsögðu finna í Krónunni.

Mér finnst ótrúlega gott að búa til kryddlög fyrir fetaostinn líkt og venjan er hérna heima en það er ótrúlega einfalt og smakkast hann alveg eins og venjulegi fetaosturinn sem hægt er að kaupa í krukku út í búð. Í kryddlögin set ég eftirfarandi:

  • Vel af góðri ólífuolíu, ég hef verið að nota D.O.P olíuna frá Olifa

  • Timían

  • Rósmarín

  • Ítölsk hvítlauksblanda frá pottagöldrum

  • Grófmalaður pipar

  • Örlítið salt

Ég set mjög lítið af hveju kryddi fyrir sig og hræri þessu síðan aðeins saman.

Hráefni (réttur fyrir 4):

  • 2 dl hrísgrjón

  • 3 dl vatn + 2 grænmetisteningar

  • 1 cheddar rjómaostur frá Sheese

  • 250 ml vegan hafrarjómi

  • 2 msk ítalskt pastakrydd frá pottagöldrum

  • 3 hvítlauksgeirar

  • 1-2 tsk salt

  • 1 haus brokkolí

  • 4 litlir vorlaukar

  • 1 pakki vegan kjúklingur (t.d. oumph)

  • sirka 1/2 poki rifin epic mature cheddar frá Violife (eða það magn sem passar yfir réttinn)

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°C

  2. Hellið hrísgrjónum í stórt eldfast mót

  3. Leysið tvo grænmetisteninga upp í heitu vatni og hellið yfir hrísgrjónin

  4. Hrærið saman í skál rjómaostinum, vegan hafrarjóma, hvítlauksgeirum og kryddunum

  5. Hellið yfir hrísgrjónin og blandið aðeins saman við hrísgrjónin og vatnið.

  6. Skerið niður vorlauk og brokkolí og dreyfið yfir ásamt soyja kjötinu. Ýtið aðeins ofan í vökvan.

  7. Stráið rifna ostinum yfir réttinn

  8. Setjið álpappír yfir eldfasta mótið og eldið í ofninum í 50 mínútur. Takið þá álpappírinn af og leyfið réttinum að vera í 15 mínútur í viðbót í ofninum.

-Njótið vel

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefni í réttinn þar -

 
 

Vegan grænmetisbollur með grænu pestó

Nú er komið nýtt ár og því fylgir að sjálfsögðu veganúar. Margir hafa sett sér ný markmið og sumir með það markmið að gerast vegan eða minnka dýraafurðaneyslu. Okkur finnst þessi mánuður alltaf jafn skemmtilegur og fáum við mikið að skilaboðum frá fólki sem er að byrja að vera vegan sem er alltaf jafn gaman. Við ætlum því að sjálfsögðu að vera duglegar að deila með ykkur nýjum sem gömlum uppskriftum núna í janúar sem og alls konar öðrum fróðleik. Við mælum að sjálfsögðu með að allir fylgi okkur á Instagram þar sem við erum duglegar að sýna frá alls konar vegan tengdu.

Uppskriftin sem ég ætla að deila með ykkur í dag er af ótrúlega auðveldum og hollum grænmetisbollum með grænu pestói. Þessar bollur eru virkilega bragðgóðar og hægt er að bera þær fram á alls konar vegu. Það er einnig auðvelt að gera þær í stóru magni og mæli ég með að gera til dæmis þrefalda eða fjórfalda uppskrift og setja í frysti. Ég elska að eiga til góða og holla rétti í frystinum sem ég get gripið í þegar ég hef ekki mikinn tíma til að elda.

Í bollunum er, ásamt hnetum og baunum, grænt pestó sem gerir þær ótrúlega bragðmiklar og góðar. það þarf því ekkert að krydda þær aukalega þar sem basil-hvítlauksbragðið af pestóinu skín vel í gegn. Bollurnar eru stútfullar af góðum næringarefnum úr baununum og hnetunum og auðvelt er að gera þær glútenlausar með því að nota glútenlaust brauðrasp.

Bollurnar má bera fram á ótal vegu. Ég ber þær mjög oft fram með rjómapasta, en þá sýð ég gott pasta, geri einfalda rjómasósu á pönnu með vegan rjóma, rjómaosti, hvítlauk og grænmetiskrafti. Velti pastanu síðan upp úr sósunni og ber bollurnar fram með. Þá mæli ég með að hafa grænt pestó með sem hægt er að setja út á og jafnvel vegan parmesanost og hvítlauksbrauð.

Bollurnar henta einnig fullkomlega með kaldri sósu og grænmeti, hvort sem það er í pítubrauði, vefju eða með hrísgrjónum til dæmis. Þær má einnig borða kaldar og henta því mjög vel sem nesti.

Pestó grænmetisbollur (20-24 litlar bollur)

  • 1 dós pinto baunir

  • sirka 2 bollar eða 2 lúkur spínat, eða eftir smekk

  • 1 dl malaðar kasjúhnetur

  • 1/2 krukka grænt vegan pestó frá Sacla Italia

  • 1/4 laukur

  • 1 1/2 dl brauðrasp

  • 1/2 tsk salt

Aðferð:

  1. Byrjið á því að vinna kasjúhneturnar í blandara eða matvinnsluvél þar til fínmalaðar, setjið til hliðar.

  2. Setjið spínatið í blandarann eða matvinnsluvélina og maukið, bætið pinto baununum út í og maukið gróflega saman.

  3. Saxið laukinn mjög smátt og hrærið öllum hráefnunum saman í skál.

  4. Mótið kúlur eða buff úr deiginu en það á að vera þannig að þið getið meðhöndlað það í höndunum. Ef það er of blautt má bæta aðeins við af brauðraspi.

  5. Bakið við 200°C í 20 mínútur.

-Tillögur af því hvernig bera megi fram bollurnar má finna í færslunni hér að ofan. Njótið vel.

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Sacla Italia á Íslandi -

 
 

10 vinsælustu uppskriftirnar okkar árið 2021!

Gleðilegt nýtt ár kæru vinir!

Í dag langar okkur að taka saman okkar 10 vinsælustu uppskriftir árið 2021. Við erum orðlausar yfir því hversu mörg þið eruð sem lesið bloggið okkar í hverjum mánuði og hversu mikinn kærleika þið sýnið okkur allan ársins hring. Það gefur okkur svo gríðarlega mikið að heyra hvað ykkur finnst uppskriftirnar góðar. Öll skilaboð og athugasemdir sem við fáum frá ykkur hlýa virkilega um hjartarætur. Við gætum ekki verið heppnari með lesendur og fylgjendur. TAKK!

En á morgun birtum við fyrstu uppskrift ársins en í dag lítum við yfir liðið ár og sjáum hvað sló mest í gegn á blogginu! Við birtum þær ekki í neinni sérstakri röð heldur listum bara þær 10 vinsælustu!

Klassíska súkkulaðitertan okkar!

Þessi uppskrift er ein af okkar allra fyrstu hérna á blogginu og er á hverju ári á listanum yfir þær 10 vinsælustu. Við getum sagt að þessi kaka er sú allra mest bakaða á blogginu. Við skiljum vel af hverju. Hún er einföld, skotheld en á sama tíma gríðarlega bragðgóð og mjúk. Júlía tók sig til og myndaði kökuna aftur. Eins og ég sagði var þetta ein af okkar allra fyrstu uppskriftum og ljósmyndahæfileikar okkar hafa sem betur fer skánað töluvert síðan 2016 svo okkur fannst kominn tími til að fríska aðeins upp á færsluna. Uppskriftin er þó að sjálfsögðu ennþá sú sama, fyrir utan það að Júlía bætti inn í færsluna uppskrift af gómsætu súkkulaðiganache. Uppskrift af kökunni finniði HÉR!

Heitt rúllubrauð með aspas og sveppum!

Önnur uppskrift sem lendir alltaf á top 10 listanum á blogginu er heita aspas rúllubrauðið okkar. Þessi uppskrift er einnig ein af okkar fyrstu uppskriftum og ég man að ég var uppi í sumarbústað þegar ég ákvað skyndilega að prófa að skella í aspasbrauðrétt. Ég hafði ekki prófað að gera svoleiðis í mörg ár en hugsaði að það gæti ekki verið svo erfitt. Brauðrétturinn kom heldur betur vel út og smakkaðist alveg eins og mig hafði minnt. Ég brunaði á Selfoss með réttinn heim til ömmu og lét hana og Júlíu smakka og þeim fannst hann æðislega góður. Meira að segja ömmu sem er oft frekar skeptísk á vegan mat, allavega á þeim tíma. Daginn eftir gerði ég hann svo aftur og myndaði. Athugið að myndin hér að ofan er úr bókinni okkar. Uppskriftin á blogginu er gömul og myndirnar líka. Þetta er ein af þessum uppskriftum sem mig dauðlangar að mynda aftur. Júlía verður eiginlega að taka það að sér þar sem ég fæ ekki rúllubrauðið hérna í Svíþjóð. Uppskriftina af brauðréttinum finniði HÉR!

Döðlukaka með karamellusósu og ís!

Þessi kaka er í miklu uppáhaldi hjá mér og það kom mér eiginlega á óvart hversu vinsæl hún varð. Við höfðum aldrei verið beðnar um uppskrift af svona köku að ég held. Ég man eftir því að hafa séð marga baka svona fyrir einhverjum árum síðan en finnst ég aldrei vera vör við það lengur. Döðlukakan er virkilega gómsæt og mjúk og með karamellusósunni og vanilluís er þetta fullkominn eftirréttur. Ég mæli virkilega með því að prófa ef þið hafið aldrei gert það. Ég held ég verði að skella í hana bráðum. Ég gerði þessa færslu snemma árið 2019. Ég fæ mikla nostalgíu þegar ég sé þessa mynd því ég man að á þessum tíma 2018-2019 elskaði ég að prófa nýjar og spennandi uppskrift. Ég veganæsaði allar kökur sem mér datt í hug og var svo forvitin í eldhúsinu. Mér líður stundum eins og ég sakni þess tíma svolítið. Ég er enn forvitin og elska að gera uppskriftir en á þessum tíma lærði ég svo mikið af því sem ég kann núna í eldhúsinu og var svo gríðarlega stolt eftir hverja einustu færslu. En jæja nóg um það. Kakan er æði! Uppskriftina finniði HÉR!

Ofnbakað pasta með rauðu pestói!

Þessi fáránlega einfaldi og gómsæti pastaréttur sló í gegn á blogginu okkar á þessu ári. Eitt af því sem við systur höfum mikið rætt um að bæta okkur í er að pósta meira af hefðbundnum heimilislegum kvöldmat. Við elskum að veganæsa allskonar kökur og hátíðarrétti, eins og þið hafið líklega flest tekið eftir, en gleymum oft að birta “venjulegan mat”. Það sem við sjálfar eldum okkur í kvöldmat. Við tókum okkur svolítið á með það á síðastliðnu ári og það er svo sannarlega eitt af okkar markmiðum 2022 að gera ennþá meira af. Þessi pastaréttur er einmitt fullkominn kvöldmatur. Öllu hráefni er skellt í eldfast mót eða pott og eldað saman. Útkoman er dásamleg. Uppskriftina finniði HÉR!

Súkkulaðimöffins með súkkulaðibitum!

Möffins sem smakkast eins og á kaffihúsi. Hvað get ég sagt? Þetta eru þær allra bestu möffinskökur sem ég hef bakað. Það er kjánalegt að segja það en ég er virkilega stolt af þessari uppskrift. Ég man að það fór mikill tími og mikil orka í að búa uppskriftina til. Ég prófaði hana nokkrum sinnum og vildi alls ekki að þær væru þurrar. Eftir nokkrar tilraunir urðu þær alveg eins og ég vildi hafa þær. En það voru ekki bara kökurnar sem tóku nokkrar tilraunir heldur tók ég heilan dag í að mynda þær og myndirnar komu hræðilega út. Ég man að ég tók þær á brúnum bakgrunni og brúnu litirnir runnu saman í eitt. Daginn eftir tók ég mig saman og myndaði þær aftur og varð mun ánægðari með útkomuna. Uppskriftina finniði HÉR!

Mexíkósúpa!

Næst á dagskrá er ein önnur uppskrift sem lendir alltaf með þeim 10 vinsælustu á hverju ári. Mexíkósúpan sem Júlía birti árið 2017. Þessa súpu höfum við systur eldað svo oft og fáum aldrei leið á henni. Þetta er hin fullkomna súpa til að elda fyrir matarboð, afmæli eða aðrar samkomur þar sem sniðugt er að bera fram súpu. Hún er matarmikil, gómsæt og hægt að toppa hana með allskonar góðu. Við fengum fyrir einhverjum árum síðan skilaboð frá konu sem sagðist hafa eldað súpuna fyrir landbúnaðaráðherra Noregs og að hann hafi orðið yfir sig hrifinn. Það voru ein skemmtilegustu skilaboð sem við höfum fengið. Uppskriftina finniði HÉR!

Amerískar pönnukökur!

Við erum ekki hissar á því að amerískar pönnukökur séu á top 10 listanum yfir vinsælustu uppskriftirnar okkar. Við systur elskum að baka pönnukökur og gerum pönnsur óspart í morgunmat um helgar. Uppskriftina birtum við í byrjun 2017 og hana er einnig að finna í bókinni okkar. Psst. Það gæti mögulega verið ný pönnukökuuppskrift á leiðinni á bloggið ekki seinna en á morgun!! Myndin hér að ofan er úr bókinni okkar. Uppskriftina finniði HÉR!

Hamborgari með bjórsteiktum lauk og hamborgarasósu!

Djúsí og gómsætur hamborgari. Eitthvað sem allir elska. Við gerðum þessa uppskrift saman sumarið 2019. Ég var komin til Íslands til að dvelja þar yfir sumarið og við vorum að hefjast handa við að mynda uppskriftirnar fyrir bókina okkar. Við byrjuðum á því að mynda nokkrar uppskriftir fyrir bloggið og þessi gómsæti borgari var einn af þeim. Þetta var byrjun á dásamlegu sumri. Við mynduðum bókina og þroskuðumst mikið í okkar vinnu við það. Við byrjuðum líka að þróa uppskriftina af veganistuborgaranum sem er seldur á Hamborgarafabrikkunni. Mér hlýnar um hjartað við að sjá þessa færslu og við að sjá að ykkur líki hún svona vel. Uppskriftina finniði HÉR!

Frosin Amaretto ostakaka með ristuðum möndlum!

Árið 2021 var árið sem ég byrjaði að nota áfengi meira í matargerð og bakstur. Ég geri mér grein fyrir því að það er riskí að birta of mikið af svoleiðis uppskriftum því mörgum líkar það verr að gera uppskriftir sem innihalda áfengi og svo er flest áfengi mjög dýrt og fáir sem eiga lager af því og eru ekki spennt fyrir því að kaupa flösku af amaretto til að nota smávegis af því í eina ostakökuuppskrift. Á sama tíma hefur mér þótt gaman að fá að þroskast og læra meira um eldamennsku og ég er glöð þegar ég birti það sem mér þykir gott og skemmtilegt. Ég hef því leyft sjálfri mér að pósta uppskriftum sem innihalda líkjör, hvítvín og fleira í þeim dúr en passað að halda þeim uppskriftum undir takmörkum. Jafnvægið er best. Þessi kaka er sú sem ég kannski naut þess mest að gera á þessu ári. Að sjá hvernig bragðið og útlitið kom út akkúrat eins og ég hafði óskað mér gerði mig ótrúlega glaða og ég er mjög ánægð að sjá þegar þið útbúið hana! Uppskriftina finniði HÉR!

Tælensk núðlusúpa með rauðu karrý!

Síðasta uppskriftin á listanum er þessi gríðarlega fallega og gómsæta núðlusúpa með rauðu karrý og tófú sem Júlía birti á árinu. Súpan er annað dæmi um virkilega góðan kvöldmat. Júlía eyddi þremur mánuðum í Asíu fyrir nokkrum árum og varð mjög hugtekin af tælenskri matargerð. Þessi súpa er innblásin af öllum þeim gómsæta mat sem hún borðaði þar. Einstaklega falleg súpa sem er fullkomin fyrir vetrarmánuðina. Uppskriftina finniði HÉR!

Takk innilega fyrir að lesa og takk enn og aftur fyrir að þið eldið og bakið uppskriftirnar okkar, sendið okkur svo falleg skilaboð og sýnið okkur þennan gríðarlega stuðning. Við erum svo þakklátar fyrir ykkur öll að við erum að springa! <3

-Veganistur

Linsubauna "Shepert's pie"

IMG_9897.jpg

Mér finnst ég alltaf byrja þessar færslur á að tala um veðrið en það hefur snjóað af og til á landinu síðustu daga og hef ég þurft að skafa nánast alla morgna síðustu vikuna svo það er eiginlega bara ekki annað hægt. Matarvenjur mínar fara líka bara svo rosalega eftir veðri einhvernveginn, en það er akkúrat þess vegna sem ég ákvað að deila með ykkur þessari tilteknu uppskrift núna.

IMG_9874.jpg
IMG_9875.jpg

Uppskriftin er af svokallari “Sherpert’s pie” en ég held að það sé ekki mikil hefð fyrir því að fólk eldi þennan rétt hérna á Íslandi. Ég kynntist honum allavega ekki fyr en eftir að ég varð vegan þar sem það er mjög auðvelt að gera vegan útgáfu af alls konar svona bökum. Þessi útgáfu er mín uppáhalds en fyllingin er svo góð að það væri eiginlega hægt að borða hana á jólunum að mínu mat. Ég set rauðvín í sósuna sem gerir hana eitthvað svo hátíðlega og svo er kartöflumús líka í svo miklu uppáhaldi hjá mér.

Mér finnst þessi rétturinn vera fullkomin þegar það er kalt úti og tikkar í öll boxin yfir þennan svokallaða “comfort food”. Mér finnst líka einhvern veginn aldrei jafn skemmtilegt að kaupa gænmeti og á haustin þegar það er svo extra ferskt og mikið úrval í búðum, og því ákvað ég að hafa réttin stútfullan af fallegu grænmeti. Það má að sjálfsögðu nýta nánast hvaða grænmeti sem er í hann, sleppa einhverju eða skipta út eftir smekk hvers og eins. Ég set oft sveppi eða brokkolí út í ef ég á það til en mér finnst mikilvægast að það séu laukur, gulrætur og baunir í honum.

Uppistaðan í bökunni eru síðan linsubaunirnar en þær eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Þær draga svo vel í sig bragð og finnst mér áferðin á þeim einhvern veginn betri en á flestum öðrum baunum. Ég notaði baunirnar frá Oddpods þar sem það er svo einfalt að geta bara hent þeim út á pönnuna beint úr pakkningunni. Einnig eru baunirnar frá Oddpods soðnar upp úr grænmetiskrafti en það finnst mér gera þær bragðbetri en aðrar baunir og hentar það sérstaklega vel í rétti eins og þennan.

IMG_9917.jpg

Ég mæli með að elda stóra böku, en þessi uppskrift dugar fyrir 4-5 fullorðna, þar sem hún er eiginlega bara ennþá betri daginn eftir.

Linsubaunafylling:

  • 2 pakkar brúnar linsur frá Oddpods

  • 2-3 msk ólífuolía

  • 1 laukur

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 3 gulrætur

  • 3 stilkar sellerí

  • 1 dl frosnar grænar baunir

  • 250 ml vatn + 1 msk hveiti hrist saman

  • 250 ml hafrarjómi

  • 1 sveppateningur

  • 1 msk dijon sinnep

  • 3 msk eða ein lítil dós tómatpúrra

  • 1-2 msk soyasósa

  • 1/2 dl rauðvín

  • 2 lárviðarlauf

  • salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Byrjið á því að skera niður allt grænmeti í litla kubba.

  2. Steikið upp úr ólífuolíu þar til grænmetið fer að mýkjast

  3. Bætið baununum út í ásamt smá salti og pipar og steikið í nokkrar mínútur í viðbót á meðalhita.

  4. Bætið restinni af hráefnunum út í og hrærið vel saman. Leyfið suðunni að koma upp og sjóðið í u.þ.b. 5 mínútur. Smakkið til með salti og pipar

  5. Setjið í eldfast mót, útbúið kartfölumúsina og dreyfið henni jafnt yfir. Bakið við 200°C í 15 mínútur eða þar til kartöflumúsin verður fallega gyllt að ofan.

  6. Passið að taka lárviðarlaufin úr þegar bakan er borðuð.

Kartöflumús

  • 1 kg kartöflur

  • 150 gr smjörlíki eða vegan smjör

  • 1-2 dl haframjólk

  • vel af salti (eftir smekk)

Aðferð:

  1. Sjóðið kartöflurnar í u.þ.b. 20 mínútur eða þar til þær eru mjúkar í gegn þegar stungið er gaffli í þær.

  2. Afhýðið kartöflurnar og stappið saman með kartöflustappara eða setjið í gegnum kartöflupressu.

  3. Setjið kartöflurnar, smjörlíki og 1 dl af mjólk saman í pott og hrærið vel í á lágum hita. Bætið við salti og haframjólk eftir þörfum.

-Við mælum með að bera réttinn fram með fersku salati og hvítlauksbrauði en það má líka bera hann fram einan og sér.

- Þessi færsla er í samstarfi við OddPods á Íslandi -

 
Oddpods-logo---edited.png
 

Heimagert sushi með vinkonunum

Eitt af því skemmtilegasta sem ég veit er að fá fólk í mat og hvað þá vinkonur mínar. Ég er lengi búin að vera með það á planinu mínu að fá þær til mín í heimagert sushi og lét loksins verða af því núna í kvöld. Sushi er einn af mínum uppáhalds mat en ég hef aldrei prófað að gera það heima áður.

IMG_9793.jpg

Ég rak augun í þessari fallegu vörur í Krónunni snemma í vor og ákvað þá strax að láta loksins verða af því að prófa að gera sushi heima. Ég hafði oft miklað þetta fyrir mér og hélt að það væri ægilegt vesen að gera þetta, en þegar ég sá þessar vörur allar saman á einum stað þá vissi ég að ég hlyti að geta þetta. Ég keypti því bara allt sem tengdist sushigerð sem ég sá í hillunum og skoðaði síðan vörurnar vel. Ég sá að aftan á hrísgrjónapakkanum eru ítarlegar leiðbeiningar um hvernig sjóða eigi grjónin rétt og hverju eigi að bæta út í þau. Það fannst mér mjög mikill plús og var þar með allur hausverkurinn farinn.

Ég var með alveg óteljandi hugmyndir um hvað ég gæti sett inn í rúllurnar en ákvað að gera í þetta skiptið þrenns konar rúllur og prófa þá meira næst. Ég vissi strax að mig langaði að prófa að nota einhvers konar vegan soyakjöt í eina og ákvað að kaupa vegan “kjúklinga”nagga og skera í strimla. Með þeim setti ég gufusoðna sæta kartöflu, avocado og smá vorlauk og bar þær síðan fram með chilli majónesi og guð hvað það koma út. Hinar gerði ég aðeins hefðbundnari en það má sjá lista yfir hvað ég setti í hverju rúllu neðst í færslunni. Næst langar mig klárlega að prófa að djúpsteikja til að líkja eftir svokölluðum eldfjallarúllum, en þær eru ótrúlega góðar!

Ég gerði eina og hálfa uppskrift af grjónum miðað við það sem stendur aftan á pakkanum og náði að gera 5 stórar rúllur úr því. Ég skar hverja rúllu í 8 bita og vorum við þá með 40 bita samtals eða um 20 bita á mann. Það var meira en nóg en myndi ég áætla um 14-16 bita á mann af svona stórum bitum fyrir hvern fullorðin næst.

IMG_9830.jpg

Þegar ég var að versla í Krónunni rak ég augun í óáfengt rósavín og ákvað að kippa einni flösku með þar sem mér fannst það fullkomið fyrir óléttu mig og ég bara varð að hafa það með hérna þar sem það var svo ótrúlega gott. Mæli alveg hiklaust með að kaupa þannig ef þið drekkið ekki áfengi en viljið hafa eitthvað extra gott að drekka.

IMG_9816.jpg

Það kom mér mikið á óvart hvað þetta var auðvelt og hversu vel rúllurnar heppnuðust. Ég “googlaði” smá og horfði á stutt myndband um hvernig best væri að rúlla og sá að það er best að hafa plastfilmu á milli hráefnana og sushimottunnar, rúlla síðan alveg ótrúlega þétt og loka rúllunni inn í plastfilmu svo hún sé lokuð alveg þétt saman. Ég gerði það og þegar ég tók rúllurnar úr plastinu voru þær alveg lokaðar og ekkert mál að skera þær í bita. Það er þó best að vera með mjög beittan hníf því annars er hætta á að kremja rúllurnar.

IMG_9814.jpg

Þrjár mismunandi sushi rúllur

  • Sjóðið hrísgrjónin eftir leiðbeiningum á pakkanum

  • 1 pakki af nori blöðum eru 6 blöð

  • Ég bar sushíið fram með

    • Sushi engifer

    • Soyasósu

    • Wasabi

    • Shriracha sósu

    • Chilli majónes (hræra saman 1 dl af vegan majónesi + 1/2 tsk af chilli mauki (sambal oelek))

Rúlla #1

  • Vegan naggar

  • Avocado

  • Sæt kartafla (gufusoðið og leyft að kólna alveg)

  • Vorlaukur

  • Chilli majónes (sett ofan á eða dýft í)

Rúlla #2

Rúlla #3 (rúlluð öfugt svo hrísgrjónin voru utan á)

  • Smá sesam fræ til að stráutan á rúlluna

  • Gúrka

  • Avocado

  • Vorlaukur

Það má að sjálfsögðu breyta innihaldinu eins og hver og einn vill og setja nánast hvað sem er inn í rúllurnar. Þetta eru mínar hugmyndir eftir kvöldið en ég mun klárlega prófa mig áfram með alls konar fleiri hráefni á næstunni.

- Færslan er unnin í samstarfi við Krónuna -

 
KRONAN-merki.png
 

Tómat og ostapasta með Violife "feta"osti.

Fyrir um það bil ári síðan, þegar Covid var ný byrjað og ég lá heima í nokkrar vikur eftir aðgerð, “downloadaði” ég í fyrsta skipti Tik Tok forritinu. Ég var MJÖG fljót að þefa uppi alls konar matar og baksturs “aðganga” en ég get legið yfir skemmtilegum matarmyndböndunum á Tik Tok oft tímunum saman. Það hafa ótal matar “trend” sprottið upp á forritinu sem ég elska að fylgja og prófa að gera sjálf heima hjá mér.

Fyrir ekki svo löngu fór ég, og líklegast flestir sem eru á samfélagsmiðlum, að sjá endalaust af mjög auðveldri pastauppskrift á netinu sem samanstóð af tómötum, hvítlauk og fetaosti. Ég vissi strax að ég yrði að gera þessa uppskrift vegan með violife greek white block ostinum þar sem ég hef mjög góða reynslu af honum. Ég prófaði að gera vegan útgáfu af pastanu fyir u.þ.b. mánuði síðan og er þetta ein sú auðveldasta uppskrift sem ég veit um.

Pastað kom ótrúlega vel út með vegan ostinum og eftir að ég deildi með ykkur myndbandi af því á Instagram fékk ég fullt af spurningum út í uppskriftina svo ég ákvað að koma henni hérna inn fyrir ykkur. Ég hef eldað þennan rétt margoft síðustu vikurnar og mér finnst þetta vera fullkomin réttur þegar ég veit ekki hvað ég á að hafa í matinn eða nenni ekki að elda. Ég einfaldlega hendi pasta í pott, restinni af hráefnunum inn í ofn og blanda þessu síðan saman hálftíma seinna. Alveg fullkomið þegar það er mikið að gera.

IMG_0183.jpg

Hréfni (fyrir 4):

  • 300 gr pasta

  • 4 msk olífuolía

  • u.þ.b. 300 gr af kirsuberjatómötum eða öðrum litlum tómötum

  • 1 pakki violife greek white block

  • 3 hvítlauksrif

  • 1 msk óregano eða aðrar ítalskar jurtir

  • Smá fersk basilíka (má sleppa)

  • Vel af salti

Aðferð:

  1. Setjið ólífuolíu, tómatana í hvítlauksrifin í eldfast mót eða pönnu sem má fara í ofn. Ég hef hvítlauksrifin heil með hýðinu á. Hrærið tómatana saman við olíuna og myndið síðan gat í miðju mótinu fyrir ostin. Leggið heilan ost í mitt formið og hellið örlítið af olíu yfir hann. Stráið saltinu og óreganóinu yfir ostinn og tómatana.

  2. Bakið í 200°C heitum ofni í 25-30 mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður og tómatarnir orðnir vel grillaðir að ofan.

  3. Sjóðið pastað samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum á meðan að tómatarnir og osturinn eru í ofninum.

  4. Takið ostinn úr ofninum, pressið hvílauksrifin úr hýðinu og takið það frá. Stappið tómatana og hvítlaukinn vel saman við gríska ostinn og hellið síðan pastanum út í og blandið vel saman. Rífið nokkur basilíkulauf yfir og bætið við smá salti ef ykkur finnst það þurfa.

IMG_0179.jpg

-Njótið vel og takk fyrir að lesa. <3

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Violife á íslandi

 
violife-logo-1.png
 

Pítsa með rauðu pestó og ceasar dressingu.

Pítsur eru í miklu uppáhaldi hjá mér og líkt og hjá mörgum hef ég oftar en ekki pítsu í matinn á föstudagskvöldum. Eftir að ég varð vegan fór ég að prófa mjög mikið af msimunandi hráefnum ofan á pítsur og elska ég að finna nýjar samsetningar sem koma vel út. Þegar ég bjó í Danmörku kynntist ég því að setja grænt salat og salatdressingar ofan á pítsur og það hefur verið í miklu uppáhaldi hjá mér núna síðustu mánuði.

Ég hef mikið verið að nota salat dressingarnar úr vegan línunni frá Sacla en þær eru ótrúlega ferskar og góðar og passa fullkomlega ofan á pítsur. Áður en ég fékk þær í hendurnar notaði ég oft majónessósur í þetta en ég fékk alltaf smá ógeð eftir nokkrar sneiðar þar sem majónessósur eru mikið feitari og þyngri að mínu mati. Þess vegna hef ég verið í skýjunum eftir að ég fékk Sacla sósurnar. Bæði Ceasar sósan sem ég nota í þessari uppskrift og Blue cheese sósan frá þeim passa fullkomlega ofan á pítsu. Ég nota venjulegt salat ofan á, frekar en klettasalat þar sem mér finnst það passa betur með salatdressingunum.

Hráfeni:

  • Pítsadeig (annað hvort heimagert eða keypt deig)

  • Rautt pestó úr vegan línu Sacla Italia

  • Rauðlaukur

  • Rauð eða gul papríka

  • Rifinn vegan ostur (ég nota alltaf origianl violife ostinn)

  • 3 msk olífuolía + örlítið salt

  • Grænt salat

  • sirka 1/2 flaska Ceasar sósa frá Sacla italia

Aðferð:

  1. Stillið ofnin á 220°C blástur

  2. Fletjið út pítsadeigið og smyrjið með vel af rauða pestóinu.

  3. Skerið rauðlaukinn og papríkuna í strimla og dreyfið á deigið. Dreyfið ostinum yfir, hellið ólífuolíunni yfir ostinn og stráið smá salti yfir.

  4. Bakið pítsuna í ofninum þar til osturinn bráðnar og deigið verður fallega gyllt í könntunum. Tekur sirka 12 mínútur.

  5. Skerið salatið niður og dreyfið yfir pítsuna þegar hún kemur út úr ofninum. Hellið sósunni yfir pítsuna, notið það magn sem hver og einn vill.

Takk fyrir að lesa og njótið vel.

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Sacla Italia á Íslandi

 
sacla-logo.png
 

Mexíkóskar chorizo kjötbollur

Eins og flestir sem skoða bloggið okkar eða fylgjast með okkur á Instagram vita, þá elskum við systur mexíkóskan mat mjög mikið. Ég er líklega með einhvers konar mexíkóskan mat í kvöldmatinn í hverri viku og er ég alltaf að prófa að gera nýjar útfærslur á uppáhalds uppskriftunum mínum.

Ég er lengi búin að ætla að gera uppskrift af einhvers konar kjötbollum með svörtu doritosi og eftir að ég gerði ofnbakað nachos með chorizo pylsunum frá Anamma í fyrra datt mér í hug að þær myndu passa fullkomlega í kjötbollurnar.

Ég notaði því formbar hakkið frá Anamma, sem er lang besta hakkið til að gera bollur og borgara að mínu mati, ásamt chorizo pylsunum í bollurnar. Þessi tvenna kom virkilega vel út en pylsurnar eru mjög bragðmiklar og gera bollurnar extra bragðgóðar.

Þessi uppskrift er alls ekki flókin og má nota hana til að gera bollur, borgara eða sem einskonar “fyllingu” ofan á nachos eða í quesadilla. Ég bakaði mínar í ofni og bar þær fram með hrísgrjónum og guacamole en það er einnig mjög gott að steikja þær og nota í vefjur.

IMG_9884.jpg

Hráefni (fyrir 4-5) :

  • 350 gr formbar anamma hakk

  • 2 stk chorizo pylsur frá anamma

  • 1/2 rauðlaukur

  • 2 hvítlauksrif

  • 1/2 dl rifinn vegan ostur

  • 1/2 dl mulið svart doritos

  • 1/2 dl niðursaxað kóríander

  • 1 msk mexíkósk kryddblanda (t.d. taco krydd eða mexican fiesta

  • 1 tsk salt.

Aðferð:

  1. Leyfið Anamma hakkinu og chorizo pylsunum að þiðna áður en byrjað er að hræra restinni af hráefnunum saman við. Ég nota oftast örbylgjuofn til að þíða “kjötið”.

  2. Saxið niður rauðlaukinn og kóríanderinn, myljið svarta doritosið og pressið hvítlaukinn.

  3. Stappið chorizo pylsurnar með gaffli og hrærið saman við hakkið ásamt restinni af hráefnunum.

  4. Mótið bollur eða fjóra hamborgara úr hakkinu.

  5. Steikið bollurnar eða hamborgarana upp úr smá ólífuolíu í nokkrar mínútur á hverri hlið eða eldið þær í bakarofni í sirka 15 mínútur við 210°C.

  6. Ég hrærði 1 krukku af salsasósu saman við 1/2 dl af vatni, hellti yfir bollurnar og setti rifin vegan ost yfir. Þetta bakaði ég síðan í 15 mínútur í 210°C heitan ofn.

Það er fullkomið að bera þessar bollur fram með hrísgrjónum, guacamole og fersku salati eða með því meðlæti sem hver og einn kýs að nota.

Þessi uppskrift hentar fullkomlega í að gera mexíkóska hamborgara en ég setti quacamole, salsasósu, ferskt grænmeti, jalapeno og tortilla flögur á minn borgara.

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi.

 
anamma_logo.png
 

Buffalo pizza með Blue Ch**se dressingu frá Sacla Italia

IMG_9414-2.jpg

Pizzur eru í mjög miklu uppáhaldi hjá mér líkt og örugglega hjá mjög mörgum öðrum. Ég elska að prófa mig áfram með alls konar hráefni þar sem pizzur eru einn af þeim réttum sem hægt er leika sér endalaust með og hver og einn getur gert eftir sínu höfði. Vegan hráefnin sem eru í boði í dag í pizzagerð eru ekkert smá fjölbreytt og góð og því er ekkert mál að gera ótrúlega góðar vegan pizzur!

IMG_9424-2.jpg

Ein af mínum uppáhalds pizzum hefur lengi verið Buffalo pizzan á Íslensku Flatbökunni og þegar ég fékk í hendurnar þessa frábæru Blue Ch**se sósu frá Sacla Italia sem líkist einna helst gráðaostasósu vissi ég að ég þyrfti að prófa að gera buffalo pizzu heima. Ég er mjög mikið fyrir það að setja einhvers konar salat yfir pizzur hvort sem það er bara venjulegt iceberg eða klettasalat, og góða svona auka sósur yfir. Þessi sósa er fullkomin í slíkt, hvort sem að fólk vill buffalo pizzu eða einhvers konar öðruvísi pizzu með smá extra “gúrmi” yfir þá hentar hún fullkomlega.

IMG_9444-2.jpg
IMG_9448-2.jpg

Þessi pizza kemur ekkert smá vel út og er sósan alveg æðislega góð. Hún var rosalega auðvelt en ég keypti bara tilbúið deig út í búð til að gera eldamennskuna ennþá þægilegri en í dag geri ég alltaf sjaldnar og sjaldnar pizzadeig frá grunni heima þar sem það eru komin svo mikið af frábærum tilbúnum pizzadeigum í búðir sem eru bara svo góð. Við erum þó að sjálfsögðu með frábæra uppskrift af pizzadeigi hérna á síðunni sem má líka nýta í þessa uppskrift. Blue Ch**se sósan er það sem tekur pizzuna upp á annað stig en ég hef líka verið að prófa hana í alls konar rétti, t.d. einföld salöt og með buffalo blómkálsvængjum og get ég alveg 100% mælt með henni!

IMG_9467-2.jpg

Hráefni:

  • 100 ml pizzasósa

  • 2 msk vorlaukur

  • 100 gr soyjakjöt

  • 100 ml sterk buffalo sósa (buffalo hot sauce)

  • 1 dl vegan ostur

  • 1 bolli niðursaxað gott salat

  • ½ krukka blue cheese sósa frá Sacla Italia

Aðferð:

  1. Hitið ofnin í 220°C

  2. Fletjið pizzadeigið út og smyrjið það með pizzasósunni. Drefið síðan ostinum yfir sósuna.

  3. Blandið soyjakjötinu saman við buffalo sósuna og raðið yfir ostinn ásamt vorlauknum.

  4. Bakið pizzuna við 220°C í 12 mínútur eða þar til osturinn fer að bráðnar og skorpan verður fallega gyllt. Mér finnst gott að hella smá ólífuolíu eða hvítlauksolíu yfir pizzuna áður en ég baka hana en þannig finnst mér osturinn bráðna betur.

  5. Skerið salatið niður og dreifið yfir pizzuna þegar hún kemur úr ofninum og hellið síðan yfir vel af Blue Cheese sósunni frá Sacla Italia.

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Sacla Italia á Íslandi.

 
Sacla_HR.png
 

Hollt og gott Enchilada úr korter í 4 kælinum í Krónunni │ Veganistur x Krónan │ AD

Hráefni:

  • 1 pakki kjúklingabaunasalat úr korter í 4 kælinum

  • 1 pakki fajitas grænmeti úr korter í 4 kælinum

  • 1 pakki hrísgrjón með sveppum úr korter í 4 kælinum

  • 1 krukka tómat og ólífusalsa úr korter í 4 kælinum eða venjuleg salsasósa

  • safi úr hálfu lime

  • 6-8 maís tortilla pönnukökur (má líka nota venjulegar tortillakökur)

  • 100-150 ml vegan rjómaostur

  • Avókadósalat

    • 2-3 avókadó

    • 2 stórir tómatar eða um 6 litlir

    • safi úr hálfu lime

    • salt og pipar

    • ferskt kóríander

Aðferð:

  1. Hitið ofninn við 200°C

  2. Blandið kjúklingabaunasalati, fajitas grænmeti og hrísgjrónum saman í skál ásamt salsanum, geymið 2-3 msk af salsa til að smyrja yfir réttinn í lokin.

  3. Smyrjið hverja tortilla köku með smá vegan rjómaosti, setjið fyllingu inn í, rúllið upp og raðið í eldfast mót.

  4. Smyrjið smá rjómaosti og salsa yfir hverja rúllu fyrir sig.

  5. Bakið í ofninum í 20 mínútur.

  6. Útbúið avókadó salatið með því að skera niður avókadó og tómata og hræra það saman með lime safanum, salti og pipar og sökuðu fersku kóríander.

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna

KRONAN-merki.png

Veganistur X Krónan │ Einfaldur ofnréttur úr Korter í 4 kælinum í Krónunni │ AD

Hráefni:

  • 1 pakki svartbaunabuffborgari frá Korter í 4

  • 1 pakki Kartöflusalat frá Korter í 4

  • 1 pakki piparsósa frá Toro

  • Nokkrar gulrætur

  • 1-2 msk olía

  • Einfalt salat

    • Kál

    • Gúrka

    • Tómatar

    • Kryddjurtadressing frá Korter í 4

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°c

  2. Takið borgarana úr pakkanum, setjið þá í skál og blandið saman. Skiptið í fjóra hluta og mótið úr þeim fjórar pylsur.

  3. Hellið olíu í eldfast mót og leggið pylsurnar í mótið ásamt kartöflusalatinu og niðuskornum gulrótum. Stráið grófu salti yfir og setjið í ofninn í sirka 12 mínútur

  4. Útbúið sósuna á meðan eftir leiðbeiningum á pakkanum.

  5. Skerið niður salat, kál, gúrku og tómatata og setjið í skál. Hellið yfir kryddjurtadressingunni og blandið saman.

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna.

 
KRONAN-merki.png
 

Aspassúpa og hátíðar meðlætið │ Veganistur TV │ 7. þáttur

Aspassúpa

  • 75 gr vegan smjör eða smjörlíki

  • 1 dl hveiti

  • 2 dósir niðursoðinn aspas (soðið og aspasinn)

  • 2 lítrar Oatly Barista mjólkin

  • 4 msk grænmetiskraftur (2 grænmetisteningar)

  • 2 tsk salt

  • 1/2 lítri Oatly iMat matreiðslurjómi

Aðferð:

  1. Bryjið á því að bræða smjörlíki í stórum potti. Þegar smjörlíkið er bráðið setjið hitan á hellunni niður á miðlungs eða lágan hita.

  2. Stráið hveitinu út í smjörið og hrærið það saman í hveitibolli, Bollan á að vera frekar þurr.

  3. Hellið soðinu af tveimur aspadósum í könnu og bætið út í pottinn í nokkrum skömmtum og hrærið vel saman við hveitibollunna. Ekki setja of mikið vökva út í pottinn í einu því þá er líklegra að kekkir myndist í súpunni.

  4. Þegar allt soðið er komið saman við bætið hálfum lítra af mjólkinni saman við og hrærið vel og síðan restinni af mjólkinni.

  5. Bætið grænmetiskrafti og saltinu saman við og leyfið því að hitna þar til suðan kemur upp.

  6. Þegar suðan er komin upp bætið matreiðslurjómanum og aspasinum saman við og hitið í nokkrar mínútur í viðbót.

  7. Berið fram með hvítu hveitibrauði.

Pipar sveppasósa

  • 25 gr vegan smjör eða smjörlíki

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 200 gr sveppir

  • 2 tímían stilkar (ferkst)

  • salt og pipar

  • 1 bréf piparsósa

  • 250 ml vatn

  • 2 msk grænmetiskraftur (1 grænmetisteningur)

  • 250 ml Oatly iMat matreiðslurjómi

  • 1 tsk rifsberjahlaup eða rifsberjasulta

Aðferð:

  1. Skerið sveppina í þunnar sneiðar, kremjið hvítlaukinn og setjið út á heita pönnu mðe vegan smjörinu og tímían stilkunum.

  2. Steikið í nokkrar mínútur þar til að vökvi fer að myndast úr sveppunum.

  3. bætið vatninu, piparsósunni og grænmetiskraftinum út á pönnuna og hrærið saman þar til duftið er alveg komið saman við vatnið.

  4. Bætið rjómanum og rifsberjasultunni saman við og leyfið suðunni að koma upp. Sjóðið í sirka 5 mínútur.

Brúnaðar kartöflur (10 meðalstórar kartöflur)

  • 10-12 soðnar litlar kartöflur

  • 50 gr vegan smjör

  • 100 gr sykur

  • 1/2 dl Oatly-hafrarjómi

Aðferð:

  1. Bræðið sykurinn á meðalhita á pönnu og passið að fylgjast vel með.

  2. Setjið smjörið útí um leið og sykurinn er bráðinn svo hann brenni ekki.

  3. Þegar smjörið er bráðið er slökkt undir, rjómanum hellt útí og hrært standslaust í hálfa mínútu áður en kartöflunum er helt út í.

Eplasalat

  • 2 meðalstór græn epli

  • 1 bolli græn vínber

  • 1 dl Oatly sýrður rjómi

  • 1/2 dl þeyttur vegan rjómi

Aðferð:

  1. Takið hýðið af eplunum og skerið niður í litla kúbba

  2. Skerið vínberin í tvennt

  3. hrærið sýrða rjómanum og þeytta rjómanum saman við ávextina í stórri skál.

-Njótið vel

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna og Oatly á Íslandi

 
 
KRONAN-merki.png
Oatly_logo_svart.png
 

Tortellini með Anamma pylsum

Það eru líklegast margir sem hafa sjaldan eytt jafn miklum tíma heimavið og á þessu ári. Ég er allavega ein af þeim og hefur nánast allt, skólinn, vinnan og fleira færst heim, og það er ekkert skrítið við það lengur að vera lang oftat heima í hádeginu. Mér hefur fundist nauðsynlegt á þessum tímum að luma á góðum, fljótlegum uppskriftum, sérstaklega fyrir hádegin þegar ég er á kafi í einhverju og vil ekki eyða of miklum tíma í að elda.

Ein af þeim uppskriftum sem ég hef mikið gripið í síðustu mánuði er þetta einfalda tortellini með Anamma pyslunum. Þetta er þó svo einföld uppskrift að það er varla hægt að kalla þetta uppskrift. Ég er búin að vera með algjört æði fyrir þessu vegan tortellini sem ég fann í vegan búðinni í skeifunni fyrr á árinu. Ég hef ekki borðað tortellini áður frá því að ég varð vegan svo ég var mjög spennt þegar ég fann þetta.

Þessi vara olli mér svo sannarlega engum vonbrigðum. Það er virkilega bragðgott og þarf mjög lítið að gera svo það verði að gómsætri máltíð. Ég hef einnig borðað mikið af anamma pylsunum og förum við oftast með tvo eða þrjá poka á viku á mínu heimili. Mér finnst algjör snilld að stappa pylsurnar niður og gera þær að einskonar hakki. En líkt og tortelliníið eru þær mjög bragðgóðar og þarf lítið að gera við þær aukalega þegar þær eru notaðar í mat.

Rétturinn verður því til á nokkrum mínutum, það þarf fá hráefni og lítið umstang í kringum eldamennskuna en það finnst mér akkúrat það besta við þessa uppskrift. Þessi réttur hentar líka fullkomlega sem nesti og er ekki síðri þó hann sé orðin kaldur þegar maður gæðir sér á honum.

Hráefni

  • 1 pakki PORCINI tortellini

  • 2-3 anamma vegokorv pylsur

  • 50 gr vegan smjör eða smjörlíki

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 1 lítill vorlaukur

  • 1 dl söxuð fersk steinselja (má nota 1-2 msk þurrkuð steinselja)

  • smá salt og pipar

Aðferð:

  1. Byrjið á því að setja vatn í pott, bíða eftir að suðan komi upp og sjóða tortelliníið eftir leiðbeiningum á pakkningunni

  2. Þíðir pyslurnar, t.d. í örbylgjuofni ef þær hafa ekki fengið tíma til að þiðna) og stappið þær síðan með gaffli þar til þær verða að mauki.

  3. Brærðið smjörið á pönnu og bætið síðan vorlauknum, hvítlauknum og pylsunum út á og steikið.

  4. Þegar pylsurnar eru orðan steiktar og orðnar að góðu hakki bætið þá steinseljunni og soðnu tortellini út á og steikið í 2 til 3 mínútur í viðbót.

-Njótið vel

Þessi færsla er unninn í samstarfi við Anamma á íslandi og Tortellini var gjöf frá vegan búðinni.

 
anamma_logo.png
 

Svartbaunaborgari og hlaðnar franskar │ Veganistur TV │ 4. þáttur

Svartbaunaborgari (4-6 borgarar)

  • 2 dósir svartar baunir

  • 2-3 cm vorlaukur

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 2 dl malaðar kasjúhnetur

  • 1 dl rifin vegan ostur frá Violife

  • 1 dl malað haframjöl

  • salt og pipar

  • 2 tsk laukduft

  • 1 msk hamborgarakrydd (t.d. “best á hamborgaran” eða kryddið frá Kryddhúsinu)

Aðferð:

  1. Stappið svörtu baunirnar með kartfölustappara eða gaffli eða setjið þær í matvinnslúvél eða hrærivél og maukið þær vel.

  2. Saxið niður vorlaukinn og pressið hvítlaukinn og bætið út í.

  3. Blandið restinni af hráefnunum út í og hrærið vel saman.

  4. Skiptið deiginu í fjóra til sex hluta og mótið hamborgara úr hverjum parti.

  5. Bakið borgarana í 200°C heitum ofni í 15 til 20 mínútur eða steikið á pönnu í nokkrar mínútur á hverri hlið.



Hollari hamborgarasósa

  • 1 dós Oatly sýrður rjómi

  • 1/2 dl tómatsósa

  • 1-2 msk saxaðar súrar gúrkur

  • 1 tsk laukduft

  • 1 tsk paprikusuft

  • smá salt

Aðferð:

  1. Saxið niður súru gúrkurnar.

  2. blandið öllu saman í skál.



Hlaðnar franskar

  • 1 pakki vöfflufranskar

  • 1/2 - 1 pakki Original rifin ostur frá Violife

  • 2 msk ólífuolía

  • 1 tsk hvítlauksduft

  • 1 msk þurrkur steinselja

  • 1 tsk salt

  • Jalapeno úr krukku (má sleppa)

  • 1 dós Oatly sýrður rjómi

  • avocado

  • tómatar

  • smá af hamborgarasósunni

Aðferð:

  1. Ég byrjaði á því að djúpsteikja franskarnar í nokkrar mínútur í djúpsteikingarolíu, en því má alveg sleppa.

  2. Setjið franskarnar í fat eða pönnu sem má fara í ofn.

  3. Hrærið saman í skál ostinum, olíunni, hvítlauksduftinu, steinseljunni og saltinu og stráið yfir franskarnar.

  4. Raðið jalapenoinu yfir og bakið franskarnar í 210°C heitum ofni í 15 mínútur eða þar til osturinn verður fallega gylltur.

  5. Hellið sýrða rjómanum yfir franskarnar þegar þær koma úr ofninum ásamt avocadoinu, tómötunum og smá af hamborgarasósunni.

-Njótið vel

Þessi færsla en unnin í samstarfi við Krónuna og Oatly á Íslandi

 
KRONAN-merki (1).png
Oatly_logo_svart (1).png



Núðlusúpa með grænu karrý og steikt hrísgrjón │ Veganistur TV │ 3. þáttur

Núðlusúpa með grænu karrý frá Blue Dragon (fyrir tvo)

  • 1/2 pakki af tófú (sirka 225 gr)

  • 1/2 laukur

  • 1 tsk hvítlauksmauk frá Blue Dragon

  • 4-5 kastaníusveppir

  • 1 grænt chilli (má sleppa)

  • 2 msk olífuolía

  • 2-3 msk sesamolía frá Blue Dragon

  • 1 dl grænt karrý frá Blue Dragon

  • 2 1/2 dl vatn

  • 2 1/2 dl kókosmjólk eða Oatly haframjólk

  • 1 grænemtisteningur

  • 2-3 msk soyasósa

  • ferskur kóríander (má sleppa)

  • 120 gr heilhveiti núðlur frá Blue Dragon eða aðrar vegan núðlur.

Aðferð:

  1. Byrjið á því að saxa niður laukinn, skera tófúið í litla kubba, sveppina í sneiðar og saxið niður græna chilli’ið. Ég tek fræin úr chilliinu þar sem ég vil ekki hafa súpuna of sterka en græna karrýið er frekar sterkt eitt og sér.

  2. Hitið olíurnar í potti og setjið hvítlauksmaukið út í. Bætið grænmetinu, tófúinu og karrýmaukinu út í pottinn og steikið í góðar 10 mínútur.

  3. Bætið vatninu, kókosmjólkinni eða haframjólkinni, salti og grænmetisteningnum út í pottinn og leyfið þessu að sjóða í 10 til 15 mínútur

  4. Bætið núðlunum, kóríander (ef þið kjósið að nota hann) og soyasósunni út í og leyfið súpunni að sjóða í 3 til 4 mínútur í viðbót eða þar núðlurnar eru soðnar í gegn

Steikt hrísgrjón

  • 1/2 pakki tófú (sirka 225 gr)

  • 2 gulrætur

  • 1 dl frosnar grænar baunir

  • 1 dl frosnar maísbaunir

  • 2-3 cm vorlaukur

  • 1 tsk hvítlauksmauk frá Blue Dragon

  • 2-3 msk soyasósa

  • 1 tsk laukduft

  • 1 dl ósoðin hrísgrjón

  • 3 dl vatn

  • 1 grænmetisteningur

  • 2-3 msk soyjasósa

  • salt og pipar

Aðferð:

  1. Skerið tófúið í litla kubba og saxið niður vorlaukinn og gulræturnar.

  2. Hitið olíurnar á pönnu og bætið síðan út á pönnunna grænmetinu, tófúinu, kryddunum og soyasósunni. Steikið í góða stund.

  3. Bætið út á pönnuna hrísgrjónunum, vatninu og grænmetistening. Hrærið aðeins saman. Setjið lok á pönnunna og leyfið þessu að sjóða á lágum hita í 20 mínútur eða þar til hrísgrjónin eru alveg soðin í gegn.

  4. Berið fram með smá auka soyjasósu ef hver og einn vill eða jafnvel sweet chilli sósu.

Njótið vel

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna og Blue Dragon á Íslandi.

 
KRONAN-merki.png
blue-dragon-9f73dcaec1.png