Buffalo pizza með Blue Ch**se dressingu frá Sacla Italia
/Pizzur eru í mjög miklu uppáhaldi hjá mér líkt og örugglega hjá mjög mörgum öðrum. Ég elska að prófa mig áfram með alls konar hráefni þar sem pizzur eru einn af þeim réttum sem hægt er leika sér endalaust með og hver og einn getur gert eftir sínu höfði. Vegan hráefnin sem eru í boði í dag í pizzagerð eru ekkert smá fjölbreytt og góð og því er ekkert mál að gera ótrúlega góðar vegan pizzur!
Ein af mínum uppáhalds pizzum hefur lengi verið Buffalo pizzan á Íslensku Flatbökunni og þegar ég fékk í hendurnar þessa frábæru Blue Ch**se sósu frá Sacla Italia sem líkist einna helst gráðaostasósu vissi ég að ég þyrfti að prófa að gera buffalo pizzu heima. Ég er mjög mikið fyrir það að setja einhvers konar salat yfir pizzur hvort sem það er bara venjulegt iceberg eða klettasalat, og góða svona auka sósur yfir. Þessi sósa er fullkomin í slíkt, hvort sem að fólk vill buffalo pizzu eða einhvers konar öðruvísi pizzu með smá extra “gúrmi” yfir þá hentar hún fullkomlega.
Þessi pizza kemur ekkert smá vel út og er sósan alveg æðislega góð. Hún var rosalega auðvelt en ég keypti bara tilbúið deig út í búð til að gera eldamennskuna ennþá þægilegri en í dag geri ég alltaf sjaldnar og sjaldnar pizzadeig frá grunni heima þar sem það eru komin svo mikið af frábærum tilbúnum pizzadeigum í búðir sem eru bara svo góð. Við erum þó að sjálfsögðu með frábæra uppskrift af pizzadeigi hérna á síðunni sem má líka nýta í þessa uppskrift. Blue Ch**se sósan er það sem tekur pizzuna upp á annað stig en ég hef líka verið að prófa hana í alls konar rétti, t.d. einföld salöt og með buffalo blómkálsvængjum og get ég alveg 100% mælt með henni!
Hráefni:
Eitt stykki pizzabotn (keyptur eða eftir uppskriftinni okkar.)
100 ml pizzasósa
2 msk vorlaukur
100 gr soyjakjöt
100 ml sterk buffalo sósa (buffalo hot sauce)
1 dl vegan ostur
1 bolli niðursaxað gott salat
½ krukka blue cheese sósa frá Sacla Italia
Aðferð:
Hitið ofnin í 220°C
Fletjið pizzadeigið út og smyrjið það með pizzasósunni. Drefið síðan ostinum yfir sósuna.
Blandið soyjakjötinu saman við buffalo sósuna og raðið yfir ostinn ásamt vorlauknum.
Bakið pizzuna við 220°C í 12 mínútur eða þar til osturinn fer að bráðnar og skorpan verður fallega gyllt. Mér finnst gott að hella smá ólífuolíu eða hvítlauksolíu yfir pizzuna áður en ég baka hana en þannig finnst mér osturinn bráðna betur.
Skerið salatið niður og dreifið yfir pizzuna þegar hún kemur úr ofninum og hellið síðan yfir vel af Blue Cheese sósunni frá Sacla Italia.
Þessi færsla er unnin í samstarfi við Sacla Italia á Íslandi.