Gómsæt vegan pokeskál með marineruðu tófú

-Samstarf-

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af gómsætri vegan pokeskál með sushihrísgrjónum, maríneruðu tófú, fersku mangó, litríku grænmeti og srirachamajónesi. Máltíð sem er tiltölulega auðvelt að útbúa og smakkast eins og á veitingastað. Viltu ganga í augun á vinum og fjölskyldu? Þá er þessi pokeskál fullkomin að elda!

Pokeskál hefur lengi verið einn af mínum uppáhalds réttum að panta mér þegar ég fer út að borða, en eftir að ég prófaði að gera hana sjálf hef ég mun heldur valið að útbúa hana heima. Með því er hægt að útfæra skálina algjörlega eftir eigin höfði og svo er gaman að bjóða uppá hana í matarboðinu, skera niður allskonar grænmeti og leyfa fólki að útbúa sínar eigin.

Bæði sushihrísgrjónin og tófúið gegna lykilhlutverki í pokeskálinni. Ég var lengi hrædd við að útbúa sushihrísgrjón heima því mér fannst það hljóma eins og það væri svaka vesen. Ég get þó sagt að það er alls ekki erfitt. Það má auðvitað gera pokeskál með annarri tegund af hrísgrjónum, en það er að mínu mati ekki eins gott og gefur ekki þessa sushi tilfinningu.

Tófuið er svo próteinið í réttinum og gefur seltu og umame. Ég lét það marínerast í sojasósu, sesamolíu, hrísgrjónaediki, agavesírópi og srirachasósu. Svo bætti ég sesamfræjum við og bakaði tófúið í ofni þar til það varð stökkt að utan.

Pokeskálina toppaði ég svo með tófúinu og allskonar fersku og góðu grænmeti. Þarna er hægt að fara alveg eftir eigin höfði. Ég valdi ferskt mangó, gúrku, lárperu, pikklaðan rauðlauk og kóríander. Að lokum hrærði ég svo saman majónesi og srirachasósu og setti út á ásamt smá limesafa. Ég er ekki að grínast þegar ég segi að þetta smakkaðist eins og á veitingastað.

Viltu bjóða upp á gómsæta pokeskál í matarboðinu og vantar hugmynd að góðum eftirrétti? Þá mælum við með þessari geggjuðu sítrónuostaköku!

Eins og ég sagði er hægt að fara alveg eftir eigin höfði og smekk þegar verið er að setja saman pokeskál. Ég geri þær í raun aldrei alveg eins. Hér eru t.d. nokkrar hugmyndir að öðru grænmeti sem er gott í skálina:

Radísur
Edamame baunir
Rifnar gulrætur
Rifið hvítkál eða rauðkál
Nori eða annar þari
Vorlaukur

Það er endalaust hægt að leika sér og prófa sig áfram!

Takk fyrir að lesa og vona innilega að þér líki uppskriftin.

Helga María! <3

Gómsæt vegan pokeskál

Gómsæt vegan pokeskál
Fyrir: 4
Höfundur: Helga María
Gómsæt vegan pokeskál með sushihrísgrjónum, maríneruðu tófú, fersku mangó, litríku grænmeti og srirachamajónesi. Máltíð sem er tiltölulega auðvelt að útbúa og smakkast eins og á veitingastað. Viltu ganga í augun á vinum og fjölskyldu? Þá er þessi pokeskál fullkomin að elda!

Hráefni:

sushihrísgrjón
  • 500 gr sushihrísgrjón
  • 800 ml vatn
  • 2 msk hrísgrjónaedik
  • 1 msk sykur
  • 1 tsk salt
Marínerað ofnabakað tófú
  • 1 kubbur tófú (400-500 gr)
  • 3 hvítlauksgeirar
  • 1 "þumall" engiefer
  • 3 msk sojasósa
  • 3 msk hrísgrjónaedik
  • 2 msk sesamolía
  • 2 tsk agavesíróp
  • 1/2-1 msk sriracha (fer eftir smekk)
  • 1 msk sesamfræ
Pikklaður rauðlaukur:
  • 2 meðalstórir eða 3 litlir rauðlaukar
  • 3 dl vatn
  • 2 dl sykur
  • 1 dl edik
  • 1 tsk salt
  • piparkorn (má sleppa)
Pokeskálar fyrir fjóra:
  • Soðin sushihrísgrjón
  • Ofnbakað tófú
  • Grænmeti eftir smekk (ég notaði gúrku, pikklaðan rauðlauk, mangó, lárperu, og limesafa)
  • Sesamfræ að toppa með
  • Vegan majónes + srirachasósa blandað saman

Aðferð:

Sushihrísgrjón:
  1. Hreinsið grjónin vel undir köldu vatni.
  2. Setjið þau í skál og hellið köldu vatni yfir og látið standa í 20 mínútur.
  3. Hellið vatninu af, setjið grónin í pott og bætið hreinu vatni saman við.
  4. Setjið lok yfir og látið ná suðu, lækkið þá hitann og látið grjónin malla á lágum hita í 10 mínútur með lok yfir, eða þar til ekkert vatn er í pottinum lengur.
  5. Slökkvið undir, takið pottinn af hellunni og látið standa í 10 minútur með lokið á.
  6. Hrærið saman hrísgrjónaediki, sykri og salti.
  7. Hellið yfir grjónin og blandið með velta grjónunum varlega til og frá með hrísgrjónaskeið eða trésleif. Passið samt að vera ekki harðhent svo þau klessist ekki saman.
Marínerað ofnbakað tófú
  1. Látið vökvann renna af tófúinu, vefjið því inn í viskastykki og leggið pönnu eða eitthvað svolítið þungt yfir og leyfið því að pressast í svolítinn tíma.
  2. Blandið saman blautu hráefnunum í stóra skál.
  3. Rífið niður engifer og hvítlauk í skálina.
  4. Skerið tófúið í bita og setjið í maríneringuna í a.m.k. 1 klukkustund.
  5. Hitið ofninn í 200°c
  6. Hellið tófúinu í eldfast mót og bakið í sirka 20-30 minútur eða þar til það er orðið svolitið stökkt að utan og hefur tekið á sig lit.
Pikklaður rauðlaukur:
  1. Skerið laukinn niður í þunna strimla. Ekki saxa hann. Ég sker hann í tvennt og svo í strimla.
  2. Blandið sykri, vatni og ediki saman í pott og látið hitna þannig að sykurinn leysist upp.
  3. Setjið laukinn í hreina krukku og hellið vökvanum yfir.
  4. Látið standa í klukkustund.
  5. Laukurinn geymist í allt að 2 vikur í ísskáp.
Pokeskálar:
  1. Sjóðið grjónin.
  2. Bakið tófúið.
  3. Útbúið rauðlaukinn ef þið viljið hafa hann.
  4. Skerið niður það grænmeti sem þið viljið hafa.
  5. Blandið saman majónesi og srirachasósu.
  6. Setjið saman skálarnar.
  7. NJÓTIÐ!
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

-Þessi uppskrift er í samstarfi við Hagkaup og fást öll hráefnin í hana þar-

 
 

Heimagert sushi með vinkonunum

Eitt af því skemmtilegasta sem ég veit er að fá fólk í mat og hvað þá vinkonur mínar. Ég er lengi búin að vera með það á planinu mínu að fá þær til mín í heimagert sushi og lét loksins verða af því núna í kvöld. Sushi er einn af mínum uppáhalds mat en ég hef aldrei prófað að gera það heima áður.

IMG_9793.jpg

Ég rak augun í þessari fallegu vörur í Krónunni snemma í vor og ákvað þá strax að láta loksins verða af því að prófa að gera sushi heima. Ég hafði oft miklað þetta fyrir mér og hélt að það væri ægilegt vesen að gera þetta, en þegar ég sá þessar vörur allar saman á einum stað þá vissi ég að ég hlyti að geta þetta. Ég keypti því bara allt sem tengdist sushigerð sem ég sá í hillunum og skoðaði síðan vörurnar vel. Ég sá að aftan á hrísgrjónapakkanum eru ítarlegar leiðbeiningar um hvernig sjóða eigi grjónin rétt og hverju eigi að bæta út í þau. Það fannst mér mjög mikill plús og var þar með allur hausverkurinn farinn.

Ég var með alveg óteljandi hugmyndir um hvað ég gæti sett inn í rúllurnar en ákvað að gera í þetta skiptið þrenns konar rúllur og prófa þá meira næst. Ég vissi strax að mig langaði að prófa að nota einhvers konar vegan soyakjöt í eina og ákvað að kaupa vegan “kjúklinga”nagga og skera í strimla. Með þeim setti ég gufusoðna sæta kartöflu, avocado og smá vorlauk og bar þær síðan fram með chilli majónesi og guð hvað það koma út. Hinar gerði ég aðeins hefðbundnari en það má sjá lista yfir hvað ég setti í hverju rúllu neðst í færslunni. Næst langar mig klárlega að prófa að djúpsteikja til að líkja eftir svokölluðum eldfjallarúllum, en þær eru ótrúlega góðar!

Ég gerði eina og hálfa uppskrift af grjónum miðað við það sem stendur aftan á pakkanum og náði að gera 5 stórar rúllur úr því. Ég skar hverja rúllu í 8 bita og vorum við þá með 40 bita samtals eða um 20 bita á mann. Það var meira en nóg en myndi ég áætla um 14-16 bita á mann af svona stórum bitum fyrir hvern fullorðin næst.

IMG_9830.jpg

Þegar ég var að versla í Krónunni rak ég augun í óáfengt rósavín og ákvað að kippa einni flösku með þar sem mér fannst það fullkomið fyrir óléttu mig og ég bara varð að hafa það með hérna þar sem það var svo ótrúlega gott. Mæli alveg hiklaust með að kaupa þannig ef þið drekkið ekki áfengi en viljið hafa eitthvað extra gott að drekka.

IMG_9816.jpg

Það kom mér mikið á óvart hvað þetta var auðvelt og hversu vel rúllurnar heppnuðust. Ég “googlaði” smá og horfði á stutt myndband um hvernig best væri að rúlla og sá að það er best að hafa plastfilmu á milli hráefnana og sushimottunnar, rúlla síðan alveg ótrúlega þétt og loka rúllunni inn í plastfilmu svo hún sé lokuð alveg þétt saman. Ég gerði það og þegar ég tók rúllurnar úr plastinu voru þær alveg lokaðar og ekkert mál að skera þær í bita. Það er þó best að vera með mjög beittan hníf því annars er hætta á að kremja rúllurnar.

IMG_9814.jpg

Þrjár mismunandi sushi rúllur

  • Sjóðið hrísgrjónin eftir leiðbeiningum á pakkanum

  • 1 pakki af nori blöðum eru 6 blöð

  • Ég bar sushíið fram með

    • Sushi engifer

    • Soyasósu

    • Wasabi

    • Shriracha sósu

    • Chilli majónes (hræra saman 1 dl af vegan majónesi + 1/2 tsk af chilli mauki (sambal oelek))

Rúlla #1

  • Vegan naggar

  • Avocado

  • Sæt kartafla (gufusoðið og leyft að kólna alveg)

  • Vorlaukur

  • Chilli majónes (sett ofan á eða dýft í)

Rúlla #2

Rúlla #3 (rúlluð öfugt svo hrísgrjónin voru utan á)

  • Smá sesam fræ til að stráutan á rúlluna

  • Gúrka

  • Avocado

  • Vorlaukur

Það má að sjálfsögðu breyta innihaldinu eins og hver og einn vill og setja nánast hvað sem er inn í rúllurnar. Þetta eru mínar hugmyndir eftir kvöldið en ég mun klárlega prófa mig áfram með alls konar fleiri hráefni á næstunni.

- Færslan er unnin í samstarfi við Krónuna -

 
KRONAN-merki.png