Heimagert sushi með vinkonunum

Eitt af því skemmtilegasta sem ég veit er að fá fólk í mat og hvað þá vinkonur mínar. Ég er lengi búin að vera með það á planinu mínu að fá þær til mín í heimagert sushi og lét loksins verða af því núna í kvöld. Sushi er einn af mínum uppáhalds mat en ég hef aldrei prófað að gera það heima áður.

IMG_9793.jpg

Ég rak augun í þessari fallegu vörur í Krónunni snemma í vor og ákvað þá strax að láta loksins verða af því að prófa að gera sushi heima. Ég hafði oft miklað þetta fyrir mér og hélt að það væri ægilegt vesen að gera þetta, en þegar ég sá þessar vörur allar saman á einum stað þá vissi ég að ég hlyti að geta þetta. Ég keypti því bara allt sem tengdist sushigerð sem ég sá í hillunum og skoðaði síðan vörurnar vel. Ég sá að aftan á hrísgrjónapakkanum eru ítarlegar leiðbeiningar um hvernig sjóða eigi grjónin rétt og hverju eigi að bæta út í þau. Það fannst mér mjög mikill plús og var þar með allur hausverkurinn farinn.

Ég var með alveg óteljandi hugmyndir um hvað ég gæti sett inn í rúllurnar en ákvað að gera í þetta skiptið þrenns konar rúllur og prófa þá meira næst. Ég vissi strax að mig langaði að prófa að nota einhvers konar vegan soyakjöt í eina og ákvað að kaupa vegan “kjúklinga”nagga og skera í strimla. Með þeim setti ég gufusoðna sæta kartöflu, avocado og smá vorlauk og bar þær síðan fram með chilli majónesi og guð hvað það koma út. Hinar gerði ég aðeins hefðbundnari en það má sjá lista yfir hvað ég setti í hverju rúllu neðst í færslunni. Næst langar mig klárlega að prófa að djúpsteikja til að líkja eftir svokölluðum eldfjallarúllum, en þær eru ótrúlega góðar!

Ég gerði eina og hálfa uppskrift af grjónum miðað við það sem stendur aftan á pakkanum og náði að gera 5 stórar rúllur úr því. Ég skar hverja rúllu í 8 bita og vorum við þá með 40 bita samtals eða um 20 bita á mann. Það var meira en nóg en myndi ég áætla um 14-16 bita á mann af svona stórum bitum fyrir hvern fullorðin næst.

IMG_9830.jpg

Þegar ég var að versla í Krónunni rak ég augun í óáfengt rósavín og ákvað að kippa einni flösku með þar sem mér fannst það fullkomið fyrir óléttu mig og ég bara varð að hafa það með hérna þar sem það var svo ótrúlega gott. Mæli alveg hiklaust með að kaupa þannig ef þið drekkið ekki áfengi en viljið hafa eitthvað extra gott að drekka.

IMG_9816.jpg

Það kom mér mikið á óvart hvað þetta var auðvelt og hversu vel rúllurnar heppnuðust. Ég “googlaði” smá og horfði á stutt myndband um hvernig best væri að rúlla og sá að það er best að hafa plastfilmu á milli hráefnana og sushimottunnar, rúlla síðan alveg ótrúlega þétt og loka rúllunni inn í plastfilmu svo hún sé lokuð alveg þétt saman. Ég gerði það og þegar ég tók rúllurnar úr plastinu voru þær alveg lokaðar og ekkert mál að skera þær í bita. Það er þó best að vera með mjög beittan hníf því annars er hætta á að kremja rúllurnar.

IMG_9814.jpg

Þrjár mismunandi sushi rúllur

  • Sjóðið hrísgrjónin eftir leiðbeiningum á pakkanum

  • 1 pakki af nori blöðum eru 6 blöð

  • Ég bar sushíið fram með

    • Sushi engifer

    • Soyasósu

    • Wasabi

    • Shriracha sósu

    • Chilli majónes (hræra saman 1 dl af vegan majónesi + 1/2 tsk af chilli mauki (sambal oelek))

Rúlla #1

  • Vegan naggar

  • Avocado

  • Sæt kartafla (gufusoðið og leyft að kólna alveg)

  • Vorlaukur

  • Chilli majónes (sett ofan á eða dýft í)

Rúlla #2

Rúlla #3 (rúlluð öfugt svo hrísgrjónin voru utan á)

  • Smá sesam fræ til að stráutan á rúlluna

  • Gúrka

  • Avocado

  • Vorlaukur

Það má að sjálfsögðu breyta innihaldinu eins og hver og einn vill og setja nánast hvað sem er inn í rúllurnar. Þetta eru mínar hugmyndir eftir kvöldið en ég mun klárlega prófa mig áfram með alls konar fleiri hráefni á næstunni.

- Færslan er unnin í samstarfi við Krónuna -

 
KRONAN-merki.png
 

Nektarínu grillbaka á hvolfi

IMG_9450.jpg

Grill eftirréttir finnst mér alltaf jafn skemmtilegir. Ég hugsa að ég noti aldrei jafn mikið af ákvextum í eftirrétti og þegar ég er að gera rétt á grillinu. Grillaðir ávextir eru svo ótrúlega góðir og verða eitthvað svo extra sætir og safaríkir. Ég elska að henda banönum og ananas sneiðum á grillið og borða með góðum ís og kannski súkkulaði en það er svo þægilegur og einfaldur eftirréttur.

IMG_9442.jpg

Þessi baka er ekki síður auðveld og svo er hún svo ótrúlega falleg þegar búið er að hvolfa henni. Mesta snilldin við hana er að það er hægt að nota hvaða ávexti með hugurinn girnist. Mér finnst passa fullkomlega að nota epli, perur eða góð ber en í þetta skipti deili ég með ykkur uppskrift þar sem ég nota nektarínur. Það er hægt að fá nektarínur í öllum búðum akkúrat núna og þær passa svo vel í þennan rétt. Þær verða svo safaríkar og sætar þegar þær bakast á grillinu.

IMG_9445.jpg
IMG_9447.jpg

Þessi baka er einnig svo mikil snilld þar sem notast er við keypt deig og niðurskorna ávexti svo það er auðvelt að skera ávextina niður og setja í box, kaupa deigið og taka þetta með sér hvert sem er. Bakan er bökum í álbakka en það þarf að passa vel að kaupa ekki álbakka með götum því þá mun allur safi leka niður í grillið. Ég ber kökuna fram með góðm vegan ís en akkúrat núna er ísinn frá Jude´s sem fæst í Krónunni í rosalega miklu uppáhaldi hjá mér svo ég notaðist við vanilluísinn frá þeim. Það má alveg vera með bragðmeiri ís með eða bæta jafnvel súkkulaði með í bökuna. Ef það er gert þarf að passa að setja súkkulaðið ekki neðst í bakkan því þá gæti það brunnið. Það er best að strá því yfir ávextina áður en deigið er sett yfir.

IMG_9451.jpg

Hráefni:

  • 5-6 nektarínur

  • 1 askja hindber

  • 1 askja brómber

  • 1/2 dl sykur

  • 1 pakki upprúllað smjördeig úr Krónunni.

Aðferð:

  1. Skolið og skerið niður nektarínurnar.

  2. Setjið alla ávextina í skál og stráið sykrinum yfir og blandið saman (þessu má alveg sleppa þar sem ávextirnir verða mjög sætir á grillinu. Mér finnst bakan þó verða extra gómsæt ef það er settur smá sykur).

  3. Hellið ávextunum í álbakka og dreifið vel úr.

  4. Rúllið út deiginu og stingið í það nokkur göt með gaffli. Leggið deigið yfir álbakkan og skerið meðfram bakkanum. Klemmið deigið aðeins við kanntana á bakkanum.

  5. Setjið grillið á meðallága stillingu og hafið grillið sem mest lokað á meðan bakan er á grillinu. Bakið í 15 til 20 mínútur eða þar til deigið verður fallega gyllt að ofan.

  6. Takið bökuna af grillinu og leyfið henni að standa í 5-10 mínútur áður en henni er hvolft á disk. Best er að setja bakkan á stóran disk og setja annan stóran disk yfir og hvolfa bökunni þannig.

  7. Berið fram með góðum vegan ís eða vegan þeyttum rjóma.

-Njótið vel.

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna.

 
KRONAN-merki.png
 

Grillspjót með grænmeti og tófú, og köld piparsósa

IMG_9424.jpg

Við erum loksins farin að finna fyrir smá sumri hérna í höfuðborginni og sjá smá sól en það er fátt sem mér finnst betra þegar það sést í sól en að grilla. Grillmatur er bara eitthvað svo einstaklega góður og stemmingin við að grilla er engu lík. Ég hef alltaf verið mjög dugleg að prófa nýja rétti á grillið á sumrin og er það svo sannarlega ekkert mál að gera góðan vegan grillmat. Það er hægt að finna fullt af góðum hamborgurum og pylsum eða öðrum vegan “kjöt” vörum í búðum í dag og er alls konar grænmeti einnig einstaklega gott á grillinu.

Í þetta skiptið ætla ég hins vegar að deila með ykkur, í samstarfi við Krónuna, ótrúlega góðum grillpinnum með alls konar grænmeti og tófú. Tófú er snilldar hráefni sem passar í alls konar rétti þar sem það er tiltölulega bragðlítið eitt og sér en ef það er marinerað dregur það í sér bragðið af marineringunni. Það passar því alveg ótrúelga vel á grillið þar sem grillmarinergingar er algjört lykilatriði oft í grillmat. Ég notaðist við gómsæta sítrónu og kryddjurta marinerignu en hún passar fullkomlega með grænmeti og tófu. Það má nota allt það grænmeti sem manni dettur í hug í þessari uppskrift.

IMG_9426.jpg

Það sem er svo þægilegt við þennan rétt er að auðvelt er að græja marineringuna í box, skera grænmetið og tófúið út í og taka þetta með sér hvort sem það er í útileguna, sumarbústað eða í grillveisluna. Þá þarf einfaldlega að þræða pinnana, skella þeim á grillið og maturinn er tilbúin. Það finnst mér alveg æði því þá þarf ekki að fara í einhverja sérstaka “eldamennsku” í útilegunni en mér finnst lang þægilegast að fara í útilegur með matinn nánast tilbúin og að þurfa ekki að undirbúa hann mikið á staðnum.

IMG_9419.jpg

Grillpinnana ber ég fram með því meðlæti sem ég á til hverju sinni. Grillaðar kartöflur finnst mér vera algjörlega ómissandi og köld piparsósa einnig. Í þetta skiptið var ég einnig með grillaðan aspas sem ég velti aðeins upp úr ólífuolíu og salti áður en ég setti hann á grillið. Grillaður maís passað einnig mjög vel með en ef ég grilla maís þá sýð ég hann fyrst í um 10 mínútur því þá verður hann extra safaríkur. Það geri ég einnig við kartöflurnar áður en ég grilla þær.

IMG_9432.jpg

Grillpinnar (sirka 10 spjót, fyrir 4)

  • Marinering

    • 3/4 dl góð ólífuolía

    • 3/4 dl sítrónusafi (safi úr sirka 2 sítrónum)

    • börkur af 1 sítrónu

    • 3-4 hvítlauksgeirar

    • 1 msk oreganó

    • 1 msk rótargrænmetiskrydd frá pottagöldrum (eða einhvers konar blandaðar jurtir)

    • 1-2 msk ferskt timían

    • 1 tsk papríkuduft

    • 1 tsk laukduft

    • 1/2 tsk chilli duft eða chilli flögur (má sleppa)

    • 1 msk sesamfræ

  • 1/2 rauð paprika

  • 1/2 gul eða appelsínugul papríka

  • 1 rauðlaukur

  • 1 pakki kastaníusveppir

  • 1 pakki tófú

Aðferð:

  1. Blandið öllum hráefnunum fyrir marineringuna í stóra skál eða stórt box.

  2. Skerið grænmeti og tófúið í mjög grófa bita, bitarnir eiga að vera frekar stórir svo þeir tolli vel á grillpinnunum.

  3. Setjið grænmetið og tófúið út í marineringuna og veltið því vel um þar til allir bitar eru vel þakknir af kryddolíunni.

  4. Leyfið þessu að liggja í marineringunni í að minnsta kosti 30 mínútur, en því meiri tíma sem þetta fær að hvíla því betra.

  5. Byrjið að huga að meðlætinu en ég var með grillaðar kartöflur, aspas, blandað ferskt salat og kalda sósu með. Uppskrift af sósunni er hér fyrir neðan.

  6. Takið um 10 grillpinna og leyfið þeim að liggja í vatni í 10 til 15 mínútur. Takið pinnana úr vatninu og þræðið grænmeti og tófú á þá í þeirri röð sem þið viljið.

  7. Grillið í nokkrar mínútur á hverri hlið eða þar til grænmetið og tófúið fær fallegar “bruna” rákir. Við mælum með að hafa grill álbakka undir svo maturinn brenni ekki of mikið að utan.

Köld piparsósa

  • 1 dl oatly sýrður rjómi eða hreint sykurlaust vegan jógúrt

  • 1 dl vegan Krónu majónes

  • 2 tsk grófmalaður svartur pipar

  • 1/2 tsk laukduft

  • 1/2 tsk salt

  • 1 tsk sítrónusafi

  • 1-2 msk vatn (eftir því hversu þunna þið viljið sósuna)

Aðferð:

  1. Hrærið öllu saman í skál.

-Njótið vel og endilega verið dugleg að tagga okkur og krónuna ef þið hendið í vegan grillveislu með uppskriftinni þar sem okkur finnst svo ótrúlega gaman að sjá myndir frá ykkur <3

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna.

 
KRONAN-merki.png
 

Hollt og gott Enchilada úr korter í 4 kælinum í Krónunni │ Veganistur x Krónan │ AD

Hráefni:

  • 1 pakki kjúklingabaunasalat úr korter í 4 kælinum

  • 1 pakki fajitas grænmeti úr korter í 4 kælinum

  • 1 pakki hrísgrjón með sveppum úr korter í 4 kælinum

  • 1 krukka tómat og ólífusalsa úr korter í 4 kælinum eða venjuleg salsasósa

  • safi úr hálfu lime

  • 6-8 maís tortilla pönnukökur (má líka nota venjulegar tortillakökur)

  • 100-150 ml vegan rjómaostur

  • Avókadósalat

    • 2-3 avókadó

    • 2 stórir tómatar eða um 6 litlir

    • safi úr hálfu lime

    • salt og pipar

    • ferskt kóríander

Aðferð:

  1. Hitið ofninn við 200°C

  2. Blandið kjúklingabaunasalati, fajitas grænmeti og hrísgjrónum saman í skál ásamt salsanum, geymið 2-3 msk af salsa til að smyrja yfir réttinn í lokin.

  3. Smyrjið hverja tortilla köku með smá vegan rjómaosti, setjið fyllingu inn í, rúllið upp og raðið í eldfast mót.

  4. Smyrjið smá rjómaosti og salsa yfir hverja rúllu fyrir sig.

  5. Bakið í ofninum í 20 mínútur.

  6. Útbúið avókadó salatið með því að skera niður avókadó og tómata og hræra það saman með lime safanum, salti og pipar og sökuðu fersku kóríander.

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna

KRONAN-merki.png

Veganistur X Krónan │ Einfaldur ofnréttur úr Korter í 4 kælinum í Krónunni │ AD

Hráefni:

  • 1 pakki svartbaunabuffborgari frá Korter í 4

  • 1 pakki Kartöflusalat frá Korter í 4

  • 1 pakki piparsósa frá Toro

  • Nokkrar gulrætur

  • 1-2 msk olía

  • Einfalt salat

    • Kál

    • Gúrka

    • Tómatar

    • Kryddjurtadressing frá Korter í 4

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°c

  2. Takið borgarana úr pakkanum, setjið þá í skál og blandið saman. Skiptið í fjóra hluta og mótið úr þeim fjórar pylsur.

  3. Hellið olíu í eldfast mót og leggið pylsurnar í mótið ásamt kartöflusalatinu og niðuskornum gulrótum. Stráið grófu salti yfir og setjið í ofninn í sirka 12 mínútur

  4. Útbúið sósuna á meðan eftir leiðbeiningum á pakkanum.

  5. Skerið niður salat, kál, gúrku og tómatata og setjið í skál. Hellið yfir kryddjurtadressingunni og blandið saman.

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna.

 
KRONAN-merki.png
 

Auðvelt og fljótlegt jólahlaðborð að hætti Krónunnar

Við fengum það ótrúlega skemmtilega verkefni í samstarfi við Krónuna að skoða jólahlaðborðs tillögurnar sem þau eru búin að setja saman. En krónan hefur útbúið frábæran vef með vegan hátíðarvörum sem auðvelt er að pússla saman á fallegt jólahlaðborð eða fyrir matarboð. Snilldin við þennan vef er að tillögurnar eru einfaldar og aðgengilegar og flest sem hefur verið sett þar fram þarf einungis að hita áður en það er borið á borð. Við vildum hafa það til hliðsjónar þegar við völdum réttina í hlaðborðið okkar að það yrði sem allra auðveldast og ekki þyrfti að vera mikið umstang í kringum neinn rétt.

Við verðum að segja að úrvalið hjá þeim er ekkert smá flott og svo ótrúlega gaman hvað eru margar vörur að velja úr. Þetta hlaðborð er frábært til að fá tillögur að því sem hægt er að bjóða uppá á jólunum eða sem hugmyndir fyrir þá sem kannski eru ekki vanir að elda mikið vegan og eru að fá einhvern sem fylgir vegan lífstílnum í mat til sín. Við vildum hafa borðið sem fjölbreytast svo allir gætu fundið eitthvað sem þeim líkaði. Við ákváðum því að velja þrjá aðalrétti og síðan meðlæti sem myndi passa með þeim öllum. Okkur finnst líka alltaf nauðsynlegt að vera með góða súpu fyrir eða með jólamatnum og að sjálfsögðu eftirrétt.

Við ákvaðum að miða við að hlaðborðið yrði fyrir fjóra til sex manns og að verðið færi ekki yfir 15.000 krónur. En við erum einmitt með gjafaleik á instagram hjá okkur akkúrat núna þar sem við gefum tvö 15.000 króna gjafakort í Krónuna svo endilega kíkið þangað og takið þátt! Maturinn sem við vorum með passaði vel fyrir sex manns en næst munum við bæta við einum ís í viðbót þar sem það var eina sem hefði mátt vera meira af. Við ákváðum að setja upp fyrir ykkur lista af öllu því sem við keyptum ásamt verðunum og vorum við akkúrat rétt undir 15.000 krónum. En fyrir þriggja rétta máltíð fyrir 6 manns gerir það 2.468 krónur á mann.

jólahlaðborð.png

Undirbúningurinn á matnum var mjög einfaldur en við settur steikurnar og butternut graskerið í ofninn og elduðum samkvæmt leiðbeiningum á pakkningunum, hituðum súpuna og sósuna upp í potti og suðum rósakálið. Við keyptum forsoðnar kartöflur sem við síðan brúnuðum rétt áður en allt var borið á borð en það má finna leiðbeiningar fyrir brúnaðar kartfölur hér. Steikurnar þurfa góðan tíma í ofninum svo það er frábært að nota þann tíma til þess að leggja á borð og gera það tilbúið en maturinn og borðið var tilbúið hjá okkur á innan við 40 mínútum.

Við hvetjum alla til að setja saman svona auðvelt jólahlaðborð til að bjóða fjölskyldu eða vinum og endileg tagga okkur á instagram ef þið deilið myndum og það er að sjálfsögðu ekkert mál að senda okkur fyrirspurnir ef þið þurfið einhverja hjálp með jólamatinn. ♡

IMG_9229.jpg

Borðbúnaðinn sem sjá má á myndunum fengum við að gjöf frá Bitz á Íslandi og passaði hann fullkomlega á jólaborðið. Diskarnir og skálarnar eru virkilega stílhreinar og fara ótrúlega fallega með gylu hnífapörunum sem gera borðið svo ótrúlega hátiðlegt. Vörurnar frá Bitz hafa að okkar mati ótrúlega fallega hönnun en þær eru einnig hitaþolnar og mega þar af leiðandi fara í ofn að 220°C og í uppþvottavél sem er mjög hentugt. Bitz fæst í Húsgagnahöllinni, Bast í kringlunni og versluninni Snúran.

IMG_9179.jpg

Færslan er unnin í samstarfi við Krónuna og Bitz á Íslandi

 
KRONAN-merki.png
vendor_189.png
 

Vegan hakk og spaghettí

IMG_9011-2.jpg

Í janúar ætlum við, í samstarfi við Krónuna, að útbúa fjóra gríðarlega einfalda rétti sem tekur einungis nokkrar mínútur að elda. Réttirnir munu henta öllum, hvort sem þeir eru að taka sín fyrstu skref í lífsstílnum eða löngu orðnir sjóaðir. Réttirnir eru fullkomnir fyrir þá sem eru á síðasta snúningi með að kaupa í matinn eða einfaldlega nenna ekki að hafa mikið fyrir kvöldmatnum eftir langan vinnu- eða skóladag. Þó eru þeir líka tilvaldir fyrir þá sem elska að elda og munu réttirnir allir bjóða upp á að hægt sé að bæta við því sem manni þykir gott ef maður er í stuði til að eyða meiri tíma í eldamennskuna. Réttirnir munu passa fyrir alla fjölskylduna og líka fyrir þá sem eru svolítið efins varðandi vegan mat. 

Mér fannst viðeigandi að byrja á þeirri máltíð sem ég geri hvað oftast þegar ég vil elda eitthvað sem er fljótlegt en á sama tíma bragðgott og saðsamt. Hakk og spaghettí hefur alla tíð verið í uppáhaldi hjá mér og enn frekar eftir að ég varð vegan. Sojahakkið frá Hälsans Kök er ótrúlega gott og hentar mjög vel í þennan rétt. Ég er ekki viss um að margir myndu taka eftir því að um vegan hakk sé að ræða þegar þeir borða það í réttum eins og þessum. 

IMG_9094-2.jpg

Það er að sjálfsögðu misjafnt hvaða grænmeti fólk notar í hakk og spaghettí en í þetta skiptið vildi ég hafa þetta virkilega einfalt og notaði frosnar grænar baunir og svartar ólífur. Mér finnst ólífurnar eiginlega þarfar í réttinn en vissulega þykja ekki öllum ólífur góðar og vilja því nota eitthvað annað. Ég myndi þá mæla með sveppum og gulrótum. 

IMG_9078-3.jpg
IMG_9090.jpg

Ég útbjó hvítlauksbrauð og hemp-parmesan sem meðlæti en fyrir þá sem hafa ekki tíma eða nenna ekki að útbúa meðlæti er t.d mjög gott að hafa bara baguette og vegan smjör. Þó er alls ekki þörf á því að hafa meðlæti þar sem rétturinn er saðsamur og bragðgóður einn og sér. 

IMG_9103-2.jpg

Hakk og spaghettí - fyrir 4

  • 400g Spaghettí frá Gestus

  • 1 poki hakk frá Hälsans Kök

  • Olía til steikingar

  • 1 krukka pastasósa frá Gestus

  • 1 dl frosnar grænar baunir (má sleppa)

  • 1 dl svartar ólívur skornar í sneiðar (má sleppa)

Aðferð

1. Sjóðið pastað eftir leiðbeiningunum á pakkanum. Gott er að setja örlítið salt í pottinn og nokkra dropa af olíu

2. Hitið olíu á pönnu og steikið hakkið í sirka fjórar mínútur

3. Bætið grænu baununum, ólívunum og pastasósunni á pönnuna og leyfið því að malla í sirka sjö mínútur

4. Smakkið til með salti og pipar

Hérna eru svo uppskriftir af:
Hvítlauksbrauði
Hemp-parmesan

-Veganistur

krónan.png

-Færslan er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefnin þar-