Nektarínu grillbaka á hvolfi
/Grill eftirréttir finnst mér alltaf jafn skemmtilegir. Ég hugsa að ég noti aldrei jafn mikið af ákvextum í eftirrétti og þegar ég er að gera rétt á grillinu. Grillaðir ávextir eru svo ótrúlega góðir og verða eitthvað svo extra sætir og safaríkir. Ég elska að henda banönum og ananas sneiðum á grillið og borða með góðum ís og kannski súkkulaði en það er svo þægilegur og einfaldur eftirréttur.
Þessi baka er ekki síður auðveld og svo er hún svo ótrúlega falleg þegar búið er að hvolfa henni. Mesta snilldin við hana er að það er hægt að nota hvaða ávexti með hugurinn girnist. Mér finnst passa fullkomlega að nota epli, perur eða góð ber en í þetta skipti deili ég með ykkur uppskrift þar sem ég nota nektarínur. Það er hægt að fá nektarínur í öllum búðum akkúrat núna og þær passa svo vel í þennan rétt. Þær verða svo safaríkar og sætar þegar þær bakast á grillinu.
Þessi baka er einnig svo mikil snilld þar sem notast er við keypt deig og niðurskorna ávexti svo það er auðvelt að skera ávextina niður og setja í box, kaupa deigið og taka þetta með sér hvert sem er. Bakan er bökum í álbakka en það þarf að passa vel að kaupa ekki álbakka með götum því þá mun allur safi leka niður í grillið. Ég ber kökuna fram með góðm vegan ís en akkúrat núna er ísinn frá Jude´s sem fæst í Krónunni í rosalega miklu uppáhaldi hjá mér svo ég notaðist við vanilluísinn frá þeim. Það má alveg vera með bragðmeiri ís með eða bæta jafnvel súkkulaði með í bökuna. Ef það er gert þarf að passa að setja súkkulaðið ekki neðst í bakkan því þá gæti það brunnið. Það er best að strá því yfir ávextina áður en deigið er sett yfir.
Hráefni:
5-6 nektarínur
1 askja hindber
1 askja brómber
1/2 dl sykur
1 pakki upprúllað smjördeig úr Krónunni.
Aðferð:
Skolið og skerið niður nektarínurnar.
Setjið alla ávextina í skál og stráið sykrinum yfir og blandið saman (þessu má alveg sleppa þar sem ávextirnir verða mjög sætir á grillinu. Mér finnst bakan þó verða extra gómsæt ef það er settur smá sykur).
Hellið ávextunum í álbakka og dreifið vel úr.
Rúllið út deiginu og stingið í það nokkur göt með gaffli. Leggið deigið yfir álbakkan og skerið meðfram bakkanum. Klemmið deigið aðeins við kanntana á bakkanum.
Setjið grillið á meðallága stillingu og hafið grillið sem mest lokað á meðan bakan er á grillinu. Bakið í 15 til 20 mínútur eða þar til deigið verður fallega gyllt að ofan.
Takið bökuna af grillinu og leyfið henni að standa í 5-10 mínútur áður en henni er hvolft á disk. Best er að setja bakkan á stóran disk og setja annan stóran disk yfir og hvolfa bökunni þannig.
Berið fram með góðum vegan ís eða vegan þeyttum rjóma.
-Njótið vel.
Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna.