Sumar SMASH hamborgari með grilluðum ananas

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af sumarlegum SMASH hamborgara með æðislegu hamborgarabuffunum frá Oumph! Borgarinn er einfaldur en ótrúlega bragðgóður og ekkert smá sumarlegur.

Mér finnst ótrúlega skemmtilegt að nota ávexti í matargerð og er grillaður ananas í einstöku uppáhaldi hjá mér. Mér finnst hann passa mjög vel með bbq sósunni og léttu hvítlauksmajói. Ég steikti borgarana á pönnu en það er ennþá betra að skella þeim á grillið.

Smash hamborgabuffin frá oumph eru í sérstöku uppáhaldi hjá mér þar sem þeir eru soyjalausir en það er ein með soyjaofnæmi á heimilinu. Við erum því mikið með þessara borgara í matinn og held ég að þeir verði staðarbúnaður í grillveislurnar hjá okkur í sumar.

Sumarlegur SMASH hamborgari með grilluðum ananas

Sumarlegur SMASH hamborgari með grilluðum ananas
Fyrir: 2
Höfundur: Veganistur
Undirbúningstími: 5 MinEldunartími: 10 Min: 15 Min

Hráefni:

Hvítlauksmajó

Aðferð:

  1. Steikið borgarana á annari hliðinni á meðalhita þar til þeir verða fallega steiktir
  2. Snúið þeim á pönnuni og pressið(smashið) hverjum og einum aðeins niður, stráið smá salti og pipar yfir hvern og einn og penslið með bbq sósu. Setjið vegan oft yfir og lok á pönnuna og leyfið borgurunum að steikjast og ostinum að bráðna.
  3. Skerið ferskan ananas í þykkar sneiðar, takið miðjuna úr og grillið í nokkrar mínútur á hvorri hlið. (Einnig hægt að steikja á mjög heitri pönnu)
  4. Raðið borgurun saman með hvítlauksmajói, kletta salati, rauðlauk og ananasnum en ég setti tvö buff í hvorn borgara.
Hvítlauksmajó
  1. Rífið hvítlaukinn fínt
  2. Blandið öllu saman í skál
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið #veganistur

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Oumph! -

 
 

Grillaðar vegan pylsur á þrenns konar vegu

IMG_0438.jpg

Í dag er föstudagur og því finnst mér tilvalið að deila með ykkur líklega síðustu grillfærslu sumarsins. Þetta sumar er búið að líða alveg ótrúlega hratt og er erfitt að trúa því að núna séu skólar að komast á fullt. Núna í lok ágúst finnst mér því fullkomið að deila með ykkur þessari færslu sem inniheldur mismunandi tillögur af því hvernig bera megi fram Anamma pylsurnar. Anamma pylsurnar eru í miklu uppáhaldi hjá okkur systrum og elskum við að grilla þær því það er svo einfalt og þægilegt. Þær eru einnig fullkomin matur til að taka með sér í útilegur eða í grillveislur til vina eða fjölskyldu.

IMG_0455-2.jpg

Ég elska hefðbundnar pylsur með tómatsósu, steiktum lauk og sinnepi en finnst einnig alveg ótrúlega skemmtilegt að leika mér með mismunandi hráefni og matreiða pylsurnar á ólíka vegu. Það má breyta réttinum alveg með því að setja aðrar sósur eða góð salöt á pylsurnar. Það má undirbúa öll hráefnin í þessari færslu fyrirfram þar sem þau eru öll mjög einföld og taka með sér í lautarferð eða hvar sem planið er að grilla.

IMG_0459-2.jpg

Þessi hefðbundna:

  • Anamma pylsur

  • Tómatsósa

  • Steiktur laukur

  • Sinnep (ég nota yfirleitt bæði pylsusinnep og sætt sinnep)

  • Heimagert kartöflusalat (uppskrift neðst í færslunni)

  • Pylsubrauð

Aðferð:

  1. Útbúið kartöflusalatið eftir uppskriftinni neðst í þessari færslu.

  2. Grillið pylsurnar í nokkrar mínútur á hverri hlið eða þar til þær fá fallega gylltar rákir.

  3. Hitið pylsubrauðinn og raðið hráefnunum á eins og hver og einn vill.

BBQ pylsur:

  • Anamma pylsur með bbq sósu

  • Chilli majónes

  • Grænt salat

  • Hrásalat

Aðferð:

  1. Byrjið á því að útbúa hrásalat, uppskriftina af því má finna neðst í þessari færslu.

  2. Pennslið pylsurnar með bbq sósu og grillið í nokkrar mínútur á hvorri hlið eða þar til pylsurnar frá fallegar rákir.

  3. Hitið pylsubrauðin og raðið hráefnunum í eftir smekk.

IMG_0462-2.jpg

Þessi mexíkóska:

  • Anamma pylsur

  • Mangósalsa (uppskrift neðst í færslunni)

  • Guacamole (uppskrift neðst í færslunni)

  • Grænt salat

  • Sýrður rjómi

  • Svart Doritos

Aðferð:

  1. Byrjið á því að útbúa mangósalsað og guacamole sem er hér neðst í færslunni.

  2. Grillið pyslurnar í nokkrar mínútur á hvorri hlið þar til þær fá fallegar gylltar rákir.

  3. Hitið pylsubrauðin og raðið hráefnunum í eftir smekk.

Kartöflusalat

  • 500 gr kartöflur

  • 2 dl vorlaukur (einnig hægt að nota blöndu af venjulegum lauk og graslauk)

  • 3/4 dl vegan majónes

  • 1 dl Oatly sýrður rjómi

  • 1 msk gróft sinnep

  • 2 tsk sítrónusafi

  • salt og pipar

Aðferð:

  1. Skerið kartöflurnar í litla bita og gufusjóðið í 20 mínútur. Það er líka alveg hægt að sjóða kartöflurnar venjulega og flysja og skera niður þegar þær hafa kólnað.

  2. Saxið vorlaukinn og blandið öllu nema kartöflunum saman í skál. Setjið kartöflurnar út í þegar þær hafa kólnað alveg.

  3. Berið fram með hverju sem er, en salatið passar auðvitað sérstaklega vel með öllum grilluðum mat.

Hrásalat

  • 1 dl vegan majónes

  • 1 dl þunnt skorið hvítkál

  • 1 dl þunnt skorið ferskt rauðkál

  • 2 litlar eða 1 meðalstór gulrót

  • 1 tsk agave síróp

  • Salt eftir smekk

Aðferð:

  1. Skerið hvítkálið og rauðkálið í mjög þunnar sneiðar.

  2. Rífið niður gulræturnar.

  3. Blandið öllum hréfnum saman í skál. Saltið eftir smekk

Mangó salsa

  • 1 dl niðurskorið mangó

  • 1 dl niðurkorið papríka

  • 1/2 dl niðursaxaður rauðlaukur

  • safi úr hálfri lime

  • Salt eftir smekk

  • Ferskt kóríander eftir smekk (má sleppa)

Aðferð:

  1. Skerið niður grænmetið og mangóið í litla bita.

  2. Blandið öllum hráefnum saman í skál.

  3. Saltið eftir smekk.

Guacamole

  • 2-3 stór avocado

  • 1/2 hvítlauksgeiri

  • 1 tómatur

  • 1/2 lítill rauðlaukur

  • Salt og pipar eftir smekk

  • Safi úr 1/2 lime

  • Ferstk kóríander (má sleppa)

Aðferð:

  1. Byrjið á því að stappa avocadoin vel saman með gaffli

  2. Saxið niður tómat og rauðlauk og pressið hvítlauk

  3. Blandið öllum hráefnum saman við avocadómaukið og hrærið vel saman.

  4. Saltið og piprið eftir smekk

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi -

 
anamma_logo.png
 

Nektarínu grillbaka á hvolfi

IMG_9450.jpg

Grill eftirréttir finnst mér alltaf jafn skemmtilegir. Ég hugsa að ég noti aldrei jafn mikið af ákvextum í eftirrétti og þegar ég er að gera rétt á grillinu. Grillaðir ávextir eru svo ótrúlega góðir og verða eitthvað svo extra sætir og safaríkir. Ég elska að henda banönum og ananas sneiðum á grillið og borða með góðum ís og kannski súkkulaði en það er svo þægilegur og einfaldur eftirréttur.

IMG_9442.jpg

Þessi baka er ekki síður auðveld og svo er hún svo ótrúlega falleg þegar búið er að hvolfa henni. Mesta snilldin við hana er að það er hægt að nota hvaða ávexti með hugurinn girnist. Mér finnst passa fullkomlega að nota epli, perur eða góð ber en í þetta skipti deili ég með ykkur uppskrift þar sem ég nota nektarínur. Það er hægt að fá nektarínur í öllum búðum akkúrat núna og þær passa svo vel í þennan rétt. Þær verða svo safaríkar og sætar þegar þær bakast á grillinu.

IMG_9445.jpg
IMG_9447.jpg

Þessi baka er einnig svo mikil snilld þar sem notast er við keypt deig og niðurskorna ávexti svo það er auðvelt að skera ávextina niður og setja í box, kaupa deigið og taka þetta með sér hvert sem er. Bakan er bökum í álbakka en það þarf að passa vel að kaupa ekki álbakka með götum því þá mun allur safi leka niður í grillið. Ég ber kökuna fram með góðm vegan ís en akkúrat núna er ísinn frá Jude´s sem fæst í Krónunni í rosalega miklu uppáhaldi hjá mér svo ég notaðist við vanilluísinn frá þeim. Það má alveg vera með bragðmeiri ís með eða bæta jafnvel súkkulaði með í bökuna. Ef það er gert þarf að passa að setja súkkulaðið ekki neðst í bakkan því þá gæti það brunnið. Það er best að strá því yfir ávextina áður en deigið er sett yfir.

IMG_9451.jpg

Hráefni:

  • 5-6 nektarínur

  • 1 askja hindber

  • 1 askja brómber

  • 1/2 dl sykur

  • 1 pakki upprúllað smjördeig úr Krónunni.

Aðferð:

  1. Skolið og skerið niður nektarínurnar.

  2. Setjið alla ávextina í skál og stráið sykrinum yfir og blandið saman (þessu má alveg sleppa þar sem ávextirnir verða mjög sætir á grillinu. Mér finnst bakan þó verða extra gómsæt ef það er settur smá sykur).

  3. Hellið ávextunum í álbakka og dreifið vel úr.

  4. Rúllið út deiginu og stingið í það nokkur göt með gaffli. Leggið deigið yfir álbakkan og skerið meðfram bakkanum. Klemmið deigið aðeins við kanntana á bakkanum.

  5. Setjið grillið á meðallága stillingu og hafið grillið sem mest lokað á meðan bakan er á grillinu. Bakið í 15 til 20 mínútur eða þar til deigið verður fallega gyllt að ofan.

  6. Takið bökuna af grillinu og leyfið henni að standa í 5-10 mínútur áður en henni er hvolft á disk. Best er að setja bakkan á stóran disk og setja annan stóran disk yfir og hvolfa bökunni þannig.

  7. Berið fram með góðum vegan ís eða vegan þeyttum rjóma.

-Njótið vel.

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna.

 
KRONAN-merki.png
 

Grillspjót með grænmeti og tófú, og köld piparsósa

IMG_9424.jpg

Við erum loksins farin að finna fyrir smá sumri hérna í höfuðborginni og sjá smá sól en það er fátt sem mér finnst betra þegar það sést í sól en að grilla. Grillmatur er bara eitthvað svo einstaklega góður og stemmingin við að grilla er engu lík. Ég hef alltaf verið mjög dugleg að prófa nýja rétti á grillið á sumrin og er það svo sannarlega ekkert mál að gera góðan vegan grillmat. Það er hægt að finna fullt af góðum hamborgurum og pylsum eða öðrum vegan “kjöt” vörum í búðum í dag og er alls konar grænmeti einnig einstaklega gott á grillinu.

Í þetta skiptið ætla ég hins vegar að deila með ykkur, í samstarfi við Krónuna, ótrúlega góðum grillpinnum með alls konar grænmeti og tófú. Tófú er snilldar hráefni sem passar í alls konar rétti þar sem það er tiltölulega bragðlítið eitt og sér en ef það er marinerað dregur það í sér bragðið af marineringunni. Það passar því alveg ótrúelga vel á grillið þar sem grillmarinergingar er algjört lykilatriði oft í grillmat. Ég notaðist við gómsæta sítrónu og kryddjurta marinerignu en hún passar fullkomlega með grænmeti og tófu. Það má nota allt það grænmeti sem manni dettur í hug í þessari uppskrift.

IMG_9426.jpg

Það sem er svo þægilegt við þennan rétt er að auðvelt er að græja marineringuna í box, skera grænmetið og tófúið út í og taka þetta með sér hvort sem það er í útileguna, sumarbústað eða í grillveisluna. Þá þarf einfaldlega að þræða pinnana, skella þeim á grillið og maturinn er tilbúin. Það finnst mér alveg æði því þá þarf ekki að fara í einhverja sérstaka “eldamennsku” í útilegunni en mér finnst lang þægilegast að fara í útilegur með matinn nánast tilbúin og að þurfa ekki að undirbúa hann mikið á staðnum.

IMG_9419.jpg

Grillpinnana ber ég fram með því meðlæti sem ég á til hverju sinni. Grillaðar kartöflur finnst mér vera algjörlega ómissandi og köld piparsósa einnig. Í þetta skiptið var ég einnig með grillaðan aspas sem ég velti aðeins upp úr ólífuolíu og salti áður en ég setti hann á grillið. Grillaður maís passað einnig mjög vel með en ef ég grilla maís þá sýð ég hann fyrst í um 10 mínútur því þá verður hann extra safaríkur. Það geri ég einnig við kartöflurnar áður en ég grilla þær.

IMG_9432.jpg

Grillpinnar (sirka 10 spjót, fyrir 4)

  • Marinering

    • 3/4 dl góð ólífuolía

    • 3/4 dl sítrónusafi (safi úr sirka 2 sítrónum)

    • börkur af 1 sítrónu

    • 3-4 hvítlauksgeirar

    • 1 msk oreganó

    • 1 msk rótargrænmetiskrydd frá pottagöldrum (eða einhvers konar blandaðar jurtir)

    • 1-2 msk ferskt timían

    • 1 tsk papríkuduft

    • 1 tsk laukduft

    • 1/2 tsk chilli duft eða chilli flögur (má sleppa)

    • 1 msk sesamfræ

  • 1/2 rauð paprika

  • 1/2 gul eða appelsínugul papríka

  • 1 rauðlaukur

  • 1 pakki kastaníusveppir

  • 1 pakki tófú

Aðferð:

  1. Blandið öllum hráefnunum fyrir marineringuna í stóra skál eða stórt box.

  2. Skerið grænmeti og tófúið í mjög grófa bita, bitarnir eiga að vera frekar stórir svo þeir tolli vel á grillpinnunum.

  3. Setjið grænmetið og tófúið út í marineringuna og veltið því vel um þar til allir bitar eru vel þakknir af kryddolíunni.

  4. Leyfið þessu að liggja í marineringunni í að minnsta kosti 30 mínútur, en því meiri tíma sem þetta fær að hvíla því betra.

  5. Byrjið að huga að meðlætinu en ég var með grillaðar kartöflur, aspas, blandað ferskt salat og kalda sósu með. Uppskrift af sósunni er hér fyrir neðan.

  6. Takið um 10 grillpinna og leyfið þeim að liggja í vatni í 10 til 15 mínútur. Takið pinnana úr vatninu og þræðið grænmeti og tófú á þá í þeirri röð sem þið viljið.

  7. Grillið í nokkrar mínútur á hverri hlið eða þar til grænmetið og tófúið fær fallegar “bruna” rákir. Við mælum með að hafa grill álbakka undir svo maturinn brenni ekki of mikið að utan.

Köld piparsósa

  • 1 dl oatly sýrður rjómi eða hreint sykurlaust vegan jógúrt

  • 1 dl vegan Krónu majónes

  • 2 tsk grófmalaður svartur pipar

  • 1/2 tsk laukduft

  • 1/2 tsk salt

  • 1 tsk sítrónusafi

  • 1-2 msk vatn (eftir því hversu þunna þið viljið sósuna)

Aðferð:

  1. Hrærið öllu saman í skál.

-Njótið vel og endilega verið dugleg að tagga okkur og krónuna ef þið hendið í vegan grillveislu með uppskriftinni þar sem okkur finnst svo ótrúlega gaman að sjá myndir frá ykkur <3

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna.

 
KRONAN-merki.png
 

Vegan kartöflusalat og grillaðar "pylsur"

Ég, líkt og flestir sem ég þekki reyndar, elska fátt meira en íslenska sumarið. Það er eitthvað svo ótrúlega magnað við þessar björtu sumarnætur þegar minningarnar verða til einhverveginn að sjálfu sér. Þetta sumar hefur einkennst af mörgu ótrúlega skemmtilegu en eitt af því er grillmatur. Við erum búin að grilla mjög mikið, bæði í útilegum og hérna heima. En í þetta skiptið ætla ég að deila með ykkur uppáhalds útilegugrillmatnum mínum þetta sumarið.

Fyrr í vor kom á markaðinn sýrður rjómi frá Oatly og það fyrsta sem mér datt í hug að gera var vegan kartöflusalat, en það hafði ég aldrei gert áður. Ég hef reyndar aldrei verið mikið fyrir kartöflusalat, það var aldrei með grillmat heima hjá mér þegar ég var yngri. Hins vegar varð Ívar, kærastinn minn, vegan um áramótin og er þetta því hans fyrsta vegan sumar. Hann borðaði oft kartöflusalat og ég ákvað því strax að prófa að gera svoleiðis fyrir hann. 

Ég hafði mjög litla hugmynd um hvað væri í kartöflusalati en eftir að hafa lesið á nokkrar dollur í búðinni virtist þetta ekki vera svo flókið. Og það var rétt hjá mér, þetta var eiginlega bara lygilega einfalt en sló svo sannarlega í gegn hjá Ívari. Síðan þá höfum við haft heimagert kartöflusalat með okkur í allar útilegur og það hefur alltaf verið mjög vinsælt. Ég ætla því að deila með ykkur uppkriftinni ásamt því hvað ég set á útilegu grillpylsuna mína.

Hráefni:

  • 500 gr kartöflur

  • 2 dl vorlaukur (einnig hægt að nota blöndu af venjulegum lauk og graslauk)

  • 3/4 dl vegan majónes

  • 1 dl Oatly sýrður rjómi

  • 1 msk gróft sinnep

  • 2 tsk sítrónusafi

  • salt og pipar

Aðferð:

  1. Afhýðið kartöflurnar, skerið í litla bita og gufusjóðið í 20 mínútur. Það er líka alveg hægt að sjóða kartöflurnar venjulega og flysja og skera niður þegar þær hafa kólnað.

  2. Saxið vorlaukinn og blandið öllu nema kartöflunum saman í skál. Setjið kartöflurnar út í þegar þær hafa kólnað alveg.

  3. Berið fram með hverju sem er, en salatið passar auðvitað sérstaklega vel með öllum grilluðum mat.

Dórupylsa

  • Pylsubrauð

  • Veggyness pylsur

  • Tómatsósa

  • Steiktur laukur

  • Hrár laukur

  • Kálblöð

  • Kartöflusalat

  • Sinnep

Aðferð:

  1. Grillið pylsurnar og útbúið kartöflusalatið

  2. Raðið hráefnunum í pylsubrauð eftir eigin höfði og njótið

-Júlía Sif