Vegan kartöflusalat og grillaðar "pylsur"
/Ég, líkt og flestir sem ég þekki reyndar, elska fátt meira en íslenska sumarið. Það er eitthvað svo ótrúlega magnað við þessar björtu sumarnætur þegar minningarnar verða til einhverveginn að sjálfu sér. Þetta sumar hefur einkennst af mörgu ótrúlega skemmtilegu en eitt af því er grillmatur. Við erum búin að grilla mjög mikið, bæði í útilegum og hérna heima. En í þetta skiptið ætla ég að deila með ykkur uppáhalds útilegugrillmatnum mínum þetta sumarið.
Fyrr í vor kom á markaðinn sýrður rjómi frá Oatly og það fyrsta sem mér datt í hug að gera var vegan kartöflusalat, en það hafði ég aldrei gert áður. Ég hef reyndar aldrei verið mikið fyrir kartöflusalat, það var aldrei með grillmat heima hjá mér þegar ég var yngri. Hins vegar varð Ívar, kærastinn minn, vegan um áramótin og er þetta því hans fyrsta vegan sumar. Hann borðaði oft kartöflusalat og ég ákvað því strax að prófa að gera svoleiðis fyrir hann.
Ég hafði mjög litla hugmynd um hvað væri í kartöflusalati en eftir að hafa lesið á nokkrar dollur í búðinni virtist þetta ekki vera svo flókið. Og það var rétt hjá mér, þetta var eiginlega bara lygilega einfalt en sló svo sannarlega í gegn hjá Ívari. Síðan þá höfum við haft heimagert kartöflusalat með okkur í allar útilegur og það hefur alltaf verið mjög vinsælt. Ég ætla því að deila með ykkur uppkriftinni ásamt því hvað ég set á útilegu grillpylsuna mína.
Hráefni:
500 gr kartöflur
2 dl vorlaukur (einnig hægt að nota blöndu af venjulegum lauk og graslauk)
3/4 dl vegan majónes
1 dl Oatly sýrður rjómi
1 msk gróft sinnep
2 tsk sítrónusafi
salt og pipar
Aðferð:
Afhýðið kartöflurnar, skerið í litla bita og gufusjóðið í 20 mínútur. Það er líka alveg hægt að sjóða kartöflurnar venjulega og flysja og skera niður þegar þær hafa kólnað.
Saxið vorlaukinn og blandið öllu nema kartöflunum saman í skál. Setjið kartöflurnar út í þegar þær hafa kólnað alveg.
Berið fram með hverju sem er, en salatið passar auðvitað sérstaklega vel með öllum grilluðum mat.
Dórupylsa
Pylsubrauð
Veggyness pylsur
Tómatsósa
Steiktur laukur
Hrár laukur
Kálblöð
Kartöflusalat
Sinnep
Aðferð:
Grillið pylsurnar og útbúið kartöflusalatið
Raðið hráefnunum í pylsubrauð eftir eigin höfði og njótið
-Júlía Sif