10 vinsælustu uppskriftirnar okkar árið 2021!
/Gleðilegt nýtt ár kæru vinir!
Í dag langar okkur að taka saman okkar 10 vinsælustu uppskriftir árið 2021. Við erum orðlausar yfir því hversu mörg þið eruð sem lesið bloggið okkar í hverjum mánuði og hversu mikinn kærleika þið sýnið okkur allan ársins hring. Það gefur okkur svo gríðarlega mikið að heyra hvað ykkur finnst uppskriftirnar góðar. Öll skilaboð og athugasemdir sem við fáum frá ykkur hlýa virkilega um hjartarætur. Við gætum ekki verið heppnari með lesendur og fylgjendur. TAKK!
En á morgun birtum við fyrstu uppskrift ársins en í dag lítum við yfir liðið ár og sjáum hvað sló mest í gegn á blogginu! Við birtum þær ekki í neinni sérstakri röð heldur listum bara þær 10 vinsælustu!
Klassíska súkkulaðitertan okkar!
Þessi uppskrift er ein af okkar allra fyrstu hérna á blogginu og er á hverju ári á listanum yfir þær 10 vinsælustu. Við getum sagt að þessi kaka er sú allra mest bakaða á blogginu. Við skiljum vel af hverju. Hún er einföld, skotheld en á sama tíma gríðarlega bragðgóð og mjúk. Júlía tók sig til og myndaði kökuna aftur. Eins og ég sagði var þetta ein af okkar allra fyrstu uppskriftum og ljósmyndahæfileikar okkar hafa sem betur fer skánað töluvert síðan 2016 svo okkur fannst kominn tími til að fríska aðeins upp á færsluna. Uppskriftin er þó að sjálfsögðu ennþá sú sama, fyrir utan það að Júlía bætti inn í færsluna uppskrift af gómsætu súkkulaðiganache. Uppskrift af kökunni finniði HÉR!
Heitt rúllubrauð með aspas og sveppum!
Önnur uppskrift sem lendir alltaf á top 10 listanum á blogginu er heita aspas rúllubrauðið okkar. Þessi uppskrift er einnig ein af okkar fyrstu uppskriftum og ég man að ég var uppi í sumarbústað þegar ég ákvað skyndilega að prófa að skella í aspasbrauðrétt. Ég hafði ekki prófað að gera svoleiðis í mörg ár en hugsaði að það gæti ekki verið svo erfitt. Brauðrétturinn kom heldur betur vel út og smakkaðist alveg eins og mig hafði minnt. Ég brunaði á Selfoss með réttinn heim til ömmu og lét hana og Júlíu smakka og þeim fannst hann æðislega góður. Meira að segja ömmu sem er oft frekar skeptísk á vegan mat, allavega á þeim tíma. Daginn eftir gerði ég hann svo aftur og myndaði. Athugið að myndin hér að ofan er úr bókinni okkar. Uppskriftin á blogginu er gömul og myndirnar líka. Þetta er ein af þessum uppskriftum sem mig dauðlangar að mynda aftur. Júlía verður eiginlega að taka það að sér þar sem ég fæ ekki rúllubrauðið hérna í Svíþjóð. Uppskriftina af brauðréttinum finniði HÉR!
Döðlukaka með karamellusósu og ís!
Þessi kaka er í miklu uppáhaldi hjá mér og það kom mér eiginlega á óvart hversu vinsæl hún varð. Við höfðum aldrei verið beðnar um uppskrift af svona köku að ég held. Ég man eftir því að hafa séð marga baka svona fyrir einhverjum árum síðan en finnst ég aldrei vera vör við það lengur. Döðlukakan er virkilega gómsæt og mjúk og með karamellusósunni og vanilluís er þetta fullkominn eftirréttur. Ég mæli virkilega með því að prófa ef þið hafið aldrei gert það. Ég held ég verði að skella í hana bráðum. Ég gerði þessa færslu snemma árið 2019. Ég fæ mikla nostalgíu þegar ég sé þessa mynd því ég man að á þessum tíma 2018-2019 elskaði ég að prófa nýjar og spennandi uppskrift. Ég veganæsaði allar kökur sem mér datt í hug og var svo forvitin í eldhúsinu. Mér líður stundum eins og ég sakni þess tíma svolítið. Ég er enn forvitin og elska að gera uppskriftir en á þessum tíma lærði ég svo mikið af því sem ég kann núna í eldhúsinu og var svo gríðarlega stolt eftir hverja einustu færslu. En jæja nóg um það. Kakan er æði! Uppskriftina finniði HÉR!
Ofnbakað pasta með rauðu pestói!
Þessi fáránlega einfaldi og gómsæti pastaréttur sló í gegn á blogginu okkar á þessu ári. Eitt af því sem við systur höfum mikið rætt um að bæta okkur í er að pósta meira af hefðbundnum heimilislegum kvöldmat. Við elskum að veganæsa allskonar kökur og hátíðarrétti, eins og þið hafið líklega flest tekið eftir, en gleymum oft að birta “venjulegan mat”. Það sem við sjálfar eldum okkur í kvöldmat. Við tókum okkur svolítið á með það á síðastliðnu ári og það er svo sannarlega eitt af okkar markmiðum 2022 að gera ennþá meira af. Þessi pastaréttur er einmitt fullkominn kvöldmatur. Öllu hráefni er skellt í eldfast mót eða pott og eldað saman. Útkoman er dásamleg. Uppskriftina finniði HÉR!
Súkkulaðimöffins með súkkulaðibitum!
Möffins sem smakkast eins og á kaffihúsi. Hvað get ég sagt? Þetta eru þær allra bestu möffinskökur sem ég hef bakað. Það er kjánalegt að segja það en ég er virkilega stolt af þessari uppskrift. Ég man að það fór mikill tími og mikil orka í að búa uppskriftina til. Ég prófaði hana nokkrum sinnum og vildi alls ekki að þær væru þurrar. Eftir nokkrar tilraunir urðu þær alveg eins og ég vildi hafa þær. En það voru ekki bara kökurnar sem tóku nokkrar tilraunir heldur tók ég heilan dag í að mynda þær og myndirnar komu hræðilega út. Ég man að ég tók þær á brúnum bakgrunni og brúnu litirnir runnu saman í eitt. Daginn eftir tók ég mig saman og myndaði þær aftur og varð mun ánægðari með útkomuna. Uppskriftina finniði HÉR!
Mexíkósúpa!
Næst á dagskrá er ein önnur uppskrift sem lendir alltaf með þeim 10 vinsælustu á hverju ári. Mexíkósúpan sem Júlía birti árið 2017. Þessa súpu höfum við systur eldað svo oft og fáum aldrei leið á henni. Þetta er hin fullkomna súpa til að elda fyrir matarboð, afmæli eða aðrar samkomur þar sem sniðugt er að bera fram súpu. Hún er matarmikil, gómsæt og hægt að toppa hana með allskonar góðu. Við fengum fyrir einhverjum árum síðan skilaboð frá konu sem sagðist hafa eldað súpuna fyrir landbúnaðaráðherra Noregs og að hann hafi orðið yfir sig hrifinn. Það voru ein skemmtilegustu skilaboð sem við höfum fengið. Uppskriftina finniði HÉR!
Amerískar pönnukökur!
Við erum ekki hissar á því að amerískar pönnukökur séu á top 10 listanum yfir vinsælustu uppskriftirnar okkar. Við systur elskum að baka pönnukökur og gerum pönnsur óspart í morgunmat um helgar. Uppskriftina birtum við í byrjun 2017 og hana er einnig að finna í bókinni okkar. Psst. Það gæti mögulega verið ný pönnukökuuppskrift á leiðinni á bloggið ekki seinna en á morgun!! Myndin hér að ofan er úr bókinni okkar. Uppskriftina finniði HÉR!
Hamborgari með bjórsteiktum lauk og hamborgarasósu!
Djúsí og gómsætur hamborgari. Eitthvað sem allir elska. Við gerðum þessa uppskrift saman sumarið 2019. Ég var komin til Íslands til að dvelja þar yfir sumarið og við vorum að hefjast handa við að mynda uppskriftirnar fyrir bókina okkar. Við byrjuðum á því að mynda nokkrar uppskriftir fyrir bloggið og þessi gómsæti borgari var einn af þeim. Þetta var byrjun á dásamlegu sumri. Við mynduðum bókina og þroskuðumst mikið í okkar vinnu við það. Við byrjuðum líka að þróa uppskriftina af veganistuborgaranum sem er seldur á Hamborgarafabrikkunni. Mér hlýnar um hjartað við að sjá þessa færslu og við að sjá að ykkur líki hún svona vel. Uppskriftina finniði HÉR!
Frosin Amaretto ostakaka með ristuðum möndlum!
Árið 2021 var árið sem ég byrjaði að nota áfengi meira í matargerð og bakstur. Ég geri mér grein fyrir því að það er riskí að birta of mikið af svoleiðis uppskriftum því mörgum líkar það verr að gera uppskriftir sem innihalda áfengi og svo er flest áfengi mjög dýrt og fáir sem eiga lager af því og eru ekki spennt fyrir því að kaupa flösku af amaretto til að nota smávegis af því í eina ostakökuuppskrift. Á sama tíma hefur mér þótt gaman að fá að þroskast og læra meira um eldamennsku og ég er glöð þegar ég birti það sem mér þykir gott og skemmtilegt. Ég hef því leyft sjálfri mér að pósta uppskriftum sem innihalda líkjör, hvítvín og fleira í þeim dúr en passað að halda þeim uppskriftum undir takmörkum. Jafnvægið er best. Þessi kaka er sú sem ég kannski naut þess mest að gera á þessu ári. Að sjá hvernig bragðið og útlitið kom út akkúrat eins og ég hafði óskað mér gerði mig ótrúlega glaða og ég er mjög ánægð að sjá þegar þið útbúið hana! Uppskriftina finniði HÉR!
Tælensk núðlusúpa með rauðu karrý!
Síðasta uppskriftin á listanum er þessi gríðarlega fallega og gómsæta núðlusúpa með rauðu karrý og tófú sem Júlía birti á árinu. Súpan er annað dæmi um virkilega góðan kvöldmat. Júlía eyddi þremur mánuðum í Asíu fyrir nokkrum árum og varð mjög hugtekin af tælenskri matargerð. Þessi súpa er innblásin af öllum þeim gómsæta mat sem hún borðaði þar. Einstaklega falleg súpa sem er fullkomin fyrir vetrarmánuðina. Uppskriftina finniði HÉR!
Takk innilega fyrir að lesa og takk enn og aftur fyrir að þið eldið og bakið uppskriftirnar okkar, sendið okkur svo falleg skilaboð og sýnið okkur þennan gríðarlega stuðning. Við erum svo þakklátar fyrir ykkur öll að við erum að springa! <3
-Veganistur